Árshátíð

… Staka og Mílu. Hluti hittist að horfa á „Arsenal-Manchester City“ á Spot.

En árshátíðin sjálf var í turninum, fínn matur, skemmtilegir veislustjórar og Ari Eldjárn jafnvel enn fyndnari en venjulega.

Dísa & Maggi kíktu í smá smökkun eftir á.. einhverjir fleiri á leiðinni en hafa væntanlega villst.

Matlock kemur

Glen Matlock kemur í byrjun maí að spila á Punk 2014 kvöldinu á menningardögum Kópavogs. Hann verður í þetta sinn einn og spilar lögin á kassagítar og syngur sjálfur. Ég neita því ekki að þetta er undarleg hugmynd, en ég hef séð skemmtileg viðtöl við hann þar sem hann segir frá því hvernig lögin urðu til.

Við Fræbbblar spilum á undan. Einnig Q4U.

Við höfum ekki náð að æfa mikið, en náðum tveimur dögum í röð.

Já, og ef einhver veit ekki hver Glen Matlock er, þá er hann bæði núverandi og upphaflegur bassaleikari Sex Pistols – samdi flest lögin og spilaði á plötunni.

Frábært á Austurvelli en slappt hjá Arsenal

Fór með Guðjóni og Viktori og fleirum að horfa á Chelsea-Arsenal á „live“ bar.. ömurlegt upp á að horfa fyrir þá sem vilja frekar sjá Arsenal ganga vel.

Arsenal hefur tapað þremur leikjum mjög illa á tímabilinu, þeir hafa allir verið á útivelli og allir í hádeginu á laugardegi. Sem „B-maður“ eiga þeir alla mína samúð, þetta er nánast mannréttindabrot að ætlast til að menn séu tilbúnir að spila leik svona snemma morguns. Enda mættu leikmenn Arsenal steinsofandi til leiks. Dómarinn reyndar líka, gaf vitlausum mann spjald með vitlausum lit.. en hann slapp svo sem með skrekkinn, því þetta skipti auðvitað litlu máli.

En þaðan niður á Austurvöll að taka þátt í Samstöðufundi, Svana Helen með fína ræðu og Viktor Orri með þessa líka frábæru ræðu.

Fórum í kaffi á Stofunni og svo heitan pott og gufu áður en Brynja og Agla komu í mat.

Hlíðarfjall og annað…

Möguleikinn á skíðum í Hlíðarfjalli var eitt aðdráttarafl ferðarinnar.

Við mættum um ellefu og leigðum búnað fyrir þrjá, Iðunn var auðvitað með sínar græjur. Það væri góð hugmynd að gera „óvönum“ grein fyrir að þeir þurfa að skrá sig í kerfin skíðaleigunnar áður en þeir geta leigt. Enda þurfa „vanir“ ekki að skrá sig! Þannig þurftum við – eins og greinilega margir aðrir – að fara fyrst í biðröðina við afgreiðsluna, fá þar þær upplýsingar að við þurfum að fara í aðra biðröð til að skrá okkur í kerfið og að því loknu þurfum við að fara aftur í biðröðina fyrir afgreiðslu.

En skv. verðskrá var dagspassi í einn dag ódýrasti kosturinn – fimm þúsund krónur á mann – fimm hundruð svo til baka þegar passanum var skilað. En við komumst að því stuttu seinna að það voru miklu fleiri möguleikar í boði og hægt að komast af með miklu ódýrari aðgang, sérstaklega fyrir okkur sem vorum ekki vön og höfðum bara áhuga á að prófa. Þegar við spurðum hvers vegna við hefðum ekki verið látin vita af öðrum og ódýrari möguleikum var svarið einfalt, „þið spurðuð ekki“.

En stóalyftan lokaði fljótlega vegna veðurs og lítið spennandi að vera í leiðindaveðri. Það var ekki annað að skilja á starfsmönnum að þetta hefði verið ljóst frá því áður en við keyptum passana.

Þannig var nú upplifunin ekkert sérstaklega skemmtileg, ég hafði svona á tilfinningunni að allt væri gert til að hafa sem mestan pening af okkur með sem minnstri fyrirhöfn. Kannski vorum við eitthvað óheppin, en ég fer amk. ekki þarna aftur.

En, af Hlíðarfjalli fórum við Hof í heldur betur frábæran mat, ég fékk eðal fiskisúpu á meðan þau voru í smurbrauðinu.

Kaffi á Bláu könnunni og svo í heitan pott í nístingskulda og bálhvössu roki.

Við fengum svo staðfest að Steinar hafði teiknað bústaðinn, verulega skemmtileg hönnun og flottur staður.

Akureyri - Tréstaðir - heitur pottur

Þorðum ekki að grilla lamba-fillet úti og kannski ekki alveg eins og það átti að vera… en aftur var ekkert að mat eða vínum – endingin var samt ekki til að auglýsa, vorum full framlág eftir enn eitt ofátið og létum gott heita tiltölulega snemma.

Akureyri

Fengum boð um að koma til Akureyrar og setja upp eins konar skíða, át og drykkjarhelgi. Vorum með Höskuldi og Sirrý í bústað rétt fyrir utan Akureyri. Flugið hefði kostað okkur tæp áttatíu þúsund, þannig að við létum okkur hafa það að keyra, lögðum af stað klukkan tvö og vorum komin, eftir áætlun, á slaginu sjö. Frábær matur, eðalvín og ekki var félagsskapurinn síðri.

Akureyri, Tréstaðir

Skák, karate og æfing

Tiltölulega þétt dagskrá, skákmót Símans og dótturfélaga seinni partinn, svo karate og þaðan á Fræbbblaæfingu.

Skákmótið gekk nú eiginlega ekki neitt, ég náði öðru sæti í fyrra og þá datt allt með mér… í þetta sinn voru grófu afleikirnir nokkuð margir í þeim skákum sem ég var að tefla þokkalega framan af. Í staðinn náði ég að „stela“ vinningum í þeim sem ég tefldi illa frá upphafi.

Skíði

Kíkti með Iðunni og Viktori í Bláfjöll að prófa að fara aftur á skíði. Reyndar frekar leiðinlegt veður, en ágætt að prófa aftur í tiltölulegu fámenni. Hafði þetta svo sem af án þess að stórslasa mig, en get nú ekki sagt að ég sé að ná þessu..