Gamlárskvöld

Við mættum í Austurbrún í mat eins og (nánast) alltaf á gamlárskvöld. Í þetta sinn mætti Salvör með Jonna og Kristín og Hekla mættu með okkur. Brynja & Óskar mættu svo eftir miðnætti.

Við breyttum út af vananum að hafa humar í forrétt og gerðum einhvers konar laxa forrétt sem var eiginlega mjög vel heppnaður. Nautalundir í aðalrétt og sherrý truffle í eftirrétt.

Eitthvað af hvítvíni og rauðvíni – jafnvel bjór, svo freyðivín og Whisky eftir miðnætti.

En mjög skemmtilegt og vel heppnað kvöld, en vissulega skrýtið að vera án tengdapabba, Magnúsar, sem var sárt saknað.Gamlárskvöld - 6

Áramót Iðunnar

Bridgemótið Áramót Iðunnar var haldið í Kaldaseli í tuttugasta og fyrsta skipti. Gunnlaug & Helgi unnu í þetta skipti en við Iðunn náðum öðru sæti, sem var nú eiginlega betra en við reiknuðum með eftir kvöldið.

Frekar fámennt í þetta skipti, en alltaf jafn gaman að spila – hefði örugglega verið enn skemmtilegra ef við hefðum verið í örlítið betri æfingu.. og komist hjá verstu mistökunum.

En fyrir þá sem áhuga hafa þá eru úrslitin hér Áramót Iðunnar

Jólamót Jonna

Jólamótið Jonna í skák var haldið í 21. skipti.. Jonni sjálfur vann eina ferðina enn, en í þetta skipti var sigurinn tæpari en oft áður.

Þokkaleg mæting og fullt af skemmtilegum skákum og enn meira af hrikalegum mistökum, enda kannski ekki von á öðru hjá fólki sem teflir einu sinni á ári og þarf að tefla fimm mínútna skákir.

En fyrir áhugasama þá eru úrslitin á Jólamót Jonna.

Jólamót  - 4

Njála

Þáðum að kíkja á forsýningu á Njálu í Borgarleikhúsinu.. við Iðunn kíktum með Öggu og Kidda.

Er svo sem ekki búinn að melta almennilega, en ansi mögnuð sýning, mörg frábær atriði, önnur minna frábær eins og gengur og gerist en flest mjög flott… eitt kannski full langdregið – en mér leiddist amk. aldrei.

Viktor spurði okkur eftir sýningu (hann var ekki með okkur) hvort þetta væri nútíma útgáfa af Njálu.. sem það vissulega var, en líka langt frá því, mikið „sjónar-“ og „hljóðspil“ og ansi frumleg nálgun í mörgum atriðunum.

Njála - 2

Jóla- og áramótakveðjur

Árið 2015 er fyrir marga hluti eftirminnilegt en því miður ekki allt gleðilegt, því erfið veikindi og andlát Magnúsar, pabba Iðunnar, settu hvað mestan svip á árið.

Eitt gott kvöld situr þó sérstaklega eftir í minningunni. Við Iðunn eigum sama brúðkaupsafmælisdag og Magnús & Sylvía og við höfum öll hist og haldið upp á daginn á hverju ári þegar hægt var. Í ár hittumst við í Austurbrún og fórum svo út að borða með þeim og Ásu & Sæma, sem var mjög notaleg og dýrmæt kvöldstund.

Við höfum svo að venju verið mjög dugleg að hitta vini, ættingja, kunningja, vinnufélaga og aðra af hinum ýmsu tilefnum – eða engu tilefni.

Og eitthvað höfum við ferðast, bæði innanlands og utan – til London, Manchester, Birmingham, Berlín, Cottbus, Gouda og Amsterdam – Einifell, Langholt og Akureyri.

Upptaka og útgáfa Fræbbblaplötunnar „Í hnotskurn“ tók drjúgan tíma seinni hluta ársins og kannski það jákvæðasta sem situr eftir af árinu.

