London, Búdapest

„Vorferðin“ var til London og Búdapest. Til London með hluta af Postulahóp – þeim Alla, Halli, Lalla og Matta – og svo Bergþóru & Viktori. Til Búdapest með Alla, þar sem við hittum Iðunni.

Til London

Lalli kom í Kaldaselið um fimm leytið, Bergþóra & Viktor fórum með bílinn hennar til Toyota og við sóttum þau á leiðinni til Keflavíkur.

Ég kíkti í Saga Lounge en stoppaði stutt og greip svo tvo bjóra með þeim fyrir flug.

Við Lalli flugum til Heathrow en Bergþóra & Viktor til Gatwick.

Flugið gekk svo sem vel, jafnvel eftir smá hringsól fyrir lendingu og bið á flugbrautinni lenti vélin um 12:00 – en það var ævintýraleg löng biðröð í vegabréfaskoðun og við vorum ekki komnir upp á hótel fyrr en um hálf þrjú.

Við gripum einn bjór á bar tengdum hótelinu, VQ, svo í næsta bjór á Flying Horse, við hornið á Oxford Street og Tottenham Court Road.

En það var matur snemma, ég, Alli, Hallur, Lalli og Matti mættum hálf sex á The Ninth við Charlotte Street. Maturinn frábær, nema kannski makríllinn og svo valdi Hallur fínasta vín.

Þá til Kentish á hljómleika Paul Weller í O2 Forum með Alla og Lalla. Við hittum Bergþóru & Viktor þar, en þau höfðu fengið fínasta mat á Delicious by Franco. Eftir smá bras með miðana komumst við inn og náðum nokkrum lögum með hljómsveitinni sem var á undan, en ég get ekki munað hvað heitir.

Hljómleikarnir ollu mér (og Viktori) talsverðum vonbrigðum framan af. Rokk hljómsveit með tvo trommara er nú hálf hallærislegt. Og þetta var svona hálfgert „iðnaðarrokk“, lítið spennandi lög, Paul Weller virkaði jafnvel hálf áhugalaus, svona framan af.

En síðasti hálftíminn var fínn, Start!, Have You Ever Had It Blue, Shout To The Top, That’s Entertainment og Town Called Malice björguðu miklu.

Nokkrar upptökur hér.

Við Alli fórum svo að hitta Hall og Matta á írskum bar, Maxim, virtist vera fín stemming en lokaði fljótlega.

Við ákváðum að prófa Grosvenor Casino-ið sem var tengt hótelinu, St. Giles, en það var nú með því aumara sem við höfum séð. Enginn póker, prófaði nokkur Blackjack og rúllettu en eiginlega engan áhuga og tapaði fljótt því litla sem ég var til í að leggja undir.

Laugardagur í London

Vaknaði þokkalega snemma, fór í einfaldan morgunmat á uppáhaldskaffistaðinn í Soho, Bar Italia, við Frith Street.

Svo til Charlton með hópnum í Uber, fundum bar með fullt af bjór, Arsenal – Manchester United í sjónvarpinu, grilli í garðinum.. en Viktor fór á Emirates að horfa á leikinn.

Ég fór með Alla, Hall, Lalla, Matta á Charlton – Shrewsbury. Þar var fínasta stemming þó leikurinn væri C deildar leikur og ekkert undir hjá liðunum. Markvörður Shrewsbury fékk eitthvað drasl í sig frá áhorfendum og leikurinn var stopp nokkuð lengi. Charlton skoraði seinna markið í kjölfarið á meðan ég var að leita að Uber til að komast til baka.

Það var talsverður viðbúnaður hjá lögreglunni eftir leikinn, en svo sem engin læti í neinum.

Við fórum yfir í miðborgina, fórum full snemma úr Uber og duttum inn á stóran og stórskemmtilegan bar, Porterhouse, einn bjór þar, svo aðeins að taka rólega fyrir kvöldið, kíkti í Whisky / vindlabúðina áður en ég komst upp á hótel – en var orðinn of seinn í „lagningu“.

En svo á Benihana, mjög skemmtilegur kokkur og frábær matur, Lalli eitthvað lystarlaus, enda lyktin ekki skemmtileg.

Fundum svo kokteilbar í Soho, Chotto Matte, ég fékk einhvern undarlegan þýskt gin kokteil, en létum það nægja.

Svo upp á hótel og beint á barinn, Lalli sagði þetta gott, Matti tók pásu og kom niður en fór svo að sofa.

Ég fór með Alla og Halli á Grosvenor Casino, lagði 100 pund undir og kom út með 316 pund. Hallur setti 20 pund á einhverja rúllettuvél og kom út með 40 pund. Alla gekk ekki eins vel, en ég náði að sannfæra hann um að hætta áður en hann tapaði öllu á að fara ‘all-in’ á eitthvað!

Vorum komnir heim um fjögur.

Sunnudagur í London, kvöld í Búdapest

Þáðum seint-tékk-út og svo fór ég með Hall í morgunmat á Lavelle eftir að litli ítalski staðurinn sem átti að vera rólegur og alls ekki þétt setinn, reyndist vera hátt í hundrað manna þéttsetinn staður og vonlaust að fá borð. Bergþóra & Viktor kíktu til okkar, en Hallur dreif sig að hitta hina á Flying Horse.

Við kláruðum einn bjór á Flying Horse, svo hófst smá leit að bjórgarði sem gekk hægt, ýmist lokaðir eða fullsetnir. Komum okkur fyrir á Brasserie Max, einn bjór og ristað brauð með ansjósum.

Ég fór að leita að Lowlander barnum með belgísku bjórunum, fann hann og fékk mér Westmalle, en hinir fóru á hótelbarinn að horfa á Liverpool – Everton.

Það kom reyndar í ljós að hótelbarinn var ekki opinn og þeir höfðu farið á Rising Sun ofar á Tottenham Court Road.

Bergþóra & Viktor komu svo til okkar og við tókum tvo Uber upp á Heathrow þar sem leiðir skildu, við Alli fórum til Budapest, en hin fóru heim.

Innritunin gekk svo sem þokkalega hratt en svo lenti ég í handahófs úrtaki í vopnaleitinni og einhver gaur á undan mér með endalausa hluti sem mátti ekki taka með í farangur.

Þokkalegt flug og bíll í boði tannlæknastofunnar upp á hótel, kannski um hálf tvö.

Vélinni sem Iðunn kom með seinkaði nokkuð, en ég hélt mér vakandi til rúmlega fjögur þegar hún mætti. Einn bjór og bók á kindlinum.

Fyrsti dagur í Búdapest, skoðanir

Við mættum í skoðanir og höfðum svo daginn fyrir okkur.

Alli mælti með veitingastaðnum Spago, fengum heldur betur frábæran mat, að einhverju leyti tengdur einhverju hóteli.

Hreinsun og bað

Byrjaði í smá tannholdshreinsun, eina aðgerðin mín – fyrir hádegi.
Fórum svo í stóra baðhúsið í Búdapest, mjög skemmtilegt, fullt af möguleikum, fórum í gufu og bjórbað.

Ákváðum að sleppa því að fara upp á hótel og skoðuðum bjór bar og kokteil bar.

Svo á Comme Chez Soi, frábær matur á skemmtilegum litlum stað, þar sem kokkar og þjónar voru næstum jafn margir og gestirnir.
Það var borið í okkur nóg af Grappa, Limoncello og Tokai eftir matinn.

Við fórum á einn bar í viðbót, ansi drukkin, þar sem Iðunn og Alli ræddu mömmu hans í þaula.

Iðunn í aðgerð, flakk og verslunarmiðstöð

Iðunn áfram í aðgerð, ég fór á smá bæjarrölt, aðallega til að finna bakpokann hennar Iðunnar sem við höfðum gleymt kvöldið áður.

Það tók reyndar nokkurn tíma og kallaði á mikinn bjór og eitt gott (en ruglingslegt nudd) en hafðist á endanum, þeas. að finna bakpokann.

Svo í Arena – verslunarmiðstöðina, fann ekki mikið en eitthvað og labbaði svo heim á hótel í rigningunni.

Við borðuðum á hótelinu, horfðum á Liverpool – Villareal á hótelinu með Alla og Eyþóri, bridge-spilara.

Rólegur dagur í Búdapest

Iðunn mætti í fyrstu aðgerðina, ég reyndi aðeins að vinna, lagði af stað niður í bæ, fékk símtal frá ISAL og aftur til baka.

Það var kominn tími á heimferð hjá Alli, kvaddi hann amk. tvisvar áður en ég fór aftur niður í bæ og greip franska ristingu, fór á smá búðarráð, freyðivín á einu torginu, kokteill á Sky-Bar og svo upp á hótel.

