Heimferð

Iðunn átti flug á hádegi, en eftir smá tösku tilfæringar sat vegabréfið hennar eftir í tösku hjá mér.. hún hringdi af flugvellinum og gat „tékkað inn“ til 11:50..

Ég tók leigubíl til Victoria og Gatwick Express – hvorugt var svo sem frítt – og náði tímanlega.. var kominn upp 11:45. En þá voru allir farnir og engin leið fyrir hana að fá að fara með. Tékk-inn liðið í pásu og nennti ekki að opna. Yfirmaðurinn fannst ekki. Og Wow kom þetta ekkert við og heimtaði fullt fargjald fyrir nýtt far.

Þannig að.. aftur til London og fundum nýtt hótel. Náðum aðeins að kíkja í uppáhalds Whisky búðina okkar og borða á Ethai Busaba.. sem var alveg ágætur, en ekkert meira.

Flugið mitt var svo klukkan níu en þegar til kom þurftum við að bíða í vélinni í tvo og hálfan tíma áður en flogið var heim. Ég var kominn heim eitthvað um þrjú leytið.

Southampton

Dagurinn fór í að heimsækja Viktor í Southampton. Skólinn virkar mjög vel á okkur, hann virðist með ágætis íbúið og er þegar búinn að kynnast hálfum skólanum.

Ég var reyndar með einhvern aumingjagang og hef oft verið hressari..

En stutt heimsókn á bar og fundum svo ítalska staðinn La Tavernetta (eftir að fyrsti staðurinn sem við völdum var lokaður).. Mjög fínn ítalskur staður.. en aldrei þessu vant náði ég ekki að klára skammtinn.

En þetta er nokkuð löng lestarferð, um tveir tímar hvora leið þegar biðtíminn var tekinn með.

Southampton - 5

Thames, róðrarkeppni

Fyrri hluti dagsins fór í að hitta frændsystkini Iðunnar, þau Richard og Isabel, ásamt mökunum, John og Lou við Thames.

En pabbi þeirra, Tony, var að keppa í róðrarkeppni niður Thames – ásamt vel á fjórða hundrað annarra báta. Gaman að fylgjast með og rölta fram og til baka sitt hvoru megin við Thames, í rauninni alveg „nýtt“ hverfi fyrir okkur. Alltaf eitthvað nýtt í London. Gripum bjór og frekar ómerkilegan hamborgara á All Bar One. Og röltum meira..

Við ætluðum aldrei að finna bar sem sýndi Arsenal – Tottenham en við náðum seinni hálfleik á Empire Casino við Leicester Square.

Þaðan á Spaghetti House að borða ítalskan mat eina ferðina enn, sennilega uppáhalds hversdags ítalski staðurinn okkar í London.. eftir smá stefnulaust ráp enduðum við á Soho Comedy Club, náðum reyndar bara síðasta atriðinu.. en verulega fyndinn.

London - millenium - 2

Benalmadena – Malaga – London

Þá heimferð, með millilendingu í London.

Flugum með RyanAir.. sem er kannski ekki besta flugfélag í heimi, en ódýrt er það. Við fengum „boarding“ upp fyrir tilsettan tíma, en ekkert „boarding“ var hafið. Þarna biðum við í um fimmtán mínútur áður en byrjað var að hleypa um borð. Þá var okkur hleypt í næsta gang og látin bíða þar í tæpar tuttugu mínútur. Þegar á leið sáum við að farþegar úr fyrra flugi voru loksins byrjaðir að yfirgefa flugvélina. Eftir þessa bið var okkur hleypt áfram, bara til að bíða í næsta gangi í drykklanga stund.

En við komumst að lokum til London.

Einhvern veginn tekur alltaf tíma að komast í miðbæinn og við vorum eiginlega ekki búin að koma okkur fyrir á hálf lélegu hótelinu fyrr en um fimm leytið.

En alltaf gaman að rölta á milli baranna í London á föstudagseftirmiðdegi. Byrjuðum á hverfisbarnum okkar, þaðan á Shakespears Head og enduðum á Charing Cross þar sem við sátum úti við í góða stund.

Við áttum borð á japanska Roka við Charlotte Street.

Þeir eru svo sem ekkert að gefa matinn þarna.

En mikið svakalegar er þetta flottur staður og góður matur. Einn sá albesti.

En þjónustan var svona og svona, vínið kom ekki fyrr en eftir tvo fyrstu réttina og ég þurfti að bíða dágóða stund eftir réttum „verkfærum“.

Það sem truflaði þó mest var hávær lyftutónlistin, einhvers konar teknó-drum-bass-wannabe.. allt, allt of há.

Hef ekki tekið eftir þessu áður í þau skipti sem við höfum borðað þarna, kannski sátum við á vondum stað. En, ef símarnir okkar hefðu ekki verið batteríslausir.. þá hefði verið þægilegra að spjalla saman með SMS en að reyna að tala saman.

