Sigling 2008

Ferð út

Við stoppuðum í London á leiðinni út, lentum á Stansted rétt fyrir hádegi og fórum frá Heathrow um kvöldið. Við vorum samferða Krissa og Rúnu í fluginu út, rétt náðum að segja skál við Arnar og Unni í Keflavík en misstum af Hjálmari, ótrúlegt en satt. Við kvöddum Krissa og Rúnu með bjór á Stansted. Við áttum svo nokkra klukkutíma milli flugferða þannig að við skildum töskurnar eftir á Euston og fórum í Camden Town.

Skemmtileg stemming á markaðnum þar, en stoppuðum ekki lengi og eyddum allt of löngum tíma í að reyna að finna ítalskan veitingastað, sem reyndist svo vera of langt í burtu fyrir þennan tíma, og enduðum á snarli á pöbb.

Aþena

Lentum svo í Aþenu um hálf þrjú nóttina eftir og ekkert mál að finna leigubíl. Bílstjórinn gaf aðeins tóninn fyrir Aþenu, keyrði allt of hratt, fór yfir á rauðu ljósi og reykti í bílnum. Viðhorfið var gjarnan þegar Iðunn ætlaði að drepa í sígarettunni áður en hún fór inn, „Hvað ertu að hugsa? Hafðu ekki áhyggjur, þú ert í Aþenu“.

Fyrsti dagurinn í Aþenu fór svo í rölt, höfðum hugsað okkur að fara í skoðunarferð á Akrópólis daginn eftir. Út að borða um kvöldið á stað sem vinkona Iðunnar hafði mælt með, Abyssina, ekkert sérstakur matur, en fínt umhverfi, brenndi mig á báðum höndum á einum disknum.

Akrópólisferðin klikkaði svo á því að það var líka fyrsti maí í Grikklandi. Allt lokað. Röltum samt upp á hæðina og skoðuðum bæinn. Fórum um kvöldið á veitingastað sem hótelið mælti með, fengum kjötsúpu í smjörpappír, ekkert sérstakur matur en skemmtilegt umhverfi og stemmingin fín, tveir náungar að spila gríska tónlist og syngja.

Sigling

Við vissum auðvitað ekkert hverju við áttum von á, gerðum okkar talsvert miklar vonir, en sáum þetta engan veginn fyrir. Skipið sló út öll fimm stjörnu hótel sem við höfum verið á. Erfitt að lýsa þessu í nokkrum setningum, en það voru 600 starfsmenn á skipinu en 1.300 farþegar og allir starfsmennirnir á tánum að passa upp á allt væri í lagi, herbergið (eða á ég að segja káetan?) var þrifin amk. tvisvar á dag, morgunmaturinn gat verið á hvaða lúxushóteli sem var, við gátum valið milli ótrúlega margra rétta í hádeginu, og svo var fjórrétta kvöldmatur. Allur matur og gisting var innifalin í tiltölulega hóflegu verði. En við drukkum auðvitað líka, það var vínsmökkun á hverju kvöldi og 13 barir á víð og dreif um skipið. Það var auðvitað Casino á skipinu og það voru sýningar á hverju kvöldi, sem við slepptum reyndar, bókasafn, listaverkasafn, málverkasafn, Picasso, Dali, Rembrandt, líkamsrækt (sem við hefðum kannski betur mætt í), innisundlaug, útisundlaug, körfuboltavöllur, útitafl og Spa. Gott dæmi um að þeir voru ekki að sleppa ódýrt frá hlutunum var að það spilaði hljómsveit fyrir balli og stundum við sundlaugina, kammersveit fyrir framan matsalinn, „dinner“ tónlist við einn barinn og Billy Joel afrit á píanóinu við annan.

Herbergið var þrifið tvisvar á dag og enn eitt dæmið um smáatriðin var að á hverju kvöldi beið okkur „dýr“ úr vöfðum handklæðum, fréttabréf, dagskrá morgundagsins og upplýsingar um næsta áfangastað.

