Páskamatur

Vorum með alvöru nautalund í páskamatinn, búin að fá okkar skammt af lambi.. En stór lund og Brynja & Óskar kíktu í mat. Kannski aðeins of kalt til að grilla en heppnaðist vel og kartöflurnar sluppu þó lélegar væru og salat og „dressing“ frábær.

Sátum svo að rauðvínssumbli fram eftir kvöldi, enda aldrei leiðinlegt þegar þau mæta..

Útskrift, afmæli og langur Sambindisdagur

Nóg á að gera á þessum langa föstudegi.. við byrjuðum í alvöru „brunch“ hjá Þóru Kötu og Nonna í Fögrubrekkunni, bæði í tilefni af útskriftinni hennar og svo átti Lilja Karen afmæli einhvern tímann fyrr á árinu.

Seinni partinn mættum við svo í göngu og grill með Sambindinu í Skildinganesi.. en við Iðunn slepptum svo sem göngunni og sáum um matarundirbúning með Sirrý.

En mjög vel heppnað kvöld, frábær matur, eðal vín og skemmtilegt fólk.

Höfðum meira að segja vit á að vera ekki fram eftir öllu…Sambindi - mars - 3

Spil í Kaldaseli

Héldum okkur við spilakvöld í Kaldaselinu þrátt fyrir að heilsan hafi stundum verið betri.. gekk svona upp og ofan, en sem betur fer dreifðust stigin og sit enn á toppnum, en varla lengi úr þessu..

En þetta eru alltaf skemmtileg kvöld, spilum þrjú pókermót á kvöldi, hver um sig leggur 1.000 undir á hvert mót, þannig að við erum ekki að spila upp á stórar upphæðir.. fyrir utan það að vinningarnir dreifast og þetta jafnast nokkuð út.

Við söfnum svo saman stigum fyrir hvert mót og finnum sigurvegara vetrarins.. við Iðunn höfum unnið sitt hvort árið og Maggi einu sinni.Póker - mars - 3.jpg

Flensa

Ég verð ekki oft veikur, gleymdi flensusprautu fyrir nokkrum árum og fékk þá væna flensu.. annars hef ég verið tiltölulega heppinn. Ég mundi eftir sprautunni í haust en það eru víst nokkuð mörg afbrigði í gangi, amk. þrjú, og ekki sprautað fyrir öllum.

En, mætti í vinnu á mánudeg.. eitthvað hálf slappur upp úr hádegi og fór heim. Og var eiginlega steinrotaður fram á föstudag. Það var rétt svo að ég kæmist fram á klósett, þolraun að fara niður og upp aftur.. Samt ekki miklir verkir eða hálsbólga eða kvef, og jafnvel ekki svo hár hiti (held ég, jú, fyrstu tvo dagana).. bara óhemju orkulaus og máttlaus. Og á köflum nánast eins og með óráði.

Aðfaranótt hafði ég legið svo lengi að mig var farið að verkja, ekki kannski „legusár“, en svona „leguóþægindi“, reyndi að sofna í stólnum, en gekk ekki. Var svo eitthvað hressari um morguninn, ákvað að fara á fætur og setjast við tölvuna. Einhvern veginn var heilsan að mestu komin, frekar aumur, en í sjálfu sér í lagi. Ætlaði svo að fara og leggja mig í hádeginu, en var í rauninni engin ástæða til.

Iðunn fór í afmæli og við Addi horfðum á frábæra mynd, Glænýja testamentið.

London, sunnudagur

Við höfðum eitthvað verið að velta fyrir okkur að fylgja Viktori til Southampton og fara svo beint í flug, en reyndist full langt ferðalag og full lítill tími til að stoppa í Southampton.

Tókum morgunmatinn seint og fórum niður „í bæ“. Röltum um Soho, Chinatown, Neal’s Yard, Regent Street… drukkum kaffi, fórum í nudd, drukkum bjór, keyptum Whisky, drukkum bjór og borðuðum á spænska Dehesa. Frábærir smáréttir og viðeigandi endir á frábærri ferð.

London - mars - Chinatown

Vorum svo samferða á Victoria þaðan sem Viktor fór til Southampton og við tókum lestina til Gatwick.. og flug heim með IcelandAir.

London, laugardagur

Við Iðunn fórum frekar snemma á flakk niður að Strand og Covent Garden.. stoppuðum aðeins í kaffi og búðum og röltum um þar til Freemasons Arms opnaði á hádegi. Viktor hitti okkur þar og við horfðum á dramatískan leik Tottenham og Arsenal, með öllum sveiflum… bæði með Arsenal og Tottenham aðdáendum, verst að Tottenham fjölskyldan sem sat með okkur við borð var farin þegar Arsenal jafnaði!

London - mars - Freemasons Arms

En svo á Belgo, sem er alltaf skemmtilegur veitingastaður, en þau eru hætt með smakk-brettin. Þar á eftr rölt um Covent Garden, kaffi, vindlar, drasl, kökur, belti – og við Viktor keyptu sitt hvorn hattinn.

Smá pása fyrir kvöldmatinn en hann var við King Street í Hammersmith, ítalskur L’Amorosa, sem fær frábærar umsagnir á Hardens.

Og stóð undir frábærum umsögnum.. ekta ítalskur staður. Við fengum okkur öll truffluskotið Carpaccio og svo var Iðunn með trufflupasta („maltagliati“), ég fékk mér Saffran Ossobuco en man ekki hvað Viktor fékk sér.. ekki pizzu samt í þetta skiptið.

