Edinborg, Sambindi

Til Edinborgar

Sambindisferð til Edinborgar, þægilegur ferðatími, flogið hálf eitt, fimmtudaginn 19. apríl. Við sóttum Hákon, sem þurfti að sækja tösku til mömmu sinnar í Sunnuhlíð, þannig að við mættum þangað um hálftíu. Innritun og öryggisleit gekk hratt og vel fyrir sig, hittum Helgu & Tomma og Júlíu & Orra og dóluðum okkur með drykki og vonda samloku fram að ferð.

Forpantaður leigubíll beið okkar á flugvellinum, þó svo að flugið hafi verið á undan ætlun og bæði vegabréfaskoðun og töskuskil hafi gengið vel.

Edinborg - fimmtudagur - 5-1

Inn á hótel og út á torg á Beehive Inn þar sem við sátum smástund. Sirrý var komin í bæinn í gær og hitti okkur í bjór. Við tókum smá rölt, aðallega til að finna betra öldurhús þar sem hægt væri að sitja í sólinni, hafðist nú eiginlega ekki, en við stoppuðum á úti-íþróttabar þar sem við lögðumst í æsispennandi indverskan krikket.

Fórum um kvöldið á Mothers India Café. Virkilega góður indverskur matur, svona einhvers konar Tapas útgáfa, fengum hlaðborð af alls kyns réttum, hver réttur öðrum betri og þjónustan fyrirtaks.

Whisky reynsla

Edinborg - föstudagur - 6-1Við Iðunn byrjuðum föstudaginn á Whisky Experience (reyndar eftir morgunmat) sem var vel skipulögð Whisky kynning og gaman að fá samanburð og söguna.. en kannski svolítið yfirdrifið á köflum.

En við keyptum nú einhverjar smá flöskur.

Veeno

Edinborg - föstudagur - 31-1Eftir Whisky reynsluna röltum við upp í nýja bæinn i Edinborg, gripum einn bjór og hittum Krissa & Rúnu og Sirrý á Veeno, skemmtilegum ítölskum vínbar, eða réttara sagt, sikileyskum.

Nákvæmlega það sem við þurftum, smá rauðvín, ostar, skinkur og pylsur.

Við fórum svo á einhvers konar verslunarráp eftir þetta, en svo sem ekki mjög markvisst, enda vantaði okkur ekki neitt.

Föstudagur, seinni hluti

Edinborg - föstudagur - 44-1Eftir verslunarleiðangurinn drifum við okkur upp á hótel og inn á Beehive, ætluðum að hitta Höskuld, Hadda & Ellen. Ég var reyndar sérstaklega óvinsæll á Beehive fyrir að taka fram fyrir hendurnar á húsráðendum og opna upp á efri hæðina til að geta setið í sólinni og drukkið bjór. Enda góð og gilda ástæða fyrir lokuninni á sínum tíma, en þau höfðu reyndar gleymt að opna.

Höskuldur kom og var sárlasinn, hafði verið veikur í fluginu og hálf illa haldinn.

Ellen & Haddi voru svo komin upp á hótel og við rétt náðum þeim áður en við fórum í matinn.

Edinborg - föstudagur - 54-1Höskuldur hafði ekki heilsu í matinn á Contini, ítalskur veitingastaður sem leit mjög vel út, forréttirnir frábærir og þjónustan fín, en eitthvað voru aðalréttirnir minna að heilla okkur.

Vorum svo sem ekki lengi, röltum heim og fórum snemma að sofa.

Laugardagur

Eftir þennan fína morgunmat fórum við á smá ráp, ég fann mér hatt, Iðunn fann badminton skó og svo var kíkt í leiðangur um Royal Mile.

Edinborg - laugardagur - 6-1Michael, leiðsögumaðurinn okkar, var mjög skemmtilegur og sagði okkur margar skemmtilegar sögur, sérstaklega kannski tengdar skoskum bókmenntum. Það tók reyndar smá tíma að hitta á hann, en við byrjuðum á leiði Bobby’s, sögufrægs hunds, svo eitt og annað tengt Harry Potter, Arthur Conan Doyle, Robert Louis Stevenson, Robert Burns og fleiri. Listasafnið kom líka skemmtilega á óvart.

Tókum svo sem ekki allan pakkann, endað hófst ferðin frekar seint..

Við Iðunn náðum smá Whisky Smökkun í Whisky Rooms, keyptum eina flösku og nokkur sýnishorn.

Upp á hótel, enda hvergi hægt að komast að á öldurhúsi til að horfa á Manchester United spila við Tottenham í undanúrslitum enska bikarsins.. en ekki svo merkilegur leikur.

Edinborg - laugardagur -36-1En aðal kvöldmáltíðin var á Rhubarb í Prestonfield, gamalt „herrasetur“, frábært umhverfi, fyrsta flokks þjónusta og maturinn í mjög góðu lagi hjá flestum.

Við byrjuðum á fordrykk í Whisky herberginu og fengum svo matinn í „Ítalska herberginu“. Við vorum nokkuð heppin með vín, kannski aðeins of mikið, en eitthvað runnu fyrirheit um að skiptast á frásögnum út í sandinn þegar leið á kvöldið.

