Vika með fjölskyldumeðlim í sóttkví

Yngsta „barnið“, Viktor Orri, kom heim frá Durham á Englandi síðasta föstudag og þurfti að fara í tveggja vikna sóttkví. Alli í lagi með það, við viljum gjarnan leggja okkar að mörkum til að hefta útbreiðslu veirunnar og fylgja öllum ráðleggingum og tilmælum.

Viktor - heim-2

Hann er reyndar ekki í einangrun eins og einhverjir virðast halda, einungis sóttkví og henni fylgja ákveðnar reglur varðandi umgengni á heimilinu.

Það er líka allt í lagi að hafa í huga að líkurnar á að hann sé smitaður eru hverfandi. Hann var á svæði þar sem einungis var eitt þekkt smit þegar hann lagði af stað heim (eru 14 núna), var að mestu í einangrun eftir að skólinn lokaði, ferðaðist heim utan annatíma, það var fámennt í lestum, á flugvellinum og aðeins 13 farþegar í flugvélinni á leiðinni heim. Viktor hefur þar fyrir utan verið sérstaklega áhugasamur um handþvott og passað upp á smit frá því að hann var krakki af mikilli eljusemi. Þá voru svo sem engar sérstakar breytingar á hans högum sem ollu því að hann þurfti að fara í sóttkví eftir að koma heim á föstudegi, sem var óþarfi á miðvikudegi.

Það eru ekkert sérstaklega miklar líkur á að við hin höfum smitast hér heima áður en hann kom, en það er samt margfalt líklegra en að hann hafi komið heim með smit.

En það er auðvitað aldrei hægt að vita fyrir víst – það þarf ekki nema eitt tilfelli.

Iðunn - Viktor - píanó - 2-3

Og auðvitað tökum við þetta alvarlega.

Við reynum okkar besta til að fylgja þessum leiðbeiningum, sér baðherbergi, hann kemur ekki nálægt matreiðslu, situr oftast amk tvo metra frá okkur og þegar hann þarf að nota sameiginlega sturtu er hann með sérstakt handklæði og þrífur alla fleti vel.

Við erum stöðugt að þvo okkur vel og vandlega um hendur og notum handspritt þar fyrir utan reglulega. Það er erfiðara að snerta ekki andlitið, nef, munn og augu – mig hefur aldrei klæjað eins mikið og síðustu daga – eða amk. hef ég ekki tekið sérstaklega eftir því fyrr!

En þetta er kannski ekki einfalt. Ef veiran getur lifað af einhverja daga í andrúmslofti og á hinum og þessum sameiginlegum snertiflötum [þrátt fyrir að við reynum stöðugt að þrífa]… þá eru leiðirnar óteljandi. Það er einfaldlega útilokað að vera fjögur á heimili, þó þokkalega rúmt sé, án þess að það komi upp mörg tilfelli á dag þar sem smit getur borist á milli.

Að halda tveggja metra fjarlægð þannig að við séum ekki nær hvert öðru í 15 mínútur (eða meira) er ekkert vandamál.

En að passa upp á alla hugsanlega snertifleti, þar sem helv.. veiran gæti lifað í einhverja klukkutíma, jafnvel daga… það er orðið svolítið erfitt. Við þvoum okkur vel um hendur, en svo þarf að skrúfa fyrir kranann. Og opna dyrnar. Matarílát, glös, borðfletir, fjarstýringar, kaffivélin, hurðin á ísskápnum…

Það er væntanlega mjög auðvelt að hreinlega „bilast“ á að hugsa um þetta endalaust. En þá er líka fínt að hafa í huga að við „megum nú alveg vera til“ og það má alveg hafa „heilbrigða“ skynsemi á bak við eyrað. Nota tímann til að smakka vel allt rauðvín í húsinu, gera endurteknar stikkprufur á Whisky og svo auðvitað Bjór! (og tékkneska Budvar og…)

Borg Fræbbblabjór

Það er helst að við söknum barnabarnsins, Jónatans, reyndum að spjalla í „fjarfundi“ en hann var ekki alveg að átta sig á þessu.

Í öllu falli, vonandi höfum við gert nægilega mikið til að hindra hugsanlega smit, bæði frá Viktori til okkar og ekki síður frá okkur til hans.

Viktor - Dagur - 4-4

[PS. þessi færslu er hugsum sem gagnrýni á einn eða neinn, ég styð sóttvarnalækni og hans fólk, finnst sjálfsagt að hlusta og taka mark á leiðbeiningum og hef enga þolinmæði fyrir sjálfskipuðum sóttvarnarsérfræðingum… mig langaði hins vegar aðeins að punkta hjá mér þessa upplifun]