Flokkaskipt greinasafn: Afmæli

Vorhátíð BUGL

Guðjón Heiðar 32 ára í dag.. þrjátíu og tveggja ára!!

En við mættum á vorhátíð Bugl í Víkings heimilinu, fyrst reyndar í upphitum til Guðrúnar Bryndísar í Kópavoginum, flottar veitingar hjá Guðrúnu en maturinn um kvöldið kannski full mikið af þurru og þykku brauði.

En hátíðin var mjög skemmtileg, enda skemmtilegt fólk og vel heppnuð dagskrá.

En Iðunn „galdraði“ vinning í lokin, hvort sem við náum að sækja hann eða ekki.

Bugl - vorhátíð - 4-1

Sylvía sjötíu og fimm ára

Tengdamamma, Sylvía Briem, orðin sjötíu og fimm ára.. mætti ég vera eins unglegur og hún þegar þar að kemur.

En hún bauð okkur, börnum og tengdabörnum, út að borða.. fórum á Hereford og fengum humarsúpu, nautalund og súkkulaðiköku+ís. Maturinn frábær og þjónustan til fyrirmyndar. Ekki spillti að þetta var á mjög svo sanngjörnu verði. Við fórum nokkrum sinnum með Magnúsi & Sylvíu á sameiginlegu brúðkaupsafmæli á Hereford fyrir nokkrum árum, en munum einhvern veginn aldrei eftir staðnum.

En mættum þarna örugglega fljótlega aftur.

sylvia-afmaeli-2c

Viktor – afmæli

Viktor hélt upp á tuttugu-og-fimm, tuttugu-og-sex og tuttugu-og-sjö ára afmælið sitt hér í Kaldaselinu.

Örugglega hátt í hundrað manns, í þetta sinn að mestu jafnaldrar hans, mikið af pírötum og reyndar fólki úr öllum pólitískum áttum.

En mikið rosalega er þetta flottur hópur og mikið rosalega er framtíðin björt – engin ástæða til að endurtaka svartagallsrausið frá Sókrates – eða hver það var sem sagði að útlitið væri slæmt vegna þess hversu illa þeim leist á ungu kynslóðina.

viktor-afmaeli-9

 

Afmælisdagur

Þrátt fyrir partýið síðasta laugardag þá á Iðunn raunverulega afmæli í dag..

Vorum hálf-löt og hálf-partinn til í eitthvað létt að borða, en ákváðum samt að fara út að borða og fá okkur „eitthvað létt“.. kíktum á Mathús Garðabæjar, að ráði Viktors, og það var heldur betur alvöru máltíð..

Kannski voru það einhverjir fordómar að halda að það væri ekki hægt að finna alvöru veitingastað í Garðabæ, en hvílíkur matur! Geitaosta, rauðrófu, hnetusalat til að byrja með (þeas. eftir smá freyðivín) og sjávarréttapasta annars vegar og frábært andalæri hins vegar voru fyrsta flokks… verst að við höfðum varla lyst á eftirréttinum. Keli veit klárlega hvað hann er að gera…

En frábær lok á alvöru afmæli hjá alvöru konu… held í alvöru að ég sé giftur (já, giftur, ekki kvæntur) flottustu konu sem finnst.. og besti vinur minn.

Kristín fimmtug

Við mættum, öll fjölskyldan, í fimmtugsafmæli Kristínar í Rafveituheimilinu…

Verst hvað við vorum södd eftir síðbúin kvöldmat, veitingarnar voru ekki bara fyrsta flokks, heldur eitthvað miklu meira – andasalatið til dæmis sem ég er ekki enn að kveikja á hvernig var samsett, frábært.

Gaman að hitta vini og ættingja Kristínar, Hekla flottur veislustjóri, fyrrum samkennarar með eftirminnilegt atriði en ég held að Brynja og Iðunn hafi toppað skemmtiatriðin með aðlöguðum „hvar er húfan mín?“ vísum – jú, og Guðjón var flottur sem rappari, stendur frábær einn og þarf ekkert meira. Ef eitthvað var þá var skelfileg tónlistin þegar leið á kvöldið svona punkturinn undir „i-ið“.. ég var farinn að hanga „úti-að-reykja“ einn og án þess að reykja, bara til að fá smá frið 🙂

En alvöru veisla.. svo gaman að Iðunn var mjög ósátt við að ég pantaði leigubíl til að ferja okkur heim, þó búið væri að kveikja ljós og benda fólki á að þetta væri löngu búið!

Brúðkaupsafmæli, Falkfest og meiri tónlist

Við Iðunn eigum 33 ára brúðkaupsafmæli.. ég fann ekkert nafn á þessu og ákvað að þetta héti í framtíðinni „vinyl“ brúðkaup – og treysti því að þetta festist í sessi.

Tengdaforeldrarnir, Magnús & Sylvía, áttu sama brúðkaupsafmælisdag og við.. og það var föst regla að fara saman út að borða ef við vorum öll á landinu. Magnús lést fljótlega eftir afmælið í fyrra og þetta var því í fyrsta skipti sem við héldum upp á þetta þrjú.

Við ákváðum að fara á Nauthól og fengum ágætis máltíð og góða og vingjarnlega þjónustu.. og voru snögg að leiðrétta minni háttar mistök ..

Þaðan fórum við með Sylvíu í Mánatún og fengum okkur eitt rauðvínsglas „fyrir svefninn“. Ég var búinn að kaupa miða á styrktarhljómleikana fyrir Gulla Falk og við ákváðum að kíkja við á heimleiðinni. Ótrúlega góð mæting, flottir hljómleikar og mikið af vinum, kunningjum og fólk sem við höfum ekki hitt áratugum saman. En bæði var nú að við höfðum tekið daginn snemma og þetta en nú kannski ekki alveg okkar tónlist – þó stemmingin hafi verið frábær og spilamennskan fyrsta flokks – þannig að við létum einn bjór nægja og fórum heim.

Duttum svo í að sötra Whisky og hlusta á undarlega blöndu af tónlist, Ramones, Stiff Little Fingers, Elvis Costello, Vaccines, Steve Earle, Wreckless Eric, Feargal Sharky…

Afmæli

Þá erum við Iðunn búin að vera gift í 31 ár. Heldur betur góður tími.

Tengdaforeldrarnir, Magnús og Sylvía eiga sama brúðkaupsdag og við höfum farið út að borða með þeim þegar þau hafa verið á landinu. En síðustu ár eru þau gjarnan úti á Spáni á þessum tíma þannig að við fórum tvö út að borða.

En við fórum á Vox og fengum góðan og skemmtilega samsettan mat – og þjónustan fyrsta flokks. Tókum árstíðamatseðilinn, sem er reyndar ekki alveg ókeypis.. og kannski eiginlega full mikið af hvítum vínum fyrir okkar smekk.