Ítalskur matur

Kíktum á (tiltölulega) nýjan ítalskan veitingastað í hádeginu. Lítið spennandi matur, kannski ekki beint vondur, en brauðið amk. frá því í gær, frekar dýr og ekki bætti úr skák að hafa dúndrandi hátt spilaða ítalska Eurovision tónlist undir borðum, spilaða úr einhverjum dósagræjum.

Activators (ekki lengur Validators) á Gamla Gauknum

Mætti á Gamla Gaukinn að horfa á Fivebellies, Dýrðina, Kill Pretty, Caterpillarmen og Activators. Activators hétu áður Validators og komu fyrir þremur árum og spiluðu á Faktorý. Þá spiluðum við Fræbbblar með, eftirminnilegt og skemmtilegt kvöld.

Ég segi ekki að sólarhringurinn sé enn alveg á hvolfi eftir Boston, en vorum orðin sein fyrir.. Iðunn ákvað að sleppa, en Addi skutlaði mér um miðnætti. Þá voru Fivebellies og Dýrðin búin að spila.

Kill Pretty frá Manchester voru að spila þegar ég mætti. Satt að segja ekki mikið fyrir mig, eitt lagið þó kannski ekki alvont. Caterpillarmen eru svo mjög flott hljómsveit, en aftur, ná kannski ekki alveg til mín, með minn undarlega tónlistarsmekk.

Activators, sem töpuðu Validators nafninu fyrir einhverjum sem hafði fyrir löngu verið í óþekktri hljómsveit sem hét „{einhver} and The Validators“. Sá hafði fyrir því að skrá nafnið sem vörumerki og Activators þurftu að gefa sig. Svo var ekki verra að hitta grjótharðan Derby County aðdáandann aftur.

Liðsskipan Activators var aðeins breytt frá því síðast, blásarasveitin komst ekki með og aðalgítarleikarinn fjarri mjög svo góðu gamni. En þræl skemmtileg hljómsveit og ég er ekki frá því að þau hafi verið talsvert betri núna en síðast.

Validators-4-litilValidators-3-litil

En flott framtak hjá Júlíusi (og félögum?) að standa fyrir þessu. Og óneitanlega dapurt að ekki skyldu fleiri mæta.

Lokadagurinn í Boston

Síðasti fyrirlesturinn í dag, verkstjórn í BI.. eiginlega betri en sá í gær og það sem meira var, fyrirlestur gærdagsins að miklu leyti óþarfur. En það er ekki hægt að vita allt fyrirfram. Ég tók reyndar langt hádegishlé, keypti iPad mini, tösku og tók góðan tíma í mat.

Náði svo tveimur börum áður en ég fór í flug, Bukowski, þar sem dyravörðurinn var svo vinsamlegur að heimta skilríki áður en mér var hleypt inn.. enda þess krafst ef fólk lítur út fyrir að vera þrítugt eða yngra. Lauk svo flakkinu á Cigar Masters.

Boston-Fimmtudagur-Seinni-Bar

Flugið var aðeins styttra en ég átti von á – en rosalega er erfitt að sofa í sætunum sem ekki er hægt að halla aftur, þrátt fyrir að auka fótarými sé vel þegið. Iðunn nennti að sækja mig út á flugvöll, enda vorum við farin að sakna hvors annars illa eftir þriggja daga fjarveru.

Meiri ráðstefna

Sat undir Agile BI fyrirlestri í dag, sem hafði svo sem sína kosti og galla.

Jón fór heim um kvöldið, en við Kári fórum á Stephanies, eða steikarstað, ekki langt frá hótelinu. Rib-eye steik annað kvöldið í röð, talsvert ólík þeirri fyrri en engu að síður topp steik.

En gaman að hitta Kára Indriðason aftur eftir þetta langan tíma. Við spiluðum saman í hljómsveitinni Fitlarinn á bakinu eftir að ég hætti í Fræbbblunum 1983. Við höfum eiginlega varla hist síðan.. þannig að það var af nógu að taka að rifja upp og segja fréttir. Enduðum á að sulla aðeins í Whisky þegar leið á kvöldið, sem var ekkert sérstaklega leiðinlegt.

Frídagur í Boston

Ég breytti aðeins um fyrirlestra og átti frí í dag… var eiginlega hálf dasaður og svaf megnið af morgninum. Fór svo á eitthvert flakk, en hálf gagnslaust, þær búðir sem ég leit inn í voru ekki beinlínis að gefa vörurnar.. Var reyndar aðallega að leita að spjaldtölvu, en lítið um raftækjaverslanir og RadioShack búðin sem ég fann var eiginlega hvorki fugl né fiskur.

Datt um hinn Cheers barinn, þeas. þann sem er á upphaflega staðnum, stóðst ekki mátið að kíkja þó mér liði svolítið eins og túrista í fyrstu útlandaferðinni.

Boston-Þriðjudagur-Cheers

Kíkti svo á Arsenal – Dormund á LIR barnum. Arsenal tapaði þannig að hvorki Wenger né Viktor fengu afmælisgjöf frá Dortmund!

