Fræbbblaæfing en enginn fótbolti

Renndum yfir lög af „Viltu nammi væna?“ sem við höfum ekki spilað opinberlega lengi, reyndar gekk þetta mjög vel og mögulega setjum við upp Nammi hljómleika þrátt fyrir lítinn áhuga.

Sleppti fótbolta annan mánudaginn í röð, bæði til að ná æfingunni og eitthvað aumur í ökkla. Sem betur fer, mér skilst að enn einu sinni hafi soðið upp úr með óhemjugangi, frekju og dónaskap, að hætti þriggja ára. Þetta gengur ekki.

Flakk og „Glæstar vonir“

Smá flakk í dag, kíkti til dæmis á fyrri dapran fyrri hálfleik Swansea-Arsenal, seinni hálfleikurinn greinilega betri, amk. glæsileg mörk. Sleppti hins vegar að kíkja á leik Blika við Keflvíkinga, enda að litlu að keppa.

En leit við á „Glæstar vonir“ hátíðinni í Þróttarheimilinu í Laugardalnum, flott ræða hjá Sigga – fann hins vegar ekkert Októberfest, enda kannski full snemmt.

Pool mót Staka

haldið í Lágmúlanum. Byrjuðum reyndar heima hjá Jóni á glæsilegum léttum veitingum og spennandi vínum frá Hafliða. Pool mótið gekk svo allt á afturfótunum og ég komst ekki einu sinni í gegnum fyrsta úrtak. Friðbjörn vann í annað sinn eftir spennandi úrslitaleik. Lét svo „plata mig“ í bæinn og endaði á einhverjum bar með skelfilegri tónlist, stoppaði stutt þar…

Woody Allen myndin Blue Jasmine

Iðunn í Marokkó og þá er um að gera að nýta tækifærið og fara í bíó. Kíkti á mynd Woody Allen, Blue Jasmine.

Ég hef lengi verið aðdáandi Allen og hann hefur gert margar frábærar myndir, margar vel yfir meðallagi og oft fundið skemmtilega nálgun. En svo gerir hann líka myndir sem eru skelfilega þunnur þrettándi. Það var víst, því miður, kominn tími á eina svona. Innihaldið staglkennt og ekki mikið meira en í meðal sápu óperu. Dapurt.

Þurftum svo að fresta Fræbbbla æfingu um kvöldið.