Ferðin var eins konar blanda af sólarlandaferð, siglingu og borgarferð, nema hvað við þurftum ekki að pakka fram og til baka, og keyra langar leiðir, hótelið var jú með okkur.

Einhverra hluta vegna duttum við inn á Casino á hverjum kvöldi, ekki til að sóa stórum fjárhæðum, heldur var skemmtilegasta stemming þar, skemmtikrafturinn Barnaby, Rússinn Boris sem var í rauninni frá Úkraínu en leit á sig sem Rússa þar sem hann hafði flutt til Bandaríkjanna 1979, Úkraínumaðurinn Sasha, sem leit á sig sem Úkraínumann, konan hans Tania, vinkona hennar Elaine og maður Elaine, Jim, frá Californiu. John spilaði við okkur á meðan konan hans Caitlin var í rúllettunni. Systurnar Gail og Jackie frá Kanada og bræðurnir Howard og Bob frá Arizona (ef ég man rétt).

Þar fyrir utan kynntumst við talsvert af fólki við kvöldmatinn. Við vorum ekki með föst sæti í kvöldmatnum heldur vorum við sett til borðs með þeim sem til féllu hverju sinni. Tvisvar sátum við til borðs með hinum 86 ára Raymond Wynne og japönsku eiginkonunni hans Judy til 51 árs. Bæði mjög hress og Raymond sagði að kvöldið áður hefði hann verið unglingurinn við borðið. Joyce og George, Victoria og Mike, Penelope og David að ógleymdum mægðunum Rene og Hillary, sem við hittum nokkrum sinnum þar sem þær voru að tefla á útitaflinu við sundlaugina.

Istanbúl

MS Rotterdam stoppaði tvo daga í Istanbúl, fórum niður í bæ, keyptum „smá“ gull á gamla basarnum, fórum í tyrkneskt bað, Hamami, sem var frábært. Það er að segja hjá mér, Iðunn villtist aftur og aftur sín megin og fékk endurgreitt. Við báðum leigubílstjóra að fara með okkur á dæmigert tyrkneskt veitingahús, sem hann gerði, fínn matur og þjónarnir allir af vilja gerðir, reyndar frekar mikil óreiða, en mjög skemmtileg. Fimm þjónar fyrir hvert borð, einn til að færa okkur matseðlana, annar til að taka við pöntuninni, þriðji til að koma með matinn, sá fjórði til að segja honum hvert hann átti að fara með matinn og sá fimmti til að leiðrétta þann fjórða. Þegar Iðunn var ekki klár á hvernig hún átti að bera sig við að borða kebab-ið kom þjónninn og brytjaði ofan í hana eins og litlu börnin. Vorum svo næstum búin að týna skipinu, leigubíllinn fór með okkur á vitlausa höfn, en náðum að finna réttan stað á endanum.

Seinni daginn fórum við í skoðunarferð, létum pranga inn á okkur þremur rándýrum teppum, skoðuðum bláu moskuna, Ayasofia og safn sem bauð upp á staf Móses, sverð Davíðs og hendi Jóhannesar – eða svo sögðu þeir. Frábær matur í hádeginu í fyrrum sumarbústað þjóðhöfðingjans.

Varna

Við slepptum skoðunarferðum þennan dag, tókum leigubíl niður í bæ og höfum sennilega byrjað á vitlausum enda. Slepptum morgunmatnum á skipinu og ætluðum að fá okkur einfaldan morgunmat í bænum, kaffi, appelsínusafa og croissant, eða einhvers konar horn. Það var hins vegar hvergi í boði, pizzusneiðar í lúgum og kaffistofur sem buðu bara upp á sætar kökur. Fundum svo skárri bæjarhluta þar sem verið er að byggja upp og kannski þess virði að heimsækja seinna. Síðasti bjórinn var á ströndinni rétt hjá skipinu. Við höfðum rölt óvart í áttina að höfninni og leigubílstjórinn sem hafði skutlað okkur í bæinn, lofað að skutla okkur til baka og elt okkur þegar við löbbuðum fram hjá honum, missti af góðum bita.