En við Jón fórum svo í Galleria verslunarmiðstöðina að leita að betri raftækjaverslunum. Fann þokkalega BestBuy búð og fékk þar allar upplýsingar og allt sem ég þurfti til að ákveða mig með spjaldtölvuna.

Og um kvöldiðfórum við svo á frábæran grill stað, Grill 23, fengum okkur hálfs kílóa 100 daga Rib-Eye.. alvöru nautasteik og ein sú besta sem ég hef fengið.

Smá barrölt eftir matinn og ég kíkti svo á Cigar Masters í stóran vindil og belgískan bjór eftir að Jón gafst upp.

Ráðstefna áfram, Iðunn og Jóhanna heim

Fínn fyrirlestur í dag, en kannski óþarflega mikið af endurtekningum frá í gær.

Hádegishléið einn og hálfur tími þannig að við hittumst á Legal Seafood í alveg ágætum mat.

Það þurfti svo extra stóran leigubíl til að ferja Jóhönnu og Iðunni út á flugvöll með allar töskurnar.

Boston-Mánudagur-Heimferð-Litil

En við Jón fórum á mexíkóskan stað, Cactus Club, um kvöldið, mættum snemma og vorum ekki lengi. Kvöldið fór svo í smá vinnu, hjá mér að endurskoða hvaða fyrirlestra ég var bókaður á.. og ákvað að skipta.

 

Fyrsti dagur á ráðstefnu

Fyrsti dagurinn á ráðstefnunni. Sunnudagur. Illa gert. En var svo sem ágætlega hress þrátt fyrir gærkvöldið.

Fórum á indverska Kashmir um kvöldið, allt í lagi, Iðunn fékk fínan mat, Jóhanna pantaði lax í einhverri karrísósu sem var ekki að virka.. annað var í góðu lagi en ekkert sérstakt.

Entumst ekki lengi um kvöldið.

Boston-Sunnudagur-Iðunn-litil

Meira af Boston

Annar stefnulaus dagur í Boston.. Byrjaði á að hendast yfir götuna klukkan tíu til að horfa á Arsenal-Norwich… og ekki svikinn. Ég held að fyrsta mark Arsenal í leiknum sé þeim þeim betri sem ég hef séð. Þá var ekki leiðinlegt að stemmingin var nánast eins og í London, fjöldi Arsenal aðdáenda að fylgjast með. Ja, litlum bar í London.Boston-LIR

Snarl á þokkalegum veitingastað í hádeginu og meira ráp. Fann skemmtilega vindlabúð sem seldi eðalvindla frá flestum heimhornum, öðrum en Kúbu.

Boston-Society

Um kvöldið var svo komið að ítölskum stað, Erbaluce, sem gaf hinum stöðunum ekkert eftir.

Fórum svo á Top Of The Hub barinn á 52. hæð í Prudential, frábært útsýni, en okkur fannst að þeir væru full ákafir við að ryksuga veskin okkar gegn því að leyfa okkur að setjast niður þannig að við stoppuðum frekar stutt.

Boston-Jóhanna-Iðunn

Það bólaði ekkert á Boston Red Sox aðdáendunum sem búið var að vara okkur við að myndu mála bæinn að hætta liðsins.

Boston-TopOfTheHub

Boston, Wrentham verslunarleiðangur

Fórum til Wrentham, ekki langt frá Boston, í verslunarferð… Ekki alveg mín deild, en náðum að bjarga flestum jólagjöfunum í ár, þannig að þetta var nú kannski vel þess virði.

Svo á alveg frábæran franskan veitingastað, Deuxave, tvöfalt nauta carpaccio í forrétt og andabringa í aðalrétt. Iðunn fékk trufflusveppa risotto í forrétt og New York strip steik í aðalrétt. Iðunn var ekki hrifin af steikinni.. en það vottast hér með að það var ekkert að henni.

Alvöru kaffi á eftir, en súkkulaðikaka eiginlega óþarfi.

Vreslham

Vorum með bílaleigubíl og heimsóttum útsölu-verslunar-þorpið Wrentham.

Wrentham-1

Fórum lengri leiðina á staðinn og keyrðum í gegnum úthverfi Boston, mjög sérstakt. Lítil fyrirtæki út um allt, verkstæði, snyrtistofur og ég veit ekki hvað – að öllum kirkjunum ógleymdum. Held að það hafi aldrei liðið 100 metrar á milli kirkna.

En, hef svo sem ekkert sérstaklega gaman af því að versla.. en á móti kemur að við náðum að klára megnið að jólainnkaupunum.

Wrentham-2

Um kvöldið var komið að franska staðnum Deuxave, verulegra góður matur, þó svo að Iðunn hafi ekki hrifist af nautasteikinni.. andabringan sem ég ég fékk var frábær og eiginlega ekkert að forréttinum heldur.

Deuxave-1 Deuxave-2