En frábært kvöld og í raun ógleymanlegt en aðeins farið að síga í að sulla í bjór, whisky, bjór, whisky, freyðivíni, rauðvíni, meira rauðvini, eftirréttavíni og svo 18 ára Macallan.

Heimferð á sunnudegi

Fínasti heimferðatími, flug á hádegi eftir góðan morgunverð, reyndar eitthvað daprari en fyrri dagana, kannski smá vottur af þynnku en ekkert alvarlegt.

Sirrý hafði ákveðið að fara með Höskuldi til Brussel, Haddi & Ellen fóru til Glasgow og heim á mánudag – en við hittum Krissa & Rúnu á flugvellinum.

En gekk fínt og við vorum komin heim upp úr hádegi.

Edmonton, fjölskylduheimsókn

Til Edmonton

Vöknuðum ansi snemma, hálf sjö, kaffi í Il Fornaio bakaríinu og svo upp á flugvell. Það gekk mjög hratt fyrir sig og við fengum meira að segja hrað afgreiðslu í gegnum vopnaleit, veit ekki hvers vegna. En tékkuðum aðra litlu töskuna inn, en þar voru einmitt Priority Passarnir mínir. Kom ekki að sök, Iðunn var með sinn, en frekar dapurt samt.

Flugið til Edmonton með því harkalegra sem ég hef lent í, vélin datt nokkrum sinnum niður fyrirvaralaust, einu sinni mjög harkalega.

Biðröðin í vegabréfaskoðun í Edmonton löng og gekk hægt.. og jafn vitlaus og í Chicago (eða næstum því) , fyrst í vélræna skönnun, svo í venjulega..

En komumst inn á hótel rétt áður en við áttum að vera mætt í mat, tókum nú samt eldsnöggan bjór á hótel barnum.

En Gloria og Clinton mættu um 18:00 og við fengum verulega góðan mat á La Ronde veitingahúsinu sem er á efstu hæð, ekki verra að þetta er snúningsveitingastaður þannig að við nutum útsýnisins í allar áttir.

Maturinn var kannski la-la, þjónninn mjög vingjarnlegur, kannski einum of, fannst um tíma eins og honum fyndist að hann væri einn af fjölskyldunni.

En gaman að hitta Gloriu, fá fréttir og segja fréttir.

Gloria bauð okkur matinn og ekki við annað komandi, þau voru hvorugt að fá sér vín og við hefðum nú kannski pantaði eitthvað minna hefðum við áttað okkur á því.Edmonton - þriðjudagur - 2 - La Ronde

Edmonton ráp

Edmonton var ansi köld og kaldari en veðurspáin hafði gert ráð fyrir þegar við lögðum af stað. Gloria hafði boðað gönguferð nokkuð snemma þannig að eftir frábæran morgunmat á hótelinu, hlupum við út í Edmonton City Center, fundum útivistarbúð og græjuðum okkur upp, þeas. ég keypti það allra nauðsynlegasta og Iðunn bætti aðeins við sig.

Edmonton - miðvikudagur - 101-61

Gloria og Clinton mættu fyrir hádegi á hótelið og fóru með okkur á bæjarrölt, fyrst meðfram gilinu sem hótelið stendur við, aðeins niður gilið og svo fram hjá nokkrum áhugaverðum stöðum.

Edmonton - miðvikudagur - 8-1

Við stoppuðum í kaffi á Hyatt hótelinu og svo þaðan gegnum bæinn, að hluta til í undirgöngum sem okkur skilst að liggi þvers og kruss um (eða undir) borgina. Þeim leiðangri lauk á Rogers Place, sem er aðal staðurinn fyrir stórleiki og hljómleika, en matsölustaðurinn þar var ekki með bjór af krana – og mjög lítið úrval af bjór þar fyrir utan. Það var ekki bara það að okkur langaði alveg rosalega mikið í góðan bjór, einhvern veginn var bara ekki mjög traustvekjandi að veitingastaður með 12 bjórdælur gæti ekki afgreitt bjór af krana.

Þannig að við röltum út og fundum Mercer Tavern, þar sem við fengum góðan bjór og óvenjulega rétti.

Næsta stopp var á Alberta Craft Galleri, þar sem við keyptum platta, bolla og vatnskönnu. Þaðan á BearClaw Gallery safnið, í strætó, forvitnilegt, en keyptum ekki neitt. Hins vegar keyptum við teketil á tehúsinu Tea Girl.

Við fórum inn á hótel og svo buðum við Clinton og Gloriu á indverska staðinn Select – kannski frekar alþjóðlega staðinn Select sem er með aðaláherslu á indverskan mat. Í þetta sinn buðum við þeim og þau voru mjög ánægð, enda maturinn frábær og þjónustan við hæfi… þjónninn lét okkur til dæmis vita að ekki væri til fersk mynta í Mojito og ekki allt rétt í salatið. Gloria fékk samt fínasta salat.

En fórum til þess að gera snemma að sofa, enda ekki almennilega búin að aðlagst tímanum – og búinn að vera ágætis dagur.

