Bifröst, Fræbbblar

Við Fræbbblar mættum á Bifröst að spila á hljómleikum / balli.. lögðum af stað upp úr hádegi og vorum komin með allar græjur hálf fimm. Hljóðmaðurinn, eða réttara sagt, eini maðurinn sem kann á hljóðkerfið að einhverju ráði – var að fara á Þorrablót og rétt náði að sýna Rikka hvernig græjurnar virka. Rikki var svo með þráðlausa tengingu við gítarinn og tók að sér að vera hljóðmaður samhliða því sem hann spilaði. Þóra og Sigga slógust í för með okkur, svona til að tryggja að áhorfendur yrðu að minnsta kosti tveir.

En Óli Valur, sonur Maríu, vinkonu Iðunnar… fékk þessa flugu í kollinn þegar við stoppuðum í kaffi á leiðinni frá því að spila á Græna hattinum í nóvember. Óli og Þorvaldur sáu um að setja þessa hljómleika upp.. okkur leist ekki meira en svo á að nokkur myndi mæta.. Þorrablótin í sveitinni virðast hafa alla athygli þessa helgi.

En við fórum í heitan pott, fengum eðal kvöldmat og byrjuðum að spila um hálf ellefu. Framan af var frekar fámennt, en það fjölgaði þegar á leið og undir lokin var komin fínasta stemming og þokkaleg mæting. Við vorum uppiskroppa með efni og vorum farin að taka efni sem við höfðum hvorki æft né spilað í nokkur ár..

Svo var ekki leiðinlegt að hitta talsvert af fólki sem við þekktum til, eða þekktum næstum því til.. við Iðunn og Rikki létum draga okkur í partý um fjögur leytið, en entumst svo sem ekki lengi.. en það var engan bilbug á heimamönnum að finna – voru komin í heita pottinn þegar við gengum til náða… svona um hálf fimm!

Staðurinn kom svo skemmtilega á óvart, talsvert fjölmennara en ég gerði mér grein fyrir og virkilega skemmtileg aðstaða.

 

Derby County – Manchester United

Hitti Jón Einars á Hamborgarasmiðjunni á Grensásvegi að horfa á Derby – Man Utd í enska bikarnum, drekka bjór og snæða hamborgara, endaekki oft sem liðin okkar mætast þessi árin..

En aðallega vorum við nú að spjalla, skiptast á fréttum og röfla um daginn og veginn. Alltaf gaman að hitta Jón og við þurfum að gera meira af þessu.

Já, leikurinn… betra liðið vann svo sem, því miður, en mér þótti halla á mína menn í dómgæslunni, fyrsta markið nokkuð klár rangstaða og þriðja svona alveg á mörkunum [nei, sóknarmenn eiga ekki að njóta vafans gegn „mínum mönnum“].

Kex, Prins póló

Assi & Stína drógu okkur út úr húsi og úr letinni og frá eðal nautalund og úrvals rauðvíni.

Þau voru að hlusta á Prins póló á Kex.. einn skemmtilegasti bar bæjarins, reyndar mjög troðið í þetta skipti – og fín stemming á hljómleikunum.

Staki, Talenta, innflutningur

Þá er Talenta flutt inn í Síðumúla 32 og bæði þau og Staki búin að koma sér vel fyrir. Svona í tilefni af því var viðskiptavinum boðið í stutta heimsókn og veitingar. Frábærar og skemmtilegar veitingar frá Þrjár á priki og eðal rauðvín frá Hafliða.

En gaman að hitta þá sem náðu að mæta, svona utan vinnu.

Goutons Voir hittingur

Goutons Voir matarklúbburinn hittist hjá Assa & Stínu. Ostar, pylsusnakk og bakaður ostur fyrir forrétt. Samsettur forréttur með Foie gras, pylsu, laxi, önd og ég veit ekki hverju. Thai kjúklingur í aðalrétt, og makkarónukökur með freyðivíni í eftirrétt. Og djúpsteiktur ostur eftir það. Prófuðum hin og þessi spil og kannski ekki besta hugmyndin að spila eftir þetta  marga bjóra og rauðvín og hvítvín og freyðivín.GoutonsVoir - 1

Uppskeruhátíð Postulanna

Við Postular höldum fögnum hverju liðnu tímabili í janúar og maí. Eins og svo oft áður bauð Þórhallur húsnæði fyrir veisluna. Við byrjuðum að horfa á Arsenal-Sunderland og síðan tók við dagskrá, að mestu undir stjórn Arnars.

Jói, kom sá og sigraði borðtennismótið, við horfðum á brot úr tímum síðustu tveggja tímabila, ég man ekki hver vann spurningakeppnina, en Jói stýrði „hringnum“ og við skáluðum vel og vandlega fyrir afrekum síðasta tímabils.

Í þetta sinn fengum við mat frá Tokyo, sem var bara nokkuð góður. Og Pétur mætti með nýjan líkjör.

En annars fór kvöldið að mestu í spjall, vindla í bílskúrnum og einn eða tvo bjóra.

Hins vegar var ég eitthvað slappur og orðinn hálf lasinn þegar leið á kvöldið… Kalli bjargaði mér heim um eitt leytið, sem var auðvitað ótrúlegur aumingjagangur.

Postular - uppskera - janúar - 9

Matur

Guðjón hefur sagt okkur mikið frá Nick sem er að vinna með þeim Braga, Átrúnaðargoðum, að upptökum.

Við buðum þeim í mat, Salvör lagði til hluta af matnum og við elduðum lambafillet, eiginlega bara nokkuð vel heppnað.

Nick hefur átt mjög fjölbreyttan feril sem tónlistarmaður og leikari og mjög gaman að spjalla við hann fram eftir nóttu.. vorum kannski helst til dugleg í Whisky smökkun þegar á leið.

Nýársdagur

Heilsan var bara í góðu lagi enda vorum við ekki lengi að á gamlárskvöld.

Sylvía kom í kvöldmat, svínabógur er orðinn svona hálfgildings hefð hjá okkur á nýársdag.

Iðunn „dró“ mig svo á Star Wars og Viktor kom með sem bílstjóri. Ég átti svo sem ekki von á miklu þannig að það er kannski ekki hægt að tala um vonbrigði, en mér finnst þetta frekar leiðinlegt.. bardagar og slagsmál eru ekki minn bíótebolli, ævintýramyndir þurfa að vera talsvert mikið frumlegri og söguþráðurinn má ekki vera svona hrikalega götóttur.