Vorhátíð BUGL

Guðjón Heiðar 32 ára í dag.. þrjátíu og tveggja ára!!

En við mættum á vorhátíð Bugl í Víkings heimilinu, fyrst reyndar í upphitum til Guðrúnar Bryndísar í Kópavoginum, flottar veitingar hjá Guðrúnu en maturinn um kvöldið kannski full mikið af þurru og þykku brauði.

En hátíðin var mjög skemmtileg, enda skemmtilegt fólk og vel heppnuð dagskrá.

En Iðunn „galdraði“ vinning í lokin, hvort sem við náum að sækja hann eða ekki.

Bugl - vorhátíð - 4-1

Sigur í Postuladeildinni!

Fyrst ekkert varð af vinnufundum síðasta mánudagskvöld… þannig að þó heilsan væri ekki góð þá var frábært að ná lokakvöldi postulaboltans. Ég var með lítið forskot á Sævar en gaf mér svo sem ekki mikla möguleika, þreyttur og með strengi og eiginlega hálfaumur, kannski bylta í „landsleiknum“ við Rússana í Tallinn hafi nú ekki hjálpað. En það var ekki hægt að sleppa síðasta kvöldinu. Jafnvel þó ég hefði ekki mætt á venjulegu kvöldi, þá var hvorki hægt að horfa á aðgerðalaus á meðan Sævar hirti titilinn (einu sinni enn) og heldur ekki hægt að fá meðaltal og vinna án þess að spila.

En kvöld var sérstakt, eftir smá upphitun var ég klár í leik, ég var með Gústa, Magga og Tomma í liði og þrátt fyrir að tapa fyrsta leiknum unnum við fimm og töpuðum einum í viðbót. Sævars lið vann okkur einu sinni og þriðja liðið í öllum tilfellum.

Í síðasta leiknum vorum við að spila við lið Sævars. Okkur var tilkynnt af bekknum að mitt lið þyrfti að vinna til að ég næði titlinum, við vorum meira með boltann en gekk illa að skapa góð færi, Sævar og félagar sköpuðu sér svo góð færi en náðu ekki að skora. Undir blálokin náðum við boltanum í vörninni, ég (held ég) kom boltanum á Tomma sem átti eitraða sendingu á Magga sem afgreiddi boltann í netið. Síðast spyrna leiksins, síðasta spyrna kvöldsins og síðasta spyrna tímabilsins. Og tryggði mér titilinn.

Reyndar kom í ljós að „bekkurinn“ hafði reiknað vitlaust (eða ekki lesið ein úrslitin rétt), mér hefði dugað jafntefli.. það hefði óneitanlega verið fúlt að tapa leiknum við að rembast við að skora og fá á sig skyndisókn og tapa um leið titlinum.

En… þetta hafðist, annar postulatitillinn frá upphafi.

mark-2017-04-03

Heim frá Stokkhólmi

Ég fékk svo fínasta morgunmat á grillinu á skipinu sem tók land um 10:15.

Þaðan upp á Arlanda og í flug 14:30.

Ekki kom til að ég þyrfti að svara spurningum af vinnufundi í flugvélinni, ekki þurfti ég að mæta á vinnufund strax eftir að ég lenti og svo datt líka upp fyrir að hitta tilvonandi viðskiptavini um kvöldið.

Undarlegt samt að fá skilaboð í flugi (með WiFi tengingu) og fæ skilaboð frá Google, „Heavy traffic in your area“.

En frábært að vera kominn heim, Iðunn rúllaði til Keflavíkur og beið eftir mér á meðan ég beið eftir töskunum í nokkuð góða stund.

Tallinn

Flestir fóru snemma af stað heim, en ég hafði ákveðið að taka ferjuna til Stokkhólms (ég missti af ferðinni í ferðinni til Tallinn) og hafði daginn til að dóla mér í Tallinn.

Sem var fínt, ég svaf út, fór í morgunmat og rölti á milli bara.. einn stórskemmtilegur bar í kastala, III Drakoon, þar sem drykkir og matur voru afgreiddir í leirkrukkum og skálum og til að fá meðlæti með pylsunum sem ég keypti þurfti ég að veiða súrsaða gúrku úr tunnu.