Bjórframleiðsla

Við Iðunn dunduðum okkur aðeins i búðarápi í Edmonton City Center fram yfir hádegi, enda orðið nokkuð kalt, 14 gráður. Við fengum okkur svo nokkra bjóra, kjúklingavængi og grænmetisdisk á fínasta íþróttabar, Kelly’s Pub.

Carol, systir Gloriu, kom til Edmonton, var mætt seinni partinn eftir fjögurra tíma akstur.
Gloria hafði bókað bjórkynningu hjá Yellowhead.. alltaf gaman að skoða hvernig bjór er framleiddur og fá að smakka.

Edmonton - fimmtudagur - 3 - Yellowhead-18

Kíktum svo aðeins heim til Gloriu, sem býr ekki svo langt frá hótelinu, en fórum heim á hótel að skipta um föt og gera okkur klár í kvöldmat.

Gloria var að fara á kóræfingu um kvöldið, æfing sem hún mátti alls ekki missa af, en við buðum Carol og Clinton á Sorrentino, ítalskan stað. Ég fékk frábæran mat, en full stóran skammt, Iðunn ekki að kunna að meta kjötið í pastanu, sem reyndist vera vísundakjöt („bison“).

En vorum ekki lengi og við sofnuðum snemma enn eina ferðina. Enda nenntum við ekki á barinn, fundum ekki búð með bjór, mini-barinn á hótelinu var tómur og ekki var hægt að fá bjór á herbergið.

Elk Island og kvöldmatur

Edmonton - föstudagur - 101 - Elk Island

Við fengum okkur aftur alvöru morgunmat á hótelinu og röltum svo út á kaffihúsið Board N Brew Coffee, sem var ekki svo langt frá og þótti bjóða upp á besta kaffið í nágrenninu. Ég var ekki sáttur við kaffið en Iðunn var sátt við sitt og umhverfið mjög skemmtilegt, allt stútfullt af borðspilum fyrir gestina..

Þau sóttu okkur um hádegið og fóru með okkur í Elk Island þjóðgarðinn… kannski ekki besti tími ársins til að sjá náttúruna, en enga að síður magnað umhverfi og gaman að koma þangað.

Edmonton - föstudagur - 22 - Elk Island-32

Á heimleiðinni stoppuðum í kaffi í St. Albert og þau keyrðu smá rúnt um bæinn, ma. sýna okkur hvar þau höfðu búið og hvar Clinton bjó.

Svo beint heim til Gloriu sem bauð okkur í mat, Carol sá um bjór og vín og Gloria bauð upp á vísundakjöt! Mjög sérstakt, áferðin ekki ólík nautakjöti, en bragðið minnir kannski að frekar á gæs eða rjúpu eða ég veit ekki hvað… kannski kryddið hafi aðeins villt fyrir okkur (enda villibráð!).

Carol er í amk. þremur hljómsveitum og hefur gefið út „kántrí“ plötu. Hún spilaði nokkur lög og Gloria söng með, Gloria söng enska útgáfu af „Sofðu unga ástin“ mín.. og Clinton spilaði nokkur lög á rafmagnspíanóið, flest Boogie-Woogie, sem hann er hvað mest spenntur fyrir.

Edmonton - föstudagur - 56 - matur-52

Clinton skutlaði okkur svo upp á hótel á gamla „pickup“ bílnum.

Mér tókst að draga Iðunni smá pöbbarölt, eða pöbbrölt í eintölu, í kuldanum. Sherlock Holmes barinn var með lifandi tónlist, svipað úrval af bjórum og flestir aðrir þannig að við fórum yfir götuna á Craft Beer Market… þar sem við fundum fáránlega mikið úrval bjórum af krana, nákvæmlega 100! Við létum tvo bjóra nægja á mann og drifum okkur upp á hótel í kuldanum, rétt rúmlega fimm mínútna labb varð ansi langt í þetta miklum kulda, jafnvel þó við höfum verið þokkalega vel klædd.

Heim

Edmonton - laugardagur - 1-60

19 gráðu frost.. fengum okkur enn einn alvöru morgunmatinn á hótelinu, pökkuðum, tékkuðum út og fórum upp á Sherlock Holmes barinn þar sem við fengum þau til að skipta yfir á síðasta hálftímann í leik Everton og Manchester City yfir einum bjór.

Svo aftur yfir í verslunarmiðstöðina þar sem við bættum aðeins við innkaupin, en verðið svo fáránlega lágt að okkur fannst við eiginlega vera að tapa peningum í hvert skipti sem við slepptum því að kaupa eitthvað.

En svo var auðvitað komið að meira áti, fórum á Old Spaghetti House – vorum með valkvíða á milli hans og Bodega Tapas, en sá var lokaður sem einfaldaði valið – í öllu falli þá fengum við frábæran mat, forrétt, aðalrétt, eftirrétt, kaffi og rauðvín fyrir lítinn pening.

Svo upp á hótel og út á flugvöll.

Kveikjarinn var hirtur af mér, er enn drullufúll, nánar síðar.

En flugið heim fínt, og vorum lent um hálf sjö.

Svo er eitthvað af myndum, en videóin sem Iðunn tók bíða frekari úrvinnslu.