Heim frá Amsterdam

Við tókum Krasnapolsky morgunmatinn aftur alvarlega áður en við „tékkuðum“ okkur út. Við kíktum í vindlabúðina Hajenius við Rokin, ómissandi að koma þar við þegar Amsterdam er heimsótt, þaðan í lítinn bjór á óþekktum bar og svo ákváðum við að stefna á túlípanasafnið og prófa hollenskar pönnukökur, sem afgreiðslumaður í Desigual hafði sagt Iðunni að væru bestu pönnukökur í bænum. Pönnukökurnar voru ekki að heilla okkur en við keyptum nokkra túlípanalauka og fundum nýjan bar, Café Belgique opnaði ekki fyrr en þrjú og allt í lagi að prófa eitthvað nýtt. Í þetta sinn barinn De Drie Fleschjes sem sérhæfir sig í Genever en okkur fannst full snemmt að byrja á sterkum drykkjum fyrir þrjú, sögðumst kannski koma seinna, en þjónninn sagði að þeir lokuðu hálf-sjö. Eitthvað þótti mér þetta takmarkaður opnunartími, en hann útskýrði að þetta hefði virkað vel í 360 ár og það væri engin ástæða til að breyta til. En fundum enn einn skemmtilegan bar í bænum..

Ég uppgötvaði hins vegar að vindlapakkinn var horfinn, brunaði á pönnukökustaðinn og þau höfðu fundið og geymt.

Næsta mál var svo bar við hliðina á Krasnapolsky sem sérhæfir sig í líkjörum, Wynand Fockink… ég eiginlega þorði ekki að spyrja hvernig á að bera nafnið á barnum fram. En það er í rauninni stór undarlegt að ég hef aldrei haft hugmynd um þennan bar þrátt fyrir margar heimsóknir til Amsterdam og þrátt fyrir að hafa oft gist þarna í nágrenninu. En TripAdvisor benti á staðinn sem var mjög skemmtilegur – og sá sem afgreiddi okkur var svo enn skemmtilegri. Við fengum alls kyns smakk og mér var falið að kaupa einhvers konar jólalíkjör þegar ég verð næst á ferðinni.

Síðasti bjórinn var svo með góðum vindli á De Bekeerde Suster áður en við fórum í alvöru nautasteika á Gaucho við Spuistraat. Og svei mér þá ef það toppaði ekki ferðamatinn.. frábær steik, rétt elduð, fín sósa og ágætis meðlæti. Við skiptum Parma skinku og geitaosti á milli okkar og ég fékk mér (óvart) einhvern pönnuköku eftirrétt, sem var eiginlega bara nokkuð góður og pönnukakan talsvert betri en á pönnukökuhúsinu. Það eina sem klikkaði var kaffið, „espresso macchiato“ var heit mjólk sem hafði kannski verið við hliðina á kaffibaununum.

En svo upp á Schiphol. Ég kemst enn ekki yfir ruglingslegar upplýsingar um lestarferðirnar, en þetta hafðist og við komumst um borð, en vélin var víst yfirbókuð og ekki alveg ljóst hvað það þýddi að vera á „standby“.. og veit ekki enn, en eftir nokkra seinkun komumst við um borð.

Flugið heim var svo til þess að gera áfallalaust og töskurnar komu fljótt þrátt fyrir viðvaranir um að við gætum þurft að bíða.

Amsterdam - Gravenstraat.jpg

 

Amsterdam

Við sváfum þokkalega lengi og fórum í alvöru morgunmat á hótelinu, þetta er, held ég eina hótelið sem býður upp á freyðivín í morgunmat. Við tókum morgunmatinn alvarlega og gerðum honum góð skil. Þá tók við smá búðaráp með góðum stoppum í bjór.. The Pilsener Club og In De Wildeman.

Við höfðum svo frétt að Helga & Steinar væru í stuttu stoppi og mæltum okkur mót á Rembrandtplein. Eftir nokkra bjóra með þeim og ferðafélögum þeirra, þeim Dísu & Pétri fórum við í mat á Indrapura, indónesískan stað við Rembrandt torgið. Maturinn frábær og talsvert skemmtilegar fram borinn en svipaður matur á Kantjil & De Tijger, kannski ekki ósvipuð eldamennska. En ótrúlega margir frábærir réttir – og fyrir mig, sem hafði verið til þess að gera óheppinn með mat – besti matur ferðarinnar. Þá var frábært að hitta Helgu & Steinar og gaman að kynnast Dísu & Pétri. En þau voru á leiðinni í flug og við Iðunn fórum á meira rölt, fyrst á lítinn bar (á meðan regnskúr gekk yfir), svo yfir á Leidseplein þar sem við fengum okkur meiri bjór á írska barnum Hoopman, þaðan á L&B Whisky barinn í tvo stutta drykki en ákváðum svo að þetta væri að verða gott. Tókum reyndar einn bjór á Zwart, barinn á horninu á Dam sem er ekki með merkilegan bjór, frekar dýran.. en er auðvitað rosalega skemmtilega staðsettur. Við lukum drykkjuferðinni á hótelbarnum í Gin og Tonic og vindlum.Amsterdam - Whisky LB

