Póker..

Frekar rólegt kvöld, Addi og Gunni sóttu pizzur og við létum okkur leiðast yfir frekar dapri Bleika Pardusmynd á Rúv.. og svo horfðu þeir á Judge Dredd..

Iðunn var í afmæli og við Alli ákváðum svo að kíkja í póker – sem gekk ekki vel að þessu sinni – sem var svo sem allt í lagi, ekki háar upphæðir, gaman að spila og hefur oftast gengið vel.

Októberfestarbjórsmökkun

Við gripum í bjórsmökkun eftir vinnu í dag, nokkurs konar Októberfestar smökkun.

Nokkuð sáttur við „Pumpkin Porter“ en minna hrifinn af öðrum sem við smökkuðum. Pool og pizza og svo smá póker, sem var gaman að vinna.

Við Fribbi fórum svo með Jóni, hljómsveitarfélaga hans, á Dillon þar sem Kristján (hjá Símanum) var að spila með Fox Train Safari .. og síðan Dali. Ólíkar og áhugaverðar hljómsveitir… enn og aftur frábært að sjá fjölbreytta lifandi tónlist á litlum bar.

Þaðan lá leiðin svo á Ölstofuna í smá Brio drykkju og vindla reykingar – þar hittum við meðal annars Óla Þ. Harðar, Jón Stefánsson, Bergljótu, Áslaugu og fleiri (sem ég get ómögulega munað). Iðunn og Dagbjörg mættu svo þegar á leið.

Æfing

Fyrsta Fræbbblaæfing í nokkurn tíma, Rikki reyndar í San Francisco, en erum að fara að spila á Græna hattinum á Akureyri í næstu viku.. Frekar stirðir framan af, en eitthvað liprari þegar leið á..

Svo í karate um kvöldið.. nánast of þreyttur til að nenna, en sáttur eftir á að hafa mætt..

Apótek og barrölt

Neil bauð okkur á Apóktekið, svona til að grípa okkur aðeins utan vinnu áður en hann fór út. Kíktum í bjórgarðinn fyrir mat og ég er enn að reyna að finna einhverja lógík í verðlagningunni. Millistór bjór á 750 eða 1.600 vegna þess að hann er örlítið sterkari. Og stærri útgáfan af þeim dýrari á 1.400! Ég spurði en svörin voru enn skrýtnari.

Fínn matur á Apótekinu, en samt ekki alveg í sama klassa og fyrir tveimur vikum.. bleikjan í forrétt var fín en rib-eye (30 eða 60 daga) fínt að smakka, en stóð einhvern veginn ekki sem heill réttur. Þjónustan fyrsta flokks framan af en svo var eins og við gleymumst.

Fréttum af mikilfenglegri norðurljósa sýningu en hún var búin rétt þegar við komum út.. ferðamaður sýndi okkur ljósmyndir og við vorum hálfpartinn að vonast til að þau kæmu aftur. Fórum á Ský barinn, skemmtilegur bar, en bjórúrvalið frekar takmarkað, þaðan á Mikkeler, þar sem bjórúrvalið er frábært, en verðið aftur frekar fráhrindandi.

Lokabjórinn á Ölstofunni.. en mér skilst að Gummi hafi dregið Neil í hákarl eftir það…

Dr. Gunni fimmtugur – Rás 2

Við Helgi mættum í upptöku á kynningum á lögunum á „Í hnotskurn“ fyrir plötu vikunnar á Rás 2.. sem verður í næstu viku.

Seinni partinn kíkti ég svo á hljómleika Dr. Gunna og félaga í Lucky Records… en doktorinn varð einmitt fimmtugur í dag. Topp hljómsveit og hefði alveg þegið fleiri lög.

Ég þarf væntanlega ekki að rekja hvernig við tengjumst – og yrði hvort sem er allt of langt mál ef ég þyrfti þess.

En fyrir utan að halda á lofti popp fróðleik árum saman þá er Gunni auðvitað einn flottasti tónlistarmaður okkar. Fyrir utan mörg sígild rokklög þá á hann fullt af áheyrilegum popplögum (ok, mér dettur bara ekki í hug betri lýsing). Og ekki spillir að lögin hans hafa eitthvert séreinkenni, eru ekki lík nokkrum öðrum lögum.

Dr. Gunni

Bjór og fleira

Eftir nokkuð stífa vinnutörn ákváðum við Neil að fara og fá okkur bjór. Iðunn kom með og við byrjuðum á Forréttabarnum, fínasti matur þar að venju og þjónustan fyrsta flokks – og ekki spillir verðið.

Þaðan á Skúla Craft bar að smakka nokkra óvenjulega bjóra og af Skúla yfir á MicroBar.. Frábært úrval á báðum stöðum en verðið er eiginlega full hátt fyrir minn smekk og ekki til að sitja lengi að sumbli.

Svo yfir á Húrra þar sem Dimma var að spila, náðum síðustu lögunum, ekki kannski alveg mín tónlist, en mikið rosalega gera þeir þetta vel, þannig að við skemmtum okkur vel.

Upp á Gaukinn fyrir lokabjór kvöldsins og reyndar þurftum við að kynna Bæjarins bestu fyrir Neil.

En sennilega hefði nú verið gáfulegra að fara eitthvað fyrr heim.