Kosningavökur

Ég hef eiginlega fylgst með kosningavökum frá 1967 – já, 8 ára – og sat auðvitað oftast heima í Víðihvammi og horfði með fjölskyldunni. 1978 minnir mig að ég hafi að hluta til farið á flakk til nokkurra menntaskólavina, 1979 var ég í framboði fyrir Sólskinsflokkinn og minnir að ég hafi verið heima og/eða á einhverju flakki. 1982 sat ég með Höskuldi yfir grilluðum kótilettum fram eftir nóttu. Ég man ekki nákvæmlega eftir kosningavökunni 1983, en frá 1986-2010 var ég oftast í útsendingu, ýmist bara fyrir Rúv eða bæði fyrir Rúv og Stöð2. Ein undantekning var þó 1995, þá var ég ekki að vinna og við fórum út að borða með Brynju & Sverri og svo í eitthvert samkvæmi með þeim á eftir. 2013 buðum við Höskuldi & Sirrý í mat til Krissa & Rúnu (!) og fylgdumst með eitthvað fram eftir. 2014 vorum við í Maastricht og náðum ekki að fylgjast með útsendingunnni vegna þess að vefir fréttastofanna voru ekki að virka. 2016 mættum við á kosningavöku Pírata þannig að í kvöld er ég í fyrsta skipti síðan 1983 að fylgjast með kosningavökunni heima…. nema auðvitað að við æsum okkur á kosningavöku Pírata – í öllu falli náum við fyrstu tölum heima.

Árshátíð Deloitte í Sitges

Ég var starfsmaður Staka Deloitte þegar ákveðið var að halda árshátíðina í Sitges og búinn að borga fyrir Iðunni, meira að segja ansi hressilega upphæð, þannig að við ákváðum að halda okkar striki og mæta þó tæknilega séð sé ég ekki lengur starfsmaður.

Til Sitges

Við fórum út seinni partinn fimmtudaginn 19. október, rétt náðum að klára síðasta bjórinn á Keflavíkurflugvelli á meðan Bryndís var að byrja á sínum… en hún var einmitt líka að fara út og það líka til Barcelona, en í öðru flugi.

Eitthvað hafði skolast til við að setja birgðir í flugvélina hjá Wow, því þó ég væri með þeim fyrstu sem fékk afgreiðslu af „barnum“ þá var eiginlega allt búið, enginn bjór, ekkert gin, ekkert hvítvín… ég fékk næst síðustu rauðvínsflöskuna. Sama gilti um mat, hann kláraðist fljótt og margir sem fengu ekkert, sem er frekar óheppilegt í flugi sem leggur af stað 17:30 og tekur rúma fjóra tíma.

Ekki veit ég hvort þetta var meðvitað til að reyna að draga úr áfengisneyslu þar sem vélin var full af fólki á leiðinni á árshátíð… hafi það verið hugmyndin, þá var hún jafn vitlaus og bjórbannið hér á árum áður. Sterku drykkirnir voru gripnir og svo hitt og þetta sem keypt hafði verið í tollinum og þegar það var búið keyptu nokkrir farþegarnir (sterkt) áfengi úr tollfrjálsu versluninni. Með einni lítilvægri undantekningu þá voru svo sem engin vandræði á fólki, en ég held að ég hafi aldrei séð aðra eins drykkju í flugvél.

Hvað um það, við lentum rétt undir miðnætti og það tók ekki nema hálftíma að komast upp á hótel – þar sem barinn var opinn. Barinn lokaði hins vegar til þess að gera fljótlega, kannski ekki síst vegna þess að einhver var farinn að henda dóti fram af svölum.

Við pöntuðum okkur osta og skinku og rauðvín upp á herbergi og sátum að til hálf-fimm / fimm.

Flakk á föstudegi

Ég hafði gleymt að pakka kvart-buxum, stuttbuxum, sundskýlum og sandölum þannig að fyrsta verkefni dagsins var að rölta niður í bæ og reyna að bæta úr því, þeas. eftir mjög góðan morgumat, eiginlega alveg fyrsta flokks morgunmat, eiginlega einhvern besta hótel morgunmat sem við höfum fengið.

En þegar kom í bæinn var einhverra hluta vegna var nánast enginn strandfatnaður í boði (fundum reyndar fleiri búðir á sunnudeginum, lengra frá okkur). Ég fann reyndar sundskýlu og eftir smá snarl, eiginlega mjög góðan mat á Dorado, drifum við okkur upp á hótel, héldum að þar væri einhver stemming við sundlaugina í garðinum. En, nei, þar var enginn, enda sundlaugin lokuð og engir bekkir. Og eina ströndin í nágrenninu var nektarströnd… ja, kannski ekki sú eina, en sú sem var næst okkur af þeim sem voru opnar. Þannig að ég hefði getað sleppt því að kaupa sundskýluna.

