2012

31. desember 2012

Enn meiri stúdíó vinna með Rikka, kláruðum lagið og gefum út strax eftir miðnætti á nýju ári.

Mættum svo í mat í Austurbrún, að venju, með humarhala og fengum lambahrygg og ístertu. Alltaf jafn flott útsýni á flugeldana á hæðinni fyrir ofan húsið, við tókum svo sem ekki mikinn þátt, en ég kaupi alltaf aðeins til að styðja hjálparsveitirnar, en sem sagt, alltaf gaman að vera þarna um áramótin.

Kvöldið endaði svo í partý hjá Guðrúnu Odds, vorum ekki lengi, en vel þess virði að fara á flakk og detta þarna inn.

30. desember 2012

Meiri stúdíó vinna með Rikka, nokkuð nærri endanlegri mynd að komast á lagið.

Áramót Iðunnar í Bridge, 9 pör mættu og alveg sérstaklega vel heppnað kvöld – eins og alltaf..

29. desember 2012

Smá stúdíó vinna með Rikka, unnum í „Judge A Pope Just By The Cover“.

Helgi & Þóra mættu svo degi of snemma í áramóti Bridge mótið, en kom sér vel, við tókum létta æfingu, veitt ekki af…

28. desember 2012

Jólaboð hjá Magga & og Þóreyju… mættum í seinna fallinu eftir að hafa nánast slegið þetta af eftir veðurviðvaranir. En mjög gaman, fullt af fólki sem við höfum ýmist ekki séð lengi, ekki hitt áður eða hittum reglulega.

27. desember 2012

Jólamót Jonna haldið í átjánda sinn, höfuðpaurinn náði fullu húsi og ég varð að láta þriðja sætið nægja, enda er maður ekki í nokkurri æfingu, svo afsakanarnar séu rifjaðar upp.

26. desember 2012

Jólaboð hjá „Iðunnar“ hluta fjölskyldunnar hjá Magnúsi & Sylvíu í Austurbrún. Það vantaði ekkert upp á gott kvöld, góður matur, vín og auðvitað, aðallega, fjölskyldan.

25. desember 2012

Jólaboð hjá „mínum“ hluta fjölskyldunnar hjá Kidda, fjórar tegundir af hangikjöt, Einifellskjötið hafði vinninginn þetta árið þó samkeppnin væri hörð. En nóg að éta og drekka – aldrei þessu vant – og frábæru kvöldi lauk á nokkrum leikjum.

24. desember 2012

Aðfangadagur, svona nokkuð hefðbundinn, ofninn hætti reyndar um tíma að elda kalkúninn, en þetta hafðist allt, graflax, kalkúnn, ísterta, rauðvín, kaffi, konfekt – skiptumst á nokkuð vel heppnuðum gjöfum – og spiluðum Heilaspuna.

23. desember 2012

Skötuveisla hjá Öggu, eða réttara sagt skötu- saltfiskveisla. Ákavítið heimakryddað og vel heppnað… annars sátum við eiginlega allt of lengi að bjór, hvítvíns og ákavínsdrykkju og lítið varð úr verkum þegar heim kom.

21. desember 2012

Friddi og Pálína kíktu í mat ásamt foreldrum Pálínu sem eru í heimsókn á landinu, frá Mexíkó. En fyrir utan bjórsmökkun og rifjasteik… fannst þeim fróðlegt að smakka svið.

16. desember 2012

Laufabrauðsgerð hér í Kaldaseli, fyrsta alvöru jóla samkoman. Gaman að fá tengdaforeldrana, Magnús & Sylvíu með.

10. desember 2012

Síðasti tími í Postuladeildinni, Arnar vann öruggan og sanngjarnan sigur, þrátt fyrir góðan lokasprett hjá Magga. Fórum í Pool eftir lokakvöldið, Maggi, Þorvaldur og Þórhallur náðu flestum vinningum.

7-9. desember 2012

Einifells ferð, alltaf jafn gaman að koma þangað. Aðalverkefni helgarinnar var að reykja silung og lax sem tókst bara nokkuð vel. Gaman að hitta Þór & Sísú og frábært að fara að velja jólatré. Annars leið helgin allt of hratt við matargerð, víndrykkju, át, bjórdrykkju, reykstúss og hefðbundið Einifells dútl.

7. desember 2012

Próf, eða „gráðun“ í Karate hjá Breiðablik. Við Iðunn náðum bæði appelsínugula beltinu. En við misstum af hittingi á eftir. Við misstum reyndar líka af matarboði hjá tengdaforeldrunum í Austurbrún og jólamatarboði Staka á „Við Tjörnina“ En við misstum ekki af Einifells ferðinni.

5. desember 2012

Óvænt, stutt og skemmtileg vínsmökunn frá Hafliða eftir vinnu.

1. desember 2012

Jólamatur Sambindisins í Skildinganesi, alltaf frábært að koma þarna. Byrjuðum í heita pottinum, horfðum á nokkra leiki í enska boltanum, síðan hver frábær réttur á eftir öðrum, spurningaleikur að hætti Tomma og kvæðagátur frá Hadda.

30. nóvember 2012

Við Fræbbblar fórum í stúdíó til Friðriks Helgasonar að klára nýja útgáfu af jólalaginu okkar, „Ótrúleg jól 2012“. Fæst á GogoYoko og lággæða myndskreytt útgáfa er á YouTube.

24. nóvember 2012

Nokkrir Postular mættu í spil hér í Kaldaseli.

17. nóvember 2012

Fyrsti dagurinn með þokkalega heilsu alla vikuna. Langur dagur með Goutons Voir. Byrjuðum í gufu á Mógilsá, svo til Krissa & Rúnu á „hústökustaðinn“. Frábærir réttir þar að vanda og svo í leikhús að sjá „Tveggja þjónn“. Í stuttu máli skelfilega vont leikrit, ófyndið og klárlega versta sýning sem við höfum séð eftir að við fóum að stunda leikhúsin reglulega. Þaðan á Lebowski bar en eftir tvo bjóra komumst við að því (a) að næði til að tala saman allt annað og meira (2) tónlistin í allt öðrum og betri klassa og (3) verðið á áfenginu miklu hagstæðara – einmitt hér í Kaldaselinu.

