Stefnumótunardagur

Staki og Talenta voru með stefnumótunardag á Grand Hótel, átti svo sem ekki von á öðru en að þetta yrði fínt, en var eiginlega betra en ég hafði átt von á.. ekki verra að grípa bjór í gleðistund á barnum og svo upp í Síðumúla í fínan mat, spjall, bjór, rauðvín, hvítvín..

Uppboð

Settum upp smá vínuppboð í Staka, heppnaðist mjög vel og við fórum á Meze í smá snarl á eftir, Einar Ragnar, Hjördís & Halldór og við Iðunn. Fínn matur eins og áður, en fórum svo frekar snemma heim.

Afmælisdagur

Þrátt fyrir partýið síðasta laugardag þá á Iðunn raunverulega afmæli í dag..

Vorum hálf-löt og hálf-partinn til í eitthvað létt að borða, en ákváðum samt að fara út að borða og fá okkur „eitthvað létt“.. kíktum á Mathús Garðabæjar, að ráði Viktors, og það var heldur betur alvöru máltíð..

Kannski voru það einhverjir fordómar að halda að það væri ekki hægt að finna alvöru veitingastað í Garðabæ, en hvílíkur matur! Geitaosta, rauðrófu, hnetusalat til að byrja með (þeas. eftir smá freyðivín) og sjávarréttapasta annars vegar og frábært andalæri hins vegar voru fyrsta flokks… verst að við höfðum varla lyst á eftirréttinum. Keli veit klárlega hvað hann er að gera…

En frábær lok á alvöru afmæli hjá alvöru konu… held í alvöru að ég sé giftur (já, giftur, ekki kvæntur) flottustu konu sem finnst.. og besti vinur minn.

Iðunn fimmtug

Þá er Iðunn alveg að detta í fimmtugt… við héldum þessa svakalega skemmtilegu veislu hér heima í Kaldaseli.. fullt af fólk, verst að hafa ekki húsrúm til að bjóða enn fleiri.

En við fengum gesti eftir kvöldmat og þemað var „punk“ sem flestir tóku af fullum þunga og voru amk. með – við Fræbbblar spiluðum nokkur lög, duttum aðeins (og óundirbúið) í að spila lög frá Punk kvöldunum, Steini tók nokkur þeirra með okkur. Guðjón spilaði nokkur lög, Gunnar tók eitt með honum og Viktor annað.. meira að segja Iðunn datt í að syngja með þeim bræðrum, Kóbrurnar tóku eitt lag og Addi hélt fína ræðu. Svo bættu þeir um betur, því Gísli gekk á hljóðið og mætti á staðinn og fyrir tilviljun hafði Gunnar misst af strætó (tvisvar) og var enn á staðnum – þannig að 3G’s tóku tvö lög, í fyrsta skipti í einhver fimmtán ár sem þeir spila.

En gaman að hitta alla þessa gesti í góðri stemmingu, ég missti reyndar af nokkrum, eins og mig langaði nú að ná öllum í góðu tómi þá var (sem betur fer) troðfullt hús af fólki og talsvert mikið að gera. En mér heyrist að allir hafi skemmt sér vel..

En, allt um það, aðallega var kvöldið einstaklega vel heppnað, ég gafst upp um fimmleytið, enda búið að taka sinn tíma að gera klárt… Iðunn stóð sig enn betur, síðustu gestirnir fóru á tíunda tímanum (morguninn eftir) og þá fór hún að ganga frá!

Þetta var sem sagt alvöru partý, punk alla leið, dansað uppi á borði, hljómleikar, uppáhaldstónlistin okkar og stór skemmtilegt fólk.

Kannski höfum við einfaldlega pönk kvöld á Menningarnótt í framtíðinni.

Breiðablik – Þróttur

Við Guðjón og Viktor fórum á Breiðablik – Þrótt. Ég á ekki að fá að sjá mark hjá Blikum, breyttur leiktími og við misstum af upphafinu þegar Breiðablik komst yfir – og vorum í einhverju rugli með sætin þegar liðið skoraði annað markið.

En þrátt fyrir öruggan sigur á liði sem var byrjað að tefja 2-0 undir í fyrri hálfleik, þá líst mér ekki meira en svo á það sem eftir er sumar. Fínt spil úti á velli, en stöku sofandaháttur í vörn, bitlaus sókn og hrikaleg nýting á færum gefur ekki vonir um nægilega mörg stig til að ná Evrópusæti, hvað þá titli.

