Arsenal bikarmeistari

Við Iðunn fórum með Guðjóni og Viktori að horfa á Arsenal og Chelsea leika til úrslita um enska bikarinn á American Bar, með nokkrum félögum Guðjóns. Fínn leikur og Arsenal talsvert miklu betri. Frábær stemming og vel fagnað hjá okkur enda allir að mér undanskildum harðir stuðningsmenn Arsenal, og ég vel volgur.

En fyrri áætlanir fyrir kvöldið höfðu farið fyrir lítið, þannig að við fórum á Forréttabarinn, fengum fínustu rétti og létum okkur nægja að setjast að heima.. tvö, með fína tónlist, góða bjóra og stórskemmtilegt fólk.

Iðunn vildi reyndar mæta í útskriftarveislu sem við höfðum þurft að afboða (áður en dagskráin breyttist) en einhvern veginn fannst mér ekki hægt að mæta [þó ég vissi fullvel að okkur hefði verið vel tekið].

matarklúbbur hjá Bryndísi

Matarklúbburinn okkar Iðunnar, Bryndísar, Gulla og Kristínar, hittist hjá Bryndísi.. okkur vantar eiginlega betra nafn.

En við mættum með pylsur úr Kjötpól til að narta í fyrir forrétt, aspas og parmaskinku í forrétt, Bryndís bauð upp á tælenskan kjúkling og Gulli & Kristín buðu upp á „bombu“ í eftirrétt.

En aðallega er alltaf jafn gaman að hittast, verst hvað tíminn flýgur í góðum hóp..

Matur - maí - 3c

Síðasta spilakvöld vetrarins

Hittumst í bjór og póker á síðasta kvöldi vetrarins hér í Kaldaselinu.

Svei mér þá ef þetta var nú ekki skemmtilegasta pókerkvöldið – og hafa þau mörg verið fín. Reyndar lenti ég oftar en ekki á öfugum enda á skemmtuninni / dramatíkinni.

En Iðunn var með smá forustu fyrir kvöldið, spilaði vel og vann öruggan sigur. Alli F. tók þennan svakalega lokasprett og hirti annað sætið af mér.

Addi tók svo óheppni fyrir 2-3 vetra út, spilaði vel og gerði allt rétt, en allt datt á móti honum.

Og bjórarnir, þessi kvöld eru eiginlega ekki síður bjórsmökkun en spil, margir mjög skemmtilegir dregnir fram.

Póker - maí - 5-1

Skák maraþon

Kíkti og tók skák við Hrafn Jökulsson í skákmaraþoni, skák númer 200.. tapaði skelfilega illa, enda tefldi ég eins og bjáni… það er reyndar alltaf gaman að taka opnar sóknarskákir, en það þarf að vera einhver skynsemi til að þær virki!

En frábært framtak hjá Hrafni og Hróksmönnum og alltaf til í að taka þátt.. kannski ég hafi hausinn aðeins betur í sambandi eftir ár.

Skákmaraþon - 2-1

Vorhátíð Deloitte

Sleppti (slapp við) ratleik til undirbúnings einhvers konar vorhátíð hjá Deloitte.

Jón bauð heim og eldaði þessa verulega góðu nautalund… kartöflur, nautalund, sósa og ekkert meira. Jú, frábært rauðvín. Sem var akkúrat það sem þurfti eftir nokkra undarlega bjórsmökkun. Svo var Jón ansi öflugur á „trampolíninu“..

Þaðan í stærra samkvæmi hjá Deloitte, en skal alveg játa að ég var hálf týndur. Fór svona til-þess-að-gera snemma heim og sleppti Lebowski bar.

Brúðkaupsafmæli

Þrjátíu og fjögurra ára brúðkaupsafmæli!

En það vantar alveg nafn á tímamótin eins og svo mörg önnur – það er pappír fyrir eins árs, viður eftir fimm ár, silfur eftir 25 ár, gull eftir 50 ár og demantar þegar árin eru orðin 60.

En það vantar fleiri nöfn, það er fullt af ártölum sem eiga einfaldlega ekkert nafn.

Í fyrra gáfum við þrjátíu og þriggja ára brúðkaupsafmælinu nafnið „vinyl“ – nokkuð sem ég er viss um að festist.

En okkur dettur ekkert í hug á því þrjátíu og fjögurra. Á móti kemur að rómverska útgáfan er XXXIV, (kossar) (Iðunn) (Valli)!

Andrés og Guðjón vöktu okkur með þessum rosalega morgunverði þar sem öllu var til tjaldað.

Brúðkaupsafmæli

En við héldum til úti á palli í sólinni yfir daginn, svo á Vox að borða, þar sem við fengum fínasta mat. Iðunn náði reyndar ekki að klára hrossalundina, enda þó góð væri, ekki alveg í Gumma og/eða Einifells klassa.

Þaðan á Sky Lounge, sem er bar með frábært útsýni, en í rauninni hálf sorglegt að ekki skuli gert meira fyrir staðinn.. hitalampar, skyggni, meira úrval af bjór og þetta gæti verið einhver skemmtilegasti barinn í bænum.

SkyLounge-2-1

Svo á Mikkeller, sem er alltaf með skemmtilega bjóra, en allt, allt of dýra og þeir mættu alveg bjóða upp á einn „venjulegan“ bjór.

Ölstofan næst, Kristín kom þangað og við sátum úti í reykherbergi í góða stund, fengum okkur Ópal skot, eftir að Anna-Lind hafði bent okkur á (fyrr um daginn á Facebook) að 34 ára brúðkaupsafmæli kallast Opal.

Síðasta stoppið var svo stutt á Dillon, eitt Whisky glas og Andrea setti tvö Ramones lög í spilarann.

Unnur á Mengi

Karate á fimmtudegi.. jafnvel enn stirðari en venjulega (fyrir utan kannski í fyrradag!).

En Unnur Malín var með hljómleika á Mengi, einhvers konar listamannastofa á Óðinsgötu. Ég kíkti eftir karate en Iðunn var með skyldumætingu í badminton.

En virkilega gaman að sjá (og heyra) Unni, skemmtilega fjölbreytt efni.. mismikið fyrir minn smekk eins og gengur – en margt mjög gott, eins og ég vissi svo sem fyrir.

Unnur - Hilmar - 4

Og svo var auðvitað fullt af fólki sem var gaman að hitta…