Ísland – England

Þá var komið að síðasta „legg“ ferðarinnar, þeas. áður en við færum heim. Við vorum búin að panta lestarferðir frá Tréport gegnum Abbeville og París. Það rigndi hressilega og við ákváðum að panta leigubíl. Sá var orðinn frekar seinn fyrir og við hefðum varla náð að ganga þetta, en hann kom nú samt tímanlega. Þegar á stöðina kom var engin lest en ég sá að rútan var merkt Abbeville og sama fyrirtæki, þannig að mér datt í hug að spyrja bílstjórann hvort við ættum nokkuð að fara með honum, sem var einmitt tilfellið.

En rútan stoppaði í Abbeville, þaðan tók við lest, til þess að gera langt stopp í Amiens áður en hún hélt áfram til Parísar. Við fengum þokkalegasta Spaghetti Bolognese beint á mót Gare du Nord lestarastöðinni áður en við héldum áfram til Amsterdam.

Reyndar kom í ljós í lestinni að það voru einhverjir aðrir í sætunum okkar. Og þegar betur var að gáð hafði ég pantað ferðina á morgun. Við gátum þó setið í næstu sætum til Brussel og stóðum svo í veitingavagninum megnið af ferðinni þaðan, rétt tylltum okkur síðasta spölinn frá Schiphol til miðbæjarins. Þannig að þetta hafðist… en við þorðum ekki fyrir okkar litla líf að spyrja ráða í lestinni, vorum smeyk um að verða hent út.

Við vorum svo komin upp á Krasnapolsky um sex leytið, stutt sturta og skipt um föt og svo yfir á Savini að borða Carpaccio og trufflusveppa Risotto. Máltíðin var reyndar trufluð talsvert að heiman og ég náði nú einhvern veginn ekki að njóta matarins. Leikur Ítalíu og Spánar var í gangi og Ítalir unnu, enda vorum við á ítölskum stað… en áhuginn á leiknum var nú reyndar ekki mikill.

Svo var spurning hvar við ættum að horfa á Ísland-England. Satellite við Leidseplein er svo sem fínn íþróttabar, en smá spöl í burtu og við gerðum kannski ráð fyrir að ensku áhorfendurnir yrðu aðallega þar. Það eru tveir þokkalegir barir við Warmoesstraat, en þó Belushi‘s væri með leikinn á fullt af skjám og ágætis úrval af bjór, þá var spiluð hávær tónlist og engin áform að skipta yfir á hljóðið frá leiknum.

Þannig að við fórum á Players, fengum fín sæti og fínan bjór. Meirihluti annarra gesta var Englendingar að fylgjast með sínu liði, en allir aðrir virtust halda með Íslandi. Við þorðum nú samt ekki að vera í „tólfu-peysunum“.

Það þarf svo sem ekki að segja mikið um leikinn, smá svekkelsi í upphafi, frábært að fá jöfnunarmark og alveg galið að fá sigumarki. Englendingarnir ógnuðu ekki mikið og íslenska liðið í rauninni nær því að skora þriðja markið (og það í tvígang), en þeir ensku að jafna. Síðustu mínúturnar voru reyndar óendanlega lengi að líða og ég óttaðist að örvæntingarfullar tilraunir Englendinga myndu skila marki, sérstaklega eftir að Rashford kom inn á, hann virtist talsvert meira ógnandi en aðrir leikmenn Englendinga.

En ég get ekki annað en minnst á íslensku áhorfendurna. Þeir yfirgnæfðu þá bresku nánast allan leikinn.. „búmm“ mjög áberandi og íslensku frasarnir heyrðust skýrt og greinilega.

Eftir leik röltum við niður að „nýja markaði“ og keyptum okkur bjór á De Bekeerde Suster. Við vorum svo sem ekki lengi, en röltum (óhjákvæmilega) í gegn um rauða hverfið á leiðinni upp á hótel.

