2014, það sem situr kannski frekar eftir

Einhverra hluta vegna eru það ekki alltaf „stóru“ stundirnar eða viðburðirnir sem sitja eftir á hverju ári… heldur einhverjar allt aðrar.

Ef ég lít til dæmis til baka yfir 2014…

 • Við Iðunn fórum út að borða með Bryndísi í skíðaferðinni í Flachau síðasta daginn, þegar færðin bauð ekki lengur upp á skíðaferð. Stórskemmtileg og viðburðarík ferð með skemmtilegu fólki og stórveislu að hætti Bryndísar.. en einhvern veginn er það þessi rólega stund sem situr helst eftir.
 • Við Iðunn fórum svo á flakk um Belgíu og Holland í byrjun sumars… vorum mjög heppin með staði, veitingastaði, bari, bjóra, rauðvín og hótel. En það sem situr eftir er þegar við vorum búin að keyra til Maastricht úr fluginu, komum okkur fljótlega fyrir uppi á hóteli og drifum okkur í bjór og snarl úti í garði.
 • Jú, reyndar var heimsóknin á TakeOne bjórbarinn í Maastricht minnistæð, áhugasamir barþjónar með mikið úrval af bjór.
 • Og ekki má gleyma garðinum á ítalska veitingastaðnum og heimsóknin á einn sérstakasta bar sem við höfum dottið inn á.
 • Í London komumst við óvænt að því að veitingastaðir vilja síður gesti á sunnudagskvöldum.. Jón & Jóhanna voru í London og við ætluðum á hinn frábæra japanska Roka, sem var (auðvitað) lokaður.. Það hófst hálfgerð neyðarleit að opnum veitingastað í grenjandi rigningu. Loks fundum við opinn stað, grískur staður, Elysée.. ekki bara til að bjarga okkur, heldur var maturinn frábær.
 • Við stóðum að Punk 2014 hátíð með Kópavogsbæ í vor þar sem Glen Matlock úr Sex Pistols kom í heimsókn. Hljómleikarnir voru stór skemmtilegir, en kvöldið fyrir var eiginlega enn eftirminnilegra… við Iðunn fórum með Glen á frábæran veitingastað.
 • Þá fórum við Iðunn mjög skemmtilega flakk-ferð í haust, en kvöldið á Benalmadena þegar við röltum heim í íbúð frá smábátahöfninni, með Magnúsi & Sylvíu, er svona eitt það eftirminnilegasta.
 • Við stoppuðum svo í Southampton og kíktum vil Viktors, var reyndar hálf lasinn.. en fínt kvöld á ítölskum stað.
 • Einifellsferðir eru alltaf með bestu ferðum ársins, en sú stund sem helst situr eftir er sunnudagskvöld með Auði & Steina, eftir annars stórvel heppnaða helgi með matarklúbbnum GoutonsVoir. Við elduðum afganga og annað lauslegt úr ísskápnum og settumst út í kvöldsólina um tíuleytið, í fínum hita og nutum vel heppnaðrar eldamennsku.

Svo eru ekki allar minningarnar endilega jákvæðar…

 • Stórskemmtileg ferð í Laugarnes til Arnars & Unnar & Unnsteins endaði með ansi slæmum veikindum. Nokkurra klukkutíma bið, þar sem ég var einn veikur í sumarbústað (skammt frá „höfuðstöðvunum“) með bilað klósett og beið eftir að ná heilsu til að keyra heim.
 • Magnús tengdapabbi hefur verið veikur og á Þorláksmessu vorum við vakin snemma morguns og sagt að þetta liti alls ekki vel út. Fljótlega kom þó í ljós að þetta var (væntanlega) ekki tengt sjálfum veikindum og það reyndist að ná tökum á þessu og eftir nokkra stund leit hann miklu betur út.
 • Þá vorum við Iðunn stöðugt að detta og sækja marbletti á árinu. Eða réttara sagt, ég datt einu sinni og Iðunn í öll hin skiptin. Eitt skiptið datt hún mjög illa á andlitið, marðist illa.. og ég var ekki fyrir nokkurn mun að kveikja á því hversu illa hún hafði dottið… ekki góð tilfinning þegar ég loksins kveikti á perunni.

