Laugarásheimsókn, föstudagur

Kíktum til Arnars og Unnar (og Unnsteins) að Laugarási.. þar sem þau búa í nokkuð skemmtilegu húsi, ekki beint sumarbústaður eins og við héldum. En mættum í fínni stemmingu eftir að hafa rifjað American Idiot upp á leiðinni.. Iðunn reyndar útkeyrð eftir að hafa „trommað“ nánast allan tímann.

Alli, Hrafnkell Máni og Agla Margrét mættu svo líka.

Við buðum upp á spínatspaghetti í einfaldan kvöldmat og duttum í að spila Fimbulfamb fram eftir nóttu. Létum nægja að koma okkur fyrir í húsinu frekar en að færa okkur yfir í nærliggjandi sumarbústað sem við máttum nota.

Bar og leikhús

Fyrsta leiksýning vetrarins.

Byrjuðum á léttum mat á Íslenska barnum, allt í lagi matur, skemmtilegt úrval af bjór – en rútubílasöngstjórinn á píanóinu var ekki alveg það sem við vorum að leita eftir.. vorum svona frekar á þeim buxunum að reyna að spjalla saman.

Þá í Borgarleikhúsið á Bláskjá. Eitthvað vorum við ekki að tengja og eitthvað vorum við ekki að skilja. Stutt (sem var óneitanlega kostur) og einhvern veginn mikil læti utan um lítið annað en klisjur, tilgangslausar tilvísanir og jú, verulega slappa brandara.

En kannski eru þetta bara okkar takmarkanir.

Landsleikir og spil í Kaldaseli

Enn eitt spilakvöldið í pókermótaröðinni okkar í Kaldaselinu..

En kvöldið hófst reyndar snemma.

Horfði á Danmörk-Ísland U21 eftir vinnu í Ármúlanum… fín úrslit. Vonandi ná þeir að klára dæmið heima.

Kom svo heim og horfði á Litháen-Ísland.. frábær leikur hjá íslenska liðinu og úrslitin eftir því. Ótrúlegt að sjá íslenskt landslið loksins spila alvöru fótbolta.

Svo mættu Þórhallur, Brynja, Alli og Maggi í spil.. Guðjón tók þátt í því síðasta – við náðum fjórum mótum, sem hefðu reyndar mátt ganga betur.

Blikasigur 40 ára

Kíkti á Kópavogsvöll í hádeginu að hitta gamla félaga úr yngri flokkum Breiðabliks frá áttunda áratugnum. Gaman að hitta hópinn og rifja upp gamlar sögur. Ég var reyndar til þess að gera lítið með 1974 þegar félagið vann þrjá Íslandsmeistaratitla á einum og sama deginum.. en var aðeins með árið eftir þegar við unnum tvo titla.

Horfði svo kvefarður innandyra á Breiðablik taka á móti Val í lokaleik deilarinnar þetta árið.. mikið hrikalega var fúlt að tapa fyrir Þór um síðustu helgi, hefði sá leikur unnist hefði Evrópusæti enn verið í myndinni.

Svolítið undrandi á Valsmönnum, virkuðu áhugalausir og pirraðir og aðallega hafa áhuga á að brjóta á andstæðingunum, hefði ekki komið á óvart þó fleiri en einn hefði verið sendur snemma í sturtu. Frekar daufur leikur framan af, en eftir að Blikar komust yfir var aldrei spurning hvernig leikurinn færi. Þar fyriri utan frekar skrýtið að stuðningsmenn Valsmanna skyldu sitja heima þegar liðið er í færi að ná Evrópusæti.. nema þeir séu ekki fleiri en þetta.