Pool mót Staka

Þurfti að láta bikarinn fyrir Pool mót Staka… enda ekki við öðru að búast, hef ekki spilað leik í ár. En byrjuðum heima hjá Jóni (og Jóhönnu) í afbragðsmat, bjór, hvítvíni, rauðvíni og jafnvel Whisky.

Þaðan á Poolstofuna í Lágmúla þar sem mér gekk nú eitthvað betur en ég þorði að vona, náði amk. í milliriðil, en átti ekki erindi lengra. Sævar vann svo Fribba í úrslitaleik.

Í einhverjum vitleysisgangi datt ég inn í póker á Magma, gekk þokkalega þar til einhver rak á eftir mér að fara í bæinn að hitta Iðunni, sem var á Kalda.. tók smá áhættu og tapaði með tvær áttur á móti tveimur nýjum. En hitti bæði þá sem enn stóðu uppi af Staka fólki og svo Iðunni á Kalda, þar sem við hittum amk. Nínu, gamla æskuvinkonu hennar. Aldrei þessu vant vildi ég segja þetta gott, en Iðunn dró okkur á Ölstofuna, sem var svo sem fínt, hittum Kötu og Jón Stefáns (og eitthvað af fólki sem ég er búinn að gleyma hverjir voru!). Tókum bíl með Fribba og Tóta svona eitthvað nálægt klukkan fimm.

Afmæli

Laufey Rós átti afmæli um daginn, fínasta veisla í Fögrubrekku, að venju.. Annars fór dagurinn í að klippa fallhlífarstökksmyndir af Iðunni, finna afmælisgjöf, mæta í afmæli, horfa á Arsenal-Chelsea (að mestu) og klippa meira… Enda er Iðunn enn í París og fínt að hafa hana á skjánum á meðan.

Jöklaland

Kíkti frumsýningu á kvikmynd Gulla (og félaga), Jöklaland ásamt Bryndísi og Örnu.

Ég hef svona fylgst með síðustu ár.. og þekkjandi Gulla þá átti ég ekki von á öðru en úrvals kvikmynd.

Það kom svo skemmtilega á óvart að myndin var eiginlega enn betri en ég átti von á, ekki bara voru upplýsingarnar skýrar og vel fram settar, heldur komu ný og fróðleg sjónarmið fram.

Til hamingju!

Eiðurinn

Við Iðunn kíktum á Eiðinn í Háskólabíói, hvað segir maður, afbragð, fyrsta flokks.. Svo var komið að því að kjósa um framlag Íslendinga til Óskarsverðlaunanna. Ég var búinn að bíta í mig að það væri þrjár myndir í kjöri, allar vel frambærilegar, en sá á kjörseðlinum að þær voru fjórar – og ég hafði ekki séð þá fjórðu.

Á maður að „halda kjafti“ (sitja hjá) eða velja þá sem manni fannst best að hinum þremur?

Amsterdam, sunnudagur

Ákvað að sleppa IBC, búinn að sinna því sem ég ætlaði að sinna og átti eftir að kíkja á nokkra staði.. til dæmis að drekka meiri bjór.

Meiri vindlar, eitthvað af fötum, líkjör á Wynand Fockink (sem ég veit ekki enn hvernig er borið fram) og eitthvert smádót.

Dundaði mér aðeins á  De Bekeerde Suster, kíkti á markað á torginu þar, allt í lagi kínverkst nudd og svo nautasteik á Gaucho, fín en eitthvað lítið spennandi.

Einn bjór í viðbót á Café Belgique og svo upp á hótel. Ég hafði hugsað mér að nýta nýja leigubílaþjónustu, Abel, enda átti ég afsláttarkóda – þeir eru hins vegar mjög dýrir ef maður vill vera kominn á réttum tíma, var orðinn of seinn í lest þannig að ég pantaði Uber.

Lítið að gera á Schiphol, innritun og leit gengu hratt fyrir sig, en það var bókstaflega allt lokað þegar ég var kominn inn. Flugið fínt og þjónustan bara vel yfir meðallagi, flaug með IcelandAir í þetta skiptið.

Amsterdam, laugardagur, IBC

Var rosalega þreyttur áður en ég fór að sofa, ákvað að slökkva á vekjaraklukkum og leyfa svefninum að hafa sinn gang. Enda svaf ég eins og steinn, svaf vel út en ekkert óheyrilega lengi. Morgunmatur á nálægum veitingastað og svo á IBC. Náði að heimsækja þokkalega mörg fyrirtæki, mikil þróun, betra streymi, meira gagnamagn, meiri upplausn, stærri skjáir og almennt svona frekar stöðugt framhald og fyrirtækin að ná hvert öðru.

360 gráðu myndavélar voru alls ráðandi í „Future Zone“ en eins flott og þetta er, hvort sem það eru hjálmar, hanskar eða kúlur.. þá sé ég ekki gagnið í framtíðinni.

Náði restinni af Arsenal-Southampton, fór á Paste e Basta og fékk frábæran mat, eðal þjónustu og alvöru stemmingu – þjónarnir skiptast á að syngja!

Svo upp á hótel í Sauna  og pott, datt inn á frekar undarlegan bar, fann engan frá RT Software en hitti Árna á EuroPub… Árni var hins vegar á leiðinni heim.  De Bekeerde Suster var lokuð þannig að þrátt fyrir að nenna ekki í Casino datt ég nú samt þangað, tapaði 50 Evrum í póker fyrir óþolandi heppnum náunga sem ætlaði að tudda mér út með tvær fimmur á móti mínum tveimur drottningum.. og gaurinn datt einmitt um þriðju fimmuna.

En, þarf svo sem ekki að kvarta, er í fínum plús á Casino heimsóknum.

Þaðan á LB Whisky barinn, þeir státa sig af hátt í þrettán hundruð tegundum af Whisky en áttu ekkert handa mér fyrr en í áttundu tilraun. Rölti svo upp á hótel í rigningunni, hafði hugsað mér að grípa einhvers konar rusl fæði en borgin var búin að loka.