Við fundum frábæran ítalskan stað um kvöldið á Ritz-Carlton, Ottimo, frábær matur, reykt sverðfisk carpaccio, Iðunn venjulegan, svo pasta.. en snemma að sofa.

Heim frá Búdapest, gegnum London

Morgunmatur og svo upp á flugvöll í óratíma bið eftir innritun, öryggisleitin tók hins vegar enga stund og svo tók við bið eftir vélinni sem seinkaði um þrjú korter.

Fékk nokkra tíma í London og vegabréfaskoðun gekk hratt þannig að ég skrölti niður í bæ, bjór á The Clachan, reykt gæsabringa á Dehesa, dumplings á kínverskum stað í Chinatown, Lotus Garden, og svo upp á flugvöll.

Þar voru allir veitingastaðir lokaðir, fann skyndibita stað og hamborgara, svo annan sem var opinn, líka hamborgari og svo heim.

Tenerife 2022

Af stað

Loksins komið að Tenerife, mættum þokkalega snemma út á flugvöll, Jónatan hafði ekki sofnað fyrir spenningi, svaf ekkert á leiðinni út á flugvöll og lítið í vélinni. Hittum Friðjón & Sæunni á flugvellinum.

Fórum út að borða um kvöldið, Ilze og Geir komu með – Guðjón valdi Moon, fyrsta hugmynd þóknaðist ekki vegna beiðni um Covid.. en frekar vondur staður, flest okkar með óspennandi mat, Alexandar með óætan humar, Viktor með fínan fisk – annað svona og svona.

Fegrunaraðgerðir

Iðunn fór með Ilze og Elinu í naglasnyrtingu, mér var boðið í freyðivín og fleira þegar leið á daginn, mörg ágætis rauðvín.

Þetta var þrettándinn, þarna er líka haldið upp á hann með aukajólagjöfum… við Iðunn keyptum gjafir fyrir alla.

Ekkert nudd

Annar rólegur dagur, ætluðum í nudd, en bókuninn skilaði sér ekki, þau bókuðu bara einn þrátt fyrir skýra beiðni um fleiri. Við Iðunn fórum snemma af stað með Alexöndru og röltum heim á hótel.

Við Iðunn fórum svo á ítalskan Monte Christo um kvöldið. Virkilega fínn ítalskur matur.

Rólegt

Matur á hótelinu í rólegheitunum, sennilega dagurinn í smá rölt og sólarlegur.

Sunnudagur

Að mestu letilíf, horfðum á Arsenal tapa fyrir Nottingham Forest, hittum svo Ilze, Geir, Elinu, Alexöndru og Jónatan og fórum á einhvern stað í rokinu, Spanglish muni ég rétt.. ekki góður.

Læknir og nudd

Jónatan fékk lækni til að skoða smá ígerð og þurfti pensilín.

Við Iðunn fórum í allt í lagi nudd, annars var dagurinn frekar rólegur. Fórum með Alexöndru og Viktori á Veneto og fengum nokkuð góðan mat.

Líbanskur staður

Aftur man ég ekki betur en að við höfum tekið því rólega en svo fórum við Iðunn á líbanska staðinn Habibi um kvöldið og fengum frábæran mat.

Bergþóra mætt

Bergþóra kom seinni partinn, gaman að fá hana með. Vorum með Jónatan seinni partinn og við Iðunn borðuðum með honum kvöldmat á hótelinu. Calima kominn, frekar óþægilegt.

Meiri Calima

Fórum á ströndina, Jónatan alveg á fullu og ansi skemmtilegt, en kannski ekki nægilega hlýtt og aðstaðan ekkert sérstök.

Borðuðum á stóra langa staðnum, eða réttara sagt, margir samstæðir staðir, um kvöldið, maturinn fínn og kom okkur skemmtilega á óvart. Calima orðinn frekar slæmur. Horfðum á fyrri leik Liverpool og Arsenal í undanúrslitum deildarbikarsins, fyrst á staðnum, svo á bar með Jonna og Elinu.

Sigling

Fórum í tveggja tíma siglingu, engin björgunarvesti, hálf fúll skipstjóri, svona þar til hann fór að biðja um þjórfé.

Jónatan stóð sig vel, hafði gaman af að skoða, dottaði aðeins – og vildi svo fara í feluleik, þó við sætum öll saman í þéttri kös.

Roberts var kominn og dró okkur á ömurlegan stað í hádeginu.. við Iðunn fórum á indverska staðinn, Delhi Darbar, frábær matur en við pöntuðum allt of mikið.

Við tókum leigubíl þó það væri stutt að fara, Calima heldur betur kominn.. Roberts lét öllum illum látum á veitingastaðnum sem þau fóru á, Guðjón rétt náði að róa hann og semja við staðinn.

Verslunardagur

Enn Calima, fórum í Siam Mall en fundum svo sem ekki mikið, Alexandra, Bergþóra og Viktor komu líka og við tókum svo bíl á írska barinn Anchor, horfðum á smá fótbolta þar, smá ráp í búðirnar í verslunarmiðstöðinni þar og svo pizza á pizzustað, San Marcos, frábær pizza sem jafnvel Iðunn kunni að meta.

Við borðuðum svo á hótelinu um kvöldið, skelfilegur matur og kíktum svo til barnanna að spila um kvöldið.

Og meiri sandstormur

Enn sandstormur, vorum aðeins með Jónatan, sem entist endalaust í feluleik þar sem ég lá uppi á rúmi á meðan Iðunn og hann földu sig undir rúmi. Jú, stöku sinnum fékk bangsi að fela sig í ísskápnum.

Fórum með Alexöndru á Amalfi um kvöldið, fínn matur en þjórfés betlið fór í taugarnar á okkur, þjónninn mjög sár.

En svo keila um kvöldið þar sem ég vann fyrra mótið og Bergþóra það seinna.

„Amma“ Sylvía og Friðjón & Sæunn

Tengdamamma, „amma Sylvía“ hefði orðið áttræð.

Friðjón og Sæunn komu til okkar, fórum út að borða á fimm stjörnu staðinn Cheers Salud Na Zdorovie, með Alexöndru og Bergþóru, stóð nú ekki alveg undir væntingum en samt fínn. Við Iðunn gripum svo kaffi með þeim, aðeins að ræða fjölskylduuppgjör.

Um kvöldið fórum við út að borða á, þeas. við Iðunn, Alexandra, Guðjón, Viktor og Bergþóra. Allt í lagi matur og kvöldið gekk vel þrátt og skálað fyrir öllu og öllum.

Elina, afmæli

Fórum og fundum afmælisgjöf fyrir Elinu í verslunarmiðstöðinni Oasis. Alexandra var með okkur og við skoðuðum aðeins í kringum okkur.

Svo var matur í íbúðinni sem Ilze og Geir voru með, Roberts eldaði svínakjöt, mjög vel heppnað, þó það væri ansi þröngt, en mjög fínt.
Fórum svo til Alexöndru, Bergþóru og Viktori og spiluðum eitthvað fram eftir.

Heimferð

Pakka, leigubíll út á flugvöll, biðröð, matur, flug og komin heim um kvöldið.

Myndir annars á Flickr

Fræbbblahljómleikar í Litháen

Það vildi einhvern veginn svo til að okkur Fræbbblum var boðið að spila á tónlistarhátíðinni FIDI 53 í háskólanum í Vilnius. „53“ vegna þess að þetta var fimmtugasta og þriðja árið í röð sem hátíðin er haldin.

Eitthvað tengdist þetta því að Rikka var að kenna við tónlistarskóla í borginni sem gestakennari. Ef ég skil rétt þá er mikið um tónlistarviðburði á þessum tíma á hverju ári í borginni, ekki beinlínis hátíð, heldur meira laustengda viðburði.

Til Vilnius

Gummi sótti okkur um fjögur leytið og mættum til Keflavíkur fyrir fimm, forgangur í innritun og þetta gekk hratt og vel fyrir sig.
Við máttum bjóða Gumma í Saga Lounge þannig að það fór vel um okkur á meðan við biðum.
Helgi og Þóra höfðu innritað sig og töskurnar um kvöldið og við hittum þau fyrir flug.
Fínt flug til Stokkhólms. Við borðuðum á frekar fínum og nokkuð dýrum stað, Pontus In The Air, á flugvellinum, en maturinn var kannski ekki alveg í sama klassa.
Við vorum mætt hálf sjö, enginn á flugvellinum hafði nokkurn minnsta áhuga á bólusetningar eða skimunarskjölunum okkar.
En leigubíll niður í bæ tók stuttan tíma, við vorum á þessu fína hóteli, Novotel, Gummi rétt hjá okkur en Helgi & Þóra nokkurn spotta frá okkur. Viktor var mættur og kominn inn á Old Town River hótelið.
Smá rölt og svo að borða á litháenskum stað, Viktor hitti okkur, en Alexandra og Bergþóra voru rétt að lenda og náðu okkur ekki. Við fórum svo til-þess-að-gera snemma að sofa, en Helgi, Þóra og Viktor hittu Alexöndru í síðkvöldverð.
En borgin virkaði mjög vel á okkur, kom eiginlega skemmtilega á óvart.