11.-16. nóvember 2012

Skæð hálsbólga sem ætlaði aldrei að ganga yfir, var mállaus dögum saman og hálf rænulaus af verkjum. Annað skiptið á árinu sem ég missi nokkra daga úr vegna veikinda… tók einmitt saman fyrr á árinu að ég hafði bara misst úr tvo vinnudaga samtals á tímabilinu 2006-2011. Kannski jafnast þetta svona út…

10. nóvember 2012

Árshátíð Vantrúar – eftir að við Viktor fórum í gufu og heita potta – skemmtilegt kvöld og vel heppnaður matur, sérstaklega humarinn sem entist miklu lengur en sem forréttur. Ágætis tapas réttir, en kannski full mikið af þykku og þurru brauði.

9. nóvember 2012

Bjórsmökkun í Staka, smá pool, svo yfir í Poolstofuna, Lágmúla, þaðan yfir á Thorvaldsen í nokkurs konar kveðju partý hjá Mílu. Gaman að hitta Mílu fólk, en svefnleysi síðustu daga fór að segja til sín og fór frekar snemma heim. Enda skelfileg, hávær, diskótónlist frá áttunda áratugnum tekin við.

8. nóvember 2012

Iðunn farin til Stokkhólms yfir helgina að heimsækja Maríu, með Berglindi og Siggu.

7. nóvember 2012

Mál Adda er farið til Mannréttindadómstólsins, vonandi tekur þetta ekki of langan tíma, en þetta eru víst alltaf einhver ár.

4. nóvember 2012

Kaffiboð hjá Öggu í tilefni af því að mamma hefði orðið 95 ára á morgun.

3. nóvember 2012

Hljómleikaflakk um kvöldið, þvældist um í kuldanum á milli staða (sem aftur voru vel heitir) og svona mismunandi spennandi atriði. Enda hluti af stemmingunni. Ojba Rasta voru frábær að vanda, hinn Kanadíski WoodPidgeon var fínn og Sindri Eldon (& The Ways) kom(u) líka mjög skemmtilega á óvart. Og ekki gleyma Croisztans, íslensk/dönsk hljómsveit sem spilar einhvers konar balkan punk, flottir. En gaman að sjá hljómsveitir þróast og breytast.

2. nóvember 2012

Kíkti á Guðjón og félaga í Dizzy Ninjas á Reykjavík Backpackers Hostel, mjög fínir hljómleikar.

Við Fræbbblar spiluðum svo á Bar 11 hjá GogoYoko, Extravaganza hljómleikar. Gekk einfaldlega mjög vel, amk. eins og til stóð.

Morðingjarnir voru skemmtilegir, að vanda, á eftir. Og Vaccines frábærir í Listasafninu um kvöldið. Annað sem ég kíkti á var kannski minna spennandi.

27. október 2012

Nýttum okkur gjafabréf á Lækjarbrekku eftir Popppunktsþátttökuna, fínn matur og þjónustu. Við enduðum svo á Esju þar sem einhvers konar grímuball var í gangi. Mættum afmælispartýinu hans Viktors þegar við komum heim um þrjú leytið, þá voru þau að fara af stað í bæinn.

20. október 2012

Madridarhópurinn hittist hjá Helgu og Steinari. Gaman að hitta þau aftur og ekki spilltu frábærar veitingarnar – Steinar að mestu ábyrgur fyrir þeim.

13. október 2012

Mætti í Silfur Egils að ræða kosningar um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá.

Síðan í afmæli hjá Sæunni, ekki að spyrja að veitingunum frekar en fyrri daginn..

Og svo á kertafleytingu til minningar um Rasmus Rasmussen, náðum ekki að sitja alla athöfnina á eftir.

12. október 2012

Vantrúarhittingur á Kex og svo Svarta kaffi, alltaf skemmtilegir „hittingar“.

10. október 2012

Var frummælandi hjá Stjórnarskrárfélaginu í Iðnó í umræðum um þjóðkirkjuákvæðið í stjórnarskrá. Við Siggi Hólm vorum á móti, en Agnes biskup, Dögg stjórnlagaráðsmaður og Hjalti Hugason prófessor voru talsmenn kirkjunnar. Þetta gekk mjög vel (held ég), áhugaverðar umræður, en mér fannst talsmenn kirkjunnar ekki svara almennilega lykilatriðum.

5-7. október 2012

Árleg sumarbústaðaferð Sambindisins, í þetta sinn í Úthlíð, skemmtilegur staður. Hryggur á föstudagskvöld og Raclette á laugardegi.. eða í stuttu máli, fyrirtaksmatur og drykkir í góðum félagsskap. Smá golf á skemmtilegum velli í Úthlíð, póker, skrafl, heitur pottur, gufa, tónlist – eiginlega nákvæmlega eins og svona helgi á að vera.

4. október 2012

Útgáfuhljómleikar Ojba Rasta. Með skemmtilegri hljómleikum sem ég hef séð lengi, frábær tónlist hjá stórskemmtilegri hljómsveit – spilagleðin ósvikin og smitaði út í salinn.

29. september 2012

Sá Blika tryggja annað sæti í deildinni og Evrópusæti á næsta ári. Munar heilmiklu að vera í Evrópusæti á næsta ári.

Svo til Assa & Stínu í hljómsveitareldamennsku. Ekki ónýtt þegar bæði afbrags atvinnu- og áhugamenn í eldamennsku leggja saman í matseðill. Og ekki spillir að hljómsveitarhittingar eru talsvert skemmtilegri síðustu ár, ekki bara spilamennskan sem hefur stórbatnað.

