Greinasafn fyrir merki: Manchester

Til Tallinn, en Iðunn heim

Morgunmaturinn var frá klukkan 7:00 og ég þurfti að leggja af stað 7:15 upp á flugvöll. En í takt við annað á hótelinu þá var morgunmaturinn frábær og synd að þurfa að gleypa þetta í sig. En ég rauk og skildi Iðunni eftir.. Mourinho mætti í morgunmatinn þegar hún var að fara – en hann var víst ekkert að ónáða hana eða væla utan í henni 🙂

En Iðunn fór heim seinni partinn með tvær töskur og gekk vel.. á meðan ég hélt áfram að skemmta mér!

Ég hafði keypt smá bónus á flugið til Tallinn, ma. einhvers konar „priority lounge“, gallinn var bara að SAS var ekki með neinni „lounge“ í Manchester. En ég fékk að fara eitthvað hraðar í gegn um öryggishliðið.

En þessu fylgdi krabbasalat og freyðivín – og svo einn Mikkeller IPA rétt fyrir lendingu! Og aðstaðan var svo í góðu lagi í Stokkhólmi og hentaði ágætlega fyrir tvo vinnufundi í tölvu og síma. flugið til Tallinn var fínt.

Fótboltahópurinn, Postularnir, voru komnir til Tallinn og ég hitti þá á hótelinu rétt fyrir átta. Matur á hótel St. Petersburg, verulega flottur matur, sem kostaði til þess að gera lítið, ég held að ég hafi talið sex eða sjö rétti, ýmist með hvítvíni og rauðvíni. Við skáluðum aðeins fyrir árangri vetrarins og fórum svo á rölt.

Tallinn - kvöldmatur

Samstarfskona Péturs, sem var með okkur, vildi endilega draga okkur á einhver diskótek og var ekki alveg að kveikja á því að þetta var ekki óskadagskrá til-þess-að-gera eldri karlmanna. Við enduðum á einhverju diskótekinu sem var þó með smá reykingaafdrep þar sem var ekki alveg vonlaust að tala saman, en einhvern veginn varð þetta til að hópurinn dreifðist.

Ég fór með Alla og Magga á Casino.. ég entist ekki lengi og fór heim með 15 Evrur í plús en þeir töpuðu einhverju, Maggi einu sinni og Alli tvisvar. Þeir hefðu betur farið að mínum ráðum og farið heim um fjögur, ég var reyndar alveg búinn.. Reyndar var þetta aðallega eftirminnilegt vegna þess hversu fúllynd stúlkan sem var gjafari og fullur Finni sem röflaði út í eitt..

Taroudant, Agadir, Casablanca og Manchester

Við vöknuðum snemma, allt of snemma, ég vaknaði um hálf sex en Iðunn hafði vaknað um þrjú og náði ekki að sofna aftur.

Þegar við komum niður voru þeir félagar á hótelinu voru samt búnir að græja alvöru morgunmat.  Klukkan 6:00 um morguninn.

Taroudant - Palais - morgunmatur

Bílarnir sem lokuðu okkur inni höfðu verið færðir, en ekki almennilega, hvers vegna einhver fór út að færa bílinn sinn og lagði honum samt hálfa leið fyrir veit ég ekki, amk. komst bíllinn komst ekki út. Iðunn og þjónarnir (sem höfðu komið með okkur) tóku til sinna ráða og lyftu bílnum og færðu frá!

Við þurftum aðeins að hafa fyrir að rata út úr borginni í rigningarúða og myrkri, en eftir það var leiðin greið. Við duttum beint inn á flugvöllinn en náðum ekki að taka bensín.

Það var sam nokkuð eftirminnilegt að keyra fram hjá yfir 20 pallbílum, hver um sig með hóp af fólki aftan á palli.. lúxus útgáfan var með smá tjaldi yfir.

Það gekk svo tiltölulega hratt að kaupa aukatösku og komast inn.

Við millilentum í Casablanca þar sem var stutt stopp og losnuðum við aðra vopnaleit, ja, hún var amk. í mýflugumynd.

Flugið til Manchester gekk vel, aftur gamaldags flugvélamatur um borð.. og við vorum lent um fjögur og komin inn á Lowry hótelið um fimm. Við ákváðum að rölta strax í bjór, fundum reyndar ekki hraðbanka strax en fundum fínan bar, Dutton, við torgið þar sem jólamarkaðurinn er… en nú var enginn jólasveinn.

Um kvöldið fórum við á Gusto og fengum frábæran mat, amk. ég.. trufflu Rib-Eye. Iðunn var reyndar hálf lystarlaus. Við ákváðum að klára á hótel barnum, enda Iðunn orðin hálf þreytt eftir lítinn svefn. Kokteilarnir tóku sinn tíma en komu á endanum og við sötruðum úti á svölum yfir vindli og sígarettum.

Út til Agadir

Það var smá seinkun á fluginu til Manchester, náðum einum bjór og hittum Ými og Hrefnu á bjórbarnum í Keflavík. Við áttum svo nokkra klukkutíma og fórum á bar nálægt flugvellinum í Manchester. Annar leigubílstjóri ákvað reyndar að senda okkur á „Romper“ í stað „39 Steps“, en fengum fínan hamborgara og ítalskan disk.