Við mættum svo í kynningu á Bacardi safninu seinni partinn, ekkert sérstaklega merkilegt, en allt í lagi að læra að gera Mojito „rétt“.

Þaðan röltum við aðeins um áður en við fórum á Mama#5, þar sem við áttum pantað borð. Forréttirnir voru (eins og svo oft) mjög góðir, en ég asnaðist til að panta Guinness Pie í aðalrétt, hélt að þar færi einhver frumleg útgáfa, en þetta reyndist ósköp venjuleg og óspennandi pöbbaútgáfa. Iðunn fékk svo risarækjur, sem voru ágætar, aðeins og mikið steiktar fyrir hennar smekk – og talsvert meira steiktar en á næstu borðum. Já og ekki gleyma undarlegri stemminguni, til dæmis gamlar Carry-On myndir hljóðlaust í bakgrunni…

Sitges - gata - 2

Við hittum svo Jón Bjarna, Fribba, Hilmar og Alla, sem voru nýkomnir í bæinn eftir að hafa keyrt um nærliggjandi sveitir. Við sátum úti á einhverjum „teknó“ staðnum og eftir nokkra bjóra drifum við okkur upp á hótel til að heilsa upp á seinni hópinn, sem var sem sé ný lentur.

Barinn var opinn, en einn barþjónninn fór í fýlu við einn gestanna og lokaði fyrirvaralaust, sagði við hin í biðröðinni, „já, þið getið þakkað honum fyrir að ég lokaði barnum.“

Við létum þetta svo gott heita, þó klukkan væri ekki nema rúmlega þrjú. Eða réttara sagt, ég lét þetta gott heita en Iðunn vildi endilega halda áfram.

Laugardagur

Aftur tókum við morgunmatinn alvarlega og síðan var farið í hádegisbjórsmökkun hjá litlu brugghúsi í nágrenninu. Nokkir afbragðsbjórar, nokkrir stórskrýtnir (sem var nú samt gaman að smakka) og einn algjörlega ódrekkandi – eins og vera ber.

Sitges - Sitgetana - 1

Við nenntum ekki niður í bæ eftir þetta, sátum aðeins að sumbla bjór með Jórunni & Tóta í garðinum, röltum svo út í búð til að kaupa bjór til að eiga ef barinn skyldi aftur loka snemma og tókum því rólega fram að árshátíð… Jón kíkti reyndar til okkar í for- fordrykk.

Árshátíðin byrjaði 18:00 með fordrykk og var einstaklega flott og vel uppsett – frábærir forréttir, allt í lagi aðalréttur (ég var þó heppnari en Iðunn) og fínn eftirréttur. Eitthvað þurfti ég þó að taka hlé frá stemmingunni, flestir kunnu vel að meta tónlistina og meira að segja Iðunn var mjög ánægð – en fyrir minn smekk var nú eiginlega verið skrapa botninn af tónlistarsögu síðustu áratuga… og það í einhvers konar tveggja manna karaókí útgáfu – í öllu falli, flestir skemmtu sér vel.

Einhverjir ákváðu að fara í bæinn eftir miðnætti en við nenntum ekki. Aftur lokaði svo barinn fyrirvaralaust um nóttina, við settumst í anddyri hótelsins með Einari Ragnari og nokkrum (fyrrum) Talenta starfsmönnum (Halldóra, Sigfríður og Unnur ef ég man rétt) – og nú komu bjórkaup dagsins sér vel. Hulda & Rúnar buðu svo upp á herbergi og Halldóra lét nægja að mála herbergið þeirra rautt (með rauðvíni), við þurftum að mála eitthvað rautt fyrst við fórum ekki í bæinn.

Sunnudagur

Enn einn alvöru morgunmaturinn og „tékkað – út“ um hádegi. Fórum á smá rölt, Iðunn keypti fullt af skóm og síðan hittum við Jón, Rúnar, Bjössa, Sigfús og fleiri á íþróttabar við ströndina. Við hittum reyndar Önnu Birgittu & Arnlaug á íþróttabarnum, en þau voru rétt að mæta til Sitges. En dagurinn fór svona í bjórdrykkju og fótbolta, við horfðum á restina af „Ipswich – Norwich“ og svo „Everton – Arsenal“… seinni leikurinn var nokkuð skemmtilegur, Arsenal á það til að spila stór skemmtilegan fótbolta – mótspyrnan var reyndar ekki mikil og Gylfi hefði alveg mátt skora fyrst Everton var að skora á annað borð.