Amsterdam - Players - Ísland - England

Tréport

Okkur fannst við vera búin að skoða Mers-les-Bains þokkalega þannig að við ákváðum að rölta yfir í næsta bæ, Tréport, enda höfðum við fundið á TripAdvisor að það væri fínasta hugmynd að fara upp á klett í þar til gerðum kláf. Tréport var mun stærri og skemmtilegri en við höfðum áttað okkur á úr fjarlægðinni. Við fundum einhverjar peysur og boli, fínan bjór og fórum svo að leita að kláfnum. Google Maps misskildi okkur hins vegar og sendi okkur gangandi á lokastöð kláfsins uppi á fjallinu. Svo sem ekki mikið mál, en 96 metrar upp á stuttum tíma og stórkostlegt útsýni. Þarna gripum við að sjálfsögðu bjór og fórum aðeins lengra út á horn þar sem útsýnið var tilkomumikið í allar áttir.

Við tókum kláfinn niður og fengum okkur hádegismat og horfðum á Frakkland – Írland. Það var ekkert rosalega stemming hjá Frökkunum á meðan á leiknum stóð, þeir virðast horfa heima hjá sér og svo sest öll fjölskyldan út í bíl og keyrir um flautandi í tvo tíma.

Síðasta kvöldmáltíðin á hótelinu, en barinn lokaði frekar snemma og þrátt fyrir að hann væri í rauninni opinn og þjóninn sæti aðgerðalaus rétt hjá í anddyrinu þá var ekki til umræðu að fá bjór fyrir svefninn undir leik Belga og Ungverja.

Þráðlausa netið á hótelinu var endanlega að gera okkur gráhærð (gott og vel, við vorum eitthvað farin að grána fyrir) því við þurfum stöðugt að vera að slá inn einhverja auðkenniskóda, í hvert skipti sem við skiptum um forrit eða vefsíðu.. og svo kvartaði aðgangsstýringin yfir að við værum þegar skráð inn. Við gáfumst að lokum upp á þessu og Iðunn fór í ferðapakka Símans.Treport - útsýni - 14

Mers-les-Bains, 24.-25. júní

Eftir ágætis morgunmat röltum við aðeins um bæinn, ströndin var að mestu steinótt, frekar hvasst og kalt og ekki í boði að leigja stóla eða dýnur. Bærinn sjálfur virtist ekki mjög stór, eða réttara sagt var strandhluti bæjarins frekar takmarkaður. Fyrsta verkefni dagsins var að finna þvottahús, sem fannst og við sötruðum bjór á meðan. Veitingastaðirnir voru svo búnir að loka fyrir mat þegar þvotturinn var afgreiddur, en einn barinn rétti okkur einhverja undarlega bita úr kartöflum, eggjum og karrí – sem bjargaði okkur. Keyptum svo brauð, opnuðum rauðvín og drukkum með eggaldin mauki.

Um kvöldið kíktum við á írska barinn O‘Brien, sem virtist eini barinn sem var opinn – en bauð reyndar ekki upp á neinn írskan bjór.

Daginn eftir héldum við áfram að rápa stefnulaust um bæinn, örlítið stærri hringur en fyrri daginn og svo fengum við okkur hádegismat á hótelinu. Röltum svo út á horn og keyptum einhvers konar kleinuhringja rendur með kaffinu. Upp á hótel að drekka Leffe og niður á O‘Brien að kíkja á leik Pólverja og Svisslendinga.

Fengum lítinn frið fyrir einhverjum dóna til að horfa á leik Króata og Portúgala á hótelinu þannig að við enduðum aftur á írska barnum.

Mers-les-Bains - strönd - 3

Út á strönd

Enn einn ferðadagurinn, en Sóley býr þarna rétt hjá og ekki annað í boði en að hitta hana (með soninn Kristófer) í hádegismat, rölt um bæinn og bjór – verulega gaman að ná góðri stund með henni.

Alli ætlaði að vera degi lengur í París, áður en hann færi heim í veiðiferð og Viktor var búinn að panta flug til Malaga og ætlaði að vera hjá ömmu sinni nokkra daga í Benalmadena. En fluginu hans Viktors var aflýst og honum gekk ekkert að fá annað flug.

Þegar við komum inn á hótel að sækja töskurnar var Viktor enn að reyna að finna út úr ferðinni til Spánar. Við höfðum pantað lestarmiða frá París til Mers-les-Bains (eða Tréport) og vorum allt í einu orðin full sein í lestina, tókum leigubíl, rétt náðum inn á Gare du Nord, fórum fyrst á vitlausan brautarpall (við vorum svo vitlaus að taka stefnuna á þann hluta stöðvarinnar sem var merktur „allar lestir“), en þetta slapp. Við þurftum að skipta um lest en gripum tvo bjóra í Abbeville á meðan við biðum eftir seinni lestinni. Þetta var frekar lítill en skemmtilegur bar með óvenjulega tónlist og pókermót um kvöldið.