Vorum svo að velta fyrir okkur kvöldinu.. svo sem búin að standa okkur vel í skemmtanalífinu, nenntum ekki á Casino, nenntum ekki niður í miðbæ að leita að bar og fundum engan bar nálægt hótelunum (við Paddington).

Við fórum reyndar á The Swan, sem Viktor þekkti reyndar sem fyrsta barinn sem við duttum inn á fyrir níu árum, þegar hann fór með okkur til London í nokkra daga!

En barinn lokið á miðnætti og það var einfaldlega allt lokað, nema einhver kokteilabar nokkuð frá okkur. Þannig að við ákváðum að segja þetta gott.. en mikið rosalega er undarlegt að í svona stórum bæjarhluta skuli ekki vera einn einasti bar opinn eftir miðnætti á laugardegi. En, jæja, kannski fínt að skynsemin fái einu sinni að vera með.

London, Stiff Little Fingers

Við vissum ekki alveg hverju við ættum að búast við frá Stiff Little Fingers.. við sáum þá 2008 í London og það eru enn einhverjir bestu hljómleikar sem við höfum séð, þó þeir hafi sleppt Gotta Getaway. Viktor hafði eftir enskri vinkonu sinni að pabbi hennar hafi nýlega orðið fyrir miklum vonbrigðum [kom síðar í ljós að stúlkan átti við The Stranglers] og kannski vorum við bara að eyðileggja góða minningu.

En stemmingin var fín, við héldum okkur aðeins til hliðar í stað þess að vera í miðri mannþrönginni og í stuttu máli sagt, frábærir hljómleikar. Þeir eiga auðvitað fáránlega mikið af flottum lögum og spilamennskan frábær, þétt keyrsla, lögin alveg 100%.. en það er ekkert hægt að lýsa svona.

Gotta Getaway var svo fyrsta uppklappslagið þannig að nú erum við búin að sjá það.

London - mars - SLF - 1

Eitt fór reyndar í taugarnar á mér. Þegar þeir kynntu Gotta Getaway töluðu þeir um að þeir væru alltaf að fá send YouTube upptökur þar sem hinar og þessar hjómsveitir væru að spila lagið. Og eina ástæðan til að þeir væru að taka lagið væri „to show you how it’s done“.

London, föstudagur

Við Iðunn kíktum í örstutta helgarferð til London, tilefnið að hitta Lindsay frá RT Software, sem tókst ágætlega, en svo var ekki hægt að fara til London án þess að Iðunn kæmi með og Viktor kæmi frá Southampton.

London - mars - 3 - fokus

Við hittum Viktor nálægt Paddington og það tók smá tíma að koma okkur fyrir og drífa okkur á bjórhátíðina í Camden Center (sem er ekki í Camden).. vorum ekki mætt þangað fyrr en undir fimm seinni partinn.

Lindsay, sem þekkti ágætlega til ensku bjóranna og fór með okkur. Það var sér London veggur, nóg af bjórum frá hinum og þessum stöðum frá Bretlandi og svo sér salur með alþjóðlega bjóra. Darkside of the Moose var fínn og í sjálfu sér margir spennandi og ekki spennandi bjórar – eins og gengur.

London - mar - bjórhátíð - 4

En okkur var ekki til setunnar boðið, hljómleikar Stiff Little Fingers voru næstir á dagskrá.

Hljómleikarnir voru í Kentish Town og við vorum samferða Lindsay þangað, 1-2 bjórar áður en hann hélt heim. Við fundum ítalskan veitingastað, Delicious By Franco, þar sem Viktor fékk sér pizzu – sem jafnvel Iðunn kunni að meta – og hann var mjög sáttur við, ég fékk mér einhvern pylsurétt sem var sérstakur og vel þess virði að smakka, en Iðunn „vann“ með trufflusvepparavioli, alveg frábært.

Ég tók eftir að fólkið á næsta borði var með öryggiskort, ShowSec, og fór að spyrjast fyrir… og jú, það passaði, þau unnu við öryggisgæslu á hljómleikunum. Við fórum svo að spjalla, eitthvað kom Boston við sögu og þau vildu skipuleggja eitthvað með okkur þar, en ég hef ekki grun um hvað… Þau voru sem sagt frá Bandaríkjunum og Viktor fór að spjalla við þau um pólitík, einn sagðist styðja Trump og tók sérstaklega undir múslimahatrið frá honum – Viktor brást eðlilega mjög illa við. Og einhvern veginn finnst mér ekki líklegt að okkur langi til að hitta þetta fólk aftur – amk. ekki þennan gaur.

Kanadaheimsókn

Frændfólk okkar frá Kanada, Gloria, Carol, Cindy og Curtis voru í stuttu stoppi á landinu eftir brúðkaup í Skotlandi. Þau kíktu til okkar systkina (og maka) til Öggu & Magga í Þverholtið í graflax, lambalæri, skyrtertu, konfekt, ís og jafnvel hrefnu. Þau voru reyndar meira og minna lasin og Carol treysti sér ekki til að mæta.

En gaman að hitta þau og þurfum að ná Curtis (amk.) við betra tækifæri og gefa honum færi á að kanna íslenska bjórinn.

Kanadaheimsókn - 1