Við gerðum smá hlé, fengum okkur tapas á mjög góðum stað sem var einhvers konar blanda af tapas og sushi stað.

Aftur að horfa á fótbolta, í þetta sinn létum við nægja á horfa á seinni hálfleik „Tottenham – Liverpool“ – með öðru auganu og spjölluðum við nokkra gesti undir leiknum, aðallega Norðmenn.

Þetta var síðasti leikur dagsins og komið að kvöldmat. Hluti hópsins fór á Mama#5 en hinir á stað við hliðina, La Cocina, reyndar eftir fordrykk á VivinWine.

Við vorum orðin frekar sein, þannig að við pöntuðum strax en pöntunin gleymdist og þegar á reyndi var aðalrétturinn sem ég hafði valið, ekki í boði, þannig að við létum forréttina duga. Kannski eins heppilegt því þegar við komum út var engan leigubíl og engan Uber að fá, þannig að við drifum okkur gangandi upp á hótel og rétt svo náðum rútunni upp á flugvöll.

Ferðin gekk svo sem áfallalaust eftir þetta, en við vorum ekki komin heim fyrr en um hálf sex.

Prag

Við Iðunn settum fyrir 15-20 árum saman lista yfir ferðir sem okkur langaði að klára (áður en við förum á elliheimilið. Flestar hafa gengið eftir en tvær ferðir voru eftir, Prag og Whisky (helst ganga) í Skotlandi.

Þannig að núna var komið að Prag. Við fórum í langa helgarferð (miðvikudag til sunnudags) með Brynju & Óskari. Og Viktor var í heimsókn hjá tékkneskum Pírötum og náði tveimur dögum með okkur – ja, og einu kvöldi til viðbótar.

Við vorum mjög heppin með veitingastaði, þrír fyrsta flokks og einn vel yfir meðallagi í kvöldmat – einn frábær í hádeginu og hinir mjög skemmtilegir.

Bjórinn var fínn, eiginlega var pilsnerinn frábær, „porter“ bjórarnir sem við smökkuðum voru mjög góðir, en aðrar tegundir voru minna spennandi fyrir okkar smekk.

Við kíktum í Casino, sem var gaman og gekk vel, búðarráp var í algjöru lágmarki, við hittum nokkra skemmtilega pírata, fórum á (undarlegan) flóamarkað… en aðallega fór tíminn í ráp á milli kaffihúsa, veitingastaða og bara – allt saman í eðal félagsskap – í stuttu máli, drauma borgarferð!

Við vorum örlítið frá miðbænum og kom reyndar aðeins flatt upp á okkur (eða einmitt ekki „flatt“) að borgin er ekki á jafnsléttu þannig að gangan heim á hótel upp í móti gat verið lýjandi eftir mikla göngu og marga bjóra.

Ef eitthvað truflaði þá var það einhvers konar árátta veitingastaða að hleypa engum inn á salerni sem ekki hafði verslað á staðnum eða borgað sérstaklega fyrir að fá aðgang. Sumir veitingastaðirnir voru meira að segja með sérstaka klósett-passa. Einhvern veginn ímynda ég mér að það myndi nokkurn veginn jafnast út ef ég drekk bjór á stað A og skila á stað B, þá væri kannski einhver sem á móti hefði keypt sinn bjór á B og skilað á C… og svo kannski sá þriðji hefði fengið sér bjór á C og skilað aftur á A. Sem sagt, þetta myndi væntanlega jafnast nokkurn veginn út. En veitingastaðirnir í Prag virðast helteknir af því að hleypa engum í að nota salernin sem ekki hefur verslað hjá þeim, gengu svo langt að henda Óskari út af því að þeir mundu ekki eftir honum þrátt fyrir að við hefðum keypt nokkra bjóra. Kannski eru gengi pissukrimma stórt vandamál í borginni…

miðvikudagur

Flugið var allt of snemma, en Brynja & Óskar sóttu okkur um hálf fjögur og við náðum fínum morgunmat og einum bjór. Það var ansi þröngt í vélinni og ekki hægt að sofa, en Pilsner Urquell var í boði, sem létti þjáningarnar.

