Afmæli

Ég hélt upp á sextugsafmælið mitt á minn hátt – eins og alltaf á að gera – með því að halda hljómleika, fyrst og fremst með Fræbbblunum – og eins fengum við nokkra góða gesti með okkur.

Ég lét svo nánustu vini og fjölskyldu, sem ætluðu að mæta, vita af stuttri skál fyrr um kvöldið… freyðivín og konfekt í stuttan tíma.

Í stuttu máli, þá var kvöldið var einstaklega vel heppnað, vinir og fjölskylda mætti í skál, það var gaman að heyra aðra tónlistarmenn spila bæði eigin lög og okkar lög, og ekki var verra hversu margir mættu á hljómleikana. Flestir entust meira að segja til að hlusta á okkur!

Ég tók nú sérstaklega fram að þetta væri ekki hefðbundið afmæli, engar ræður, engar gjafir, engar veitingar. En það komu nú nokkrir færandi hendi… og það kom skemmtilega á óvart hversu vel valdar gjafirnar voru, áhugaverðar bækur, spennandi Whisky, tvær tegundir af gini, listaverk, sérhannað kort… og síðast en ekki síst, nýtt hljóðkerfi!