Seinni lestinni seinkaði en við komum svo á lestrarstöðina í Tréport um hálfníu. Þar var engan leigubíl að fá en á hóteli við lestarstöðina fengum við númer á leigubílum. Sá fussaði og sveiaði yfir að við skyldum vilja leigubíl fyrir ferð sem tæki tíu mínútur að ganga og sagði okkur að vera ekki með þessa vitleysu! Þetta tók nú nær 20 mínútum með þungar töskur á ekkert allt of greiðfærinni leið.. en hafðist og við fengum að borða þó við kæmum full seint.

Við vorum á Bellevue hótelinu í Mers-les-Bains, sem var sennilega stærsta hótelið á staðnum, alveg við ströndina, en frekar lítið, herbergin lítil, okkar á þriðju hæð og engin lyfta. Við höfðum keypt hálft fæði, þeas. morgunmat og kvöldmat og gátum valið um fjóra forrétti, fjóra aðalrétti og fjóra eftirrétti.. þá sömu öll kvöldin, og svo komu ostar fyrir eftirréttinn.

Mers-les-Bains - 1

 

Ísland – Austurríki

Leikdagur. Úrslitadagur. Tólfan hafði boðað hitting hjá Rauðu myllunni, og eftir morgunmat og einhverja bið eftir Alla og Viktori, drifum við okkur þangað en vorum ekki komin fyrr en milli tvö og þrjú. Þar var heldur betur stemming og við sátum að bjórdrykkju þar til það var löngu kominn tími til að fara. Þarna hittum við Dísu & Magga & Fannar og fullt af fólki, en kannski hlutfallslega fáa sem við þekktum. Það gekk svo ekkert að finna snarl en létum það liggja á milli hluta.

Troðfull lest að leikvanginum þar sem verðirnir buðu upp á andlitsmálningu fyrir þá sem vildu, einfaldur stimpill var fín leið til að afgreiða þetta hratt og vel. Ég greip hálfa pylsu fyrir utan völlinn og eitthvað sem líktist kjúklingasamloku þegar inn var komið og sullaði í mig vatnsþynntum bjórnum.

En frábær stemming fyrir leik og enn betri á leiknum. Mér tókst víst að hoppa á stóru tánni á Iðunni þegar Ísland komst 1-0 yfir… það blæddi talsvert og Viktor linnti ekki látum fyrr en hún fór í aðhlynningu. Þau misstu af vítinu sem Austurríki klúðraði og markinu sem var dæmt af Íslendingum.

Eftir að Austurríkismenn minnkuðu muninn tóku við ansi langar mínútur og þær síðustu 10 voru fáránlega lengi að líða. Við vorum á þriðja bekk, aftan við mark Íslands í fyrri hálfleik og Austurríkis í seinni hálfleik. Í öllum leikjunum höfðum við verið fyrir aftan annað markið og öll mörkin höfðu verið skoruð hinum megin á vellinum. Það er að segja þar til Ísland komst í 2-1 með síðustu spyrnu leiksins. Staðsetningin hjá okkur var samt þannig að við sáum boltann ekki fara inn, héldum að skotið hefði endað í hliðarnetinu… svo byrjuðu leikmenn og áhorfendur að fagna.

Frábært! Bókstaflega hrikalega frábært..

Við Iðunn og Alli fórum út svo þau gætu reykt, en þegar við vorum komin að hliðinu var búið að loka öllum útgönguleiðum af lögreglu á hestum. Enda byrjaði að rigna og Iðunn fann ekki regnhlífina í töskunni.. (þeas. ekki fyrr en við vorum komin í lestina). Eftir nokkra stund tókst okkur að komast í troðfulla lestina og fórum út á Place de Clichy. Þar leituðum við að veitingastað og Viktori og félögum, tók sinn tíma og slatta af ruglingi, en hafðist á endanum. Fengum frekar ómerkilega hamborgara á Indiana og horfuðum á leik Svía og Belga yfir matnum.

Eftir matinn tókum við nokkra bjóra, hittum slatta af fólki og þekktum nú talsvert fleiri en áður, þmt. Frey, sem tók viðtal við okkur sbr. Sarpinn hjá Rúv. En einhvern veginn var allur vindur úr okkur, O‘Sullivans barinn (sem var einhvers konar miðstöð) var ýmist troðfullur og/eða með dúndrandi hávaða. Við fundum ekki Dísu & Magga, sem voru á hóteli á horninu og tókum bíl niður í bæ um eitt / hálf tvö. Við gleymdum að láta Viktor vita, sem var reyndar með fullt af félögum, en fengum okkur Gin og Tonic á bar í nágrenni við hótelið.. svona fyrir svefninn.

París - leikur - 3