„Vorferðin“ var til London og Búdapest. Til London með hluta af Postulahóp – þeim Alla, Halli, Lalla og Matta – og svo Bergþóru & Viktori. Til Búdapest með Alla, þar sem við hittum Iðunni.
Til London
Lalli kom í Kaldaselið um fimm leytið, Bergþóra & Viktor fórum með bílinn hennar til Toyota og við sóttum þau á leiðinni til Keflavíkur.
Ég kíkti í Saga Lounge en stoppaði stutt og greip svo tvo bjóra með þeim fyrir flug.
Við Lalli flugum til Heathrow en Bergþóra & Viktor til Gatwick.
Flugið gekk svo sem vel, jafnvel eftir smá hringsól fyrir lendingu og bið á flugbrautinni lenti vélin um 12:00 – en það var ævintýraleg löng biðröð í vegabréfaskoðun og við vorum ekki komnir upp á hótel fyrr en um hálf þrjú.
Við gripum einn bjór á bar tengdum hótelinu, VQ, svo í næsta bjór á Flying Horse, við hornið á Oxford Street og Tottenham Court Road.
En það var matur snemma, ég, Alli, Hallur, Lalli og Matti mættum hálf sex á The Ninth við Charlotte Street. Maturinn frábær, nema kannski makríllinn og svo valdi Hallur fínasta vín.
Þá til Kentish á hljómleika Paul Weller í O2 Forum með Alla og Lalla. Við hittum Bergþóru & Viktor þar, en þau höfðu fengið fínasta mat á Delicious by Franco. Eftir smá bras með miðana komumst við inn og náðum nokkrum lögum með hljómsveitinni sem var á undan, en ég get ekki munað hvað heitir.

Hljómleikarnir ollu mér (og Viktori) talsverðum vonbrigðum framan af. Rokk hljómsveit með tvo trommara er nú hálf hallærislegt. Og þetta var svona hálfgert „iðnaðarrokk“, lítið spennandi lög, Paul Weller virkaði jafnvel hálf áhugalaus, svona framan af.
En síðasti hálftíminn var fínn, Start!, Have You Ever Had It Blue, Shout To The Top, That’s Entertainment og Town Called Malice björguðu miklu.
Nokkrar upptökur hér.
Við Alli fórum svo að hitta Hall og Matta á írskum bar, Maxim, virtist vera fín stemming en lokaði fljótlega.
Við ákváðum að prófa Grosvenor Casino-ið sem var tengt hótelinu, St. Giles, en það var nú með því aumara sem við höfum séð. Enginn póker, prófaði nokkur Blackjack og rúllettu en eiginlega engan áhuga og tapaði fljótt því litla sem ég var til í að leggja undir.
Laugardagur í London
Vaknaði þokkalega snemma, fór í einfaldan morgunmat á uppáhaldskaffistaðinn í Soho, Bar Italia, við Frith Street.
Svo til Charlton með hópnum í Uber, fundum bar með fullt af bjór, Arsenal – Manchester United í sjónvarpinu, grilli í garðinum.. en Viktor fór á Emirates að horfa á leikinn.
Ég fór með Alla, Hall, Lalla, Matta á Charlton – Shrewsbury. Þar var fínasta stemming þó leikurinn væri C deildar leikur og ekkert undir hjá liðunum. Markvörður Shrewsbury fékk eitthvað drasl í sig frá áhorfendum og leikurinn var stopp nokkuð lengi. Charlton skoraði seinna markið í kjölfarið á meðan ég var að leita að Uber til að komast til baka.

Það var talsverður viðbúnaður hjá lögreglunni eftir leikinn, en svo sem engin læti í neinum.
Við fórum yfir í miðborgina, fórum full snemma úr Uber og duttum inn á stóran og stórskemmtilegan bar, Porterhouse, einn bjór þar, svo aðeins að taka rólega fyrir kvöldið, kíkti í Whisky / vindlabúðina áður en ég komst upp á hótel – en var orðinn of seinn í „lagningu“.
En svo á Benihana, mjög skemmtilegur kokkur og frábær matur, Lalli eitthvað lystarlaus, enda lyktin ekki skemmtileg.
Fundum svo kokteilbar í Soho, Chotto Matte, ég fékk einhvern undarlegan þýskt gin kokteil, en létum það nægja.
Svo upp á hótel og beint á barinn, Lalli sagði þetta gott, Matti tók pásu og kom niður en fór svo að sofa.
Ég fór með Alla og Halli á Grosvenor Casino, lagði 100 pund undir og kom út með 316 pund. Hallur setti 20 pund á einhverja rúllettuvél og kom út með 40 pund. Alla gekk ekki eins vel, en ég náði að sannfæra hann um að hætta áður en hann tapaði öllu á að fara ‘all-in’ á eitthvað!
Vorum komnir heim um fjögur.
Sunnudagur í London, kvöld í Búdapest
Þáðum seint-tékk-út og svo fór ég með Hall í morgunmat á Lavelle eftir að litli ítalski staðurinn sem átti að vera rólegur og alls ekki þétt setinn, reyndist vera hátt í hundrað manna þéttsetinn staður og vonlaust að fá borð. Bergþóra & Viktor kíktu til okkar, en Hallur dreif sig að hitta hina á Flying Horse.
Við kláruðum einn bjór á Flying Horse, svo hófst smá leit að bjórgarði sem gekk hægt, ýmist lokaðir eða fullsetnir. Komum okkur fyrir á Brasserie Max, einn bjór og ristað brauð með ansjósum.
Ég fór að leita að Lowlander barnum með belgísku bjórunum, fann hann og fékk mér Westmalle, en hinir fóru á hótelbarinn að horfa á Liverpool – Everton.
Það kom reyndar í ljós að hótelbarinn var ekki opinn og þeir höfðu farið á Rising Sun ofar á Tottenham Court Road.
Bergþóra & Viktor komu svo til okkar og við tókum tvo Uber upp á Heathrow þar sem leiðir skildu, við Alli fórum til Budapest, en hin fóru heim.