Tallinn - kastalabar - 1

Ég kíkti líka við á „Lounge“ sem bauð upp á vindla og Whisky en fór svo í ferjuna til Stokkhólms.

Þar horfði ég á undanúrslitaleik Arsenal og Manchester City í enska bikarnum með heitum City aðdánda frá Svíþjóð.

Ég pantaði eitthvað dýrari mat í skipinu sem var engan veginn að standa undir verði. Vindlaherbergið var ekki í boði, það er víst í „hinu“ skipinu þeirra.

En þetta var svona hefðbundið skip, fullt af börum og skemmtiatriðum og lifandi tónlist úr öllum áttum.. en engin þeirra kannski mikið fyrir minn smekk. Að mörgu leyti fínt skip, en það hefði óneitanlega verið skemmtilegra að vera ekki einn á ferð.. þannig að ég fór til þess að gera snemma að sofa.

Fótbolti í Tallinn

Pétur hafði stillt upp leik við samstarfsfélaga í Tallinn á gervigrasvelli. Aðal tengiliðurinn var reyndar ekki sterkur á svellinu þegar kom að drykkju og hafði dottið illa í það kvöldið áður og missti af leiknum. Félagi hans smalaði saman í lið, en sem betur fer hafði leiknum verið frestað til 12:00 (í stað 10:00). En það var kalt, slydda og svo blés aðeins – þannig að það var ákveðið að spila á stórum velli, 12 í hvoru liði og óneitanlega svolítið sérstakt.

Við vorum smeykir um að klára úthaldið á fyrstu fimm mínútunum, en einhvern veginn duttum við í ágætis gír og spiluðum í rúman klukkutíma og töpuðum 4-5… læt pistil frá Sævari fylgja:

Leikurinn var mikil skemmtun frá upphafi til enda. Mikið var um marktækifæri hjá báðum liðum en það voru Rússarnir sem skoruðu fyrsta markið. Íslendingar jöfnuðum fljótlega með marki frá Sævari eftir frábæra stoðsendingu frá Lalla. Við komumst svo yfir 1:2 eftir gott mark frá Tomma. Síðan kom frekar slæmur kafli hjá okkur þar sem Rússarnir skoruðu þrjú mörk í röð 4:2. En Íslendingarnir voru ekki af baki dottnir og tókst jafna með tveimur mörkum frá Tomma þar sem Maggi átti eitraða stoðsendingu í þriðja markinu 4:4. Hófst þá æsispennandi lokakafli þar sem bæði lið sköpuðu sér mörg dauðafæri. Valli bjargaði meðal annars á línunni í tvígang. Hinumegin brenndi Sævar af víti eftir að einn rússinn hafði viljandi stöðvað boltann með hendi. Tommi brenndi svo af dauðafæri tvo metra frá opnu marki. Á síðustu mínútunni voru það svo rússarnir sem áttu skot rétt innan vítateigs sem fór í varnarmann og lak boltinn í markið, nánast óverjandi fyrir Alla sem skutlaði sér á eftir honum. Lokatölur 5:4 í æsispennandi leik þar sem sigurinn hefði hæglega getað fallið báðu megin. Dómari leiksins stóð sig ágætlega ef frá er talin fáránleg aukasyrna sem dæmd var á Braga þar hann fékk spark í andlitið um leið og hann féll til jarðar. Aukaspyrnan hefði augljóslega átt að dæmast Braga í vil. Það hefði sennilega skipt sköpum þar sem rússarnir skoruðu sitt þriðja mark fljótlega eftir þetta atvik.
Það er óhætt að segja að nánast allir leikmenn íslenska liðsins hafi spilað langt yfir getu.
Maður leikins: Bragi Ólafsson

En þetta tók svolítið í óvana vöðva og liði, sem betur fer var ágætis „spa“ á hótelinu og við fótum í heita potta, gufu og nudd.

Það var svo engin dagskrá fyrr en kom að leik Chelsea og Tottenham í undanúrslitum enska bikarsins, sem var 19:15 að staðartíma.

