2007

23.-31. desember 2007

Hefðbundin en samt óvenju afslöppuð jól. Skata hjá Öggu á Þorláksmessu, mamma hjá okkur í mat á aðfangadag, fjölskyldan mín kom á jóladag, svo með Iðunnarfjölskyldu á annan. Árlegt Jólamót Jonnaí skák og Áramót Iðunnarí Bridge. Matur hjá Sylvíu og Magnúsi á gamlárskvöld, Hafsteinn, Jóna, Bjarni og Hafdís með, gamaldags partý hjá okkur eftir miðnætti.

16-18. nóvember 2007

Fórum til Manchester að sjá Sex Pistols, ég, Iðunn og Brynja, flugum til London og til Manchester með lest. Hittum þar Helga, Þóru, Sigga og Írisi. Ógleymanleg ferð, alltaf gaman í London, þó stoppið hafi verið allt of stutt í þetta sinn, Manchester kom skemmtilega á óvart. En aðalatriðið auðvitað hljómleikarnir, hálf döpur gestahljómsveit í hálftíma, hörmungar teknó hávaði í einn og hálfan tíma, og um það bil að gefast upp. En Sex Pistols stóðu heldur betur fyrir sínu, frábærir hljómleikar. Eini gallinn var að þetta var frekar stór salur, 22.000 manns, og við föst í sætum fjarri sviði, og ekki hleypt niður á gólf. Að öðru leyti frekar heppin með matsölu og skemmtistaði. Nokkrar myndir hér.

5. nóvember 2007

Mamma níræð – og eldhress – kaffiboð fyrir fjölskylduna í Fögrubrekku.

3. nóvember 2007

Við systkinin fórum til Dalvíkur til að vera viðstödd jarðarför Hillu, systir pabba, sem lést í vikunni. Þó tilefnið hefði mátt vera skemmtilegra var samt gaman að hitta ættingjana aftur. Heimir fór með okkur í útsýnisferð um Dalvík.

26.-28. október 2007

Árleg sumarbústaðaferð Sambindisins, á Laugarvatni í þetta sinn, fín helgi eins og alltaf en, að venju aðeins of mikið af heilsusamlegum atburðum og vondri tónlist og aðeins of lítið a vitleysu – svona fyrir minn smekk.

11.-15. október 2007

Til Madrid í langa helgarferð, Iðunn og vinnufélagar og hinir helmingarnir. Og… nokkuð margir sem við þekktum á sama róli. Skemmtilegur hópur og Madrid spennandi, þurfum að komast þangað fljótlega aftur, og hafa meiri tíma. Duttum inn á mjög góðan ítalskan stað á Gran Via, DiBocca, en Studio31 stóð ekki alveg undir væntingum eða verði. Tvær vínkynningar, tapas, argentínsk steik – fyrir utan alla barina og litlu veitingastaðina. Nokkrar myndir hér.

29. september 2007

Nokkurs konar ættarmót heima, Sævar, Mundi, Egill og fjölskyldur. Einstaklega vel heppnað kvöld…

6.-11. september 2007

Á IBC sýningu og ráðstefnu í Amsterdam. Talsvert af fólki frá Rúv, Stöð2, Sýn, Skjánum, Latabæ, Símanum, Vodafone, Nýherja og fleirum. „IPTV“ tískufrasinn og mikið að gerast, en mér sýnist hugtakið ansi losaralega notað – „MobileTV“ líka áberandi. En, nokkrar breytingar í sjónvarpsgrafíkinni, samkeppnin meiri, fleiri betri kerfi og verðin viðráðanleg.

