Heim frá Manchester

Það er í rauninni fínn tími að fara í flug um hádegi.. vakna í rólegheitum, pakka, fara í morgunmat og svo út á flugvöll. Hefði verið enn betra ef við Alli hefðum ekki verið á Casino til hálf-fimm um morguninn. En svo voru auðvitað smá sárabætur að við unnum samtals eitthvað yfir fimm hundruð pund.

Flugið fínt, aldrei þessu vant nægilega rými fyrir fætur og náði aðeins að slaka á..

Leigubílstjórinn okkar var ekki alveg með á nótunum, fór með okkur á rangan „terminal“ þrátt fyrir að hafa skrifað þann rétt í lófann. Hann var alveg ákveðinn í því að íslenska ríkisstjórnin borgaði erlendum karlmönnum fimm þúsund pund fyrir að koma og giftast íslenskum konum – og að hver mætti giftast fjórum.

Við reyndum að segja honum að þetta væri kannski ekki alveg nákvæmt, stæðist í rauninni ekki.. en hann hafði séð þetta á Facebook – og það var síðasta orðið fyrir hans smekk.

En virkilega vel heppnuð ferð hjá okkur Iðunni með Alla og Matta.

Og svo er alltaf gaman að koma heim.

Verslunardagur í Manchester

Við höfðum sett smá búðarráp á dagskrá á mánudeginum og eftir morgunmat fórum við í búðir. Okkur tókst að kaupa fullt af gjöfum fyrir krakkana og ég fann fínustu úlpu. Kíktum með pakkana inn á hótel og hittum Matta í síðasta bjór fyrir flug á bar við hliðina á hótelinu. Meira búðarráp, duttum svo í rauðvín og osta og pylsur á Veeno, skemmtilegan ítalskan bar. Ég skilaði aftur pökkum inn á hótel og þaðan í Whisky búðina að kaupa hinar ýmsu smáflöskur.

Einn bjór og svo í fyrsta flokks tælenskt nudd áður en við fórum á San Carlo Cicchetti, einhvers konar forréttabar með frábærum ítölskum mat og fínni þjónustu en umhverfið minnir kannski meira á mötuneyti.

mancesther-san-carlos-3

Iðunn var þreytt og hafði vit á að fara að sofa á meðan við Alli fórum í Casino.. það gekki alveg þokkaleg og við komum einhverjum hundruðum punda fjáðari til baka. Ég hætti reyndar snemma enda kominn í góðan plús, en beið eftir Alla, og á endanum komum við ekki heim á hótel fyrr en um hálf fimm.

Leikdagur í Manchester

Tókum daginn ekkert rosalega snemma en eftir fínan morgunmat drifum við Iðunn okkur á flakk, kaffi og svo Sinclair Oyster Bar og þaðan yfir á Mitre að horfa á fyrri hálfleik Arsenal – Bournemouth.

Við Alli fórum svo á Old Trafford að sjá Manchester United – West Ham, tók ansi langan tíma að komast á völlinn og sækja miðana, var orðinn smeykur um að það yrði búið að loka. En okkur leiddist ekkert að sjá West Ham stela stigi, þó ósanngjarnt væri og við færum hljótt með ánægjuna.

Risavöllur og yfir sjötíu og fimm þúsund manns, en frekar lítil stemming.

manchester-old-trafford-2

Fyrir matinn fengum við okkur fordrykk á Cloud 23 á hótelinu, á 23. hæð, skemmtilegur bar, en drykkirnir engan veginn gefnir. Svo á Teppanyaki Chinatown um kvöldið og fengum fínasta mat þó hann væri talsvert langt frá staðnum í Amsterdam, en þetta er alltaf svolítið sérstök stemming. Whisky barinn var lokaður og við vorum hvort sem er orðin frekar dösuð og létum bjór á hótelinu nægja.

Til Manchester

Andrés skutlaði okkur og Alla til Keflavíkur í flug til Manchester. Náði ekki að sofa mikið, Guðjón var að fara í flug tveimur tímum fyrr, hafði tínt skjali vegna hótels, fann hvergi og vakti mig til að prenta út nýtt og skrifa undir. Það kom þó ekki til þess, Andrés fann skjalið undir smjörinu inni í ísskáp. En þar var sá litli svefn sem ég hafði gert ráð fyrir farinn að mestu..

En fínt flug til Manchester, smá hringl vegna þoku en vorum kominn inn á hótel fyrir tólf. Ég hafði séð að það væru reykherbergi á hótelinu, spurði um þau, en þá kom í ljós að það mátti reykja inni á nokkrum herbergjum. Iðunn afþakkaði.. en þegar við vorum komin upp fór hún að velta fyrir hvers vegna hún ætti að afþakka að fá að reykja inni á herbergi.. Þannig að ég fór niður og fékk herbergi sem mátti reykja í. Kannski mistök, því það var ekki hægt að opna glugga og ansi stæk reykjarfýla í herberginu.