Föstudagur í Vilnius

Morgunmatur á hótelinu, sáum fullt af fólki vera að skunda niður á eitthvert torg að mótmæla, reyndist vera einhver fjölskyldu hópur að mótmæla Covid reglum.
Við röltum af stað með Gumma, hittum svo Rikka, Helga og Þóru og röltum upp í bæ.
Það fréttist af hljóðfæraverslun og eftir nokkurt ráp fram og til baka fannst hún, en við vorum eiginlega með tóman innkaupalista. Það fór þó svo að Iðunn keypti tamborínu, svart ukulele og stillitæki fyrir það, ég keypti snúru og helgi ól fyrir bassann.
Þá hádegismatur, l.. þar sem við hittum „krakkana“, Alexöndru, Bergþóru og Viktor. Fengum mjög skemmtilega litháenska rétti, einhvers konar brauð með osti og hvers kyns gumsi í miðjunni.
Við röltum með Gumma í áttina að hótelinu á meðan krakkarnir fóru að versla og Helgi & Þóra á eitthvert flakk.
Við settumst á bar við Íslandsstræti og hringdum í þjónustuver SAS til að reyna að fá flug fyrir Gumma á sama tíma og við Iðunn áttum flug. 50 mínútna bið og þegarvið komumst að voru svörin þau að fyrst hann hefði bókað hjá einhverri þjónustusíðu, Kiwi, þá kæmi þeim þetta ekki við.
Eftir þetta var einhver stemming fyrir nuddi, gekk illa að finna tíma, ég bókaði á einhverjum stað, fyrst var tímanum seinkað og svo þegar ég kom var ansi lítið í boði fyrir stutt nudd og erfitt að átta sig á hvað var í boði og flest virtist kosta talsvert.
Ég rölti til Iðunnar, Helga & Þóru, hittumst í garði rétt hjá hótelinu þeirra. Assi var svo mættur í bæinn og á hótel rétt hjá og hitti okkur þar. Við fórum á vindla og Whisky barinn en hann var nú ekki allra og ég entist eiginlega einn að reyna að klára vindilinn, sem tókst ekki.
Við hittumst svo á Lykos og fengum mjög fínan mat, samt ekkert til að panta aftur, en fín stemming.
Á heimleiðinni duttum við inn á mjög flottan bar, enda tengdur við fimm stjörnu hótel, en ákváðum að vera ekki mjög lengi, ég var aðeins orðinn lúinn og Iðunn hafði fengið sér full margar freyðivín fyrir matinn.

Hljómleikadagur

Morgunmatur á hótelinu, svo leigubílar upp í háskóala.
„Sándtékk“ gekk mjög vel – alvöru hljóðkerfi og greinilega vanir menn í hverri stöðu.
Við röltum svo aðeins um bæinn, við Iðunn kíktum á Brussels Mussels veitingastaðinn og reyndum svo að finna bar sem sýndi Arsenal-Norwich. Það gekk ekki, svo við fórum upp á hótel og horfðum á leikinn í símanum.
Smá pása uppi á hótel herbergi svo upp á hljómleikastað.
Þar var nokkur bið, búið að seinka dagskránni og við áttum ekki að byrja fyrr en 1:00.
Það var svo sem gaman að sjá þessar hljómsveitir, mis mikið skemmtilegar, en alls kyns tónlistarstefnu og eiginlega allar nokkuð góðar á sínu sviði.
Við vissum ekkert hverju við áttum von á, en eftir nokkur lög var komin fínasta stemming og við héldum henni út kvöldið.


Það kom svo í ljós að það var önnur hljómsveit á eftir okkur, rym-rokk, og við vorum ekki lögð af stað heim fyrr en undir þrjú.
Við Gummi, Rikki og Iðunn ætluðum að taka seinni bílinn, hin fengu bíl strax, en við þurftum að bíða í þrjú korter áður en við fengum bíl. Engin næturmatarþjónusta á hótelinu, ég var eitthvað að hugsa um að fara út að leita, sleppti sem betur fer, því við fréttum að McDonalds hafi verið eini opni staðurinn á þessum tíma og biðröðin verulega löng.

Sunnudagur

Við leyfðum okkur að vakna seint, en svo var stefnt á sameiginlegan morgunmat á La Montmartre og það mættu allir, þó ekki á sama tíma. En fínn, alvöru morgunmatur, ég fékk hleypt egg með tilheyrandi..
En fyrir utan Rikka, sem var að vinna í Vilnius sem gestakennari, og okkur Iðunni og Gumma þá voru allir að fara í flug heim.


Iðunn lagði sig og við Gummi ákváðum að hringja í Kiwi og reyna að fá fluginu hans breytt. Þar kom í ljós að hann hafði pantað þetta svona og ákvað að kaupa ódýrt flug með Play á mánudagskvöld, frekar en að bíða í Kaupmannahöfn fram á sunnudagsmorgun. Svo dúkkaði nudd hugmyndin upp og við Gummi fundum þetta fínasta nudd.
Matur um kvöldið með Rikka og Gumma á Da Antonio, fínn staður, frekar taktlaus tónlist og þjónusta, en allt í lagi matur, eins og oft áður, forréttirnir mun meira spennandi en aðalréttirnir.
Við Iðunn gripum svo tvo drykkir með Rikka fyrir svefninn, vorum farin að sofa um miðnættið.

Heim

Við sváfum þokkalega út, fengum fínan morgunmatur með Gumma – aftur hleypt egg og tilheyrandi hjá mér.
Við fórum svo upp á flugvöll fljótlega upp úr hádegi. Enn eitt Covid prófið fyrir utan flugvöllinn.
Gummi lenti í talsverðum vandræðum með flugmiðann, þau voru ekkert á þeim buxunum að hleypa honum í vélina til Kaupmannahafnar – sögðu að fluginu hans hefði verið breytt og hann hefði átt að mæta um morguninn. Gummi hafði ekkert heyrt og tölvupóstfangið sem hafði verið notað til að senda honum tilkynningu var eitthvert tómt rugl.
Einhverra hluta vegna höfðu þau miklar áhyggjur af því hvernig Gummi ætti að komast frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur, eins og þeim mætti ekki vera slétt sama. Þau fundu ekki flugið, að okkur skildist vegna þess að Play er nýtt lággjaldaflugfélag. Að lokum féllust þau á að hleypa honum í vélina til Kaupmannahafnar en það kom ekki til greina að hann fengi að fara í sama flug og við, enda kannski skiljanlegt, það var flug sem SAS keypti að hluta hjá IcelandAir.
En fínt flug til Kaupmannahafnar, ég var eitthvað spenntur fyrir að fara niður í bæ, enda sex og hálfur tími til stefnu. En það var styttri bið hjá Gumma og hann var orðinn frekar svekktur á þessum tilfæringum, þannig að við komum okkur fyrir í Priority Pass Lounge, ég mátti bjóða þeim báðum, Gummi fór svo að fá brottfararspjald, fyrst sagði þjónustufulltrúinn á Transfer borðinu að það væri nú ekkert mál, en þegar hún komst að því að þetta var Play þá þurfti hann að fara út, fá brottfararspjald og aftur í gegnum öryggisleit. En það gekk hratt, við fengum okkur mat á einhverjum veitingastaðnum, Le Sommelier…ekkert sérstakur – ég pantaði hamborgara með Fois gras, ekki góð blanda.
En Gummi náði sínu flugi, ég fékk bjór á Mikkeller og við fórum í okkar flug nokkru seinna.
Gummi beið eftir okkur á flugvellinum, þurftum að bíða eftir töskunum og Iðunni tókst að villast eftir skimun og gekk illa að finna hana.
En, eins og svo oft áður þá hafðist þetta allt á endanum…

Króatíuferð

Það var ákveðið að fagna sextugsaldri nokkurra meðlima GoutonsVoir matarklúbbsins með útlandaferð.

Fyrir valinu varð stórt hús, villa, í bænum Bol á eyjunni Brac í Króatíu.

Þetta var ákveðið 2019, ferðin átti að vera 2020, var lengi tvísýnt um að ná 2021 en það hafðist.

