Airwaves

Airwaves helgin er nú ein skemmtilegasta helgi ársins.. Í þetta skiptið spiluðum við Fræbbblar tvisvar, sem hluti af aðaldagskránni og sem hluti af aukadagskrá („afsíðis“?) (‘off-venue’).

Við spiluðum á aðaldagskránni á Hard Rock á fimmtudagskvöldinu, gekk eiginlega mjög vel, Assi rétt náði heim í tæka tíð eftir 18 tíma ferðalag frá Suður-Afríku, sem tafðist um 3 tíma… hann náði samt að fá flug heim og rétt náði á Hard Rock. Spilamennskan gekk mjög vel þar til Helgi sleit streng, hafði ekki skipt um strengi og var ekki með varabassa, og ef Assi hafði ekki verið á hlaupum hefði hann kannski tekið bassann hans Gumma. Iðunn spilaði á ukulele í nýja laginu, „45“ og söng „Seasons In The Sun“ á meðan Helgi skipti um streng. En nýju lögin gengu mjög vel og að mestu leyti mjög vel heppnaðir hljómleikar. Einhvern veginn náði ég ekki almennilega að fylgjast með öðrum… aðeins of mikið að hugsa um okkar efni áður en við spilum og aðeins of „tómur“ eftir að við spilum.

Á föstudeginum sáum við 200.000 Naglbíta, Maus og Billy Bragg, sem var toppurinn á kvöldinu… Fríkirkjan er skrýtinn hljómleikastaður, fínn hljómur en ömurleg sæti (nema fyrir þá sem kunna að meta EasyJet, Wow, RyanAir) og lítið „útsýni“, sem var nú svo sem ekki aðalatriðið þarna. En svo á Gaukinn að sjá Tappa Tíkarrass og lukum kvöldinu í Gamla bíói á Arab Strap, sem var svo fín hljómsveit, flottur hljómur og nýttu vel alla sem tóku þátt og voru á sviði, en kannski ekkert rosalega spennandi, þeas. fínt að hlusta, en ég efast um að ég fari að kaupa plöturnar þeirra.

Á laugardeginum vorum við of sein að fá miða á Fleet Foxes, frekar fúlt. En við náðum GDRN í Landsbankanum, restinni af Hatari á Bryggjunni, Valdimar að mestu á sama stað, á Boston var Gunnar Jónsson Collider og í Mál og menningu voru Suð. Síðast kíktum við á Dr. Gunna á Gauknum, sem var nú eiginlega toppurinn á Airwaves, ásamt kannski Billy Bragg á sömu nótum. Við heyrðum svo að biðröðin á Mammút væri allt of löng, vorum orðin þreytt, Iðunn hálf lasin, þannig að við létum þetta gott heita.

Sunnudagurinn hófst á að halda upp á að mamma hefði orðið 100 ára, svo fórum við á Dillon að gera klárt að spila. Eitthvað hafði gengið brösulega að koma spilamennskunni af stað og til dæmis var enginn hljóðmaður hjá fyrstu tveimur atriðunum. Hljóðmaðurinn var kominn þegar við mættum en við komumst ekki að fyrr en fimm mínútum eftir áætlaðan tíma og svo tók eitthvað langan tíma að stilla upp, þannig að við slepptum nokkrum lögum, enda frekar erfiðar aðstæður, hljóðið á sviðinu engan veginn gott og gítarmagnararnir henta okkur nú ekki beinlínis. En það var ansi mikill hiti og raki og ég var orðinn vel sveittur eftir spilamennskuna… þurfti svo að fara með gítarana í grenjandi rigningu og rok í fangið nokkuð langa leið í bílinn… orðinn hundblautur að innan og utan. Þannig að við létum þetta gott heita, þó það hafi nú verið dagskrá að kíkja amk. á Gnúsa.

Ætli vel heppnuð spilamennska á Hard Rock, Suð í M&M, Billy Bragg í Fríkirkjunni og Dr. Gunni á Gauknum og snúnar aðstæður á Dillon summeri nú samt ekki upp stemminguna yfir helgina.