28. september 2012

Postular og gestir mættu í spil, Iðunn, Arnar og Maggi unnu mótin.

22. september 2012

Afmæli hjá Laufeyju Rós, síðbúinn hádegismatur í Fögrubrekkunni. Frábær matur og skemmtileg tilbreyting.

Fórum svo á „Alvöru menn“ með Assa & Stínu í Austurbæ. Byrjuðum reyndr að fá okkur mat á Harry’s á Rauðarárstígnum, fínn matur að Filipískum hætti. Sýningin svona og svona… Leikararnir (og Pálmi) stóðu sig frábærlega, mjög vel gerðar senur og leikhústalandinn, sem á það til að trufla mig var ekki til staðar. Hins vegar er innihaldið ansi rýrt og brandararnir flestir frekar þunnir. Kannski virkuðu þeir enn verr vegna allra þeirra sem sátu nærri okkur og kútveltust af hlátri yfir hverju sem var, áður en „brandarinn“ var búinn og þess vegna í alvarlegu atriðunum.

21. september 2012

Ráðstefna Staka um rafræna viðskiptaferla. Vel heppnuð ráðstefna, Felix góður sem ráðstefnustjóri og ákveðinn klassi að fá Bjössa Thor til að spila í lokin.

20. september 2012

Breiðablik – Fylkir, sá reyndar bara seinni hálfleikinn, sem var frekar slakur, en Blikar náðu að jafna.

17. september 2012

Fótbolti, eins og alltaf á mánudögum. Síðan í útgáfuteiti Ojba Rasta á Faktorý.

16. september 2012

Afmæli hjá Rakel og Andra. Súkkulaðikakan hennar Góu klikkar ekki frekar en aðrar veitingar á þeim bæ.

15. september 2012

Hluti Sambindisins kom í fótbolta, bjór, eldamennsku og átveislu. Svona kvöld geta ekki misheppnast.

14. september 2012

Starfsmannafundur hjá Staka, Tapas / Sushi hjá Jóni á eftir með tilheyrandi drykkjum frá Hafliða. Þaðan í Pool mót Staka sem Jón „rúllaði upp“. Svo aftur í Staka, í þetta sinni í póker sem Gummi vann.

13. september 2012

Vinnufundur sviðstjóra hjá Staka og matur á „Við Tjörnina“ á eftir. Frábær matur, svartfugl og gellur, að vanda og ekki verra að grípa rauðvín á vínbarnum fyrir og eftir.

7.-12. september 2012

IBC sýningin í Amsterdam, eina ferðina enn. Alltaf gaman að koma til Amsterdam og alltaf sérstök stemming í kringum sýninguna. Bjórverðið er enn úti á túni á EuroPub, 8 evrur, en orðið viðráðanlegt víðast hvar annars staðar. Annars svona ekkert stórt í gangi þar, OTT fyrirferðamesta „fyrirbærið“.

En var duglegur að heimsækja uppáhaldsbarina, In De Wildeman, De Bekeerde Suster og Café Belgique klikka ekki og tveir nýir bættust við, báðir í hliðargötu við eina aðal verslunargötuna Kalverstraat.

Af veitingahúsunum datt Vasso endanlega út af verð-að-heimsækja listanum, ofeldað sjávarréttapasta með humri sem var búið að elda í tætlur, amk. fjórum sinnum og það fyrir mörgum dögum. Savini klikkaði ekki, kálfasteikin í meðallagi en trufflusveppa risottóið frábært sem og Carpacio. Fín nautasteik á Cau, en ömurleg teknó músíkin varð til að ég gat ekki beðið með að gleypa matinn í mig og flýja út. Sogno lítur ágætlega út en aðalrétturinn svona lala..

Alli kíkti til Amasterdam og við fórum á smá flakk á laugardagskvöldinu. Meðal annars í Holland Casino, þar sem ég var á sléttu fyrsta kvöldið, en fór út með 570 Evrur í vasanum annað kvöldið. Ég hef alltaf verið stífur á að kaupa inn fyrir ákveðna lágmarks upphæð, hef lítið á það sem tapað fé sem greiðslu fyrir skemmtunina. Síðasta kvöldið leyfði ég mér að kaupa mig tvisvar inn, enda heildar niðurstaðan í mjög góðum plús.

1. september 2012

Fimmtugsafmæli Helga í Austurbrún. Frábærar veitingar og stútfullt hús af skemmtilegu fólki. Eins og við var að búast.

31. ágúst 2012

Postulahittingur til upphitunar fyrir komandi tímabil. Gekk reyndar illa að púsla þessu saman en á endanum byrjuðum við að fá okkur að borða á Gandhi, mjög fínn indverskur matur. Þaðan í Pool í Lágmúlanum og kvöldinu lauk á Kojack í póker. Ekki spillti að bæði Poolið og pókerinn gengu ágætlega.

28. ágúst 2012

Vetrarstarf Sambindisins undirbúið hjá Tomma yfir bláberjaböku og öðrum kræsingum.

24. ágúst 2012

Horfði á úrslitaþátt Popppunkts með Viktori yfir pizzu. Alli, Kalli, Maggi og Þórhallur kíktu í spil. Mjög fínt kvöld. Fyndið að sjá sumar athugasemdir á Facebook þar sem menn eru móðgaðir fyrir hönd átrúnaðargða sinna að nafn á einhverju lagi hafi verið stolið úr okkur.

22. ágúst 2012

Iðunn fjörutíu og sex ára. Vá. En við fórum á Friðrik V., ég nýtti mér boðsbréf eftir popppunkt. En maturinn frábær og þessi framsetning alveg einstaklega skemmtileg, sbr. bloggfærslu.

