Greinasafn fyrir merki: Gaukar

Gaukar í leikhúsi

Leikhús í kvöld, eftir frekar afslappaða helgi, eiginlega þá fyrstu síðan í ágúst… fór aðallega í rólegheit heima, bæði föstudags- og laugardagskvöld, enda ekki leiðinlegt að sitja á „kojufylliríi“ með Iðunni.

Assi & Stína buðu okkur og Krissa & Rúnu heim fyrir í eðalsalat fyrir sýningu. Við mættum með Reypenaer XO ost og uppáhalds hreindýrapaté-ið okkar úr „Þinni verslun“ í Breiðholtinu. Og Rúna (og Krissi?) mættu með graskerssúpu sem stóðst alveg væntingar minninganna.

En leikrit kvöldsins var sýningin „Gaukar“ í Borgarleikhúsinu. Fyrirtaks sýning, leikritið vel yfir meðallagi, öll umgjörðin fyrsta flokks og leikurinn óvenju góður og laus við tilgerðarlegan leikhústalandan sem er allt of algengur í íslensku leikhúsi. Reyndar kom ekkert á óvart að Jóhann (Sigurðarson) hafi verið frábær, en ég man ekki eftir að hafa séð Hilmar (Guðjónsson) áður… en sem sagt mjög gott.

Ef eitthvað er þá hefði ég viljað skipta um svona helminginn af með-áhorfendum Ég læt alltaf trufla mig þegar fólki finnast ómerkilegustu hlutir ofboðslega fyndnir, eins og þegar einhver er að pissa í bakgrunni… og kannski enn frekar þegar fólk er að skellihlæja á kolvitlausum stað.

Sluppum – enn amk. – vel frá veðrinu.