Bridge

Helgi og Þóra kíktu í bridge til okkar, ansi langt síðan við höfum spilað TOPS við þau (eða yfirleitt nokkurn annan). Í hvert sinn sem við höldum áramót Iðunnar milli jóla og nýárs eru gefin fyrirheit um að spila nú eitthvað á árinu. Það hefur svo ekki gengið eftir síðustu árin.. enda Þóra átt erfitt með að sitja lengi við spil

En, vonandi verður þetta aftur fastur liður hjá okkur.. það voru ófá kvöldin sem við spiluðum hér áður fyrr, held að það séu komin þrettán ár!

Róleg helgi, aftur

Eftir ansi þétta dagskrá í nokkuð marga mánuði, þá tókum við því rólega aðra helgina í röð.

Magnús, tengdapabbi, er kominn með lungnabólgu ofan í önnur veikindi, en kominn á spítala og vonandi gengur vel að vinna á þessu.

Viktor kominn með doktorsstyrk

Viktor búinn að fá staðfestingu á styrk til að klára doktorsnámið í Southampton, 3-4 ár og öll skólagjöld og framfærsla. Mjög flott, því það er víst bara einn nemandi utan ESB sem kemur til greina og oftast úr öðrum deildum.

En mætti í karate og kominn í aðeins betri gír með mætingu eftir aumingja ganginn í öxlinni, finn samt hversu auðvelt er að dragast aftur.

Og svo hamborgarar að hætti hússins í tilefni dagsins.

Viktor heim og Magnús & Sylvía í mat

Þá er Viktor kominn heim í fjögurra vikna páskafrí. Ég sótti hann til Keflavíkur um þrjú leytið eftir níu tíma ferðalag, hálf lasinn, frá Southampton.. En var orðinn miklu hressari.

Þegar við duttum inn sáum við að Arsenal hafði skorað tvö mörk á Newcastle rétt á meðan við löbbuðum inn, sátum svo stressaðir yfir seinni hálfleik þegar heimamenn reyndu að sækja verðskuldað jöfnunarmark.

Magnús & Sylvía kíktu svo í bláberjalambalæri með okkur.. alltaf gaman að fá þau í heimsókn.

Rólegt föstudagskvöld

Einhverra hluta vegna hefur verið nokkuð stíf dagskrá hjá okkur síðustu mánuði, okkur taldist svo til að þetta væri þriðja (frekar en fjórða) föstudagskvöldið síðan í ágúst í fyrra þar sem ekki er einhver dagskrá, matur, helgarferð, vinnustaðasamkoma eða annar hittingur.

Smá rauðvín og ostasmökkun kom til reyndar greina seinni partinn, en gekk ekki eftir.

Þannig að það var eiginlega fínt að sitja heima og slaka á yfir bjór og bíómynd (þó hún væri í sjónvarpinu).

Sumarbústaður…

Langþráð fríkvöld á laugardegi varð að litlu.. Brynja og Óskar voru í bústað og spurðu hvort við hefðum nokkuð betra að gera en að kíkja til þeirra.. sem við höfðum ekki og drifum okkur austur.. enda má alltaf taka fríkvöld seinna.

Mættum um áttaleytið og tókum góðan tíma í forrétti og snarl, osta, pylsur, skinkur, “brúsettur” að hætti Iðunnar, rauðvín. Kjúklingapasta þegar leið á kvöldið.

Bústaðurinn talsvert betri en lýsingar gáfu til kynna.. en sammála Brynju um betri eldunaraðstöðu.

Jamaica matarboð

Mættum í matarboð hjá Rögnu & Bjarna.. þemað var Jamaica, sem gestirnir tóku mis alvarlega. Iðunn mætti meira að segja með heimavafðar sígarettur (bara tóbak) til að vera í réttum gír.

En veislan hófst á saltfiskbollum og einhverjum ávexti sem ég man ekki nafnið á.. þaðan lá leiðin í geitalæri, mangó sorbet á milli, rækjur að hætti Jamæku, pina colada sorbet (með rommi), og kjúklingur sem var líka jamæskur, negull, kanill og ég-man-ekki-hvað og kókoshrísgrjón með baunum – áður en tveir eftirréttir voru bornir fram.