Eftir leikinn var haldið á Olde Hansa í stórskemmtilegan kvöldmat með miðaldasniði. Réttirnir voru auðvitað mis góðir, en flestir í lagi og sumir verulega vel heppnaðir.. Elg hakkið ekkert sérstakt, pylsur úr elg og bjarnarkjöti, amk mjög sérstakar, saltað kjöt með piparrótarsósu og kornhænueggjum frábær, sultaður laukur, pate og brauð líka mjög skemmtileg.

En flestir á flug snemma eða eldsnemma næsta morgun þannig að við létum gott heita eftir matinn.. ég var ansi þreyttur og vel sáttur við að fara snemma að sofa.

Til Tallinn, en Iðunn heim

Morgunmaturinn var frá klukkan 7:00 og ég þurfti að leggja af stað 7:15 upp á flugvöll. En í takt við annað á hótelinu þá var morgunmaturinn frábær og synd að þurfa að gleypa þetta í sig. En ég rauk og skildi Iðunni eftir.. Mourinho mætti í morgunmatinn þegar hún var að fara – en hann var víst ekkert að ónáða hana eða væla utan í henni 🙂

En Iðunn fór heim seinni partinn með tvær töskur og gekk vel.. á meðan ég hélt áfram að skemmta mér!

Ég hafði keypt smá bónus á flugið til Tallinn, ma. einhvers konar „priority lounge“, gallinn var bara að SAS var ekki með neinni „lounge“ í Manchester. En ég fékk að fara eitthvað hraðar í gegn um öryggishliðið.

En þessu fylgdi krabbasalat og freyðivín – og svo einn Mikkeller IPA rétt fyrir lendingu! Og aðstaðan var svo í góðu lagi í Stokkhólmi og hentaði ágætlega fyrir tvo vinnufundi í tölvu og síma. flugið til Tallinn var fínt.

Fótboltahópurinn, Postularnir, voru komnir til Tallinn og ég hitti þá á hótelinu rétt fyrir átta. Matur á hótel St. Petersburg, verulega flottur matur, sem kostaði til þess að gera lítið, ég held að ég hafi talið sex eða sjö rétti, ýmist með hvítvíni og rauðvíni. Við skáluðum aðeins fyrir árangri vetrarins og fórum svo á rölt.

Tallinn - kvöldmatur

Samstarfskona Péturs, sem var með okkur, vildi endilega draga okkur á einhver diskótek og var ekki alveg að kveikja á því að þetta var ekki óskadagskrá til-þess-að-gera eldri karlmanna. Við enduðum á einhverju diskótekinu sem var þó með smá reykingaafdrep þar sem var ekki alveg vonlaust að tala saman, en einhvern veginn varð þetta til að hópurinn dreifðist.

Ég fór með Alla og Magga á Casino.. ég entist ekki lengi og fór heim með 15 Evrur í plús en þeir töpuðu einhverju, Maggi einu sinni og Alli tvisvar. Þeir hefðu betur farið að mínum ráðum og farið heim um fjögur, ég var reyndar alveg búinn.. Reyndar var þetta aðallega eftirminnilegt vegna þess hversu fúllynd stúlkan sem var gjafari og fullur Finni sem röflaði út í eitt..

Taroudant, Agadir, Casablanca og Manchester

Við vöknuðum snemma, allt of snemma, ég vaknaði um hálf sex en Iðunn hafði vaknað um þrjú og náði ekki að sofna aftur.

Þegar við komum niður voru þeir félagar á hótelinu voru samt búnir að græja alvöru morgunmat.  Klukkan 6:00 um morguninn.

Taroudant - Palais - morgunmatur

Bílarnir sem lokuðu okkur inni höfðu verið færðir, en ekki almennilega, hvers vegna einhver fór út að færa bílinn sinn og lagði honum samt hálfa leið fyrir veit ég ekki, amk. komst bíllinn komst ekki út. Iðunn og þjónarnir (sem höfðu komið með okkur) tóku til sinna ráða og lyftu bílnum og færðu frá!

