Kjördagur

Það er enn pínulítið skrýtið að vera ekki í vinnunni á kjördag. Við Iðunn fórum með Viktori, til þess að gera snemma, að kjósa og reyndum svo að nota daginn til að hvetja fólk til að kjósa.

Eftir þessa líka frábæru T-Bone steik mættum við á kosningavöku Pírata á Bryggjunni.. mjög skemmtilegur staður og fínasta stemming. En úrslitin kannski helst til svekkjandi, sérstaklega vegna þess að Viktor komst ekki inn, þó litlu munaði.

kosninganott

 

Lýðræðishljómleikar

Við Fræbbblar spiluðum á Lýðræðishljómleikum Gauksins og gekk eiginlega bara nokkuð vel held ég.. enda erum við ekkert minna en frábær þegar vel tekst til.

En fyrst að sækja græjur, stilla upp og prófa hljóðið hjá Hróa á Gauknum. Svo í karate, heim í mat og beint að spila.

Fínasta mæting þó þetta sé fimmtudagskvöld og ekki annað að heyra og sjá en að fólk hafi skemmt sér vel.. eiginlega mjög margir sem nefndu hvað þetta hefði komið þeim skemmtilega á óvart.

Þá var gaman að hitta foreldra Dóru.

Viktor – afmæli

Viktor hélt upp á tuttugu-og-fimm, tuttugu-og-sex og tuttugu-og-sjö ára afmælið sitt hér í Kaldaselinu.

Örugglega hátt í hundrað manns, í þetta sinn að mestu jafnaldrar hans, mikið af pírötum og reyndar fólki úr öllum pólitískum áttum.

En mikið rosalega er þetta flottur hópur og mikið rosalega er framtíðin björt – engin ástæða til að endurtaka svartagallsrausið frá Sókrates – eða hver það var sem sagði að útlitið væri slæmt vegna þess hversu illa þeim leist á ungu kynslóðina.

viktor-afmaeli-9

 

Geir Sæm og flakk

Kíktum (kannski frekar seint) á Geira Sæm og Hunangstunglið í Græna herberginu við Lækjargötu. Gaman að sjá hann spila eftir allan þennan tíma.. verulega vel gert hjá þeim.

Ákváðum að prófa nýjan bjór á Ölstofunni, alveg hörð á að fara samt snemma heim. Vorum svo að leita að leigubíl á Laugaveginum þegar sama hugmynd datt í hausinn á okkur á sama tíma.. heilsa aðeins upp á Andreu á Dillon. Vorum samt ekki mjög lengi…

Spil

Náði ekki að kíkja á lokaleik karlaliðs Blika í efstu deild, horfði í sjónvarpinu og vonbrigðin talsverð.. held reyndar að fyrsta mark Fjölnis hafi verið úr rangstöðu, en auðvitað áttu Blikar að vera löngu búnir að klára leikinn.

Við vorum búin að festa spilakvöld með nokkrum fyrirvara og Arnar búinn að bóka mætingu úr sveitinni… Unnur var á hljómleikum, en Andri kom með – gaman að hitta þá feðga.

Eitthvað byrjuðum við seint og entumst ekki lengi, enda ágætis kvöld daginn áður.