Gamlárskvöld

Við mættum að venju í Austurbrún á gamlárskvöld. Og ekki leiðinlegur bónus að Magnús var kominn heim og gat verið með okkur eftir nokkurra daga spítalavist.

Við Iðunn mættum með stóran humar í forrétt og freyðivín með – og skálum í freyðivíni með eftirrétti og fyrir nýju ári. Tókst svona að mestu frábærlega en örfáir full mikið eldaðir.

Aðalrétturinn var svo nautalund, alveg fullkomlega mátulega steikt – og rauðvín að sjálfsögðu með.

En við Iðunn slepptum því að fara upp á hól að þessu sinni og flugeldarnir því ekki eins tilkomumiklir og oft áður.

Sátum svo aðeins fram eftir og eyddum svo dágóðum tíma í fáheyrilega langa og rándýra leigubílaferð..

Gamlárskvöld í Austurbrún
Gamlárskvöld í Austurbrún

Áramót Iðunnar

í bridge var svo að venju haldið í Kaldaselinu kvöldið fyrir gamlársdag. Alltaf jafn skemmtileg mót enda fyrst og fremst hugsað um að narta í mat annars vegar og hafa gaman af léttu spili hins vegar.

Það varð reyndar smá rugl á mætingu, eitt par datt út fyrirvaralaust og ekki náðist að finna annað til að hlaupa í skarðið.

Svo spillti ekki að við Iðunn unnum mótið annað árið í röð og í sjöunda skipti frá upphafi. Þetta var reyndar í tuttugasta skipti sem mótið er haldið..

Áramót Iðunnar í bridge 2014
Áramót Iðunnar í bridge 2014

Jólamót Jonna í skák

Við héldum Jólamót Jonna í skák í tuttugasta skipti í kvöld. Fyrsta mótið var 1993 og síðan hefur þetta aðeins dottið út einu sinni, árið 2008.

En.. óvenju fámennt í þetta skipti, satt best að segja fámennasta mótið til þessa – aðeins fimm mættu til leiks. Við tókum upp á því að hafa fjórfalda umferð í þetta sinn.

Jonni vann – og það í ellefta sinn, Ómar náði öðru sæti, Hlynur því þriðja – og við bræður voru í fjórða og fimmta sæti.

Jólamót Jonna 2014
Jólamót Jonna 2014

Annar í jólum

Og eins og venjulega hittist Iðunnar-hluti fjölskyldunnar í Austurbrún á annan í jólum.

Undarlegt að hittast á jólunum í Austurbrún án þess að Magnús, tendgapabbi, væri með, en hann var á spítala eftir nokkuð erfið veikindi. En eitthvað lítur þetta betur út hjá honum, amk. í bili.

En svo var óvenju mikið af nýjum fjölskyldumeðlimum í þetta skipti.

Nudd á öðrum í jólum
Nudd á öðrum í jólum

Jóladagur

Jóladagur var að þessu sinni hjá minni fjölskyldu hjá Kidda & Gunnu í Fögrubrekkunni. Hangikjöt af öllum stærðum og gerðum, Einifells hangikjötið var best fyrir okkar smekki þó sauðurinn að norðan kæmi stekur inn.. Ein rúllan var aftur hálf-súr.. en að minnsta kosti fékk enginn í magann.

Hefðbundin fjölskyldumynd, „actionary“ og besserwisser spil eitthvað fram eftir kvöldi.

Jóladagur, fjölskyldumynd
Jóladagur, fjölskyldumynd

Aðfangadagur

Að venju frekar rólegur dagur, smá loka útréttingar, jólagrautur, til þess að gera lítið flakk og síðan eldamennska.

Kalkúnninn var frábær, ég er sannfærður um að það munar talsvert miklu að hafa ferskan frekar en frosinn, graflax í forrétt og panna cotta í eftirrétt…

Gjafaopnun tók til þess að gera stuttan tima – enda náðust ekki allar gjafir tímanlega í hús. En skila sér vonandi fljótlega.

Kalkúnn
Kalkúnn

Jólakveðja úr Kaldaseli

Það hafa reyndar verið helst til litlar breytingar á högum okkar, Valli er enn hjá Staka, Iðunn á BUGL og Andrés hjá Símanum. Guðjón flutti heim í sumar en Viktor flutti hins vegar til Southampton, þar sem hann stundar framhaldsnám í stjórnmálafræði.