20. ágúst 2012

Fram – Breiðablik. Ef það var eitthvað jákvætt við þennan leik þá var það að Hólmbert náði að skora. Blikarnir að spila langt undir getu (vona ég), Framarar sennilega líka, en svo sem fimm mörk. Svo er þetta undarlega dómarahappdrætti, það er endalaust verið að toga í peysur andstæðingsins, innan og utan vítateigs. Kannski er allt í lagi að taka á þessu og dæma alltaf, það kostar reyndar fimmtán víti í leik… En ég er ekki alveg að átta mig á því að sleppa nánast öllu peysutogi en dæma svo allt í einu víti, svona einmitt þegar ekkert er að gerast.

18. ágúst 2012

Menningarnótt. Alltaf stórskemmtilegt fyrirbæri. Við Fræbbblar spiluðum á tónleikum á Dillon. Annars kíktum við Iðunn á myndlistarsýningu Rúnu á Loka, yfir á Dillon, smábjór á Laugaveginum, aftur á Dillon, svo að hlusta á Rikka á Myrkum Músíkdögum í Hörpunni (sem kom þægilega á óvart), reyndum að komast til Helga & Þóru í kjötsúpu en samgöngukerfi borgarinnar var lamað og fljótlega útséð að við kæmumst ekki úr Hörpu yfir í Mávahlíð og aftur á Dillon á innan við klukkutíma. En við gripum súpu á Laugaveginum, svo á Dillon að spilum, biðum svo heillengi eftir að heyra Jonna spila með nýju hljómsveitinni, en kristilega fólkið sem auglýsti sig fyrir hvað þau elskuðu alla, var ekki nægilega elskulegt til að leyfa þeim að nota græjurnar sínar. Svo í kaffi (enn á Laugaveginum), þaðan á ellefuna að sjá Geira Sæm koma fram með Kiriama Family (Agent Fresco voru þrælgóðir á undan, en náðum reyndar bara 4 lögum). Svo á Arnarhól að kíkja á flugeldasýninguna, en hún var eiginlega vitlausu megin – ja, eða við vorum vitlausum megin – og sáum lítið. Létum þetta gott heita. En það voru óneitanlega margir viðburðirnir sem við ætluðum að ná sem einfaldlega gekk ekki upp.

12. ágúst 2012

Breiðablik – FH… leikurinn tapaðist með einu marki á fyrstu mínútu. Var lengi að vonast eftir jöfnunarmarki sem aldrei kom. En að mörgu leyti lítur Blika liðið vel út og betur en fyrr í sumar. Samt of mikið af erfiðum sendingum og ég er ekki enn að átta mig á hugmyndinni að dæla stöðugt háum boltum inn í teiginn, FH eru jú með nokkuð sterka miðverði og þar fyrir aftan er markvörður (Gunnleifur) sem hirti flesta boltana auðveldlega.

11. ágúst 2012

Tvöfalt fertugsafmæli Hrundar & Skarpa. Haldið að Þrándarholti í gömlum bragga, verulega skemmtileg stemming. Við gátum sem betur fer grenjað út innigistingu, en margir á tjaldsvæðinu og áður en partýið sjálft hófst í bragganum. Ég var með þeim lélegri og hætti um fjögur / hálf-fimm en Iðunn stóð vaktina til hálf-sjö.

10. ágúst 2012

Við Fræbbblar (Gummi, Steini, Assi, Iðunn og ég) spiluðum á opnun myndlistarsýningar Rúnu á KexHostel. Gaman að hitta marga gamla MK-inga – og auðvitað alla aðra sem mættu. Spilamennskan gekk, að ég held, bara nokkuð vel þrátt fyrir myrkur á sviðinu. Einhverjum fannst við full lágt stemmdir framan af..

En flott sýning og mæli eindregið með henni. Við röltum svo á Ölstofuna að fá okkur Bríó fyrir svefninn.

9. ágúst 2012

Fyrsta Fræbbblaæfing í nokkurn tíma, alltaf jafn gaman að æfa, í þetta skipti aðallega að undirbúa spilamennsku á KexHostel á morgun.

4. ágúst 2012

Kíktum á Öggu & og Magga (og Rakel og Andra) í Móa á heimleiðinni. Vöfflur með öllu hugsanlegu góðgæti og kaffi.

2.-4. ágúst 2012

Einifells ferð með GoutonsVoir, fyrra kvöldið gekk út á leikna morðgátu („Kampavínsmorðin“), nokkuð skemmtileg tilbreyting. En Einifellsferðirnar eru nú einhverjar skemmtilegustu ferðirnar okkar. Fiskisúpa á fimmtudagskvöld að ógleymdum ostum, hráskinku, freyðivíni, bjór, rauðvíni, hvítvíni og einhverju sem ég er örugglega búinn að gleyma. Hrossa- og lambakjöt á föstudagskvöldið með spínat, feta, kartöflurétti og salati. Assi & Stína unnu paramótið í Petanque, Auður einstaklingskeppnina og ég golfið, ef golf skyldi kalla. Og, já, ekki gleyma heimareyktu hangikjötinu sem Einifellsbúar þurrkuðu frá síðustu jólum, kokteilunum og vindlunum. Myndir komnar í Picasa möppuna.

18. júlí – 1. ágúst 2012

Ferð til Benalmadena (Costa del Sol) í íbúð tengdaforeldranna… þetta er að verða hálf partinn heimilislegt að koma þarna. Reyndar aðeins farið að fækka börum og veitingahúsum í götunni og þeir sem eru eftir eru allir (eða flestir) til sölu. En mjög fínn staður, allt til staðar sem þarf án þess að allt sé krökkt af ferðamönnum (eins og okkur). Halli, Steina og Sölvi komu með en fóru heim þremur dögum á undan okkur.

