GoutonsVoir í bogfimi og…

Hittum GoutonsVoir matarklúbbinn hjá Assa og Stínu. Byrjuðum í bogfimi í Kópavoginum, gæti alveg dottið í að fara þarna oftar, Krissi vann örugglega, Steini var lang næst bestur og ég þar á eftir.

GoutonsVoirGoutonsVoir - Bogfimi - 1 - lítil

Síðan hófst átveisla að hætti hópsins, kræklingur í saffran sósu, fiskur að hætti Perúbúa, Ceviche, lambalæri með ansjósum og jarðarberjasúkkulaði eftirréttur.

En aðal fundarefnið var að skoða ferðamöguleika fyrir næsta ár.. allt of margar spennandi hugmyndir, en tókst að lokum að fækka valkostum og fela undirnefndum að skoða þrjár ferðir nánar.

Reyndar var endingin ekkert sérstaklega góð hjá okkur, gáfumst upp fljótlega eftir miðnætti… hlýtur að vera aldurinn.

Punk í Kópavogi

Hitti Lista- og menningarráð Kópavogs vegna hugmynda um að taka aftur upp Punk hátíðirnar í Kópavogi.

Byrjuðum á að rölta um gömlu undirgöngin, væri gaman að gera eitthvað þar, en staðurinn þolir nú varla stóra eða langa hljómleika. Ég var svo sem ekki mikið þarna á þessum árum, en staðurinn tengist tónlist áranna í huga margra.

Undirgöngin - 4 - lítil

En það er greinilega mikill áhugi hjá ráðinu að gera eitthvað, við stefnum á að halda hátíðina 2014 í tengslum við lista og menningardaga Kópavogs. Mögulega verðum við Fræbbblar með eitt kvöld í lok þessa árs þar sem 35 ár eru liðin frá því að við spiluðum fyrst.

Ógleymanleg minningarathöfn

Það var ógleymanleg minningarathöfnin um Ara Júlíus Árnason í dag. Fyrir utan að athöfninni komu bæði prestur og Hilmar Örn allsherjargoði, nokkuð sem gaf henni mjög sérstakan blæ. Þá var mikið um tónlistaratriði, hvert öðru betra – og eftirminnilegt hversu sterka heild þau náðu að mynda. Lokalagið, Dylan lagið „Death is not the end“, var sungið undir kveðju athöfn gesta, sem margir hverjir tóku undir sönginn.

Árni Daníel og fjölskylda hafa gengið í gegnum ótrúlega erfiðleika á stuttum tíma. Bróðirinn, Ingóflur, lést úr bráðahvítblæði fyrr á árinu og nú sonurinn Ari Júlíus, eftir ekki síður illvígan sjúkdóm.

Hugþraut fram haldið

Hugþrautin – „mænd-geyms“, hélt áfram í dag. Kotran gekk illa, enda kann ég ekkert, fyrir utan reglurnar. Við Guðjón náðum sitt hvorum sigrinum og minn var satt að segja ansi mikil heppni.

Hugþraut - kotra- minni

Við höfðum treyst á að ná þokkalegum árangri í skák og póker, að svo miklu leyti sem hægt er að treysta á eitthvað í póker. En skákvélin var illa ryðguð hjá okkur báðum, ég mátti þakka fyrir nokkra af mínum vinningum.. or svo tapaði ég skákum fyrir fádæma klaufaskap. Guðjón vann reyndar Stefán Frey, en svo tapaði hann líka nokkrum, einni vegna klukkubilunar. Svo má ekki gleyma því að þarna voru auðvitað nokkuð margir öflugir skákmenn.

Hugþraut - skák - minni

Pókerinn gekk heldur ekki að óskum, mín varfærna („passíva“) nálgun gekk ekki upp að þessu sinni og þegar fór að þrengja að og blindfé fór að hækka ákvað ég að leggja nokkuð á tæpar helmingslíkur, enda nokkuð góður „arður“ í boði, þeas. potturinn orðinn álitlegur. Það gekk ekki upp og smám saman fjaraði sjóðurinn út og lokatilraunin gekk ekki eftir. Guðjón spilar svo allt öðru vísi en þetta datt ekki með honum…

Hugþraut - póker - minni

En mjög skemmtileg keppni. Stefán Freyr og félagar eiga hrós skilið fyrir framtakið. Reyndar óskiljanlegt að þátttakan skuli ekki vera meiri, rétt tæplega tuttugu manns.

Hugþraut, „mænd-geyms“

Mætti með Guðjóni í „Mænd-geyms“ hjá Stefáni Frey og félögum. Skemmtileg keppni þar sem keppt er í Bridge, kotru, skák og póker – þrjú bestu mótin gilda. Við kepptum sem „Tvær blindar mýs“.

Mér finnst reyndar að mótið eigi að heita „Hugþraut“ þó ekki væri annað en að fá ekki sama lagið á heilann alla helgina.

Guðjón hafði aldrei spilað Bridge og okkur gekk eiginlega alveg þokkalega. Sumir spilaranna voru enn meiri byrjendur og voru að læra hvað „tromp“ er. En náðum sjötta sæti með tæplega 50% árangur sem er vel ásættanlegt.. hefði gengið enn betur ef við hefðum spilað einu, sinni tvisvar áður, til að mynda hefði ég náð að sýna honum hvernig á að „svína“ og hvernig best er að vinna úr grandsögn.

Guðjón hefur sem sagt ekki spilað áður. Þegar einn spilari lagði X spjaldið fram í sögnum til að dobbla spurði Guðjón hvað þetta þýddi. Eins og Bridge spilarar vita þá þarf samherji („makker“) þess sem segir sögn að skýra hvað sögnin merkir ef andstæðingur spyr. Og það stóð ekki á svarinu hjá Sigurði Páli, eitthvað á þá leið að þetta táknaði 8-13 punkta og neitaði fjórlit í hálit (ég man þetta svo sem ekki nákvæmlega). Guðjón vildi bara vita hvað X þýddi.

Hugþraut - bridge

Kotra byrjaði svo seinna um kvöldið og skilaði jafn litlu og við áttum von á.