HM og grill

Fyrirhugaður fótboltahópsdagur rann út í sandinn, en Alli, Arnar & Unnur & Unnsteinn Magni, Brynja & Agla, Kristín og Ægir Máni kíktu í fótbolta áhorf og grill. Dagurinn byrjaði snemma og eitthvað var ég orðinn uppgefinn þegar leið á nóttina. En frábær matur og ágætis leikir.

Jarðarför Fúsa

Sigfús Sveinson, Fúsi, bróðir Gunnu mágkonu, lést um miðjan mánuðinn. Hann hafði átt við erfið veikindi að stríða um nokkurn tíma.

En Fúsi er óneitanlega með skemmtilegri og mest „lifandi“ einstaklingum sem ég hef kynnst. Ég þekkti hann svo sem ekki mikið, en það kjaftaði alltaf á honum hver tuska (eða þannig) og hann var uppfullur af hugmyndum – lét reyndar ekki þar við sitja heldur dreif í að koma mörgum þeirra í verk.

Fúsi er gott dæmi um einstakling sem lifir vel í minningunni.

Einifellshelgi Goutons Voir

Ein skemmtilegustu kvöld ársins eru matar- og drykkjarhittingar Goutons Voir matarklúbbsins.

Þá eru einhverja skemmtilegustu helgarnar á hverju ári þegar við heimsækjum Auði og Steina á Einifelli.

Þannig að þegar þetta tvennt fellur saman og Goutons Voir hittist á langri helgi á Einifelli þá má láta sig hlakka til lengi…

Við Iðunn lögðum af stað eftir hádegi á föstudag eftir að Iðunn hafði gert grunninn að alvöru spaghetti sósu að eigin hætti – sem var etin um kvöldið.

Laugardagurinn fór í Petanque mót, allir spiluðu við alla og í fyrsta skipti tókst mér að vinna Einifells meistaramótið. Annars var gert hlé á spilamennsku til að snæða humar með skemmtilegri sósu og óvenjulegu meðlæti.

Um kvöldið grilluðum við hrossalund, sem var jafn fáránlega vel heppnuð og oftast áður á Einifell – og fengum Crème brûlée í eftirrétt.

Afgangar í hádegi og andabringur um kvöldið toppuðu svo átið þessa helgina.

Hins vegar verð ég að játa að ég er ekki með bókhaldið á rauðvíns- hvitvíns og bjórdrykkjunni á hreinu, eða Whisky, gin, skot…

En við Iðunn lengdum helgina aðeins með því að gista sunnudagsnóttina og rífa okkur upp í vinnu klukkan sjö.

Einifell - júní 2014 - Petanque 8 - lítil

Einifell - júní 2014 - kvöldmatur - lítil

Hellvar, Strigaskór nr. 42 og Sushi Submarine

Fræbbblaæfing, aðallega nýtt efni… ný plata í vinnslu.

Kíkti svo á Bar 11 – sem er nokkuð skemmtilegur hljómleikakjallari – Hellvar, Strigaskór nr. 42 og Sushi Submarine. Hellvar flott og klárlega ein besta hljómsveit landsins, Strigaskórnir talsvert betri en síðast þegar ég sá þá (sem er reyndar nokkuð langt og kannski minnið bara svona dapurt).. vel gert en ekki alveg mín deild, veit ekki hvort ég má kalla þetta Rokkabillí-metal (enda svona frasar tilgangslausir og hallærislegir). En ég náði bara einu og hálfu lagi með Sushi Submarine, ekki alveg nóg til að heilla mig þó þetta hljómaði svo sem ágætlega.