Annars var hitinn tiltölulega mátulegur og þetta snerist nánast eingöngu um að liggja í leti, borða góðan mat og drekka góð vín. Og nokkra bjóra. Da Fano er enn með langbesta matinn fyrir minn smekk, en þjónustan brást reyndar svo illa að það lá við að við færum áður en maturinn kom. Angus steikarhúsið er að vanda pottþétt og Appelsínutréið skemmtilegur nýr staður. Og jú, nýr ítalskur staður í götunni var bara nokkuð góður. Svo var hefðbundin heimsókn á Sabatini – þar sem flestir aðrir en ég fengu bara fínan mat – sardínur og ‘SeaBass’ grilluð við ströndina, heimsókn á gamla vínbarinn í Malaga og tapas barinn „okkar“ á móti Idhunn húsinu.

Svo auðvitað nokkrar minigolf ferðir, ein Tivoliferð og ferð í vatnagarðinn – en við slepptum Torremolinos og Fuengirola að þessu sinni. Smáslys með kyndilinn minn truflaði reyndar lestrar áformin. Við Iðunn stoppuðum eina nótt í London nálægt Stansted í bæ sem heitir Thaxted og virðist hafa frosið í tíma fyrir 40 árum. Við rétt náðum að gista, borða feitan enskan morgunmat og fá okkur bjór áður en við flugum heim.

Og síðasta daginn á Spáni fékk Iðunn húðflúr með Fræbbblamerkinu og nokkrum fígúrumyndum af hljómsveitarmeðlimum.

14. júlí 2012

Matur hjá Gulla & Kristínu, með Bryndísi… byrjuðum í garðinum á fordrykk og forrétt – svo tók hver gæðarétturinn og drykkurinn við af öðrum. Svo eru alltaf sérstaklega skemmtilegar umræður í þessum hóp og dugar ekki kvöldið til..

8. júlí 2012

Kiddi sextíu og fimm ára, rétt bráðum.. eru þetta ekki ellimerki að bæði systkynin séu orðin hálf sjötug? En flott veisla og Fiskidagsferð komin aftur upp á borðið…

7. júlí 2012

Frábært brúðkaup hjá Katý og Óla, eitt af þessum ógleymanlegu kvöldum. Ekkert að matnum, veitingunum yfirleitt, skemmtiatriðunum né öðrum liðum eins og myndatökunni. En kannski eftirminnilegast hvað brúðhjónunum sjálfum fannst þetta gaman…

5. júlí 2012

Agla Margrét 4ra ára (í gær, reyndar), eitthvað seinn í garðpartýið eftir vinnutörn, en veitingarnar sviku ekki frekar en fyrri daginn.

3. júlí 2012

Kíkti í stutt viðtal í Harmageddon vegna spurninganna til Hæstaréttar.

2. júlí 2012

DV birti nokkrar spurningar til Hæstaréttar í opnu bréfi, verður fróðlegt að fá svör.

1. júlí 2012

Dagurinn að mestu í vinnu, félagar Viktors og Jonni kíktu í grill og úrslitaleik EM.

30. júní 2012

Fengum okkur hádegissnarl seinni partinn úti á palli, svo til Helga & Þóru í mat. Þar klikkar hvorki eldamennskan né félagsskapurinn.

23. júní 2012

Viktor Orri útskrifaðist með ágætiseinkunn í stjórnmálafræði frá HÍ. Fjöldskylda og vinir (sem voru ekki á einhverju flakki) kíktu í síðdegissushi og freyðivín. Vinunum fjölgaði svo þegar EM leikur Frakka og Spánverja byrjaði. Við Iðunn kíktum til Halla Reynis sem var líka að útskrifast, sem kennari, og náðum ör hljómleikum með Herði Torfa og samkennurum Halla. Svo aftur heim og auðvitað stóð fjörið sem hæst, þannig að við slógumst í hópinn. Kvöldið endaði reyndar á leiðinlegri nótum því Addi náði að skera sig illa í fingurinn.

15.-17. júní 2012

Einifellsferð og ekki klikka þær. Nýveiddur skötuselur á föstudagskvöldinu og andalæri á laugardagskvöldinu. Að ógleymdu öllu meðlætinu sem fékk jafnvel enn meiri athygli og kostaði enn meira dútl en oft áður. Iðunn brenndi reyndar hendina á heitapottsstrompinu, rétt þegar hún var farin að hrósa slysalausri helgi. En, jú, ekki gleyma bjórnum, Whiskyinu, rauðvíninu, hvítvíninu, ostunum, pylsunum og … jú ég er örugglega að gleyma einhverju.

10. júní 2012

Elvis Costello í Hörpunni. Hann var alveg magnaður, ótrúlegt hvað hægt er að gera með einni rödd og gítar (eða píanói). Ekki spillti að hann spilaði hátt í þrjá tíma. Það vantaði reyndar eitthvað af lögum sem við vorum að vonast eftir, „Indoor Fireworks“ og „Poison Rose“ svo eitthvað sé nefnt. En hann hefði reyndar þurft að spila fram undir morgun til að ná öllu sem okkur langaði að heyra.

9.-10. júní 2012

Heimsókn til Júlíu & Orra í bústað í Úthlíð. Bjór, tónlist, hvítvín, heitur pottur, rauðvín, gufa, freyðivín, grill, fótbolti og Whisky. Og eins og það væri ekki nóg, frábær félagsskapur, gaman að kynnast Álfheiði & Óla.

2. júní 2012

Söng á Jazz og blúshátíð Kópavogs í Salnum með hljómsveit Björns Thoroddsen, þe. Bjössa, Gunnari Hrafns, Scott McLemore og Sunnu Gunnlaugs. Óttar Felix Hauksson og Sigurður K. Sigurðsson sungu nokkur lög, tríó Sunnu tók nokkur lög og Bjössi sína syrpu, ótrúlegur. Verulega gaman að taka þátt og skemmtileg samsetning af atriðum.

