Greinasafn fyrir merki: MK

MK afmæli

Menntaskólinn í Kópavogi er fjörutíu ára þessa dagana og einn liðurinn í „uppáhaldinu“ var afmælishátíð á SPOT í gær. Við Iðunn (sem eiginkona og söngkona Fræbbblanna) mættum í matinn ásamt Helgu Sigurjóns, við Helga vorum reyndar einu sjötíu-og-níu útskriftarnemendurnir í matnum. Humarsalatið kom meira að segja skemmtilega á óvart. En við vorum í góðum hóp, sátum með Auði & Steina, Rúnu & Krissa og Vilmari og svo bættust nokkrir úr okkar árgangi í hópinn eftir mat – já, og meira að segja úr öðrum árgöngum, Assi og Stína mættu auðvitað strax eftir mat.

En flott kvöld, gaman að heyra upprifjun Margrétar skólameistara á móttökuræðu fyrir nokkuð mörgum árum, Gissur Páll magnaður og Sigtryggur skemmtilegur sem Bogomil Font. Það var svo bókstaflega stanslaust stuð þegar við Fræbbblar spiluðum nokkur lög á tíu mínútum, það var eitthvað að rafkerfinu og í hvert sinn sem ég snerti míkrófóninn fékk ég rafstuð. Spilamennskan gekk líka mjög vel og heyrði ekki betur en að flestir væru sáttir. Neil McMahon var heiðraður fyrir einstakt úthald við kennslu, en Sigríður „á skrifstofunni“ komst ekki.

Svo var gaman að hitta stúlkurnar sem voru að segja mér frá því þegar ég steig (óvart að sjálfsögðu) á fingurnar á þeim (bókstaflega) í Kópavogsbíói 1980. Konni „játaði“ að hafa fundið stuttmynd sem við gerðum í MK. Og eins og ég segi… gaman að hitta Hjördísi, Hjördísi, Svenna, Stebba (Sigvalda), Neil, Bjössa Örvar, Hilmar, Sibba, Gullu, Hólmfríði, Gullu, Jóhann, Ingibjörgu, Sigga, Karítas, Gylfa, Ása, Ásgeir, Andrés, Trygga, Vilmar, Bjössa, Eyvind, Margréti, Sigtrygg, Baldur, Maríu og nú gleymi ég örugglega jafnmörgum en móðga vonandi engan, bjórarnir voru orðnir nokkuð margir þegar á leið! (svo má alltaf senda mér áminningu)

Takk, Andrés, Vilmar, Tryggvi og þið hin sem stóðuð að þessu!