En Matti kom til okkar og fékk að geyma töskurnar á meðan þeir Alli biðu eftir að komast inn í íbúðina. Fórum í hádegismat á Dmitri’s, einn af uppáhaldsstöðum okkar í Manchester.. Frábær matur eins og alltaf.

mancesther-dmitri-1

Þaðan á jólamarkaðinn, Alli þurfti reyndar að sinna vinnu í tvo tíma en hitti okkur svo. Skoðuðum markaðinn, fengum okkur bjór á Waterhouse og hitað kryddað rauðvín með líkjör á jólamarkaðinum. Létum samt vera að kaupa osta, kæfur eða pylsur en gripum einn jólakökulíkjör.

manchester-jolamarkadur-2

Við áttum svo miða á Comedy Store klukkan 19:00, alltaf gaman að uppistandi. Einn þeirra gerði sér mat úr því að nokkrir Íslendingar væru í salnum, en Alli var ekki að kveikja á því að einn skemmtikrafturinn var blindur.

Við áttum svo borð á steikarstaðnum Fazenda.. mjög skemmtileg uppsetning, forréttir og meðlæti á hlaðborði, talsvert betra en það hljómar, og síðan komu þjónarnir með alls kyns kjötrétti á teini og skáru fyrir okkur eftir óskum.

Við ákváðum að reyna að ná einum drykk fyrir svefninn en fengum ekki að fara inn á þann bar sem fékk bestu meðmælin í nágrenninu. Iðunn var orðin þreytt og fór að sofa, en Matti fylgdi okkur á stórskemmtilegan Whisky bar rétt hjá hótelinu.. þó við hefðum labbað ansi langa leið til að finna.

Matarklúbbur

Enn einn matarklúbbshittingurinn, í þetta sinn hjá Gulla & Kristínu, ásamt dætrum og einum vin, og svo Bryndís & Mikael. Við mættum með laxaforrétt og eplalíkjör og freyðivín og rauðvín og… Aðalrétturinn var alvöru nautalund með frábærum kartöflum, sveppum og „brokkóli“.. Og eftirrétturinn skyr/ostakaka (ef ég man rétt).

En eitthvað gekk illa að koma plötuspilaranum í samband þannig að vinyl stemmingin fór aldrei af stað.

Póker í Kaldaseli

Spiluðum fjögur mót í Kaldaselspókermótaröðinni.. Árni & Gunna mættu í fyrsta sinn. Óskar hefði fengið Royal Straight Flush en Alli hafði haft rænu á að pakka þannig að hún taldi ekki.

En svo eru þetta alveg eins að að verða bjórsmökkunarkvöld, mikið af skemmtilegum bjórum sem komu til tals og smökkunar!

 

Árshátíð

Við misstum af árshátíð Staka, sem var með Símanum í vor, en nú er Staki hluti af Deloitte og árshátíð Deloitte í Hörpunni í kvöld.

Þorleifur & Kristrún buðu í forhitting yfir fótbolta, bjór, brauði og víni – nokkuð vel heppnað þó leikurinn hefði mátt fara betur.

En Árshátíðin var sem sagt í Silfurbergi í Hörpu, frábær matur, fín stemming, fullt af skemmtilegu fólki, en skemmtiatriðin fóru eitthvað fram hjá mér.

arshatid

Karate hittingur

Megnið af „eldra fólkinu“ úr karatedeild Breiðabliks kíkti til okkar í bjór og smá vegis Whisky í kvöld.. Einar & Guðrún voru í bænum og kíktu. Eiginlega bara nokkuð vel heppnað kvöld og náðum loforðum frá einhverjum að fara að mæta aftur.karate-hittingur-1

Lokadagur Airwaves

Aftur varð eitthvað minna úr flakki en bestu áform höfðu gert ráð fyrir. Þurfti auðvitað að byrja að horfa á Arsenal-Tottenham.. og svo komst ég bara ekki af stað, langaði að sjá Heiðu og Svavar Knút og fleiri.

Komst svo loksins af stað og mætti í Iðnó þar sem norska hljómsveitin Make Dreams Concrete náði engan veginn að heilla mig. Finnska hljómsveitin Pertti Kurikan Nimipäivät var hins vegar ansi sérstök, sennilega eina hljómsveitin sem ég hef hlustað á sem spilar styttri lög en við Fræbbblar. Örstutt, einföld, keimlík lög og kannski frekar ómerkileg í sjálfu sér, en það er samt eitthvað heillandi við þá.

Næst yfir á BarAnanas þar sem ég náði í endann á Lefty Hooks & The Right Thingz, með „Gnúsa“ innanborðs og svo Amabadama, mjög skemmtileg – og nýja efnið virkar mjög vel… ekki leiðinlegt að heyra að gamli skólabróðirinn Jón Stefánsson, á einn textann.

Jæja, svo kíkti ég með Jonna og Skúla á PJ Harvey í Valshöllinni. Mjög flottir hljómleikar og sé ekki eftir að hafa farið. Sáum reyndar Mammút á undan og þau voru talsvert miklu betri en þegar ég sá þau síðast (reyrndar fyrir einhverjum árum), ekki kannski alveg mín deild en þeim á örugglega eftir að ganga vel.

En, að PJ Harvey, mjög flottir hljómleikar, duttu kannski aðeins niður um tíma, en virkilega góðir hljómleikar, ég segi ekki á topp tíu, enda fáránlegt að raða hljómleikum upp í ímyndaða gæðaröð.. amk vel yfir meðallagi. Hljómsveitin reyndar fjölmennari en ég átti von á, tíu manns, tveir trommarar, þrír að spila á hljómborð, fjórir á gítar, einn á bassa, nokkrir á saxófón…

airwaves-sunnudagur-4

Ég hef reyndar verið að hljómleikum þar sem flytjandi spjallar meira við áhorfendur, en kannski hafði hún ekkert að segja.