Kíktum svo aðeins að Kringlukrána þar sem PZ Myers var að efast með íslenskum „efurum“. Og Óttar Felix að spila seinna. Var aðeins að forvitnast hjá PZ Myers um þetta tal um hvort hógvær ríkiskirkja væri til bóta, en eitthvað var hann farinn að þreytast, mundi þó eftir rannsóknum sem sýna að þetta litlu.

Endaði kvöldið á pöbbarölti með Arnari, Braga, Þórhalli og Jóa – sem var í stuttri heimsókn á landinu.

31. maí 2012

Keppti í Popppunkti í einhvers konar lífsskoðunarliði með Davíð Þór Jónssyni og Hilmari Erni Hilmarssyni. Mótherjarnir ekki árennilegir, Örn Ævar gettubetur spurningahöfundur, Siggi Hlö útvarpsmaður og Villi Naglbítur tónlistarmaður og jú, spurningahöfundur. Mjög spennandi leikur samt..

Leikhús með Auði & Steina og Assa & og Stínu um kvöldið á „Svari við bréfi til Helgu“ í Borgarleikhúsinu. Síðasta leikhúsferð í áskriftarseríu vetrarins. Og svei mér þá ef ekki besta sýningin.

29. maí 2012

Fyrirlestur hjá PZ Myers í Háskólanum í boði Siðmenntar.

27. maí 2012

Skírnarveisla fyrir Hildi, dóttur Góu & Helga í Álfatúninu. Þriðja glæsiveislan á tólf tímum og ekki laust við að það væri farið að reyna á úthaldið í lok dags.

26. maí 2012

Ásta Lovísa stúdent og glæsileg veisla í Hrauntungunni að hætti Assa & Stínu.

Þaðan til Auðar & Steina að halda upp á að Lovísa var orðin stúdent og ekki klikkaði veislan þar frekar en við var að búast. Gerðumst reyndar nokkuð þaulsætin en ekki annað að sjá en að gestgjöfunum líkaði vel.

25. maí 2012

Stutt æfing með Bjössa Thor og félögum til að undirbúa þrjú lög fyrir jazz- og blúshátíð Kópavogs.

24. maí 2012

Við Fræbbblar spiluðum á Rokk í Reykjavík 2.0 með fullt af frábærum hljómsveitum og gekk eiginlega alveg svakalega vel, með betri hljómleikum okkar, held ég…

19. maí 2012

Hákon, Orri og Tommi kíktu í grill, Meistaradeildarúrslitaleik og tónlistarhlustun. OjbaRasta nokkuð fyrirferðarmikil í tónlistinni. En alltaf vel heppnuð kvöld hjá okkur.

16. maí 2012

Sjóstangaveiði hjá Staka á Eldingunni, náði einum þokkalegum, svona stemmingarinnar vegna. Enduðum á Pool stofunni í Lágmúla.

15. maí 2012

Sá Breiðablik vinna Val 1-0 í Pepsídeild karla, að mörgu leyti álitlegt Blikalið í sumar.

14. maí 2012

Matur í Austurbrún hjá tengdaforeldrunum, ekki að spyrja að matseldinni á þeim bænum – smá tölvu / tengingastúss.

11.-13. maí 2012

Uppskeruhátíð Postulanna, í þetta sinn í Minni borgum, sem er nokkuð skemmtileg aðstaða, smáhúsa þyrping og eitt mini „félagsheimili“. Smellpassaði fyrir okkur. Matur, pottur og póker á föstudagskvöldið. Golf á Kiðjabergi á laugardeginum í ekkert sérstaklega góðu veðri. En við Sævar unnum Texas scramble mótið en Sævar átti óneitanlega aðeins stærri þátt í sigrinum. Eitthvað var úthaldið minni á laugardagskvöldið en skemmtilegt að ná síðustu umferð í ensku deildinni í Hveragerði. Það er að segja eftir að við Bragi unnum spurningakeppnina. En fínn matur, frábær félagsskapur og fyrirmyndardagskrá. Ótrúleg elja í Arnari að skipuleggja helgina.

10. maí 2012

Gráðun í Karate skilaði gulu belti..

6. maí 2012

Tuttugu og níu ára brúðkaupsafmæli hjá okkur Iðunni. Og tengdaforeldrarnir eiga gullbrúðkaup.

4. maí 2012

Vor hátíð í vinnunni hjá Iðunn, skemmtilegt kvöld og eftir partý fram eftir… hefðum kannski betur hætt örlítið fyrr.

3. maí 2012

Við Fræbbblar fluttum æfingahúsnæði, amk. til bráðabirgða.

30. apríl 2012

Síðasti tíminn í Postulaboltanum á vorönn – ekkert sérstaklega leiðinlegt að ná loksins titlinum.

29. apríl 2012

Kíkti á Magga og félaga í Karlakór Kópavogs í Salnum, flottir tónleikar og mikil breyting á kórnum frá því í fyrra. Ekki spillti fyrir að sjá að nokkur kunnugleg andlit hafa bæst í hópinn.

28. apríl 2012

Nonni hélt upp á fertugsafmælið, flott veisla og skemmtileg. „Eitís“ þemað kannski ekki alveg fyrir mig, en fín stemming og einhvers konar útgáfa Lands og sona hélt uppi stemmingu.

26. apríl 2012

Kíkti við hjá Hákoni og samstarfsaðilum hjá Gekon. Svo á hinn frábæra Forréttabar með Viktori. Og þaðan á frumsýningu Lónbúans hjá þeim „Markelum“, flott mynd.

20. apríl 2012

Við Fræbbblar spiluðum á SPOT á einhvers konar árgangsballi. Ekki mikil mæting þegar við spiluðum og kannski eins gott, höfum oft verið betri.

15. apríl 2012

Pönnukökukaffiboð hjá Öggu í tilefni af afmælinu á föstudag. Komið allt of langt síðan við hittum (megnið af) fjölskyldunni.

14. apríl 2012

Sambindið mætti (að mestu) í vel heppnað morgunkaffi.