London - Iðunn - 2

Malaga

Ég fór á smá rölt á meðan Iðunn kíkti á ströndina fram að hádegi. Aspas og ýmislegt smálegt á svölunum.. og svo til Malaga í strætó.

Göngugatna, bar rétt hjá húsinu Idhunn og smá búðaaráp. Vorum ekki lengi og enduðum ferðina í skylduheimsókn á Bar Malaga, sherry, madeira og fleira.

Magnús var orðinn of slappur til að borða með okkur en við fórum á Aberdeen Hong Kong og fengum alveg ágætan kínverskan mat.. sennilega með betri kínverskum stöðum – og ekki spillir að verðið er nokkuð hagstætt.

Sátum svo kannski helst til lengi á svölunum að sulla í Campari Orange.

Malaga - bar - 3

Læknisferð

Magnús var enn frekar veikur og þarf nú svolítið til.

Við „linntum ekki látum“ fyrr en hann fór til læknis, enda stutt að fara og ódýrt í leigubíl. Það kostaði reyndar nokkrar ferðir að sækja nauðsynleg skjöl, en á endanum komst hann í rannsókn og læknarnir komust að því að hann væri með bronkítis og sýkingu í lungum. Undarlegt að enginn læknanna heima skyldi sjá þetta eftir ítrekaðar rannsóknir í margar vikur. En hann fékk sýklalyf sem vonandi vinna á þessu. Hins vegar var verra að læknirinn ráðlagði honum að drekka hvorki áfengi né kaffi.. bara alls ekki.

Við Iðunn fórum aðeins á ströndina og síðan í mjög síðbúinn hádegisverð á hinum sjávarrréttastaðnum við ströndina. Sæbrimi í þetta sinn, grillaður og frábær fyrir mig. Iðunn hélt sig við „calamites“.

En kíktum svo yfir götuna á ítalska staðinn í alveg ágætis mat og svo að horfa á seinni hálfleik hjá Malaga-Barcelona.. leikur sem hafði freistað mín mikið.. en Magnús var lasinn og Iðunn ekki nægilega spennt – og einhvern veginn nennti ég ekki einn.

Arroyo og smábátahöfn

Kíktum með Magnúsi & Sylvíu til Arroyo, meðal annars í klippingu og á alveg ágætis ítalskan stað í hádeginu. Röltum í smábátahöfnina og fengum okkur pizzu á Pinocio, sem bauð upp á pizzur á 5 evrur á þriðjudagskvöldstilboði.

Það lagði nú eiginlega línurnar þegar þjóninn spurði hvort ég vildi ekki franskar með pizzunni. Enda hef ég nú oft fengið betri pizzu. En ágætis ganga heim um kvöldið, stöldruðum aðeins við að horfa á maraþon vítakeppni Liverpool og Middlesbrough.. en enduðum svo á svölunum í Whisky og vindli. Magnús enn frekar slappur.

Benalmadena - kvöld rölt - 2

Sylvía og Magnús mæta

Morgunmatur, strönd, steikur aspas á svölunum með mozzarella tómatasalati, foie gras, rauðvín..

Magnús & Sylvía voru í seinna fallinu en við fórum með þeim á kínverska New Ming í götunni.. allt í lagi kínverskur staður.

Stutt stopp á Crumbles, Terry enn lasinn, getur ekki staðið í fótinn – og svo Whisky smakk á svölunum..

Gaman að fá þau, en verst hvað Magnús var lasinn..

Smábátahöfn og Da Fano

Morgunmatur á svölunum…fórum í vínsmökkun á nýja rauðvínsstaðnum seinni partinn. Smá fótbolta gláp seinni partinn á Belfry. Náði ekki að veðja á Manchester City – Chelsea vegna þess að ég var staddur á Spáni.. ætlaði að setja á 1-1 nákvæmlega. Og leikurinn fór nákvæmlega 1-1!

Tókum strætó niður á smábátahöfn og fórum á Da Fano.. frábær matur hjá mér, en Iðunn minna hrifin. Röltum um smábátahöfnina og svo á Cherrys í götunni okkar, en Crumbles var lokaður.

Benalmadena - smábátahöfn - 2

Strönd, sardínur og steik

Létum morgunmatinn nægja heima í þetta sinn, kíktum á ströndina og í hádegismat á næsta veitingastaðnum.. ég fékk mér sardínur af gömlum vana, Iðunn „calamites“. Sardínurnar voru frábærar, en eitthvert óbragð var að trufla mig langt fram á kvöld..

Kíkti á Aston Villa – Arsenal á Belfry og ekkert sérstaklega leiðinlegt að sjá Arsenal í þessum gír. Rauðvín, ostar og skinka á svölunum seinni partinn.

Fórum á argentínska steikhúsið um kvöldið.. þeir áttu bara eina Kobe steik, 300 gramma þannig að við fengum okkur annað, og heldur betur frábærar steikur… og rauðvín í takt.

Kíktum svo á Crumbles við hliðina og sátum nokkuð lengi fram eftir að spjalla við Alex og Maite.

Benalmadena - sardínur - 1