Greinasafn fyrir merki: Borgarleikhúsið

Gaukar í leikhúsi

Leikhús í kvöld, eftir frekar afslappaða helgi, eiginlega þá fyrstu síðan í ágúst… fór aðallega í rólegheit heima, bæði föstudags- og laugardagskvöld, enda ekki leiðinlegt að sitja á „kojufylliríi“ með Iðunni.

Assi & Stína buðu okkur og Krissa & Rúnu heim fyrir í eðalsalat fyrir sýningu. Við mættum með Reypenaer XO ost og uppáhalds hreindýrapaté-ið okkar úr „Þinni verslun“ í Breiðholtinu. Og Rúna (og Krissi?) mættu með graskerssúpu sem stóðst alveg væntingar minninganna.

En leikrit kvöldsins var sýningin „Gaukar“ í Borgarleikhúsinu. Fyrirtaks sýning, leikritið vel yfir meðallagi, öll umgjörðin fyrsta flokks og leikurinn óvenju góður og laus við tilgerðarlegan leikhústalandan sem er allt of algengur í íslensku leikhúsi. Reyndar kom ekkert á óvart að Jóhann (Sigurðarson) hafi verið frábær, en ég man ekki eftir að hafa séð Hilmar (Guðjónsson) áður… en sem sagt mjög gott.

Ef eitthvað er þá hefði ég viljað skipta um svona helminginn af með-áhorfendum Ég læt alltaf trufla mig þegar fólki finnast ómerkilegustu hlutir ofboðslega fyndnir, eins og þegar einhver er að pissa í bakgrunni… og kannski enn frekar þegar fólk er að skellihlæja á kolvitlausum stað.

Sluppum – enn amk. – vel frá veðrinu.

Bar og leikhús

Fyrsta leiksýning vetrarins.

Byrjuðum á léttum mat á Íslenska barnum, allt í lagi matur, skemmtilegt úrval af bjór – en rútubílasöngstjórinn á píanóinu var ekki alveg það sem við vorum að leita eftir.. vorum svona frekar á þeim buxunum að reyna að spjalla saman.

Þá í Borgarleikhúsið á Bláskjá. Eitthvað vorum við ekki að tengja og eitthvað vorum við ekki að skilja. Stutt (sem var óneitanlega kostur) og einhvern veginn mikil læti utan um lítið annað en klisjur, tilgangslausar tilvísanir og jú, verulega slappa brandara.

En kannski eru þetta bara okkar takmarkanir.

Hamlet

Við mættum á áskriftarsýningu á Hamlet í Borgarleikhúsinu. Við vorum óneitanlega frekar þreytt eftir helgina og eftir nokkuð neikvæðar umsagnir var alveg á mörkunum að við nenntum að mæta. En höfðum aldrei séð Hamlet og það var eiginlega skylda að mæta.

En, sýningin kom skemmtilega á óvart og var hin besta skemmtun. Ólafur Darri stóð vel fyrir sínu, sama má segja um Jóhann, aðrir svo sem mismunandi góðir, eins og gengur – í stuttu mál hélt hún athygli og ekkert að henni. Ég hef að vísu ekki séð Hamlet fyrr og hef því engan samanburð við aðrar uppfærslur.

Ef eitthvað var, þá finnst mér leikritið kannski ekki standa undir merkjum. Ekki svo að skilja að það hafi verið ómerkilegt, en ég var nú ekki að kveikja á því hvers vegna þetta er á þeim stalli sem það er. Meira að segja fannst mér sagan nokkuð götótt á köflum – en nú veit ég ekki hvort breytingar á leikritinu í þessari uppfærslu valda því eða hvort þetta er svona í upprunalegum texta.

Og jú, eitt í viðbót. Skrúðmælgi (að mér skilst) upprunalegrar þýðingar í bland við til-þess-að-gera nútímalegan talsmáta gerði ekkert fyrir mig annað en að vera ruglandi. Sama gildir um óljósa tímaramma… svona einhvern veginn hálf tilgangslaust.

Ferðaundirbúningur og leikhús

Byrjaði daginn reyndar á að sækja letistól.. en síðan fundur hjá Bryndísi til að „hita upp“ fyrir komandi skíða- / afmælisferð.

Þaðan í leikhús með stuttri viðkomu á Kringlukránni..

Sáum „refinn“ á litla sviði Borgarleikhússins. Leikurinn var í fyrsta flokki, smá hnökrar skiptu í rauninni litlu, varð jafnvel til að leikurinn varð eðlilegri fyrir vikið. Ég þurfti reyndar að fá skýringu í hléi á því hvað hlutverk einnar persónu var kallað („refabendir“), heyrði bara „refabrxksx“. Sviðsmyndin var mjög flott, þó ég áttaði mig ekki á hvað fótanuddtækið var að gera þarna.. Eina vandamálið var að leikritið sjálft er frekar „þunnur þrettándi“ – og það er jú takmörkun sem hvorki úrvalsleikur né flott sviðsmynd geta komist yfir. Ein, frekar mikið notuð, hugmynd og einhvern veginn frekar fyrirsjáanlegt og óspennandi..

Ætluðum að fá okkur einn bjór á kránni eftir sýningu en þá var búið að loka… getur það verið klókt að loka krá við hliðina á leikhúsi svona snemma? Í öllu falli þá buðu Krisssi & Rúna heim og við töluðum um mat í klukkutíma!