Við tókum (fyrirfram pantaðan) leigubíll inn á hótel, röltum af stað í meiri bjór og snarl, svo niður að ánni og fengum okkur enn meiri bjór í nýstárlegum félagsskap – rottur, mýs og bjórar / otrar voru ófeimin að heila upp á okkur, létu sér reyndar nægja að veifa handan girðingar.

Prag - D1 - 4.jpg

Við áttum svo pantað borð á Yami Sushi um kvöldið og röltum af stað þegar leið á kvöldið. Við fórum fram hjá fullt af skemmtilegum og freistandi veitingastöðum í „lifandi“ umhverfi og vorum hálfpartinn að velta fyrir okkur að stoppa á torginu og afpanta Yami.

Á Yami Sushi vorum við aftur á mörkunum að hætta við, loftleysið og mollan var ekki mjög aðlaðandi. En sem betur fer létum við slag standa, þau kveiktu á loftræstingunni og við fengum frábæran mat. Það eina sem þau klikkuðu á var að hella víni úr flösku tvö (af sömu tegund og fyrri flaskan) í sama glas… sem var sem sagt ekki góð hugmynd þegar í ljós kom að flaska tvö var illa skemmd.

Eftir matinn var klukkan orðin nokkuð margt, símarnir okkar höfðu ólíkar skoðanir á því hvernig best væri að komast upp á hótel, Óskar var til dæmis að skoða akstursleiðbeiningar sem þurftu að taka tillit til einstefnugatna. Á endanum samdi Óskar við leigubílstjóra um að skutla okkur fyrir talsvert minna en upphaflegt tilboð. Sá þurfti að keyra þvílíkar krókaleiðir, það eru víst nokkra götur með einstefnuakstri í borginni, við hefðum varla náð undir morgun ef við hefðum gengið eftir akstursleiðbeiningunum.

fimmtudagur

Við Iðunn fórum á morgunmat á víetnamskan stað, Kafi 79, sem bauð upp á enskan morgunmat, ekki slæmur en sennilega jafn langt frá því sem við vorum að vonast eftir og ef ég væri að elda víetnamskan mat fyrir þau.

Við röltum svo yfir „Karlsbrú“, upp að kastala, inn í kirkju og svo í mat á U Labety.

Prag - D2 - 12-1

Þjónninn þar sagði okkur raunasögur af bjór, greinilega mikil harmsaga. Hann hafði haldið mikið upp á Pilsner Urquell en einn daginn kom bjór sem var (augljóslega) ekki Pilsner Urquell. Sá grunur læddist að honum að rangur bjór hafi verið sendur, fyrirtækið framleiðir, að okkur skilst, annan bjór. Hann kallaði eftir þjónustu frá fyrirtækinu sem sendi mann á staðinn og sá fullyrti að þetta væri vissulega Pilsner Urquell. Hins vegar hefði áfengisprósentan verið lækkuð úr 4,9% í 4,3% (ef ég man rétt). Þar með var PU ónýtur og ódrekkandi í hans huga. Þetta var mikil harmsaga og honum fannst heimurinn greinilega mun verri fyrir vikið. Þessi í stað mælti hann með Holba (sem var reyndar mjög góður) og Litovel (dökkur)… bjórar sem hafa unnið til margra viðurkenninga.

Prag - D2 - 19-1

Það var reyndar mjög gaman að hlusta en hinir þjónarnir voru að lokum farnir að hnippa í hann og benda honum á að það væru fleiri gestir og fleiri verk að vinna.

Þaðan gripum við ráð Boga og prófuðum bjórinn í klaustrinum, mjög skemmtilegir bjórar og eiginlega allir mjög góðir, jafnvel Iðunn var sátt við þá alla, ja flesta.

Við vorum svo aðeins sein fyrir upp á hótel, gekk illa að finna leigubíl og rétt náðum að henda okkur í sturtu áður en við mættum á „Hvítu kúna“ (Bíla krava).

Á Hvítu kúnni fengum við frábærar nautasteikur, Iðunn reyndar minna hrifin af sinni, en almennt mjög ánægð með frábæran mat. Og Iðunn var ekki minna ánægð en svo að hún þurfti að knúsa alla þjónana eftir matinn – við rétt náðum að stoppa hana frá því að fara inn í eldhús.

föstudagur

Iðunn var með smá sýkingu og við fengum heimilisfang á læknamiðstöð, sem var ekki svo langt frá. En tíminn þar kostaði tuttugu þúsund og eftir heimsókn í apótekið ákvað Iðunn að sleppa því að fara á spítala – sem kostaði ekkert og var 10 mínútna ferð – og nota þess í stað lyfin úr apótekinu.