Odessa

Þó ekki væri nema að koma á Potemkin tröppurnar í Odessa þá var ómissandi að fara í land. Að mörgu leyti svipuð og Varna, mikil uppbygging í gangi, fengum frábært Carpaccio á veitingastað sem var að mestu úr stáli og gleri.

Vorum samt ekki lengi, brúðkaupsafmælisdagurinn, fórum á Pinnacle, grillið á skipinu, um kvöldið og fengum frábæra steik en gleymanlega forrétti og eftirrétti.

Constanta

Kannski minnst spennandi borgin við Svarta hafið, stoppuðum reyndar ekki lengi, tókum rútu í bæinn, reyndum að finna hraðbanka sem virkaði eða peningaskiptilúgu sem vildi skipta búlgörskum eða úkraínskum peningum. Þegar þeirri þrautagöngu lauk leituðum við að bar, hittum systurnar Gail og Jackie og buðum bjór með okkur. Röltum aðeins meira en tókum svo rútuna „heim“. Kannski eins gott að við völdum ekki skoðunarferð, hittum fólk sem kom niður á skip og sagði sínar skoðunarfarir ósléttar, farastjórinn hafði týnt þeim ásamt tíu öðrum.

Svartahafið

Svo var mjög sérstakt að sigla niður Svartahafið meðfram strönd Tyrklands. Við fengum sögustund á skipinu sem rifjaði upp bardagana við Gallipolí, „And The Band Played Waltzing Matilda“ söng í hausunum á okkur í steríó.

Þess á milli lesið, legið í leti, lesið, mót í 21 með viðbúanlegum árangir og lesið meira.

Ísrael

Tókum langa skoðunarferð til Jerúsalem og Betlehem. Ef eitthvað var átti ég von á að Ísrael væri auðugra að sjá, þó ekki væri annað. Leiðsögumaðurinn dældi í okkur sögu sem var farin að ryðga eða við höfðum alls ekki heyrt. Mjög fróður og sagði vel frá, en á köflum aðeins of góður með sig og sína, fyrir minn smekk. En sagan auðvitað miklu flóknari og hrikalegri gegnum tíðina og reyndar miklu meiri flækjur í dag en maður fær af daglegum fréttum. Og átökin í dag, þó kaldranalegt að segja, kannki bara skuggi af því sem þau hafa verið gegnum aldirnar. Við heimsóttum Getsamanegarðinn, grátmúrinn, krossfestingarhæð og upprisuhelli í Jerúsalem og fórum seinna um daginn til Betlehem að skoða fæðingarstað Jesú. Í rauninni nöturlegt að rifja upp allar þær hörmungar sem þessir staðir hafa kostað, þetta eru bara staðir, steinar og dót. Allt saman heilagt og þess virði að drepa miskunnarlaust fyrir. Hlægilegt að hugsa til þeirra trúuðu andans manna sem tala niður til (okkar) sem ekki trúa á neitt sem fólks sem „trúir á stokka og steina“, sem er auðvitað ekki rétt, við trúum heldur ekki á stokka eða steina. Og að sjá svo þessa stokka og steina sem þeir trúuðu hafa verið að eltast við gegnum aldirnar, er það ekki að trúa á stokka og steina?

Kýpur

Stysta stoppið í ferðinni var í Limasol á Kýpur, við tókum rútu í bæinn og til baka, á milli fengum við okkur bjór, keyptum Muscat vín og Elato, kýpverskt nammi og hnetur, fengum okkur Moussaka og fórum til baka.

En sennilega sá staður sem við færum helst til í sumarfrí af þeim sem við heimsóttum, þó stoppið væri stutt þá minnti þetta á ódýra og rólega Nice.