Manchester - Romper - 3 - Album
Fluginu til Casablanca seinkaði svo um hálftíma og við höfðum smá áhyggjur vegna þess að það var mjög stuttur tími frá lendingu í Casablanca þar til vélin til Agadir ætti að fara í loftið. Við vorum fullvissuð um að þeir í Casablanca vissu af seinkuninni og að vélin myndi bíða – við vorum búin að tékka okkur inn alla leið. Flugið gekk svo sem vel, smá fortíðar upplifun að fá (ókeypis) matarbakka að hætti Flugleiða í gamla daga, mjög vel þegið.

Þegar við komum Casablanca tók við vopnaleit – þó svo að við værum að koma úr millilandaflugi og ekkert hægt að fara annað en í vélar í innanlandsflugi. Það var bókstaflega múgur og margmenni og mjakaðist hægt, en mjakaðist samt. Við sáum svo loks vopnaleitina og þá kom í ljós að það var eitt hlið og aðeins einum hleypt í gegn í einu. Svo stoppaði allt. Eftir drykklanga stund kom einhver viðgerðarmaður og náði að koma hliðinu aftur í gang. Nokkrir farþegar voru sendir til baka, að mér sýndist á þeim forsendum að vélin þeirra væri farin. Svo kom einhver frá einhverri ferðaskrifstofunni og sagði verðinum að vélin biði. Við komumst loksins í gegn, hlupum út í rútu og beint upp í vél. Flugstjórinn var að afsaka við aðra farþega að brottför seinkaði vegna þess að það hefði þurft að bíða eftir farþegum, svona rétt eftir að við komum inn, án þess að tiltaka nokkuð að það hefði verið vegna tafa í vopnaleit. En það kom annar hópur á eftir okkur. Svo leið hálftími og enn kom hópur, líkast til þeir sem höfðu verið sendir til baka.

En við komumst til Agadir og vegabréfaskoðunin virtist ekki ætla að taka mikinn tíma. Og svo vorum við svo heppin að það opnaði nýtt hlið þegar við vorum hálfnuð og við stukkum á það. Því miður. Sá sem settist þar við afgreiðslu var bæði afar vandvirkur og skrafhreyfinn – og einn farþegi fékk alveg sérstaklega langa „meðferð“ hjá honum. Á meðan afgreidd unga konan í fyrri röðinni okkar 7-8 farþega á móti hverjum einum.

En það passaði, loksins þegar við komumst í gegn sá ég Önnu-Lind og Skúla – og auðvitað Berg, Pétur Glóa og Jónu. Þau höfðu átt að vera löngu lent, en þurftu að bíða marga klukkutíma á Gatwick vegna bilunar hjá EasyJet, án þess að fá nokkrar nothæfar skýringar.. og hvorki vott né þurrt á meðan þau biðu.

Við Iðunn tókum leigubíl og vorum komin inn á Kenzi Europa Hotel um eitt leytið.

Manchester, annar dagur

Manchester útsýni
Manchester útsýni

Svaf til hádegis og svo hófst smá bæjarrölt, keypti nýtt batterí í símann en fann ekkert fyrir Iðunni.. Úrvalið af bjór er fínt í gamla bænum, en stefnan var sett á að fara í „pool“. Eftir kengúruhamborgara og þvæling um allan bæ fundum við lítið annað en einhvers konar barna útgáfur af „pool“ borðum. Gáfumst loksins upp á þessu, upp á hótel að draga andann og svo á Cloud 23 barinn Hilton hótelinu. Útsýnið frábært, drykkirnir kosta sitt og mig langaði að skjóta diskótekarann.

Þaðan á argentínska steikarstaðinn Gaucho, þurfum aðeins að bíða eftir borði og vorum orðnir hálf langeygir eftir mat. Svo sem ekkert að matnum og rauðvínið stóð alveg undir (þokkalega) verði. En ég er ekki frá því að ég sé ekkert sérstaklega spenntur fyrir nautakjöti sem búið er að hanga vikum saman, og það í kryddlegi. Ekkert að þessu, en ekkert „wow“.  Matti var svo allt í einu orðinn hálf slappur en náði sér um leið og hann kveikti á að hann hafði ekki fengið einn einasta kaffibolla allan daginn, tveir espresso björguðu kvöldinu hjá honum.

Við enduðum kvöldið svo á meiri póker í Genting Casino.. náði að vinna tap kvöldsins áður upp og gott betur. En sátum helst til lengi að..

Manchester, fyrsti dagur

Hálfur postularhópurinn lagði af stað til Manchester í morgun.. Alli, Gústi, Maggi, Matti og Þórhallur.

Leigubíllinn til Keflavíkur gekk vel og fyrsti bjór tekinn tímanlega. Flugið gekk líka vandræðalaust, svo og leigubíll á hótelið og fyrsti bjór í Manchester var um þrjúleytið. Smátrölt til að ná áttum og kíkt í alvöru Whisky búð – svo dottað fyrir kvöldmat.

Um kvöldið fórum við á kínverska veitingastaðinn Yang Sing, til þess að gera rétt hjá hótelinu, og fengum kínverskan mat sem var vel yfir meðallagi. Gallinn við svona hóp matseðla, sem hafa þann kost að það er hægt að smakka margs konar rétt, er að oft koma bestu réttirnir þegar allir eru orðnir pakk saddir.

En þaðan í Casino í jaðri bæjarins og þegar við komum að hótelinu ákváðum við að kíkja á annað Casino rétt við hótelið. Við Maggi entumst til hálf sjö, ég með eitthvert tap í póker (innan marka þó) Alli með fínan gróða og Maggi í mjög góðum plús.