Við settumst niður í hádegismat á Kinski, Viktor kom til okkar og svo fór hann á pírataflakk í ráðhúsið.

Eftir nokkurt ráp, þar sem við reyndum að kíkja á grafreit gyðinga, en hættum við vegna þess að biðröðin var nokkuð löng og hreyfðist nákvæmlega ekki neitt… (reyndar var Óskar smeykur um að Brynja myndi stinga nokkrum hauskúpum í vasann).

Að rápi loknu fengum við okkur bjór undir óskilgreindri Austurrískri / Tékkneskri tónlist ætluðum við Viktor í bjór „spa“. En samt fyrst í nudd. Þar var bara laust fyrir einn, sem Viktor þáði enda illa haldinn eftir fyrsta Squash tímann sinn. Ég fann ekki annað nudd og þegar á reyndi var uppbókað í bjór-spa. Kannski eins gott, það voru ansi umfangsmiklar lögregluaðgerðir nánast í næsta húsi. Við Óskar ákváðum að við þyrftum nauðsynlega að komast í nudd, og fundum tælenska nuddstofu, ekki svo langt frá. Nuddið fólst aðallega í að toga í tærnar á okkur og minni háttar „þukl“.

Um kvöldið ákváðum við að fara á torgið og finna stað sem okkur litist á, þeas. án þess að bóka fyrirfram. Við fengum svo sem allt í lagi mat, reyndar vel yfir meðallegi, en vorum aðeins út úr, ekki hiti (eins og hjá öðrum) og ekkert ljós. Samt fínn matur, en ekkert meira en það.

Prag - D3 - 9-1

Eftir matinn fórum við á Ambassador Casino að spila póker, inngangurinn var reyndar sameiginlegur með Goldfinger þeirra Prag búa – sem heitir líka Goldfinger – en við kveiktum á perunni þegar annars hjálplegur dyravörðurinn var ekki að fylgja okkur inn á Casino hlutann þegar hann sagði að Brynja og Iðunn þyrftu að borga sérstaklega inn. En við fundum Casino-ið strax, lágmarks innkaup er 2.000 tékkneskar krónur (tékkneska krónan jafngildir 5 íslenskum) og ég náði að rúmlega tvöfalda mig, Viktor náði 500 í plús, Iðunn tapaði sínu og Óskar tvöfaldaði sig, notaði Evrur og þurfti að kaupa inn fyrir örlítið meira, en í staðinn kom út með stærsta pottinn, lokaspilið var spaði þar sem bara gosann vantaði upp á Royal Straight Flush.

Eftir Casino fórum Brynja & Óskar heim á hótel, en við Iðunn og Viktor fundum rokk bar í kjallara fyrir lokabjórinn.

laugardagur

Við hófum daginn á kaffi og „croissant“ á nærliggjandi kaffihúsi, „Double B, Coffee & Tea“.

Þaðan lá leiðin á flóamarkaðinn sem var óneitanlega minna fyrir mig en hina… en Brynja fann eitt og annað sem heillaði.

Við hittum svo Viktor í miðdegismat, hann fékk sér reykt svínahné, ég fékk mér smakk-disk, Iðunn snitsel, Brynja kjúkling og Óskar var með hægeldað svínakjöt (ef Iðunn man rétt).

Svo tók við búðarráp, með bjór og kaffipásum, og síðan var kominn tími á bjórsmökkun á Prag Beer Museum, sem bauð meðal annars upp á 30 bjóra smakk. Sem við gátum ekki skorast undan.

Eiginlega mjög gaman að smakka svona marga undarlega bjóra, en fæstir voru svo sem nokkuð sérstakir, helst pilsnerinn og porterinn.

Við gripum mat á Il Taverna, mér leist satt að segja ekki mikið á hann, virtist vera staður sem gerir út á að vera á torginu… og við gátum ekki einu sinni fengið borð þar, og var boðið í kjallarann. Ég var ekki spenntur. En kjallarinn var mjög heillandi.. maturinn frábær og þjónarnir stóðu sig ótrúlega vel… fáir og stöðugt á hlaupum.

sunnudagur

Flugið heim var 6:30, þannig að við þurftum að vakna 3:00, finna leigubíl, út á flugvöll og þar í fínasta morgunmat. Flugið heim var skárra en flugið út… þar munaði aðallega um að við vorum aftast, fjögur með sex sæti og náðum aðeins að dotta.

Svo er eitthvað af myndum á Prag 2017