Gaukar í leikhúsi

Leikhús í kvöld, eftir frekar afslappaða helgi, eiginlega þá fyrstu síðan í ágúst… fór aðallega í rólegheit heima, bæði föstudags- og laugardagskvöld, enda ekki leiðinlegt að sitja á „kojufylliríi“ með Iðunni.

Assi & Stína buðu okkur og Krissa & Rúnu heim fyrir í eðalsalat fyrir sýningu. Við mættum með Reypenaer XO ost og uppáhalds hreindýrapaté-ið okkar úr „Þinni verslun“ í Breiðholtinu. Og Rúna (og Krissi?) mættu með graskerssúpu sem stóðst alveg væntingar minninganna.

En leikrit kvöldsins var sýningin „Gaukar“ í Borgarleikhúsinu. Fyrirtaks sýning, leikritið vel yfir meðallagi, öll umgjörðin fyrsta flokks og leikurinn óvenju góður og laus við tilgerðarlegan leikhústalandan sem er allt of algengur í íslensku leikhúsi. Reyndar kom ekkert á óvart að Jóhann (Sigurðarson) hafi verið frábær, en ég man ekki eftir að hafa séð Hilmar (Guðjónsson) áður… en sem sagt mjög gott.

Ef eitthvað er þá hefði ég viljað skipta um svona helminginn af með-áhorfendum Ég læt alltaf trufla mig þegar fólki finnast ómerkilegustu hlutir ofboðslega fyndnir, eins og þegar einhver er að pissa í bakgrunni… og kannski enn frekar þegar fólk er að skellihlæja á kolvitlausum stað.

Sluppum – enn amk. – vel frá veðrinu.

Sambindisjólamatur

Árlegur jólamatur Sambindisins í Skildinganesinu..

Dagurinn hófst á fótboltaglápi, bjórdrykkju og heitum potti hjá þeim hörðustu..

En eiginkonurnar mættu svo í kvöldmat og nokkurs konar forréttasamkeppni, þar sem reyndar gleymdist að finna sigurvegara. Pörusteik í aðalrétt og kaffi, koníak og konfekt.

Tommi stóð að sjálfsögðu fyrir leikjadagskrá, það gekk lítið að púsla fyrr en Iðunn skipti yfir í okkar lið – og við Iðunn unnum vísbendingakeppnina.

Næstum því „julefrokost“

Við ákváðum að taka nokkurn veginn hefðbundinn „julefrokost“ tiltölulega snemma þetta árið, enda hefur gengið illa að finna tíma síðustu ár þegar nær dregur jólum.

Steinunn stakk upp á tælensku þema og mætti með frábæran tælenskan lambarétt.. hún var ekki tekin meira á orðinu en svo að Alli kom með Nan brauð, Brynja með marokkóskan pottrétt, sem var miklu betri en henni fannst, ég eldaði indverskan smjör-kjúkling, Iðunn gerði indverskan kartöflurétt og Kristín og Svanhildur mættu með ítalskan „panna cotta“ eftirrétt.

Óskar kom svo í eftirrétt og smökkun..

En sérlega skemmtilegt kvöld (þó ég sé búinn að stroka yfir kaflann í minningunni þar sem allir voru í rútubílastemmingu að syngja kátir-voru-karlar með öðrum texta) og gaman að hitta Halla & Steinunni eftir allt of langt hlé.

Ending gestanna var svo ekkert sérstaklega mikil, en annað kvöldið í röð hjá okkur..

Keila og rauðvínsskóli

Mætti með nokkrum úr Iðunnarvinnu í keilu og hamborgara í Öskjuhlíðinni.. náði besta (ja, minnst versta) skorinu í keilunni. Eiginlega ágætis hamborgarar, af svona hálf skyndibitastað að vera, en tveir þurftu að bíða fáránlega lengi eftir sínum mat.