Breiðablik - Þróttur - lítil

Einifellshelgi

Enn ein Einifellshelgin, reyndar löngu tímabær.

En við mættum til leiks um sex-leytið á föstudeginum, yfir okkur spennt að fylgjast með niðurstöðum úr prófkjöri Pírata. Það kom svo í ljós að Viktor náði þriðja sæti og Andrés því áttunda.

Þá bjórdrykkja og Petanque, þar sem Iðunn vígði nýju kúlurnar í stórsigri ungra stúlkna. Campari fordrykkur, humarsalat, freyðivín og meiri bjór. Svo pottur og gufa eitthvað fram eftir.

Einifell - ágúst - 3 - lítil

Laugardagurinn var frekar rólegur, smá Petanque og elduðum kengúru- og nautakjöt. Allt of mikið af kjöti eins og stundum áður.

Eitthvað var endingin léleg en við Iðunn fórum í pottinn og skemmtum okkur ágætlega fram eftir nóttu.

Reykjavík Pride

Kíktum á gleðigönguna, Iðunn gekk með Sálfræðingafélaginu og ég laumaðist með síðasta spölinn. Þá á English Pub og Café París, þar sem við hittum Friðjón og erlendan samstarfsfélaga, fengum frábært humarsalat, nokkra bjóra, rauðvín, kampavín, Dísa og Sylvía kíktu á okkur – frábært að sitja svona í sólinni í góðum félagsskap. Þaðan á Skúla í einn bjór áður en við kíktum með Bryndísi og Mikael upp í Kaldasel með pizzu og sulluðum í rauðvíni.

ReykjavíkPride - 4

Rokkhátíð á Ölstofu Hafnarfjarðar

Við Fræbbblar spiluðum á Rokkhátíð Ölstofu Hafnarfjarðar.. mættum með græjur upp úr hádegi, stilltum upp og fengum hljóðið í lag.

Einhverra hluta vegna vorum við mjög seint á dagskrá, náðum þó að færa okkur til 2:00 í stað 3:00.. en ekki heppilegasti tíminn fyrir okkur og ekki góður tími fyrir þá sem kannski hefðu mætt til að sjá okkur. Einhverjir komu nú aðallega til þess en gáfust samt upp á biðinni..

En, mættum frekar seint, enda erfitt að fara að spila eftir að hafa verið að hlusta í marga klukkutíma. Við rétt náðum Sign – sem hljómuðu ágætlega, það sem við heyrðum – síðan kom Guns & Roses Tribute band, rosalega vel gert, en afskapleg finnst mér þetta lítið spennandi tónlist. Einhver kallaði þetta skallapopp með metalhljóm, ekki ég, en skil hvað átt er við. Þá kom 3B blúsband sem var líka mjög vel spilandi en aftur ekki mín tónlist. Við áttum þokkalegt kvöld, held ég, ekki kannski okkar bestu hljómleikar, en langt frá því að vera okkar verstu. Mosi músík (ekki skylt Mosa frænda) luku svo kvöldinu, komu þægilega á óvart.

En frábært framtak hjá Ölstofunni… vonandi fáum við með ef þetta verður endurtekið að ári og vonandi fyrr á ferð.

Breiðablik – Fylkir

Við Guðjón kíktum á Blika spila við Fylki í úrvalsdeild karla í fótbolta.

Eins og áður er Blikaliðið vel spilandi, sérstaklega úti á vellinum en eitthvað vantar upp á bitið í sókninni, amk. á heimavelli – ótal hornspyrnur sem verða að engu og ég held að þeir hafi ekki átt eitt skot á rammann í fyrri hálfleik – ég tel skot í stöng ekki sem skot á ramnnann. Þá fengum við nokkur hjartastopp undir lokin þegar Fylkismenn fengu dauðafæri eftir sofandahátt í vörninni. Annars létu Fylkismenn sér nægja að pakka í vörn og vona það besta, eru svo sem með öfluga markaskorara. En, mér er ekkert illa við Fylki, en ég held nú að ég myndi ekki sakna svona fótbolta úr deildinni…

En við erum ekki hjátrúarfullir og mætum á næsta leik þrátt fyrir að liðinu gangi miklu betur þegar við erum heima.