Við þurftum aðeins að hafa fyrir að rata út úr borginni í rigningarúða og myrkri, en eftir það var leiðin greið. Við duttum beint inn á flugvöllinn en náðum ekki að taka bensín.

Það var sam nokkuð eftirminnilegt að keyra fram hjá yfir 20 pallbílum, hver um sig með hóp af fólki aftan á palli.. lúxus útgáfan var með smá tjaldi yfir.

Það gekk svo tiltölulega hratt að kaupa aukatösku og komast inn.

Við millilentum í Casablanca þar sem var stutt stopp og losnuðum við aðra vopnaleit, ja, hún var amk. í mýflugumynd.

Flugið til Manchester gekk vel, aftur gamaldags flugvélamatur um borð.. og við vorum lent um fjögur og komin inn á Lowry hótelið um fimm. Við ákváðum að rölta strax í bjór, fundum reyndar ekki hraðbanka strax en fundum fínan bar, Dutton, við torgið þar sem jólamarkaðurinn er… en nú var enginn jólasveinn.

Um kvöldið fórum við á Gusto og fengum frábæran mat, amk. ég.. trufflu Rib-Eye. Iðunn var reyndar hálf lystarlaus. Við ákváðum að klára á hótel barnum, enda Iðunn orðin hálf þreytt eftir lítinn svefn. Kokteilarnir tóku sinn tíma en komu á endanum og við sötruðum úti á svölum yfir vindli og sígarettum.

Taroudant, annað teppi

Fínn dagur í garðinum og uppi á svölum. Við Iðunn fengum okkur hádegismat á hótelinu, salat sem þjónninn setti saman, hvítvín og svo blóðappelsínur með einhverri frábærri kryddblöndu í eftirrétt.

Seinni partinn röltum við öll niður á markað, í þetta sinn fylgdi einn úr hótel afgreiðslunni okkur, við Iðunn keyptum eitt teppi, eitthvert smádót og svo fórum við öll aftur upp á hótel. Á leiðinni sáum við nýjust tísku..

Taroudant - 3

Við fengum kvöldmat á hótelinu og í þetta sinn eiginlega besti matur ferðarinnar, ekki flókið en ofsalega vel gert – fínt hráefni og fyrirtaks eldamennska.

Svo aftur upp að pakka.

Staðurinn tók reyndar ekki kreditkort og Skúli þurfti að taka út pening.. ég ákvað að rölta með og starfsmaðurinn í afgreiðslunni vildi endilega sýna okkur hvar við gætum fundið öruggan hraðbanka. En þetta gekk ekki vandræðalaust, það var hámarksúttek í einu og hámarksúttekt á korti yfir daginn og þeir tóku ekki MasterCard. En þetta hafðist.

En sem betur fer fórum við af stað því Skúli kom auga á að bílarnir okkar voru króaðir af inni á bílastæðinu og við vorum að fara eldsnemma morguninn eftir.

Afgreiðslumaðurinn lofaði að finna út úr þessu, en ég væri að skrökva ef ég segðist hafa verið alveg rólegur.

Til Taroudant

Iðunn vaknaði hálf lasin, með brjóstsviða og slöpp.. keypti magatöflur og kastaði upp. Hún hresstist nú aðeins fljótlega og við lögðum af stað til Taroudant upp úr hádegi. Ekki tókst að bæta aukatösku við í heimferðina og ekki fundum við handverksmarkaðinn. En við fundum Marjane verslunarmiðstöðina og keyptum auka ferðatösku. Og eitthvert snarl til að hafa með okkur.

Svo til Taroudant og sennilega fórum við of marga sveitavegi eftir að hafa ákveðið að treysta frekar á skiltin en Google Maps, sem var bara með „Preview“.. en líkast til völdum við að fara í héraðið Taroudant og þurftum að þræða fáfarnari vegi inn í borgina sjálfa.

Við komum um þrjú leytið og fundum hótelið, Riad Maryam fljótt.. svolítið sérstakt en mjög skemmtilegt.