Þaðan í rauðvínsskóla Ölgerðarinnar þar sem við fengum eitt freyðivínsglas, fjögur hvítvíns og fjögur rauðvíns. Alltaf gaman að smakka vín og fræðast í leiðinni – þó ég léti aðeins trufla mig þegar „kennarinn“ var að sýna mynd af mismunandi bragðsvæðum tungunnar, sem virðist vera langlíf „mýta“ eða misskilningur.

Þaðan lá leiðin í Kaldasel í smá bjór fram eftir kvöldi. Einstaklega skemmtilegir vinnufélagar sem Iðunn hefur náði sér í – þó „plötusnúðarnir“ í hópnum hafi ekki alveg verið að detta á uppáhaldsplötusnúðalistann minn.

Ömmuafmælishittingur

„Minn“ hluti fjölskyldunnar hélt upp á afmæli mömmu hjá Kidda.. full mæting fyrir utan Viktor sem er í Southampton, en hann heimsótti á Skype.

Skyndibitakjúklingur og eplabaka í boði Gunnu og ís í boði Öggu – svona til að rifja upp stemminguna úr Hamraborgininni.

Bæjarrölt og matarklúbbur

Fórum á smáflakk í bæinn, byrjuðum á Bunk Bar þar sem Védís Hervör var að klára, hljómaði vel þó við næðum ekki miklu. Rósa Guðrún tók við og var mjög fín. Þaðan yfir á Bravó þar sem við náðum Lay Low, sem var frábær.. og brást vel við þegar síminn hennar Iðunnar hringdi á allra versta tíma („amk. í réttri tóntegund“). Náðum hálfu lagi með Reykjavíkurdætrum á Íslenska barnum og hefðum viljað sjá meira. Hljómleikakvöldinu lauk með Átrúnaðargoðunum þar sem Bragi kom fram í fyrsta skipti.. mjög flott hjá þeim. Misstum aftur af Sindra Eldon, Amabadama, Futuregrapher.. já og nokkuð mörgum öðrum. Gripum smá snarl á´AliBaba.. en svo var haldið í Reynihvamminn í eldamennsku.

Kvöldið hófst á Margarita, svo truffluostur… nokkurs konar for forréttur. Auður & Steini buðu svo upp á alvöru reyktan lax í fyrsta forrétt. Marbella kjúklingur var frábær aðalréttur frá Krissa & Rúnu, skemmtilega ólíkur sama rétti úr öðrum matarklúbb fyrir nokkru. Vorum reyndar óvenju lélegt í rauðvíninu.

Krissi stýrði tónlistinni fram eftir og gerði eiginlega nokkuð vel og stemmingin þannig að Iðunn vaknaði til að taka þátt.

Laugarásheimsókn, sunnudagur

Vaknaði fljótlega með pestina sem hafði verið að hrjá Unni í gær.. Arnar var sömuleiðis lagstur og Agla hafði verið lasin um nóttina.

Svaf daginn að mestu af mér, Unnur sótti mig svo um sex leytið og ég keyrði heim. Var reyndar vel þreyttur þegar ég kom og hálf aumur megnið af nóttinni.

En burtséð frá pestinni sem lagðist á gestina þá var þetta vel heppnuð ferð, stórskemmtilegur félagsskapur, frábær matur og strax farinn að hlakka til næstu ferðar.

Laugarásheimsókn, laugardagur

Dagurinn hófst með eðal morgunverði í boði Alla – en Unnur var orðin sárlasin.

Alli þurfti að skreppa aftur í bæinn í smá reddingar og Brynja og Kristín komu ekki fyrr en um kvöldmat þannig að lítið varð úr dagskrá laugardagsins. Smá mini borðtennis, sóttum grill upp í bústað og undirbjuggum matinn.

Kolagrilluðum lambakótilettur, sem tókust bara eiginlega nokkuð vel til.. og ákváðum að setjast aftur að Fimbulfambi sem stóð eitthvað fram eftir nóttu. Við Iðunn og Kristín fórum svo upp í bústað og sváfum þar.