Bjórhátíð

Ákváðum að mæta tímanlega á bjórhátíðina á Kex í dag.. Í þetta skipti var hátíðin í kjallaranum og einstaklega vel heppnað. Gaman að prófa bjóra sem fást ekki að öllu jöfnu á landinu.

Rikki kíkti með okkur og Brynja & Óskar mættu undir lokin.. nánar annars á blogginu mínu.

Við fórum svo á Kryddlegin hjörtu og fengum mat sem var á mjög sanngjörnu verði og eiginlega bara mjög góður.

Einn bjór að lokum á Ölstofu Kormáks og Skjaldar en fórum snemma heim – og snemma að sofa.

Bjórhátíð og flakk

Kvöddum Hjörleif og Skarphéðinn í Staka eftir vinnu. Þaðan lá leið okkar Iðunnar á Kex þar sem okkur Fræbbblum hafði verið boðið á bjórhátíðina. Við vorum frekar sein og lítið af bjór í boði, fengum okkur nokkra og fórum svo að borða.

Eftir smá rölt lá leiðin á Austur – Indíafjelagið, höfum ekki komið þangað lengi og maturinn var eiginlega frábær, þjónustan fyrsta flokks og í rauninni alls ekki svo dýrt.

Eftir þetta fórum við og hittum þá Staka menn sem enn stóðu í lappirnar, Whisky á Dillon og svo aftur yfir í bjórinn. Á leiðinni út hittum við Ellert, fyrrum bassaleikara Fræbbblanna og snerum við og fórum í meiri bjór.

Fræbbblarnir á Rosenberg

Við Fræbbblar spiluðum á Rosenberg, nokkurs konar loka hljómleikar til að kynna „Í hnotskurn“.

Gaman að spila loksins á Rosenberg, hef oft mætt þar á hljómleika og kann vel að meta að einhver vilji halda úti stað með lifandi tónlist.

Mætingin var kannski ekki svo slæm og virkilega gaman að sjá þá sem mættu, en við áttum óneitanlega von á að fleiri hefðu áhuga.

Ég held að spilamennskan hafi gengið nokkuð vel, amk. skemmtum við okkur sérstaklega vel, Guðjón söng með í CBGB’s og Brynja og Kristín hoppuðu upp á svið og sungu með í Hippar, Æskuminning og Í nótt.

Megnið af lögunum af Í hnotskurn fer nú „í salt“ og við byrjum að semja nýtt efni.

Sennilega er klárt að það tekur því ekki fyrir okkur að vera að halda hljómleika og þetta voru mjög líklega síðustu sjálfstæðu hljómleikar okkar. Sama gildir kannski um spilamennsku á börum seint um kvöld, þó þetta sé oft mjög gaman, þá er þetta einfaldlega of mikil vinna til að standa í, á meðan áhuginn er ekki meiri.

En við komum örugglega til með að spila á hátíðum og viðburðum með öðrum, þannig að það er langt frá því að þetta hafi verið okkar síðustu hljómleikar, svo því sé nú haldið til haga.

MK & sögufélag

Kíkti á fund hjá Sögufélagi Kópavogs, þar sem MK var aðal viðfangsefnið. Gaman að hitta gamla félaga og rifja upp sögur.

Held samt að ég hafi verið einn úr mínum árgangi.

Einhvern veginn var „setustofan“ stærri í minningunni. En ég hef ekkert elst.

MK - Kópavogur - 2

 

Spil

Fín mæting í spil hjá okkur í Kaldaselinu, tíu manns – má eiginlega ekki vera meira – og vel heppnað kvöld.

Andrés vann fyrstu tvö mótin, vel að því kominn, hefur verið að spila vel, en hlutirnir ekki dottið með honum.

Unnsteinn vann svo þriðja mótið.Póker - febrúar - 2 b

MK-Oddfellow matur

Við mættum, ásamt GoutonsVoir og fullt af öðru fólki á æfingu hjá útskriftarnemum í MK í matreiðslu og framreiðslu (vona að ég fari rétt með).

