Laugarásheimsókn, föstudagur

Kíktum til Arnars og Unnar (og Unnsteins) að Laugarási.. þar sem þau búa í nokkuð skemmtilegu húsi, ekki beint sumarbústaður eins og við héldum. En mættum í fínni stemmingu eftir að hafa rifjað American Idiot upp á leiðinni.. Iðunn reyndar útkeyrð eftir að hafa „trommað“ nánast allan tímann.

Alli, Hrafnkell Máni og Agla Margrét mættu svo líka.

Við buðum upp á spínatspaghetti í einfaldan kvöldmat og duttum í að spila Fimbulfamb fram eftir nóttu. Létum nægja að koma okkur fyrir í húsinu frekar en að færa okkur yfir í nærliggjandi sumarbústað sem við máttum nota.

Bar og leikhús

Fyrsta leiksýning vetrarins.

Byrjuðum á léttum mat á Íslenska barnum, allt í lagi matur, skemmtilegt úrval af bjór – en rútubílasöngstjórinn á píanóinu var ekki alveg það sem við vorum að leita eftir.. vorum svona frekar á þeim buxunum að reyna að spjalla saman.

Þá í Borgarleikhúsið á Bláskjá. Eitthvað vorum við ekki að tengja og eitthvað vorum við ekki að skilja. Stutt (sem var óneitanlega kostur) og einhvern veginn mikil læti utan um lítið annað en klisjur, tilgangslausar tilvísanir og jú, verulega slappa brandara.

En kannski eru þetta bara okkar takmarkanir.

Landsleikir og spil í Kaldaseli

Enn eitt spilakvöldið í pókermótaröðinni okkar í Kaldaselinu..

En kvöldið hófst reyndar snemma.

Horfði á Danmörk-Ísland U21 eftir vinnu í Ármúlanum… fín úrslit. Vonandi ná þeir að klára dæmið heima.

Kom svo heim og horfði á Litháen-Ísland.. frábær leikur hjá íslenska liðinu og úrslitin eftir því. Ótrúlegt að sjá íslenskt landslið loksins spila alvöru fótbolta.

Svo mættu Þórhallur, Brynja, Alli og Maggi í spil.. Guðjón tók þátt í því síðasta – við náðum fjórum mótum, sem hefðu reyndar mátt ganga betur.