Til Dubrovnik

Steini og Auður sóttu okkur í Kaldaselið um fjögur og við vorum mætt á góðum tíma. Þau voru búin að innrita sig rafrænt og við nýttum okkur að mega fara í hrað innritun og vorum kominn í gegnum innritun og öryggisleit á hálftíma.
Við máttum bjóða með okkur gestum í Saga lounge þannig að Auður og Steini fóru með okkur.
Flugið til Frankfurt var fínt og við fengum aðgang að ‘lounge’ gegnum Priority Pass, ég bauð Iðunni og Auður bauð Steina.
Veitingarnar voru svo sem ekki merkilegar, eiginlega alls ekki, ein upphituð pylsa með engu var eiginlega eini heiti maturinn.
Þegar nálgaðist flug fórum við að leita að hliðinu okkar… við komumst að því að það var nú frekar langt frá okkur og að við höfðum verið í einhvers konar útkjálka ‘lounge’. Við þurftum ekki bara að fara í aðra byggingu heldur var hún einni innanflugvallarlestarferð frá okkar og þegar þar að kom þurftum við að fara aftur í gegnum öryggishlið. Það gekk svo sem hratt en enginn skipti sér af okkur og við hefðum getað farinn inn í borgina.
Flugið þangað stutt og fínt, konan í vegabréfaskoðuninni í Dubrovnik hafði mikinn áhuga á okkur og hvaðan við værum að koma.. en þetta gekk fínt og við fengum strax leigubíl.
Hálftíma ferð í húsið og þar sem Krissi & Rúna voru enn í skoðunarferðinni frá Sarajevo settust Auður & Steini hjá okkur eftir að við vorum búin að finna okkar herbergi.
Fínustu móttökur hjá fólkinu sem rekur staðinn og svo kom í ljós að Auður & Steini og Krissi & Rúna voru í stórri íbúð fyrir ofan okkur.. sem hafði nú ekki verið ljóst þegar við vorum að panta.
Gestgjafarnir okkar mæltu með veitingastaðnum Gusta Me, sem var ekki langt frá þar sem Assi & Stína voru.. fínasti matur en svo sem ekkert sérstakur, ég fékk svart risottó og einhvern rétt sem var frá „héraðinu“, fínn en ekkert spennandi.
Vorum svo sem ekki lengi fram eftir, en við Iðunn gripum bjór í garðinum fyrir svefninn.

Matur uppi á fjalli

Krissi & Rúna buðu upp á þennan fína hádegismat, lamba, nauta og geitakjöt… eitthvað af ostum og ávöxtum. Smá rauðvín og bjór.
En seinni partinn fórum við í kláf upp á fjall á veitingastaðinn Panorama Restaurant and Bar, frábært útsýni, spennandi kokteilar og mjög góður matur.
Ekki algengt að veitingastaður sem eru svona vel staðsettir nenni að standa í að bjóða góðan mat – en þessi var virkilega góður.

Rólegur föstudagur

Við tókum föstudaginn rólega, fórum í göngu upp á virkisvegginn, Assi og Stína tóku pásu en við hin hittum á rigningu og þrumur og eldingar… settumst inn á eina barinn á leiðinn og hengum þar í þungu lofti eins lengi og við héldum út.
Svo niður í bæ í pizzu í grenjandi rigningu, Assi & Stína hittu okkur þar og við röltum um bæinn og höfnina áður en við drifum okkur „heim“ í smá pásu.
Við fórum með Auði & Steina á einfaldan veitingastað niðri í bæ um kvöldið, fínn matur – Assi & Stína kíktu líka – og reyndum svo að hitta á Önnu Birgittu og Adda sem voru að leggja af stað í siglingu. Það tókst, Kalli Örvars með þeim og hittum þau í nokkra stund fyrir utan veitingastaðinn þeirra. En til þess að gera snemma að sofa, enda ferja snemma næsta morgun.

Siglt til Brac

Við vöknuðum fyrir 6:00 til að taka leigubíl niður á höfn, sum vöknuðu reyndar talsvert fyrr, svakalegar þrumur um nóttina.
En fjögurra tíma sigling til Brac, stoppað á tveimur eyjum, Hvar og annarri sem ég man ekki hvað heitir.
Húsið var ekki langt frá og leit mjög vel út, nóg af herbergjum, sundlaug, gufa, heitur pottur, fínt eldhús og svalir á efstu hæð. Herbergin mis stór og engir stólar.
Húsið var ekki alveg tilbúið þannig að við röltum á veitingastað rétt hjá, ágætur hádegismatur, en þjónninn dæmdi staðinn úr leik fyrir frekari viðskipti með því að koma ekki með afganginn – sem við hefðum nú líklega gefið honum, en það var ekki hans að ákveða.
Létum snarl nægja um kvöldið, við Iðunn kíktum á Liverpool – Chelsea á nálægum bar.. en vorum svo sem ekki lengi, enda langur dagur.
Auður setti upp innkaupasjóð sem reyndist vel, allir settu jafnt í sjóðinn og svo voru sameiginlega innkaup úr buddunni.

Strönd á sunnudegi

Kíktum á ströndina, ég var aðeins seinn fyrir og fann þau ekki strax. En fór vel um okkur á bekk og með sólhlíf.
Keyptum einhvern sjávarrétta skyndibita, sem var merkilega fínn.. og bjórinn alveg boðlegur.
Við létum skelfilega tónlistina trufla okkur, henni var dúndrað yfir alla ströndina frá nærliggjandi bar, og þurfti ekki minna en tvo plötusnúða.
Um kvöldið buðum við Iðunn upp á gin frá staðnum með kolamolum í fordrykk. Við höfðum hitt á vínbúð sem var með talsvert af vínum úr nálægum héruðum og einhverja sterka drykki. Enga vindla þrátt fyrir stærðar vindlaskáp.
Assi og Stína elduðu kjúkling í kvöldmatinn og einhver spil fram eftir.
Orðan, sem merkilegt nokk, er orðaleikur var fyrst, talsverður gauragangur en skemmtilegt spil.
Duttum svo í að spila Tíu í meiri rólegheitum.

Mánudagur

Mánudagurinn var rólegur, Auður & Steini sáu um stóran hádegismat, Krissi & Rúna buðu upp á kokteil og síðan var grískt salat í kvöldmat. Muni ég rétt eldaði Steini smokkfisk með salatinu.
Aftur var tekið til við að spila Tíu fram eftir og gott ef við tókum ekki smá Whisky þegar leið á kvöldið.

Þriðjudagur

Við skiptum eitthvað liði, einhverjir fóru að rölta en við héldum okkur heima við
Auður & Steini buðu upp á nýkreistan appelsínusafa í fordrykk.
Og Krissi & Rúna elduðu hvítlauks skotinn kjúkling.
Í þetta skiptið vorum við eitthvað framlág og flestir fóru að sofa í fyrra fallinu.
Nema við Iðunn, við röltum á einn bar og annan og stóðum okkur nokkuð vel, kláruðum svo síðasta bjórinn við sundlaugina vel eftir miðnætti.

Miðvikudagur

Assi & Stína og Krissi & Rúna leigðu bíl og fóru á flakk um eyjuna.
Ég þurfti að byrja daginn á uppgjöri og reikningavinnslu fyrir RAD.
En við fórum með Auði & Steina á „hina“ ströndina, fengum fínasta hádegismat á fyrsta flokks veitingastað við ströndina.
Um kvöldið fórum við með Auði & Steina í rauðvínssmakk, sem stóð nú varla undir nafni, stúlkan sem afgreiddi hafði ekki grun um hvað hún var að selja og vínið sem við fengum lítt spennandi. Ég ætla amk. ekki að benda Hafliða á stúlkuna fyrir næstu vínkynningu.
Svo á ítalskan stað þar sem við fengum ágætar pizzur en Iðunn minna spennandi Spaghetti Bolognese.
Við gripum svo einn drykk á (nú skilgreindur sem uppáhalds) kokteilbarnum okkar fyrir svefninn.

Fimmtudagur

Það hafði verið á dagskrá að hitta Önnu Birgittu, Adda og jafnvel Kalla – sem höfðu komið í land um morguninn – en þegar til kom hentaði það ekki.. Assi & Stína hittu þau reyndar á förnum vegi.
Assi & Stína buðu svo upp á einhvers konar berja gin kokteil fyrir kvöldmat.
Um kvöldið elduðum við Iðunn svo sjávarréttapasta, með eggaldin og hvítlauksbrauði. Við náðum svo að horfa á landsleik Íslands við Rúmeníu, en svo sem ekki mjög „gefandi“.