Glæsileg veisla hjá Siggi fimmtugum og ekki síður skemmtileg, enda annað varla hægt með þessum hóp.

13. apríl 2012

Pöbbarölt og pool með Alla og Kalla, skemmtilegt kvöld en fundum engan stað til að enda kvöldið á póker.

5. apríl 2012

Fórum á Forréttabarinn með Assa & Stínu, frábær matur og topp þjónusta eins og áður. Örstutt á Ölstofuna og svo á Sólon þar sem tveir kórar voru að syngja, Flugfreyjukórinn og Vokalkomagniet.

1. apríl 2012

Hildur Elísabet, dóttir Ellenar & Hadda fermdist, flott veisla og gaman að hitta fjölskylduna.

31. mars 2012

Aukaaðalfundur Sambindisins hjá Hákoni. Nokkrir Postular komu í heimsókn um kvöldið.

30. mars 2012

Keila hjá Staka, fylgt af póker, pool og pílu. Og svo flakk á bari bæjarins.

24. mars 2012

Matur á Við Tjörnina. Við Fræbbblar fórum út að borða með Halla Reynis og Ojba Rasta ásamt „viðhengjum“, Þóra var reyndar lasin. En mjög vel heppnað kvöld, fínn matur og gaman að hitta þau utan dagskrár. Við Iðunn fórum með Arnari og Helga á Ölstofuna, þar sem Brio er orðinn skyldudrykkur. Svo á „Næsta bar“, þar sem er meira að segja hægt að tala saman. Ætluðum að kíkja á Arnljót og félaga á Faktorý með Reggae kvöld en gáfumst upp á tuddaskapnum í fólki sem tróð sér stöðugt fram fyrir með aðstoð dyravarða.

17. mars 2012

Afmæli hjá Sóleyju, flott veisla eins og við var að búast og ekki var félagsskapurinn síðri.

8. mars 2012

Sambindið fór í bíó á „Svartur á leik“. Eða réttara sagt, við reyndum. Hver af öðrum datt út og við Tommi fórum tveir. En mjög vel heppnuð mynd, kom skemmtilega á óvart.

3. mars 2012

Tefldi í deildakeppni Skáksambandsins á Selfossi fyrir Bridsfjelagið. Náði jafntefli við heldur sterkari andstæðing, Jón Jóhannesson. Alltaf ákveðin stemming í deildakeppninni en tímasetningin var ekki góð og staðsetningin afleit.

Eftir hádegi tók við GoutonsVoir matar, drykkjar og átveisla. Við byrjuðum á Mógilsá í alvöru Sauna með Sushi frá Krissa & Rúnu. Síðan stutt heimsókn til Agga & Benediktu að skoða Gabríelu og skála í Perelada freyðivíni. Þaðan í Kaldaselið í enn eina ógleymanlega átveisluna, margir forréttir og smáréttir áður en Steini eldaði kjúkling úr söltuðum sítrónum. Svo, ótrúlegt en satt, dundi þessi líka eðal punk tónlist fram eftir nóttu.

2. mars 2012

Fór á barinn á Hilton hóteli með Guðjóni, Heiðari og Sigga eftir vinnu. Gaman að ná þeim utan dagskrár, en Siggi sveikst um og drakk bara kók.

Postularnir kíktu svo í póker um kvöldið, sem hefði svo sem mátt ganga betur.

29. febrúar 2012

Sáum Eldhaf í Borgarleikhúsinu. Flestir voru sáttir og að mörgu leyti fín sýning. En tilgerðarlegur leikhústalandinn og hálf hallærislegar tilraunir höfundar við uppskrúfaðan texta skemmdu talsvert fyrir. Á móti kemur að sagan var fín og hélt athygli.

25. febrúar 2012

Lilja Karen var skírð Lilja Karen í Hjallakirkju. Veitingarnar sviku ekki hjá Gunnu & Kidda og Nonna & Þóru Kötu og mömmu Nonna og fleirum…

Árshátíð hjá Staka og Mílu. Fordrykkur hjá Staka og svo Súlnasalur. Maturinn mjög góður, sérstaklega af svona hópmat að vera. Gulli Helga veislustjóri, skemmtiatriðin heimatilbúin og Páll Óskar sá um tónlistina. Flott kvöld en eins og Páll Óskar er flottur þá er tónlistin sem hann spilar ekki minn tebolli. Þannig að seinni hluti kvöldins leið að mestu á Mímisbar, enda bjór af krana og meira Whisky úrval.

Þetta dugði engan veginn og við fórum með Brynju & Kalla á Ölstofuna að hitta Kristínu..

18. febrúar 2012

Bryndís, Gulli, & Kristín og Eygló & Stefán kíktu í mat. Og Whisky. Og forrétti. Og bjór. Matarklúbbur sem hittist allt of sjaldan.

11. febrúar 2012

Rólegt kvöld enda heilsan ekkert sérstök. Auður og Steini kíktu samt þegar leið á kvöldið og „björguðu“ okkur frá tveimur dauðum helgarkvöldum!

8. febrúar 2012

Fimmtíu og þriggja ára, hálfslappur enn og engin hátíðahöld.

7. febrúar 2012

Lagðist beint í einhverja pest eftir heimkomuna. Hef ekki verið svona illa haldinn í mörg ár.

6. febrúar 2012

Vinnudagur. Fórum með Bússa og Tómasi til RtSoftware að skoða tOG kerfið. Gekk mjög vel og ekki annað að heyra en að þetta sé allt á réttri leið.

6. febrúar 2012

Vinnudagur. Fórum með Bússa og Tómasi til RtSoftware að skoða tOG kerfið. Gekk mjög vel og ekki annað að heyra en að þetta sé allt á réttri leið.