Innritunin gekk svo sem þokkalega hratt en svo lenti ég í handahófs úrtaki í vopnaleitinni og einhver gaur á undan mér með endalausa hluti sem mátti ekki taka með í farangur.
Þokkalegt flug og bíll í boði tannlæknastofunnar upp á hótel, kannski um hálf tvö.
Vélinni sem Iðunn kom með seinkaði nokkuð, en ég hélt mér vakandi til rúmlega fjögur þegar hún mætti. Einn bjór og bók á kindlinum.
Fyrsti dagur í Búdapest, skoðanir
Við mættum í skoðanir og höfðum svo daginn fyrir okkur.
Alli mælti með veitingastaðnum Spago, fengum heldur betur frábæran mat, að einhverju leyti tengdur einhverju hóteli.
Hreinsun og bað
Byrjaði í smá tannholdshreinsun, eina aðgerðin mín – fyrir hádegi.
Fórum svo í stóra baðhúsið í Búdapest, mjög skemmtilegt, fullt af möguleikum, fórum í gufu og bjórbað.
Ákváðum að sleppa því að fara upp á hótel og skoðuðum bjór bar og kokteil bar.
Svo á Comme Chez Soi, frábær matur á skemmtilegum litlum stað, þar sem kokkar og þjónar voru næstum jafn margir og gestirnir.
Það var borið í okkur nóg af Grappa, Limoncello og Tokai eftir matinn.
Við fórum á einn bar í viðbót, ansi drukkin, þar sem Iðunn og Alli ræddu mömmu hans í þaula.
Iðunn í aðgerð, flakk og verslunarmiðstöð
Iðunn áfram í aðgerð, ég fór á smá bæjarrölt, aðallega til að finna bakpokann hennar Iðunnar sem við höfðum gleymt kvöldið áður.
Það tók reyndar nokkurn tíma og kallaði á mikinn bjór og eitt gott (en ruglingslegt nudd) en hafðist á endanum, þeas. að finna bakpokann.
Svo í Arena – verslunarmiðstöðina, fann ekki mikið en eitthvað og labbaði svo heim á hótel í rigningunni.
Við borðuðum á hótelinu, horfðum á Liverpool – Villareal á hótelinu með Alla og Eyþóri, bridge-spilara.
Rólegur dagur í Búdapest
Iðunn mætti í fyrstu aðgerðina, ég reyndi aðeins að vinna, lagði af stað niður í bæ, fékk símtal frá ISAL og aftur til baka.
Það var kominn tími á heimferð hjá Alli, kvaddi hann amk. tvisvar áður en ég fór aftur niður í bæ og greip franska ristingu, fór á smá búðarráð, freyðivín á einu torginu, kokteill á Sky-Bar og svo upp á hótel.
Við fundum frábæran ítalskan stað um kvöldið á Ritz-Carlton, Ottimo, frábær matur, reykt sverðfisk carpaccio, Iðunn venjulegan, svo pasta.. en snemma að sofa.

Heim frá Búdapest, gegnum London
Morgunmatur og svo upp á flugvöll í óratíma bið eftir innritun, öryggisleitin tók hins vegar enga stund og svo tók við bið eftir vélinni sem seinkaði um þrjú korter.
Fékk nokkra tíma í London og vegabréfaskoðun gekk hratt þannig að ég skrölti niður í bæ, bjór á The Clachan, reykt gæsabringa á Dehesa, dumplings á kínverskum stað í Chinatown, Lotus Garden, og svo upp á flugvöll.
Þar voru allir veitingastaðir lokaðir, fann skyndibita stað og hamborgara, svo annan sem var opinn, líka hamborgari og svo heim.