Egyptaland

Fórum í skoðunarferð frá Alexandríu til Kaíró, pýramídar, Sfinx og matur á Níl. Sláandi fátækasta svæðið sem við keyrðum um, þriggja tíma ferð hvora leið, ekki kannski skemmtileg, en gaman að sjá hvernig þeir eru að rækta upp eyðimörkina, sem okkur var sagt að væri að frumkvæði Sadats.

Pýramídarnir voru svo sem nógu stórir og svakalegir en samt ekki svo heillandi. Allar kenningar um að pýramídarnir væru svo mikil og vönduð smíð að þetta hlyti að vera gert af geimverum eða öðrum máttarvöldum virkuðu jafnvel enn hlægilegri í návígi. Vissulega stórt og mikið og hefur kostað einhverja mannmánuði í vinnu, en greinilega bara fullt af fólki að vinna í marga áratugi. Leiðsögumaðurinn sagði okkur að það hefði komið í ljós að þeir hafi verið byggðir af bændum í sumarfríi en ekki þrælum. Má vera að þeir hafi unnið líka við þetta en það er ofvaxið mínum skilningi að einhver hafi puðað sjálfviljugur yfir sumarmánuðina við þetta, amk. miðað við hitastækjuna í maí.

Fórum inn í stærsta pýramídann gegnum loftlaus, lág göng og komumst að því að þar var ekkert að sjá og engin ástæða til að taka af okkur myndavélarnir.

Sölumennirnir fyrir utan voru enn ágengari en áður, einn hirti 20 dollara og 500 krónur (já, íslenskar) af Iðunni. Túristalöggan sem átti að passa ferðamennina fyrir óprúttnum sölumönnum var líka að maka krókinn á myndatökum, „aðeins 4 dollarar“.

Sfinxinn var, svona fyrir minn smekk, merkilegri en pýramídarnir, en hitinn var orðinn kæfandi og við stoppuðum ekki lengi.

Maturinn á fljótabátnum á Níl var svo sem ekki spennandi, magadansinn flottur og eins náunginn sem snerist hring eftir hring með einhvers konar pils eða hatt, en hvort tveggja full langdregið.

Síðasti dagurinn

Mót í 21, gekk betur en fyrra skiptið, en rétt misstum af úrslitunum, annars sama letilíf og fyrri siglingadaga. Fórum í fyrsta skipti í Spa hlutann og fengum frábært nudd.

Aþena

Fengum nokkra klukkutíma í Aþenu eftir að siglingunni lauk og áður en við flugum til London og ákváðum að reyna aftur að komast á Akrópólis, sem tókst og kom nokkuð á óvart, fengum einka leiðsögumann, sem rifjaði fullt af sögu upp, og vorum eiginlega nokkuð heilluð. Hefði ekki viljað missa af þessu.

London

Vorum eiginlega hálf lasin og hálf kvefuð, alltaf gaman að rölta um London og drekka bjór, en stóðum ekki í miklum stórræðum. Sáum Lewis Schaffer, uppistandara á The Arts Theatre, mjög góður og 3 frekar dapra uppistandara á Comedy Club kvöldið eftir. Fínn matur á indverska Rasa og hinum Thaílenska Busaba Eathai, frábær matur á japanska Roka en Passione nokkur vonbrigði. Spaghetti House og Cafe Pasta í Covent Garden buðu upp á fínt miðdagssnakk. En engir hljómleikar og ekki laust á Derren Brown. Sparks voru reyndar með hljómleikaröð þar sem þeir spiluðu eina stóra plötu á hverju kvöldi, „A Woofer In A Tweeter Clothing“ á laugardagskvöldinu, en þó ég hafi hlustað aðeins á hana í tónlistarhallærinu á fyrri hluta áttunda áratugarins þá endist hún ekki vel, og Iðunn hafði engan áhuga.