Viktor útskrifaðist úr meistaranámi í stjórnmálafræði við háskólann í Southampton með topp einkunn og fékk í framhaldinu vænan styrk til að klára doktorsnámið á sama stað.

Jólakort-2015

Annar í jólum

Enn einn, til þess að gera, rólegur jóladagur. Við mættum svo í kvöldmat í Austurbrún með Iðunnarhluta fjölskyldunnar.

Í þetta sinn sáu Helgi & Þóra að mestu um eldamennskuna og eins og við var að búast var ekki mikið að kvarta undan svínabógnum.

Kvöldinu lauk svo með nokkrum leikjum að hætti Iðunnar, Andrésar og Viktors („actionary“).

 

Jóladagur

Jóladagur að venju rólegur, fékk mér brauð frá Öggu með hvítöli í morgunmat og settist við lestur.

Við Viktor gerðum svo eplaköku að hætti mömmu og systkini mín og fjölskyldur þeirra mættu í hangikjötsveislu.

Að venju var yfirdrifið að mat og nokkur samkeppni um besta hangikjötið.. fyrir minn smekk var Einifellslærið best, en Helgi mætti með læri að norðan sem mátti alveg láta sig hafa að éta… hefðbundna kjötið frá Kea og Fjallalambi voru svo sem fín, en ekki alveg á pari. Held satt að segja að munurinn liggi helst í þessari áráttu við hefðbundið hangikjöt að salta kjötið í tætlur..

En eftir mat og eftirmat var tekin hefðbundin jólamynd og svo nokkrir leikir og spil fram eftir kvöldi.

En kannski átti Lilja „augnablik“ kvöldins.. þegar hún var að dansa og syngja með „Allir saman nú“ þar sem Jonni spilaði undir og leiddi söng.

Aðfangadagur

Frekar rólegur, fór með Jonna að klára fatakaup og aðeins að klára innkaup..

Elduðum svo í óvenju miklum rólegheitum.. graflaxinn fínn og kalkúnninn fullkominn. Höfðum ekki lyst á eftirréttinum.

En hvert slysið á fætur öðru með rauðvínin, fyrsta fullkomlega ónýtt (Valsotillo), næsta með ónýtan tappa sem molnaði allur niður en mögulega ekki alveg ónýtt, Muga (2009) var frekar skrýtið, en síðustu tvö sluppu.

En tímanna tákn að við Iðunn þurftum að „suða“ um að fá að opna pakkana, strákunum lá ekkert á, máttu eiginlega ekkert vera að þessu.

Skata hjá Öggu

Fórum í árlega skötuveislu hjá Öggu systur minni… held að Iðunn hlakki ekki síður til hennar en jólanna. Graflax og síld í forrétt, skata, saltfiskur, plokkfiskur og meðlæti.. sérstaklega nýbakað brauð.

Bjór og hvítvín, nokkrir snafsar, meiri bjór og kannski aðeins of margir snafsar.

Röltum aðeins niður Laugaveginn, kláruðum nokkrar gjafir og enn meiri bjór á Celtic Cross.. aftur til Öggu & Magga í einn bjór að lokum.

Sauð síðasta hangikjötslærið um nóttina, kjöthitamælirinn bilaði og þurfti að vaka til hálf fimm.

 

Jólaboð

Mættum í jólaboð hjá Þórhildi (frænku Iðunnar) og Eiríki.. Sylvía kom með okkur og óneitanlega gaman að hitta þennan hluta ættarinnar, sambandið við þau hefur einhvern veginn ekki verið eins mikið síðustu árin og áður.

Stundum erfitt fyrir mig að átta sig á fjölskyldutengslunum en bæði Iðunn og Sylvía voru með sitt nokkuð á hreinu.

Skemmtileg íbúð sem þau eru flutt í og frábært útsýni.

Og ekki spilltu veitingarnar, þetta var alvöru alla leið.