Lokadagur á Bol

Fyrsta verkefni dagsins var Covid-19 hraðpróf til að sýna við heimkomuna.
Við Iðunn kíktum við á stað sem Steini hafði komið auga á og fannst hann líta nokkuð vel út og ekki spillti að hann fékk góða dóma, perla ekki í alfaraleið ferðamanna.
Sýnatakan gekk vel og við dóluðum okkur eitthvað fram eftir degi við að éta úr ísskápnum við sundlaugina.
Sama stemming var í síðdegiskokteilnum, gripum það sem þurfti að taka og tæma.
Fyrir kvöldmatinn fengum við bjór og kokteila á Beer & More, sátum í Secret Garden… mjög fínn staður og hefðum kannski mátt kíkja oftar – við Iðunn höfðum reyndar prófað einu sinni.
En við mættum svo í mat á Jadranka við nánari skoðun virtist hann í samkeppni við Rykkrána í Amsterdam, amk. var rykið komið vel til ára sinna. Maturinn var svona og svona, við Auður fengum fínan grillaðan fisk, aðrir mismunandi heppnir. Ætli pöddurnar sem voru að gæða sér á Iðunni hafi ekki fengið bestu máltíð kvöldsins.
Eitthvað rukkaði konan okkur meira en stóðst skoðun eftir á, en það var enginn að skoða vel þegar hún kom og vild 200 kúnur í viðbót.

Til Split

Ferja til Split, í þetta sinni bara klukkutími, rétt rúmur, og ágætis sigling.
Stutt labb á hótelið, en það stóð nú ekki undir væntingum, var eiginlega ekki hótel, heldur einhvers konar gistiheimili í frekar hrörlegri blokk. Luxury Rooms var nú ekki mjög lýsandi og ekki veit ég hvaðan þessar fjórar stjörnur komu.
Herbergin voru á fjórðu hæð, engin lyfta og litla herbergið okkar var td. á þremur hæðum, baðherbergið nokkuð mörg þrep niður í myrkrinu, því það var ekki hægt að kveikja eða slökkva ljós nema niðri!
Hótelstjórinn var reyndar hinn hjálplegasti.
Og við lifðum þetta af.
En við Iðunn fórum á smá rölt, keyptum eitthvað fötum á Jónatan og dóluðum okkur eitthvað um bæinn – held að við höfum jafnvel fengið okkur bjór, jafnvel tvo.
Um kvöldið duttum við inn á mjög skemmtilegan kokteilbar bar, sem hefði verið enn skemmtilegri ef það hefði verið hægt að sitja úti og fórum svo á Silk Street Food, sem Assi & Stína höfðu dottið um fyrr um daginn. Mjög sérstakur, það þurfti fyrst að fara í biðröð og panta, síðan fengum við borð í göngugötunni. Mjög góður matur, en vorum ekki lengi fram eftir. Krissi & Rúna tóku einn drykk með okkur Iðunni og við gripum annan á skemmtilegum írskum bar, en vorum nú komin heim fyrir miðnætti.

Heim

Við vöknuðum fyrir sjö, út í bakarí sem bjargaði okkur, svo leigubíll út á flugvöll og innritunin gekk hratt og vel.
Flugstöðin ekki sú stærsta sem við höfum heimsótt og veitingarnar ekki beisnar, en við náðum bjór og samloku.
Við flugum svo til Kaupmannahafnar, þurftum að standa í smá snúningum til að fá brottfararspjöldin til Reykjavíkur, en það hafðist og við náðum hamborgurum og smurbrauði fyrir flug. Auður & Steini fóru reyndar inn í bæ, vikudvöl hjá Lovísu og fjölskyldu.
Við vorum svo lent um hálf fjögur, tollur, tékk og skimun gekk vel fyrir sig og við skutluðum Assa & Stínu heim undir lýsingu á leik Íslands og Norður Makedóníu… sem gekk nú ekki beint vel. Það var ekki fyrr en við Iðunn komum heim sem þeir hysjuðu upp um sig og náðu að jafna.

Malagaferð

Fórum með Helga og Þóru og Ægi Mána til Malaga.

Aðal verkefni ferðarinnar var að reyna að greiða úr flækjum vegna dánarbús, en gekk nú eiginlega ekki.

En aukaverkefnið var að taka smá frí og njóta þess að vera í Malaga og það verkefni tókst heldur betur vel.

Til Malaga

Við lögðum af stað til Malaga 10. júlí til að hitta Helga & Þóru – í kannski ekki mjög skemmtilegum aðal erindagjörðum – Ægir Máni var líka og við stefndum á að gera okkar besta til að njóta tímans fyrir utan aðal verkefnið.

Við mættum í langa níunda-áratugar biðröð í Keflavík, það tók rúmlega einn og hálfan tíma að klára innritun í ellefu-faldri röð með löngum hala og fluginu seinkaði aðeins, við náðum samt bæði bjór og samloku.

Við höfðum svo aðgang að betri biðstofu á Arlanda, ég stökk reyndar frá til að kaupa snúru til að hlaða Sennheiser heyrnartólin, sem voru með tóma rafhlöðu og öll hleðslutæki í töskunum sem við ‘tékkuðum inn’.

Maturinn á biðstofunni kom skemmtilega á óvart, en við stoppuðum reyndar ekki lengi fyrir flugið til Malaga. Við vorum svo í betri sætum, fengum frábæran mat – ekki bara í samanburði við annan flugfélagamat – rýmri sæti og fría drykkir. Ég hafði reyndar aðallega gert tilboð í betri sæti vegna þess að ég var ekki viss um að það væri hægt að bóka töskurnar alla leið til Malaga, það var ekki mikill tími á milli flugferða og inni í þessu var forgangs innritun. En það hafði komið í ljós að það var ekkert mál að bók farangurinn alla leið.

Flugið til Malaga var fínt, en það tók nokkrar mínútur að finna töskurnar sem höfðu verið settar á sérstakt færiband vegna þess að þær voru innritaðar utan Evrópusambandsins,

En vorum mætt upp á hótel upp úr níu um kvöldið – NH Hotel, mjög fínt og vel staðsett – og eftir stutta innritun hittum við Helga, Þóru og Ægir Mána á La Cueva – og kynntumst uppáhalds-fúla-þjóni þeirra í borginni.

Við fengum okkur síðbúinn kvöldmat á Taberna del Pintxo, (muni ég rétt), tapas brauðréttir, vorum aðeins of stórtæk á köldu réttina og ekki búin að átta okkur á að þjónarnir komu reglulega með nokkuð girnilega heita rétt – en mjög fínt og svo smá rölt um borgina og einhverjir drykkir áður en þetta var orðið gott.

Sunnudagur

Við Iðunn röltum af stað eftir góðan morgunmat á hótelinu, ætluðum að kaupa vatn og smá hótelherbergisbirgðir, en flestar búðir lokaðar, amk. framan af.

En það var engin ástæða til að láta sér leiðast – keyptum kveikjara (ég hafði gleymt mínum heima þrátt fyrir vel skipulagðan tékklista) og appelsínugular andlitsgrímur – enda gengur appelsínugult með öllu, eins og Iðunn segir. Ægi Mána fannst það nokkuð fyndið.

Svo upp á hótel og settumst með þeim við sundlaugina á þakinu.. komin í góða slökun.

Svo í Hamman (á Hammam Al Andalusia?) fínt, en ekki til fyrirmyndar að hafa lítinn gosbrunn hálfpartinn grafinn í gólfið á aðal gönguleiðinni, Iðunn hrasaði illa en slapp með marbletti.

Það tók svo smá stund að finna stað fyrir kvöldmat, vorum með ítalskan á bak við eyrað en þeir sem fengu góð meðmæli voru pínulitlir og ekkert pláss fyrir fimm manns. Við enduðum á Bar La Bouganvilla og það vildi svo vel til að úrslitaleikur Englands og Ítalíu var í boði í sjónvarpinu. Þóra og Iðunn fengu þetta úrvals lasagna, sem var samt ekki líkt neinu lasagna, mauksoðið ‘uxahala’kjöt og engir tómatar.

Leikurinn endaði kannski ekki vel, en verst að staðurinn var með útsendingu langt á eftir öðrum þannig að við heyrðum úrslitin frá fagnaðarlátunum á nálægum stöðum, eða þóttumst geta lesið í þau. Og ekki hjálpaði að útsendingin datt út í síðustu vítaspyrnunum.

En létum þetta gott heita (minnir mig).

Mánudagur

Methiti, megnið af deginum, fór upp í 42 þegar verst lét.

Þannig að dagurinn var notaður til að fara í verslunarmiðstöð sem við heimsóttum stundum hér áður fyrr, Larios, var ansi lúin síðast þegar við kíktum, en búið að endurnýja. VIð fundum nú ekki mikið þar en El Corte Ingles bjargaði mér með einhverjar „áfyllingar“ á fataskápinn.

Svo var fundur með fasteignasalanum á hótelinu og hefði nú mátt ganga betur. Það hjálpaði ekki að Helgi veiktist illa rétt áður en hún kom og gat ekki verið með okkur. En að lokum var ákveðið að hún kæmi aftur að hitta okkur á föstudagsmorgun – og kæmi þá með öll skjöl, ekki bara myndir sem hún hafði tekið á símann af skjölunum á tölvuskjá!