Þetta er, að mér skilst, árlegur viðburður þar sem Oddfellow, áhöfn á bát (hvers nafn er stolið úr mér) og MK sameinast um margrétta fisk kvöldverð með víni. Það komast færri að en vilja, en fyrir einskæra heppni og kunningsskap fengum við miða.

Það er skemmst frá því að segja að þetta var einstaklega vel heppnað kvöld, réttirnir spennandi, vínið vel valið og þjónustan fyrsta flokks. Auðvitað voru réttirnir mismikið fyrir smekk hvers og eins en flestir mjög góðir og allir skemmtileg tilbreyting og gaman að smakka, til að mynda, langreyði.

Hljómaskál

Við Iðunn og Alli kíktum á Hljómaskál í Skálholti þar sem Unnur Malín var ásamt fleiri ungum tónskáldum og ungum og efnilegum og reyndum söngvurum og hljóðfæraleikurum – Duo Harpverk, Skálholtskórinn, Kammerkór Suðurlands og Unnur Malín – að flytja verk eftir Unni, Hreiðar Inga og Georg Kára. Svo var líka gaman að sjá Hilmar Örn sem kórstjóra, en hann á nú sinn þátt í rokksögunni.

Í stuttu máli var þetta verulega vel heppnað kvöld, einstök lög auðvitað mis mikið fyrir minn undarlega tónlistarsmekk, en allt vel yfir meðallagi og sumt ansi magnað, við höfðum reyndar fengið „smjörþef“ af því sem Unnur er að gera áður.

Og svo var einhvers konar afmæliskaffi og kökur á eftir, stoppuðum ekki lengi, en alvöru veisla og gaman að ná aðeins að spjalla við fjölskyldu og flytjendur…
Hljómaskál - 4

Dante frá Fræbbblum

Við Fræbbblar gefum út lagið Dante í dag.. hvað svo sem „að gefa út“ þýðir þessa dagana.

Amk. erum við að vonast til að útvarpsstöðvarnar spili lagið, bjóði jafnvel upp á það á vinsældalistum. Þá er myndband til, að mestu samhengislausar klippur úr bíómyndinni L’inferno frá 1911 um ferðalag Dante’s – og svo fylgir textinn með.

En lagið er hér Dante á YouTube.

Þorrablót

Hittumst í nokkurs konar Þorrablóti í Fögrubrekkunni hjá Gunnu & Kidda, með Öggu & Magga og buðum systrunum Öggu Hrönn og Elínu & Gumma. Nonni & Þóra Kata kíktu aðeins við og Tumi & María voru heima…

Allt um það, mjög skemmtilegt kvöld, og þorramaturinn með besta móti.. aðeins of mikið af snöfsum og sátum kannski full lengi, en mjög vel heppnað og alltaf gaman að hitta þær systur – og Gumma.

Þorrablót

Fimmtudagsflakk

Dagurinn fór allt of mikið í flakk, klára umslag fyrir vinyl útgáfu Fræbbbla plötunnar, Í hnotskurn, fara með plötuspilarann í viðgerð, svo ég geti nú hlustað sjálfur, kíkja á söngkerfi, kaupa fótbolta, fá fleiri lykla.

Svo á Fræbbbla æfingu þar sem við þurftum að æfa fyrir Rosenberg án söngs, vegna söngkerfisleysis – reyndar fínt að æfa einu sinni þannig.

Stutt stopp heima áður en ég mætti í karate.. ótrúlegt hvað maður er stirður og tregur (eða hvað líkaminn hlýðir illa þegar þreytan fer að segja til sín).

Aftur heim og svo að sækja Adda í vinnuna. Okkur tókst að púsla saman flakki þannig að ég náði að kíkja á Dillon þar sem Ofvitarnir og Hellvar voru að spila. Alltaf gaman að kíkja á hljómleika og þó svo að ég sé nú stundum duglegur, þá mætti óneitanlega gera betur. En Ofvitarnir eru fín rokkhljómsveit, vel spilandi og þétt. Hellvar voru að langmestu leyti með nýtt efni, og hljómaði eiginlega nokkuð vel, sennilega eina hljómsveitin sem kemst upp með að halda athygli í þetta löngum lögum. En Hellvar hefur lengi verið ein af mínum uppáhaldshljómsveitum.