5. febrúar 2012

Fórum á hinn ítalska Sale E Pepe í hádeginu að tillögu Jóns, með Höskuldi, Sirrý og Jóhönnu að sjálfsögðu. Staðurinn er stórskemmtilegur ítalskur staður með syngjandi þjónum og kokkum. Ostrurnar voru fínar og ég fann (eitthvað sem ég vil kalla) perlu í einni. Aðalrétturinn okkar Iðunnar var minna spennandi en aðrir voru sáttir.

Við Jón fórum að horfa á seinni hluta Chelsea-Manchester United á meðan Iðunn og Jóhanna gerðu sitt besta til að drepa sig með því að labba fyrir rútu á fullri ferð.

Um kvöldið fórum við á Bar Boulud sem er nokkuð góður franskur veitingastaður í Knightsbridge. Anna Sigga og Óli, sem við höfðum hitt á flugvellinum komu og hittu okkur á barnum á eftir og við fórum með þeim á Victoria Casino, sátum lengst af á barnum en spiluðum svo nokkra stund. Aftur í einhverjum plús en frekar eftirminnilegt að sjá Royal Straight Flush á borðinu mínu. Ekki bara einu sinni þetta kvöld heldur tvisvar. Og tvisvar komu fjórar drottningar upp á borðinu.

4. febrúar 2012

Vallarferð hjá okkur Höskuldi og Óla syni hans. Arsenal-Blackburn var frábær leikur, átta mörk. Og ekki spillti fyrir að ég veðjaði á að Van Persie myndi skora, Henry skoraði síðasta markið og að leikurinn endaði 7-1. Henry skoraði síðasta markið á fjórðu mínútu í uppbótartíma. Þá var farið gufu á hótelinu enda gegn kaldir eftir vallarsetuna. Iðunn og Sirrý voru aftur í brúðarkjólaleit og gekk nokkuð vel. Fórum svo með Óla og Katí og bróður hennar Kristjáni á Punch Bowl um kvöldið. Einhvers konar bar en samt veitingastaður, mjög skemmtilegur. Jón og Jóhanna kíktu svo á okkur í lok kvöldsins og fórum þaðan í snjókomunn á Connaught hótelið vegna þess að við vorum ekki búin að læra af verð reynslunni þar kvöldið áður.

En það snjóaði og snjóaði og allar samgöngur féllu niður. Ég þrjóskaðist við að labba heim á hótel en á endanum var ekki annað í boði. Ég átta mig ekki á hvað þetta tók langan tíma, sennilega um þrjú korter og frekar illa haldin þegar við náðum inn á hótel. Vorkenni enn stráknum sem þurfti að fara nálægt Wembley, var búinn að bíða í þrjá tíma að reyna að ná í bíl, kærastan sat fúl í anddyrinu og vildi bara að hann „fixaði þetta“. Annað par pantaði herbergi á hótelinu.

3. febrúar 2012

Helgarferð til London, byrjuðum á síðdegisverði á hinum kínverska Princess Gardens, svo niður í Soho að skoða Whisky í Vintage House og á hinn Belgíska Belgo um kvöldið. Alltaf skemmtileg stemming þar og bjórinn góður. Kvöldið fór svo í bar rölt, nokkuð dýran bar á Connaught hótelinu og annan nálægt sem ég man ekki hvað heitir. Við Iðunn fórum svo á Victoria Casino að spila póker. Gjafarinn kunni lítið að meta þegar við gleymdum okkur og töluðum íslensku. En einhver smáplús í heildina, aðallega hjá mér á kostnað Iðunnar.

28. janúar 2012

Postular (reyndar frekar fáir) og fleiri kíktu í spil.

27. janúar 2012

Staki fluttur í Ármúlann, smá innflutningspartý og pókermót, menn entust nú samt ekki lengi.

20.-22. janúar 2012

Sambindishelgi í Ensku húsin í Borgarnesi. Flottur staður og frábær helgi. Kíktum í Landnámssetrið á laugardeginum, fengum góða kynningu, mjög vel heppnað safn / sýning. En frábær helgi, maturinn í hæsta klassa og félagsskapurinn ekki síðri.

15. janúar 2012

Tengdamamma, Sylvía Briem, sjötug á þriðjudag. Ótrúlegt. Vona að við Iðunn verðum svona ung og hress þegar, og ef, þar að kemur. En flott veisla fyrir fjölskylduna, ekki vond að fá „pot-luck“ þegar fjölskyldan hittist.

13. janúar 2012

Vinnustaðapartý hjá Iðunni hér heima. Fullt af skemmtilegu fólki í heimsókn og afleiðinging stórskemmtilegt partý. Þurfti að sinna Viktori þegar leið á kvöldið, sem var að glíma við bankarugl, og ákvað að láta seinni hlutann liggja á milli hluta, enda mikill dagns hafinn undir frekar lítið spennandi tónlist.

12. janúar 2012

Prófuðum að mæta í Karate tíma hjá Breiðabliki.

8. janúar 2012

Matur hjá Brynju og Kalla. Ekki að spyrja að eldamennskunni á þeim bænum. Að mestu leyti gamaldags lambahryggur en einhver heimasmíðuð handtök sem gerðu þetta einstaklega vel heppnað.

7. janúar 2012

Sambindisfundur hjá Hadda í hádeginu, Borgarfjarðarferð skipulögð.

Postula uppskeruhátíð hjá Þórhalli, byrjuðum á póker um fjögur leytið. Fínn matur, óvenju lítið þrasað um reglugerðar breytingar, hringurinn á rólegu nótunum og svo meiri póker. Lét ekki tilleiðast að fara í bæinn á eftir, enda klukkan orðin hálf fjögur.

6. janúar 2012

Kíktum í Bridge til Sæma og spiluðum við þá Guðlaug. Kannski við stöndum við gefin loforð að spila meira á árinu.

2. janúar 2012

Fyrsti dagur í fótbolta á nýju ári.

1. janúar 2012

Letidagur. Svínabógur. Ofninn bilaður. Út að grilla.