Helgi var alveg frá og þau Þóra höfðu reyndar verið nokkuð veik allan daginn.

Við fórum án Helga á Los Mellizos og fengum nokkuð góða rétti, til dæmis fékk ég frábærar ansjósur í einhvers konar tómat/berjamauki. Ægir fékk túnisktarta, Iðunn skeljar og flestir aðrir réttir mjög góðir.

Við Iðunn gripum bjór og kokteil á Ibis hótelbarnum, rétt hjá okkar hóteli, en Þóra og Ægir fóru að sofa.

Þriðjudagur

Helgi var enn slappur en samt betri en okkur þótti réttara að fresta fyrirhugaðri Benalmadena ferð um einn dag.

Við Iðunn fórum á smá rölt, kaffi, búð, bjór, búð, matarmarkaður og svo meira ráp, kom okkur mest á óvart hversu vel fúli þjónninn hans Helga tók okkur, eldsnöggur að taka pöntun, afgreiða og koma með reikninginn.

Desigual búðin var mun minni en okkur minnti og enn minna spennandi. Við fundum samt eitthvað á rápinu og duttum svo inn á hótel sundlaugina þegar leið á daginn.

Fyrir kvöldmat hittum við svo Helga, Þóru og Ægi Mána á Sherlock Holmes bar, smá bar rölt og nauðsynleg barstopp – og svo á Mexíkóska staðinn, Alcasabar, fínn matur og kokteilar. Nokkrir drykkir á Mojito bar fyrir svefninn. Var aðeins meðvitaður um of marga drykki um nóttina.

Benalmadena

Góður morgunmatur og tókum svo lestina til Arroyo og röltum niður til Benalmadena. Margir staðir enn á sínum stað en aðrir lokaðir eða farnir, söknuðum Flying India. En fórum í hádegismat á gamla strandbarnum, ég gat ekki valið á milli sardína og „seabass“ [sæbrimi?] þannig að ég pantaði báða réttina. Og báðir stóðu undir væntingum.

Komum okkur svo fyrir á sólbekkjum í nokkra klukkutíma, létum fara vel um okkur með bjór og lesefni og fórum (mismikið) út í sjó.

Terry, sem hefur gjarnan verið okkur innan handar, svaraði hvorki skilaboðum né símtölum og við hittum svo sem engan. Það var ekki stemming fyrir strætó til Malaga, enda búin að kaupa lestarmiða báðar leiðir, þannig að næsta mál var að fikra sig til Torremolinos. Stutt stopp á írska barnum Shamrock, svo smábátahöfnin þar sem Da Fano var enn á sínum stað. Við breyttum skipulagningu og pöntuðum mat þar og þeir hafa engu gleymt, frábær matur.

Við löbbuðum til Torremolinos og komum okkur fyrir á bar hjá vingjarnlegum belgískum þjóni, sem talaði reyndar ekki mikla ensku, en var ekkert nema vingjarnlegheitin og gaf Iðunni nýjan bjór eftir að hennar fór niður í smá handapati og gaf Ægi Mána stóra vatnsflösku að skilnaði.

Þá var enn á dagskrá að finna lestarstöðina, sem gekk eitthvað brösulega, en hafðist á endanum, nægilega tímanlega fyrir síðustu lest til Malaga. Sú lestarferð var vel skipulögð og við fengum nýjan lestarstjóra til að keyra okkur frá næst síðustu stöðinni yfir til Malaga.

Eitthvað var ég orðinn þreyttur og aumur í fótunum og hafði verulegar áhyggjur af að morgundagurinn yrði erfiður, ef ekki ónýtur.

Við komum upp á hótel um tvöleytið, góð sturta og loksins komin „mini-barinn“ á hótelinu að gagni, flöskurnar hjálpuðu mikið við að kæla iljarnar.

Lokadagur

Síðasti heili dagurinn í Malaga, mikill léttir að fæturnir voru að mestu í lagi, Iðunn með auma tá, en Helgi átti góðan plástur og ég slapp að mestu, varla blaðra til að tala um…

Við Iðunn kíktum í Soho, sem átti að vera áhugavert hverfi en við sáum svo sem ekki mikinn mun á því og öðrum bæjarhlutum. Kaffistopp, bjórstopp, duttum ekki inn á Bar Malaga, sem var svona á bak við eyrað, en ekki nægilega mikið atriði til að við nenntum að leita [það er mjög erfitt að leita í Google Maps] og hittum svo hin á Mellizos í hádeginu, túnfisktartar og sjávarréttasúpa – allt of mikið í hádegismat eftir stóran morgunmat. En það var orðinn fastur liður í ferðinni!

Svo settumst við aðeins við hótel sundlaugina áður en við héldum af stað í síðustu kvöldmáltíð ferðarinnar.

Fyrsta stopp var bar með úrvali af „kraft“ bjór, fengum fínasta bjór áður en við héldum á japanska staðinn Ta Kumi.

Það voru allir klárir í matseðil kokksins og freyðivín, ýmist bleikt eða hvítt.

En þvílík veisla, við vorum svo stút full að við afþökkuðum síðasta rétt fyrir utan eftirrétt, Helgi náði ekki einu sinni að kyngja síðasta bita af næst síðasta réttinum.

Við fengum okkur einn drykk fyrir svefninn, en svo var þetta gott, enda heimferð á morgun.

Heimferð

Fasteignasalinn sem hafði ætlað að hitta okkur til að afhenda okkur öll skjöl um morguninn mætti ekki. Svo komu skilaboð um að hún væri komin á spítala með Covid-19.

En það var ekki mikið annað en að pakka, kíkja í snarl í hádeginu og taka lestina út á flugvöll.

Þar var nokkuð löng bið en gekk merkilega vel og við náðum einum bjór.

Og hittum Tomma (Hallgríms), sem hafð verið nálægt Marbella.

Fínasta flug heim, Viktor sótti okkur og eldaði svo lasagna fyrir okkur.. Alexandra og Bergþóra auðvitað með okkur – en við entumst bara hálfan Barnaby.

Hveragerðishelgi

Óskar er alveg að verða sextugur og það var tekin skyndiákvörðun um helgarferð til Hveragerðis, þau Brynja, Kristín & Þórður og við Iðunn.

Við ákváðum að gista á Frosti og Funa, staðurinn hafði fengið mjög góðar umsagnir frá vinum og þó hann væri nokkuð dýrari en jafnvel fimm stjörnu staðir á suðurlandi… en góðar umsagnir „trompuðu“ verðið.

Við komum seinni partinn á föstudag, komumst reyndar ekki upp að afgreiðslunni vegna þess að stórum bíl hafði verið lagt á miðjan veginn. Við fengum þær skýringar að þetta væri bara píparinn, hann leggði nú alltaf svona.

Við komum okkur fyrir á herberginu og svo sem ágætlega notalegt, en það óneitanlega ansi kalt. Í móttökunni var okkur bent á að hækka í ofninum og stilla gluggatjöldin rétt. Það var nú samt kalt. Eitt var líka nokkuð undarlegt, hurðin fyrir klósettinu var greinilega einstaklega listrænt hönnuð. En ekki mjög „notendavæn“. Það var ekki hægt að loka alveg, ekkert handfang innan á og var stöðugt að detta af óhefðbundnum „hjörunum“.

Það kom í ljós að við vorum ekki ein með kalt herbergi og „heiti“ potturinn frekar kaldur að sögn annarra gesta sem höfðu þorað að prófa.

Pöntunin á veitingastaðnum sem er tengdur hótelinu hafði ekki skilað sér þrátt fyrir að við hefðum pantað með þriggja daga fyrirvara. Það var heldur ekki hægt að fá borð kvöldið eftir nema við værum til í að mæta 18:00. Við mættum hins vegar sitja sein lengi og við vildum. Ekki átta ég mig á því hverju það breytir að fá borð 18:00 og sitja til 22:00 eða fá borð 20:00 og sitja til 22:00.

Svo sem ekkert mál. En það var nú kílómetri í næsta veitingastað og kalt og hvasst. Þannig að þá var bara að hringja á leigubíl. Sá neitaði að sækja okkur, sagði að það hefði greinst Covid-19 á staðnum og hann kæmi ekki þangað.

Auðvitað getur maður haft skilning á Covid ótta og fórum reyndar líka að hafa áhyggjur. Þannig að við spurðumst fyrir og í móttökunni var okkur sagt að þetta væri rangt með Covid, en leigubílstjórinn væri nú þekktur fyrir að vera svolítið sérstakur, eins og þetta væri eitthvað „krúttlegt“. Þau buðust til bjarga bíl frá Selfossi, sem við skildum nú þannig að við fengjum bíl og jafnvel á eitthvað betri kjörum. Þau hringdu svo nokkrum mínútum seinna, gáfu okkur upp símanúmerið á leigubílastöðinni á Selfossi, sem við vorum auðvitað búin að finna, en við þyrftum að hringja sjálf. Gott og vel, við fengum bíl frá Selfossi sem sýndi okkur skilning og gaf okkur ágætt, fast verð – fram og til baka.

