Afmælisgrill

Hittumst í Austurbrún á afmælisdegi tengdapabba og Sæma.. Helgi & Þóra, Anna & Palli, Sylvía og við mættum öll. Grilluðum kjúkling, pylsur og svínahnakka.

Vel heppnað grill og flottur matur – og gaman að fá Ásu & Sæma þegar leið á kvöldið.

En ekki eins gaman að kvöldið endaði samsöng af í endalausum fylliríssöng af evróvisjón, útilegusöngvum og öðrum skelfilegum tónsmíðum.. úff!

Upptökur, grill og Laugarnespartý

Smá garðvinna.. og gluggamálning.

En fórum til Rikka að taka upp bakraddir, Assi, Iðunn & Steini – og Egill í „oi, oi, oi“. Náðum nokkuð mörgum lögum en eitthvað er nú eftir.

Þaðan inn í Austurbrún þar sem við Iðunn, Viktor og Sylvía grilluðum lambafillet.

Og þar á eftir til Hrafns í árlegt fyrir-verslunarmannahelgar-partý.. alltaf skemmtillegt að hitta fólk úr öllum áttum.

Hrafn partý 1

Afmæli

28. júlí var lengi tvöfaldur afmælisdagur.

Pabbi átti afmæli þennan dag, hefði orðið 95 ára.

Og Þóra, konan hans Helga á líka afmæli þennan dag. Þóra bauð í eðal-fiskisúpu að hætti þeirra hjón, að ógleymdum tveimur kökum í eftirrétt.

Pallur

Fyrsti raunverulegi frídagurinn, „hjóluðum“ í að mála pallinn.. Addi og Viktor fluttu allt draslið af pallinum, ég bar á hann og Iðunn bar á þann hluta veggjanna sem þurfti til. (Og Addi sagði þrisvar sinnum brandarann um „áberandi“ 🙂

En gott að vera búin að þessu.. eitt af örfáum hreinum „skylduverkum“ í sumarfríinu.

Matur og drusluganga

Við Viktor kíktum á Austurvöll á enda druslugöngunnar..

Auður & Axel og Friðjón & Sæunn kíktu svo í mat um kvöldið.. graskerssúpa og marokkóskur kjúklingur á matseðlinum… tókst eiginlega ágætlega til.. held ég / vona ég.

Í öllu falli mjög gaman að fá þau í heimsókn, höfum ekki séð Auði og Axel síðan þau buðu okkur í mat í Barcelona 2003, heldur betur kominn tími á að bjóða þeim.

Spil

Tókum aukaspilakvöld í Kaldaselinu.. Brynja & Óskar, Alli og Hrafnkell Máni kíktu í hamborgara fyrir grill, en Alli „Boga“ misskildi boðið og mætti beint í spil. Hrafnkell Máni spilaði svo sem ekki póker en Viktor tók fyrra spilið.. við Iðunn unnum sitt hvort mótið.