Matarklúbburinn GoutonsVoir hefur oft verið duglegri að hittast en á móti koma auðvitað talsverð gæði í mat og drykk og skemmtun. Aðrir matarklúbbar og hefðbundin matreiðslukvöld hafa líka verið með minna móti. Á hinn bóginn hefur verið óvenju mikið að gera í „óreglulegum“ viðburðum, leikhúsferðum, fótboltaáhorfi, hljómleikum, afmælum, fjölskylduhittingum, matarboðum, skíðaferðum, vínsmökkunum, póker, „pool“ – að ógleymdum Áramóti Iðunnar í bridge og Jólamót Jonna í skák.

Fyrsta utanlandsferð ársins var skíðaferð til Flachau í Austurríki þar sem Bryndís hélt upp á fimmtugsafmælið. Iðunn lét sig hafa það að elta þaulvant skíðafólkið út um allar trissur á meðan Valli reyndi að læra að standa í lappirnar hjá skíðakennara.

Þá helgarferð til London, í þetta sinn voru tvær leikhúsferðir en enginn fótbolti.

Valli fór svo með hálfum fótboltahópnum til Manchester, Leeds og Liverpool að horfa á tvo leiki, meira að segja í fyrsta skipti að sjá Derby County spila.

Næsta ferð var pöntuð fyrir smá mistök en snarlega breytt í tíu daga bjórsmökkunarferð um Belgíu og Holland – Brussel, Hoegaarden, Maastricht, Brugge, Tilburg, Gouda, Westmalle og aftur Brussel.

Haustferðin var snúnari, Valli byrjaði í Amsterdam á árlegri sýningu, þaðan fórum við bæði til Benalmadena, vorum þar fyrst ein og síðan með Magnúsi og Sylvíu. Stutt stopp í London á heimleiðinni, hittum frændfólk Iðunnar og heimsóttum Viktor til Southampton.

Eitthvað var um ferðir innanlands, Sambindið fór í sumarhús í Kjós í janúar, við fórum í skíðaferð til Akureyrar, bara tvisvar á Einifell og svo í Laugarás til Arnars & Unnar í vetur.

Við Fræbbblar gáfum út eitt lag á árinu en höfðum annars frekar hægt um okkur. Kannski var stærsti viðburður ársins Punk 2014 hátíðin í Kópavogi þar sem Glen Matlock spilaði líka.

Skata

Hefðbundin skötuveisla á Þorláksmessu hjá Öggu.. þeas. skata, saltfiskur og plokkfiskur. Ég lét saltfiskinn duga, bæði Iðunn, Jonni og Viktor réðust á skötuna, aðrir af „yngri kynslóðinni“ sem er svo sem ekki lengur svo ung, þáðu plokkfisk.

Einstaklega vel heppnað kvöld og þessar skötuveislur eru að verða jafn mikið tilhlökkunarefni en sjálf jólin.

Slepptum að þessu sinni að fara á flakk, enda kalt, mikið að gera og dagurinn óvenju langur eftir „ræsingu“ eldsnemma.

Ojba Rasta á Gauknum

Kíkti á Gaukinn á Ojba Rasta.. verð að játa að það var nokkuð erfitt að koma sér af stað eftir að hafa dottað í stólnum í stofunni. En ferðin var heldur betur þess virði.

Það er ekkert leyndarmál að mér finnst Obja Rasta einhver skemmtilegasta hljómsveit landsins.. en eins og gengur eru hljómleikarnir þeirra mismunandi. En ég er ekki frá því að þetta hafi verið einhverjir bestu hljómleikar sem ég hef séð hjá þeim.. veit kannski ekki hvers vegna, en stemmingin í hljómsveitinni einhvern veginn frábær.

Ekki verra að hitta Arnar, Alla, Brynju, Óskar, Jón Stefáns… og nokkra fleiri.

Hitti svo nokkra Breiðablikskaratesvartbeltinga rétt þegar ég var á leið í leigubíl heim á leið.. hefði verið gaman að kíkja með þeim á næsta bar (Dubliner) en mikið að gera á morgun – og sennilega verið minna gaman að hafa haldið áfram… svona fer nú skynsemin með mann (stöku sinnum) á þessum aldri.