Á Selfossi fórum við á Kaffi Krús, nokkur bið, sem getur svo sem verið skiljanlegt, fínn matur á þokkalegu verði og boðlegt rauðvín á góðu verði. Þjónustufólkið mætti vera aðeins meira að fylgjast með og minna að spjalla saman sín á milli, en svo heilt yfir ágætis matur og ekki ólíklegt að við dettum inn aftur við tækifæri.

Við vorum svo kannski sátt við að vera ekki lengi fram eftir, spurðum hvort við mættum setjast í sameiginlega rýmið fyrir framan veitingastaðinn. Svarið var þvert nei, það væru svo verðmætir hlutir þarna. Eitthvað vafðist fyrir okkur að sjá hvað væri svona verðmætt, ekki fannst okkur sérstaklega jákvætt að gestgjafarnir gerðu sjálfkrafa ráð fyrir að við myndum stela frá þeim um leið og færi gæfist. Við ákváðum að láta vera að benda á hversu auðvelt væri að taka þessa verðmætu muni ef þarna væri eitthvað sem við ásældumst og væri þannig innstillt að okkur þætti sjálfsagt að taka annarra manna hluti traustataki. Ég benti á þetta við uppgjör og var sagt að veitingastaðurinn væri sjálfstæður rekstraraðili og þau á hótelinu gætu ekki svarað fyrir eða borið ábyrgð á þeim. Gott og vel, en eftir stendur að hótelið býður ekki upp á neina aðstöðu aðra en herbergin.

Í öllu falli, við tókum nokkra bjóra og romm yfir spurningaleik inni á herbergi hjá okkur í nokkra stund áður en við fórum að sofa, svona til þess að gera snemma.

Morgunmatur daginn eftir var svona allt-í-lagi, ekkert að honum, en svo sem ekkert meira en það. Horfðum á hundleiðinlegan leik Southampton og Arsenal í enska bikarnum sem endaði svo sem ekkert sérstaklega vel.

Eftir leikinn fórum við á Ölverk, mjög skemmtilegur handverksbjórbar. Smökkuðum nokkra bjóra á bretti og skiptum með okkur pizzum, sem meira að segja Iðunni fannst góð, einhver ostasamsetning.

Það var auðvitað ekki hægt annað en að reyna heita pottinn, þó kaldur væri, 32 gráður í frosti og gaddi, mér verður enn kalt við að rifja upp þessar sekúndur sem ferðin úr pottinum inn á herbergi tók.

Við fengum svo borð á veitingastaðnum Reykr, klukkan 18:00. Gin og tónik hjá okkur Iðunni fyrir mat, nema Brynja lét Whisky duga. Flest okkar fóru í smakk matseðilinn sem var eiginlega alveg frábær – við höfum oft prófað svona á veitingastöðum, bæði hérlendis og erlendis og þessi fer alveg í minnisbókina með þeim bestu. Hvalurinn reyndar ekki fyrir mig, en aðrir voru sáttir við hann og annað mjög vel heppnað..

Skemmtilegir réttir úr einföldu hráefni, ekkert yfirdrifið og samsetning réttanna vel heppnuð. Ekki spillti fyrir að fá ágætis rauðvín á fínu verði, þó við kláruðum nú birgðirnar af einni.

En svo inn á herbergi í freyðivín og meira Whisky og bjór og Code Names og fleiri spurningaleiki. Það var loksins kominn hiti á herbergið þannig að það fór svo sem ágætlega um okkur.

Morgunmatur á sunnudegi og beint heim, hélt að við fengjum að vera til amk. 14:00 fyrst við fengum herbergið ekki fyrr en 15:00, en það var miðað við 11:00. Okkur var sagt að það væri ekkert atriði að fara á mínútunni 11:00, en einhvern veginn ekki stemming að slaka á. Við fengum smá afslátt vegna hitaleysisins.

Jólakort / Seasons greetings 2020

Jóla- og áramótakveðjur úr Kaldaseli 13

Seasons greetings from Kaldasel

 

Eitthvað voru ferðalög ársins undir meðaltali en gaman að heimsækja Einifell, Halakot, Laugarvatn, Dalvík, Húsafell og Hótel Örk með stórfjölskyldu Iðunnar.

Alexandra kláraði sitt ferli í mars og hefur haft meira en nóg að gera í sinni vinnu í borgarstjórn.

Elina, Guðjón og Jónatan Edvard fluttu í sumar og Jónatan hélt upp á eins árs afmælið í maí hér í Kaldaseli þar sem flestir gestanna voru bangsar sem fundust uppi á háalofti.

Viktor flutti heim frá Durham í mars og kláraði kennsluna héðan úr Kaldaseli. Hann byrjaði svo að vinna hér heima fyrir Háskólann í Southampton í haust.

Travelling this year was below par, but we did manage to visit a few places in Iceland – Einifell, Halakot, Dalvík, Húsafell and Hótel Örk, with Iðunn’s family.

Alexandra completed her process in March and has been busy in the Reykjavík City Council all year.

Elina, Guðjón and Jónatan Edvard moved in the summer and Jónatan celebrated his first birthday in May, the guests mostly stuffed animals from the attic.

Viktor moved back home from Durham in March, completing his teaching from our home. He started working for the University in Southampton in September, working mostly from home.

Til Riga - 1-2

Takk fyrir liðin ár, hafið það sem best yfir hátíðirnar og á komandi árum!

Thank you all for lovely meories and all the best in coming years.

Iðunn & Valli

Vika með fjölskyldumeðlim í sóttkví

Yngsta „barnið“, Viktor Orri, kom heim frá Durham á Englandi síðasta föstudag og þurfti að fara í tveggja vikna sóttkví. Alli í lagi með það, við viljum gjarnan leggja okkar að mörkum til að hefta útbreiðslu veirunnar og fylgja öllum ráðleggingum og tilmælum.

Viktor - heim-2

Hann er reyndar ekki í einangrun eins og einhverjir virðast halda, einungis sóttkví og henni fylgja ákveðnar reglur varðandi umgengni á heimilinu.

Það er líka allt í lagi að hafa í huga að líkurnar á að hann sé smitaður eru hverfandi. Hann var á svæði þar sem einungis var eitt þekkt smit þegar hann lagði af stað heim (eru 14 núna), var að mestu í einangrun eftir að skólinn lokaði, ferðaðist heim utan annatíma, það var fámennt í lestum, á flugvellinum og aðeins 13 farþegar í flugvélinni á leiðinni heim. Viktor hefur þar fyrir utan verið sérstaklega áhugasamur um handþvott og passað upp á smit frá því að hann var krakki af mikilli eljusemi. Þá voru svo sem engar sérstakar breytingar á hans högum sem ollu því að hann þurfti að fara í sóttkví eftir að koma heim á föstudegi, sem var óþarfi á miðvikudegi.

Það eru ekkert sérstaklega miklar líkur á að við hin höfum smitast hér heima áður en hann kom, en það er samt margfalt líklegra en að hann hafi komið heim með smit.

En það er auðvitað aldrei hægt að vita fyrir víst – það þarf ekki nema eitt tilfelli.

Iðunn - Viktor - píanó - 2-3

Og auðvitað tökum við þetta alvarlega.

Við reynum okkar besta til að fylgja þessum leiðbeiningum, sér baðherbergi, hann kemur ekki nálægt matreiðslu, situr oftast amk tvo metra frá okkur og þegar hann þarf að nota sameiginlega sturtu er hann með sérstakt handklæði og þrífur alla fleti vel.

Við erum stöðugt að þvo okkur vel og vandlega um hendur og notum handspritt þar fyrir utan reglulega. Það er erfiðara að snerta ekki andlitið, nef, munn og augu – mig hefur aldrei klæjað eins mikið og síðustu daga – eða amk. hef ég ekki tekið sérstaklega eftir því fyrr!

En þetta er kannski ekki einfalt. Ef veiran getur lifað af einhverja daga í andrúmslofti og á hinum og þessum sameiginlegum snertiflötum [þrátt fyrir að við reynum stöðugt að þrífa]… þá eru leiðirnar óteljandi. Það er einfaldlega útilokað að vera fjögur á heimili, þó þokkalega rúmt sé, án þess að það komi upp mörg tilfelli á dag þar sem smit getur borist á milli.

Að halda tveggja metra fjarlægð þannig að við séum ekki nær hvert öðru í 15 mínútur (eða meira) er ekkert vandamál.