Og, alltaf gaman í Amsterdam, afslappað andrúmsloft, en hefði alveg þegið aðeins meiri tíma á bjórbörunum sem við Jón Eyfjörð duttum inn á, að Whisky barnum ógleymdum, komumst full stutt með þessar 900 tegundir af Single Malt sem þeir bjóða upp á…

24-26. ágúst 2007

Matarklúbbur, GoutOnVa, á Einifelli hjá Auði og Steina. Og heimsmeistaramót í Einifells-Petang. Tilraunakennt fiskibrauð merkilega gott á föstudagskvöldið og stórkostleg fiskisúpa frá Steina, skolað niður með „tári Krists“ hvítvíni og Balbas rauðvíni amk. Fimmtán tegundir af Foie Gras í forrétt og grillað lambalæri með grilluðuð grænmeti á laugardagskvöldið, með truflaðri sósu, Amarone sennilega besta rauðvínið. Steini vann Petang titilinn og Auður og Steini parakeppnina. Nokkrar myndir
hér.

18. ágúst 2007

Menningarnótt – Fræbbblarnir spiluðu að venju með MegaSukk og Palindrome á bak við „Við Tjörnina“. Fín stemming að venju, en eitthvað fámennara en áður, enda búið að teygja svæðið og stilla upp hljómleikum á Miklatúni. Í sjálfu sér fínt að halda „stórhljómleika“ ef menn vilja – bara ekki blanda því saman við menningarnótt. Andrúmsloftið á fyrstu árum menningarnætur var einfaldlega miklu skemmtilegra, flestar búðir, söfn, salir og veitingastaðir opnir, hægt að rölta á milli og detta smástund inn á eitthvað nýtt og spennandi – eða ekki – en að minnsta kosti fullt af möguleikum. Þessi sauðamenning, það er að segja að smala öllum á stórhljómleika er fráleit og á eftir að drepa menningarnóttina. Samt, mjög fín stemming að deginum og skemmtilegir hljómleikar á „Við Tjörnina“ um kvöldið, eins og alltaf. Viktor tók nokkrar myndir.

10-12. ágúst 2007

Fórum á Fiskidaginn mikla á Dalvík, hittum ættina og afhentum Dalvíkurbæ málverk af Dalvík eins og hún leit sennilega út 1920 sem pabbi málaði 1979. Fórum öll systkinin með öll börnin, nema Þóra Kata, gistum á Akureyri og keyrðum nokkrum sinnum fram og til baka til Dalvíkur. Næst, og það verður örugglega „næst“, reynum við að fá gistingu á Dalvík. Myndavélin var stöðugt að bila en náðum einhverjum myndum.

Byrjuðum á föstudagskvöldinu að heimsækja ættingjana og smakka súpu, mættum svo upp úr hádegi á Fiskidaginn, þurfum að mæta fyrr næst til að ná fleiri „smökkunum“, náðum „Friðik V“., ætluðum til hans í mat á sunnudeginum, en opnaði ekki fyrr en 18:00.

Á laugardeginum var svo ættarmót sem Hilla og Heimir áttu veg og vanda af að skipuleggja. Komum aftur fullseint um kvöldið og orðið frekar fámennt í bænum.

4. ágúst 2007

Gamaldags partý í Kaldaseli, að hluta til afsökun fyrir að halda skemmtilegt partý og að hluta til söfnun fyrir Mauro. Mauro er ítalskur vinur Brynju og Kristínar, býr í Florens og gæti lent á götunni fljótlega. Hann hefur átt í erfiðleikum eftir mótorhjólaslys, en alltaf verið þeim – og okkur – innan handar með gistingu, nokkrar myndir.

18. júlí 2007

Þetta er öruggt ellimerki, Kiddi bróðir minn sextugur í dag, og þá eru bæði systkinin komin á sjötugsaldurinn.

29. júní – 21. júlí 2007

Við fórum í sumarfrí í lok júní – eyddum nokkrum dögum í London. Viktor, sem aldrei hafði farið annað en til Spánarstranda, hitti frændurna Anthony og Richard, tók „túristahring“ á London – og við fórum með, ellefta ferðin til London og alltaf látið þetta eiga sig. Sáum Spamalot, byggt á Monty Python þáttum og myndum, Gay Pride var á laugardegi, Comdey Club á föstudegi og Englendingar hættu að reykja á pöbbum á sunnudeginum. Auðvitað rigndi, jafnvel meira en venjulega í London, og einhver órói var eftir hryðjuverkatilraunir, ma. þurftum við að rýma svæði við Shakespeare leikhúsið við Thames á sunnudeginum. Ekki spillti að við vorum einstaklega heppin með veitingastaði, Giardinetto í Mayfair sennilega toppurinn. Og tókum rúnt í London Eye, myndirnar eru hér, en myndir frá London eru að öðru leyti hér.