Riad Maryam - 1

Við komumst svo að því að Anna-Lind og Skúli höfðu pantað á öðru hóteli, Palais Oumensour. Við náðum að panta þar líka, gerðum Riad Maryam upp (enda mjög ódýrt) og fórum til þeirra.. starfsmenn RM hjálpuðu okkur að fara með töskurnar og finna hótelið.

Palais Oumensour hótelið var svo frábært, einstaklega vel hannað og þægilegt og þjónarnir allir á tánum. Við athuguðum ekki að panta mat tímanlega og þurftum að fara að leita að veitingastað. Fyrir utan hótelið hengdi sjálfskipaður gæslumaður sig á okkur.. hafði kynnt sig fyrir okkur þegar við mættum á hótelið, virist þekkja til þeirra sem reka Riad Maryam. Hann tók skýrt fram að hann vildi ekkert fá fyrir þjónustuna, marg bauðst til að sýna okkur svæðið og markaðina á morgun og marg spurði hvort við vildum ekki taka hestaferð á veitingastað út fyrir bæinn. Að lokum tók hann að sér að finna veitingahús á aðaltorginu, enda hafði ég gleymt miðanum með nafninu á veitingastað sem hótelið mælti með. Eftir nokkurt labb í gegnum markaðnum – og einhvern veginn hálf nöturlegar aðstæður – komum við á torgið. Ekki leist okkur alveg á fyrsta staðinn sem hann benti á.. og heldur ekki á þann næsta. Þeir virkuðu einfaldlega ekki mjög hreinlegir… og enginn með TripAdvisor miða – sem er auðvitað ekkert skilyrði, en gefur ákveðið öryggi.

Við fórum því aftur niður á hótel, leiðsögumaðurinn okkar súr yfir að fá ekki greitt fyrir að eyða tíma sínum í okkur, þrátt fyrir yfirlýsingar um að hann vildi ekki neitt. Skúli rétti honum eitthvert klink og ég reyndi að segja honum að við hefðum ekki neitt smátt en myndum hafa samband á morgun (hann hafði gefið mér upp símanúmerið þegar við mættum) og þá myndi ég borga honum eitthvað. Hann var frekar móðgaður sagðist hafa annað að gera á morgun og afþakkaði 8 dirhamana sem Skúli bauð. Við spurðumst aðeins fyrir á hótelinu og þeir sögðu að 20 dirhamar væri fínt fyrir svona. Við vorum svo sem ekkert kát, hann hafði dröslað okkur um hálfan bæinn með þreytt börn og gat ekki fundið boðlegan veitingastað.

Í öllu falli, við fórum á Chez Nada og fengum að lokum fínan mat. Við þurftum reyndar að færa okkur upp á opna efstu hæð (eða nokkurs konar svalir) til að fá sæmilegt loft því loftkælingin var biluð.

Það var einn þjónn á vaktinni, sá var allur af vilja gerður og hljóp hverja ferðina á fætur annarri upp nokkrar hæðir. Okkur grunaði reyndar að hluti af töfunum stafaði af því að kokkarnir væru að horfa á Real Madrid – Bayern Munchen. En maturinn fínn, þó við Bergur neituðum kettinum um að klára kjúklinginn hennar Iðunnnar.

Síðasti dagur á Kenzi

Síðasti dagurinn á Kenzi og nú var aðeins farið að hitna, hitinn kominn í 38 gráður. Við Iðunn fórum á „O Playa“ í hádeginu og fengum fínan mat, en engan vegin eins góðan og í fyrrakvöld. Þaðan á ströndina, Iðunn fékk sér bráðabirgða „tattoo“ og eftir að hafa soðið aðeins í hitanum fór ég í nudd á Kenzi.

Iðunn - tattoo

Við Iðunn gleyptum matinn í okkur og fórum á „English Pub“ að horfa á Middlesbrough – Arsenal, sem lauk sem betur fer með sigri Arsenal.

Kvöldið fór að mestu í að pakka og reyna að skipuleggja hvað fór í hvaða tösku. En svona alveg að lokum röltum við með Önnu-Lind og Skúla niður að strönd og mynduðum okkur með fjallið í bakgrunni.

Agadir - Fjall