Fræbbblaæfing en enginn fótbolti

Renndum yfir lög af „Viltu nammi væna?“ sem við höfum ekki spilað opinberlega lengi, reyndar gekk þetta mjög vel og mögulega setjum við upp Nammi hljómleika þrátt fyrir lítinn áhuga.

Sleppti fótbolta annan mánudaginn í röð, bæði til að ná æfingunni og eitthvað aumur í ökkla. Sem betur fer, mér skilst að enn einu sinni hafi soðið upp úr með óhemjugangi, frekju og dónaskap, að hætti þriggja ára. Þetta gengur ekki.

Flakk og „Glæstar vonir“

Smá flakk í dag, kíkti til dæmis á fyrri dapran fyrri hálfleik Swansea-Arsenal, seinni hálfleikurinn greinilega betri, amk. glæsileg mörk. Sleppti hins vegar að kíkja á leik Blika við Keflvíkinga, enda að litlu að keppa.

En leit við á „Glæstar vonir“ hátíðinni í Þróttarheimilinu í Laugardalnum, flott ræða hjá Sigga – fann hins vegar ekkert Októberfest, enda kannski full snemmt.

Pool mót Staka

haldið í Lágmúlanum. Byrjuðum reyndar heima hjá Jóni á glæsilegum léttum veitingum og spennandi vínum frá Hafliða. Pool mótið gekk svo allt á afturfótunum og ég komst ekki einu sinni í gegnum fyrsta úrtak. Friðbjörn vann í annað sinn eftir spennandi úrslitaleik. Lét svo „plata mig“ í bæinn og endaði á einhverjum bar með skelfilegri tónlist, stoppaði stutt þar…

Woody Allen myndin Blue Jasmine

Iðunn í Marokkó og þá er um að gera að nýta tækifærið og fara í bíó. Kíkti á mynd Woody Allen, Blue Jasmine.

Ég hef lengi verið aðdáandi Allen og hann hefur gert margar frábærar myndir, margar vel yfir meðallagi og oft fundið skemmtilega nálgun. En svo gerir hann líka myndir sem eru skelfilega þunnur þrettándi. Það var víst, því miður, kominn tími á eina svona. Innihaldið staglkennt og ekki mikið meira en í meðal sápu óperu. Dapurt.

Þurftum svo að fresta Fræbbbla æfingu um kvöldið.

Tiltekt og aukafótbolti

Kíkti með Jonna á SPOT að sækja afganginn af græjunum, litum á seinni hálfleik í ensku leikjunum í leiðinni, en Breiðablik var 3-1 undir á móti Stjörnunni í hálfleik þannig að ég ákvað að sleppa því að fara á leikinn. Það er auðvitað súrt að Blikar skuli ekki vera í Evrópukeppni á næsta ári, en á móti kemur að kannski tók frábær frammistaða í Evrópukeppninni sinn toll… Þannig að þetta þýðir væntanlega að titillinn er öruggur á næsta ári.

En gaman fyrir Stjörnuna að ná þessum árangri, til hamingju með það og vonandi gengur þeim vel í Evrópu. Mér fannst líka til fyrirmyndar hvernig Blikar tóku tapinu, heldur betur meiri reisn yfir þeim en andstæðingum þeirra í fyrra.

MK afmæli

Menntaskólinn í Kópavogi er fjörutíu ára þessa dagana og einn liðurinn í „uppáhaldinu“ var afmælishátíð á SPOT í gær. Við Iðunn (sem eiginkona og söngkona Fræbbblanna) mættum í matinn ásamt Helgu Sigurjóns, við Helga vorum reyndar einu sjötíu-og-níu útskriftarnemendurnir í matnum. Humarsalatið kom meira að segja skemmtilega á óvart. En við vorum í góðum hóp, sátum með Auði & Steina, Rúnu & Krissa og Vilmari og svo bættust nokkrir úr okkar árgangi í hópinn eftir mat – já, og meira að segja úr öðrum árgöngum, Assi og Stína mættu auðvitað strax eftir mat.

En flott kvöld, gaman að heyra upprifjun Margrétar skólameistara á móttökuræðu fyrir nokkuð mörgum árum, Gissur Páll magnaður og Sigtryggur skemmtilegur sem Bogomil Font. Það var svo bókstaflega stanslaust stuð þegar við Fræbbblar spiluðum nokkur lög á tíu mínútum, það var eitthvað að rafkerfinu og í hvert sinn sem ég snerti míkrófóninn fékk ég rafstuð. Spilamennskan gekk líka mjög vel og heyrði ekki betur en að flestir væru sáttir. Neil McMahon var heiðraður fyrir einstakt úthald við kennslu, en Sigríður „á skrifstofunni“ komst ekki.

Svo var gaman að hitta stúlkurnar sem voru að segja mér frá því þegar ég steig (óvart að sjálfsögðu) á fingurnar á þeim (bókstaflega) í Kópavogsbíói 1980. Konni „játaði“ að hafa fundið stuttmynd sem við gerðum í MK. Og eins og ég segi… gaman að hitta Hjördísi, Hjördísi, Svenna, Stebba (Sigvalda), Neil, Bjössa Örvar, Hilmar, Sibba, Gullu, Hólmfríði, Gullu, Jóhann, Ingibjörgu, Sigga, Karítas, Gylfa, Ása, Ásgeir, Andrés, Trygga, Vilmar, Bjössa, Eyvind, Margréti, Sigtrygg, Baldur, Maríu og nú gleymi ég örugglega jafnmörgum en móðga vonandi engan, bjórarnir voru orðnir nokkuð margir þegar á leið! (svo má alltaf senda mér áminningu)

Takk, Andrés, Vilmar, Tryggvi og þið hin sem stóðuð að þessu!

Fótbolti og Karate

Kíkti á fyrra hálfleik hjá Breiðablik og KR… allt annað að sjá til Blikanna en í síðustu leikjum – marki yfir í hálfleik og seinni hálfleikurinn leit vel út.

Seinni hálfleikurinn skaraðist svo á við Karate æfingu… óneitanlega smá valkvíði, en það var auðvitað meira gagn að því að hreyfa sig aðeins en sitja á vellinum – í kulda og byrjaður að finna fyrir kvefi.. og eiginlega alls ekki í boði fyrst það er smá spilamennska okkar Fræbbbla á laugardag.

En þá er bara næsta skref fyrir Blika að klára leikinn við Stjörnuna á útivelli. Einhvern veginn hefur Stjarnan alltaf farið á taugum í svona stöðu… kannski illa gert að hugsa svona, en ég treysti á að það endurtaki sig í ár. Það munar svo miklu að fylgjast með liði í Evrópukeppni.