Fórum svo til Spánar á miðvikudag, í letilíf á Benalmadena á Costa Del Sol. Markaður, Tívolí, Vatnaland, upp í fjöllin í kláf, Sea Life, Minigolf, ströndin og pool. Þurftum aðeins að hafa fyrir að finna betri veitingastaði, staðurinn orðinn aðeins breskari en hann var, á samt enn langt í land með að vera eins og Benidorm. Myndir úr kláfnum eru hér, en myndir frá Benalmadena að öðru leyti hér.

Viktor fór heim eftir rúma viku og nokkrum dögum seinna komu tengdaforeldrarnir, hefði reyndar verið gaman að ná fleiri dögum með þeim.

En toppurinn var að detta inn á hljómleika með Elvis Costello á ströndinni rétt hinum megin við Malaga. Aldrei séð hann áður á svið þrátt fyrir að hafa fylgst með honum í rétt tæp 30 ár. Frábærir hljómleikar, ekki spillti að hann tók mörg af okkar uppáhaldslögum, Watching The Detectives, High Fidelity, I Can’t Stand Up For Falling Down og I Don’t Want To Go To Chelsea – svo ég nefni nú einhver.

Á heimleiðinni stoppuðum við í sólarhring ekki langt frá Gatwick, fórum til Crawley, sem má örugglega heimsækja aftur, sérstaklega ítalska veitingahúsið ASK.

22-24. júní 2007

Heimsóttum Auði og Steina og Egill og Elínu að Einifelli, frábær ferð, heimsklassa matur og vínin í stíl. En Steini vann Petang mótið. Myndir hér.

10. júní 2007

Minningarathöfn um Tómas Sæmundsson, forfaðir Iðunnar, á Breiðabólsstað og veisla með tilheyrandi í Njálsbúð á eftir.

9. júní 2007

Fertugsafmæli hjá Guðmundi Einars, glæsileg veisla og skemmtileg og gaman að sjá Miklholtshelli. Gistum á Hótel Heklu um nóttina í góðu yfirlæti hjá Sigrúnu.

30. maí 2007

Anza og Síminn sameinast þannig að ég verð aftur starfsmaður Símans eftir nokkrar vikur.

24. – 30. maí 2007

Í helgarferð til Berlínar með Brynju og Kalla, flugum eftir miðnætti til Kaupmannahafnar, hittum Alla og Kristínu rétt fyrir hádegi eftir að ráfa um Köben frá 6 um morguninn, Hjálmar hitti okkur og fór með okkur á ekta smurbrauðstað – flugum svo til Berlínar seinni partinn.

Berlín er enn svolítið stór, ekki beint leiðinleg, vorum tiltölulega heppin með veitingastaði, ítalskan, japanskan, tapas og indverskan – en megnið af villta næturlífinu, rokk klúbbum og börum slapp við skoðun hjá okkur, enda ekki margir dagar. Fórum út að borða með Bryndísi, sem var í Berlín sömu helgi, og duttum inn í einhvers konar ungmenna listamiðstöð á mörgum hæðum seint á sunnudagskvöldið, mjög skemmtilegur staður.

Engu að síður fín ferð, góð afslöppun, frábær hópur, fullt af nuddi, aðeins of mikið búðarráp fyrir minn smekk, smá ferðamannarúntur – CheckPoint Charlie safnið, múrleifar, ofur hallærisleg þýsk „cover“ hljómsveit við Brandenborgarhliðið, er hægt að komast neðar en að spila gamla 10cc lagið „I’m Not In Love“ og setja stefið úr „Eye Of The Tiger“ inn?

Myndir hér.

18. maí 2007

Kosningalögin skoðuð í fréttum Rúv og Kastljósi. Vonandi verður þessu fylgt eftir og vonandi verða gerðar breytingar fyrir næstu kosningar.