En að passa upp á alla hugsanlega snertifleti, þar sem helv.. veiran gæti lifað í einhverja klukkutíma, jafnvel daga… það er orðið svolítið erfitt. Við þvoum okkur vel um hendur, en svo þarf að skrúfa fyrir kranann. Og opna dyrnar. Matarílát, glös, borðfletir, fjarstýringar, kaffivélin, hurðin á ísskápnum…

Það er væntanlega mjög auðvelt að hreinlega „bilast“ á að hugsa um þetta endalaust. En þá er líka fínt að hafa í huga að við „megum nú alveg vera til“ og það má alveg hafa „heilbrigða“ skynsemi á bak við eyrað. Nota tímann til að smakka vel allt rauðvín í húsinu, gera endurteknar stikkprufur á Whisky og svo auðvitað Bjór! (og tékkneska Budvar og…)

Borg Fræbbblabjór

Það er helst að við söknum barnabarnsins, Jónatans, reyndum að spjalla í „fjarfundi“ en hann var ekki alveg að átta sig á þessu.

Í öllu falli, vonandi höfum við gert nægilega mikið til að hindra hugsanlega smit, bæði frá Viktori til okkar og ekki síður frá okkur til hans.

Viktor - Dagur - 4-4

[PS. þessi færslu er hugsum sem gagnrýni á einn eða neinn, ég styð sóttvarnalækni og hans fólk, finnst sjálfsagt að hlusta og taka mark á leiðbeiningum og hef enga þolinmæði fyrir sjálfskipuðum sóttvarnarsérfræðingum… mig langaði hins vegar aðeins að punkta hjá mér þessa upplifun]

Jólakort / Seasons greetings 2019

Jóla- og áramótakveðjur úr Kaldaseli 13

Seasons greetings from Kaldasel

Árið var nokkuð viðburðaríkt, bæði góðar og miður góðar minningar tengjast 2019.

Jónatan Edvard, fyrsta barnabarnið, fæddist í vor. Foreldrarnir, Elina og Guðjón Heiðar fóru með hann til Riga í sumar, þar sem fjölskylda Elinu býr. Skírnin var svo í byrjun ágúst og við fórum öll til að vera viðstödd og hitta fjölskyldu Jónatans Edvards þar, ógleymanleg ferð og veislan sérstaklega eftirminnileg.

Viktor Orri varði doktorsritgerðina sína í haust og við fórum með honum til Southampton þegar vörnin fór fram og notuðum tækifærið, tókum á okkur smá krók og heimsóttum ættingja Iðunnar í Wivenhoe á Englandi.

Alexandra blómstrar í borgarstarfinu, fleiri verkefni og meiri ábyrgð bættist á árinu.

Iðunn ákvað að hætta sem sjálfstætt starfandi sálfræðingur í lok ársins og færir sig yfir til Þjónustumiðstöðvar Breiðholts á nýju ári.

Valli hélt upp á sextugsafmælið í byrjun ársins.

Eitthvað af ferðalögum settu svip á árið, fyrir utan ógleymanleg ferð til Riga, Tallinn og Stokkhólms, þá brá okkur fyrir í Kaupmannahöfn, Manchester, Durham, Southampton, Wivenhoe, Munchen, Marbella, Edinborg, London og Amsterdam.

Í desember lést Sylvía, mamma Iðunnar, eftir erfiðan heilahrörnunarsjúkdóm. Þá kvöddu nokkrir góðir vinir og ættingjar á árinu.

2019 was an eventful year, both good and sad memories.

Jónatan Edvard, our first grand child, was born in May, The parents, Elina & Guðjón Heiðar took him to Riga for the summer. He got his name in early August and the whole family went to Riga for christening and celebration. A great trip and so nice to meet Jóntan’s Edvard’s family in Riga.

Viktor Orri got his PhD. in Political Science at the University of Southampton this autumn. We went with him to Southampton, taking a detour to visit some of Iðunn’s English relatives in Wivenhoe.

Iðunn will start at at new job in our local support service in the new year.

Valli celebrated his sixtieth birthday in February.

Of course some travelling marked the year, Copenhagen, Manchester, London, Marbella, Riga, Tallinn, Stockholm, Amsterdam, Munich, Wivenhoe, Southampton, Durham and Edinburg all „benefitted“ from our presence.

Alexandra is taking on more responsibility each year for the Reykjavík city council.

In December, Sylvía, Iðunn’s mother died as a result of an unknown brain disease. The year was also marked by far too many deaths of good friends and family members.

Riga - 360-1.jpg

Takk fyrir liðin ár, hafið það sem best yfir hátíðirnar og á komandi árum!

Thank you all for lovely meories and all the best in coming years.

Iðunn & Valli

Durham, Edinborg

Ferð til Viktors í Durham og svo með honum til Edinborgar.

Til Durham

Til Keflavíkur og flug 11:20 til Manchester. Lestarferðin féll niður og næstu seinkaði þannig að við náðum ekki til Durham fyrr en hálf níu.

Biðum á Radison hótelinu í bjór á meðan og þurfti að vinna fyrir ISAL á meðan.

Tékkuðum inn á fínt hótel, Townhouse, og drifum okkur á ítalska Spaghettata.

Durham - 014-1

Frábært að hitta Viktor og ekki spillti að við fengum frábæran mat, þar sem forréttadiskurinn fór ansi langt með að „fylla“ okkur, þeas. af mat.

Svo á stúdentabar að fylgjast með niðurstöðum bresku kosninganna.

Durham

Heimsóttum Viktor eftir einfaldan morgunmat á ítölskum veitingastað, kastalinn verulega flottur og dómkirkjan all svakaleg.

Fórum 325 þrep upp í turninn, sem tók aðeins (heldur betur) í…

Durham - 023-1

Svo þurfti Viktor að kenna, ég þurfti að vinna og Iðunn fór í augnháralitun.

Vinna fyrir ISAL dróst og ég náði ekki kynnisferð um kastalann, en Iðunn fór og hafði gaman af.

Þá að hitta samkennara og samstarfsfólk Viktors á einum barnum, Viktor dró okkur meðfram ánni, átti að vera betri leið – en reyndist rosalega löng og í myrkri.

En gaman að hitta félaga Viktors.

Fórum svo að borða á Court Inn, fengum einhvers konar jólamatarhlaðborð sem var svo sem allt í lagi.

Kíktum svo á bar í nágrenninu og gripum einn bjór fyrir svefninn.

Til Edinborgar

Morgunmatur á hótelinu og svo til Viktors að pakka með honum og út á lestarstöð. Lítið af leigubílum, allir nemendur bæjarins á leið heim í jólafrí.

En við náðum tímanlega til að komast að því að lestinni hafði seinkað um korter.

Fín lestarferð og að mörgu leyti mun skemmtilegra að ferðast með lest en flugvél.

Mættum til Edinborgar um hálf fjögur, tókum leigubíl upp í íbúð, sem var nokkuð fín, en í hreinræktuðu íbúðahverfi, hvorki kaffihús né sjoppa.

Fórum á jólamarkaðinn en það var eiginlega skítakuldi og við entumst ekki lengi, samt jólaglögg („mulled wine“) og pylsur og slátur.

Edinborg - 003-1

Svo áttum við borð á La Piazza, fengum frábæran mat, gripum einn bjór á veitingastaðnum við hliðina, en létum gott heita.

Edinborg

Fórum í fínan morgun mat á The Brunch Company, svo að versla.

Það var búið loka dótabúðinni sem við höfum treyst á síðustu ár, en þeir höfðu bjargað einhverju dóti og við fundum eitthvað fyrir flesta.

Fengum þær fréttir að Ásgeir hans Sæma hefði dáið um morguninn.

Sendum Viktor upp í íbúð með árangurinn eftir einn bjór og héldum svo áfram. Fundum eitthvað af fötum, meiri bjór og svo í MS og þaðan yfir í „outlet“.

Hittum svo Viktor á barnum að horfa á Arsenal tapa illa fyrir Manchester City yfir barmat.

Röltum svo yfir í gamla bæinn en lítið opið og eftir einn bjór á White Hart Inn fórum við upp í íbúðina sem var orðin verulega mikið kynnt.

Svo á Rhubarb í Prestonfield.

Edinborg - Prestonfield - 014-1

Alltaf verulega sérstakt að koma þangað, ótrúlegt umhverfi, frábær matur og settumst upp í setustofu í drykk eftir matinn.

Heim

Það var kannski smá kúnst að pakka en þetta hafðist, einfaldur morgunmatur, við Viktor fengum okkur nudd og svo yfir í hádegismat á næsta bar.

Þá var kominn tími til að fara upp á flugvöll, tók smá tíma að skrá og skila töskum, náðum samt einum bjór fyrir flug, en náðum lítið sem ekkert að bæta við gjafakaupin.

Flugið heim fínt og ég náði í lokatímann í fótboltanum.