16. maí 2007

Lokahóf Postulanna, alltaf skemmtileg kvöld, Arnar (og Unnur) buðu í matinn, hringurinn fékk sinn tíma og nokkrar breytingar á fyrirkomulagi samþykktar. Svo á Ölstofu og þaðan á eitthvert stefnulaust ráf..

15. maí 2007

Vefsíða Kolviðar opnuð, Ótrúlega gaman að sjá þetta verða að veruleika eftir þetta langan tíma, og ekki verra að finna að okkar hlutverk gleymist ekki, þó upphæðirnar hafi ekki verið háar.

13. maí 2007

Langri kosningaútsendinu lokið, vorum á vakt til 10:30 og vaknaði aftur 13:00. Mest spennandi kosninganótt sem ég man eftir og hef þó fylgst lengi með. Upptökur og fundir fram eftir degi, dottaði í hálftíma um kvöldmatarleytið og svo á Ölstofuna með RTSoftware mönnum, entumst til hálftvö.

16. apríl 2007

Kolviður að verða að veruleika. Kaupþing, Orkuveitan og ríkisstjórnin skrifa undir samninga og loksins komið af stað.

12. apríl 2007

Morgun upptaka fyrir þáttinn hjá Jóni Ólafs. Alltaf erfitt að komast í gír svona snemma að morgni en tókst þó merkilega vel á endanum. Tókum „New Head“ , en komið nýtt nafn, „Judge A Pope Just By The Cover“.

30. mars 2007

Stiff Little Fingers á Astoria í London. Iðunn kom út til að mæta líka, vildi ekki lesa eftir nokkur ár að þeir væru hættir eða jafnvel dauðir og hún hefði aldrei séð þá, talsvert mikið miklu betri en hljómleikaplöturnar sem við eigum fyrir. Undarlegt að það þekkir þá nánast enginn heima, nema við og nokkrir félagar, en úti voru þeir nokkuð stórir og þvílíkt úrval frábærum lögum. Tóku reyndar ekki „Gotta Getaway“, en öll hin… fullt hús, frábær stemming og hljómsveitin framar öllum vonum. Man ekki eftir nokkurri hljómsveit sem er jafn lítið þekkt heima en á jafn mikið af frábærum lögum.

27. mars 1. apríl 2007

Í London í vinnuferð með Stefáni og fleirum. Iðunn mætti síðustu dagana. Fyrir utan gagnlega vinnuferð þá er alltaf einhver sjarmi yfir London.

6. mars 2007

Stranglers á Nasa, frábært kvöld, þokkaleg mæting en hefðu mátt vera fleiri.. skil ekki, og kem aldrei til með að skilja, fullt af fólki sem virtist hafa áhuga, en sat samt heim, Fræbbblarnir oft verið betri, en fín stemming og virkilega gaman að sjá Stranglers eins og þeir eiga að vera.

3. mars 2007

Árshátíð hjá Anza, nokkuð vel heppnað, að mestu leyti hjá Bláa lóninun, Óli Palli sá um tónlistina,

9. febrúar 2007

Á Hótel Örk, með Öggu, Magga, Helga, Þóru, Sylvíu og Magnúsi.

8. febrúar 2007

48. ára… ekki til að tala um. Kiddi, kíkti í heimsókn, annars Hótel Örk á morgun.

12. janúar 2007

Kjartanskvöld heima hjá Orra, Sambindið hittist og minntist Kjartans.

6. janúar 2007

Önnur skæða pestinn á tveim mánuðum, eftir að hafa verið tiltölulega laus við flökkupestir síðan 1999.

5. janúar 2007

Guðjón Heiðar er fluttur heim eftir árs sambúð með félögum sínum.

5. janúar 2007

Uppskeruhátíð Postulanna, heima hjá Þórhalli, „hringurinn“ tekinn, öl afhent og drukkið að hætti postula.

2. janúar 2007

Fluttur til Anza frá Símanum, spennandi tímar framundan..