IBC

Fór enn eitt árið á IBC, eins og áður, þetta verður nú sennilega í síðasta skipti.. en hvað veit ég… ég hef nokkrum sinnum haldið áður að ég sé að fara á mína síðustu sýningu.

Föstudagur

Alexandra skutlaði mér á flugvöllinn, ég spurði fljótlega hvort hún héldi að ríkisstjórnin myndi lifa miklu lengur, „ha, vissir þú ekki að hún er fallin?“ Nei, nei, við fórum að sofu um hálf-tvö og ég þurfti að vakna klukkan þrjú, en við höfðum hætt að fylgjast með. Við fylgdumst með fréttum á leiðinni og ég man ekki eftir ferð til Keflavíkur sem hefur liðið eins hratt.

Ég hitti nokkra RÚVara á flugvellinum í Keflavík sem sögðu mér þær harmafréttir að Örn Sigurðsson, sem var einn þeirra helsti hugbúnaðarmaður, væri látinn. Eitthvað voru kosningakerfi nefnd til sögunnar en fórum svo sem ekki langt.

Flugið var svo sem óþægilegt eins og alltaf og ekki bætti að ég var, til þess að gera, lítið sofinn. En komst upp á hótel eftir að hafa þurft að labba í rúmlega korter til að hitta á „snelltaxa“ sem ég hafði bókað. Fínasta hótel og ágæt staðsetning. Ég kíkti á IBC eftir stuttan hádegismat og á dagskrá dagsins var helst að skoða hvað væri nýtt og spennandi. Og ég get eiginlega ekki sagt að það hafi verið mikið, amk. ekki fyrir mig – stærri diskar, meiri þjöppun, meiri upplausn, sýndarveruleiki og „róbótar“… sumt spennandi og sum þrívíddar sjónvörpin ótrúleg. En ekkert fyrir mig, þeas. ekkert sem gæti nýst mér í vinnu.

Ég heilsaði aðeins upp á RtSoftware en fór svo upp á hótel að ná smá blundi fyrir kvöldið.  Fór á Vasso í kvöldmat og eins og stundum áður, varð ég fyrir talsverðum vonbrigðum, kálfakjötið þurrsteikt og dressingin að drekkja Carpaccio-inu. Eins og maturinn getur verið góður hjá þeim. Þaðan lá leiðin á „skrifstofuna“ (EuroPub) þar sem ég hitti talsvert af gömlum félögum, aðallega frá RÚV og Stöð2.

Laugardagur

Laugardagurinn fór í mikið labb á IBC, einn fund með RtSoftware og Stöð2… svo heimsókn til um tuttugu fyrirtækja, en fæst höfðu nokkuð fram að færa sem hentaði.

Fór svo á flakk og fékk þessa frábæru nautasteki á Toro Dorado áður en ég fór í nudd, upp á hótel að skipta um föt, inn á Casino að tapa 50 evrum og svo á barinn sem RtSoftware héldu til á.

Náði svo nokkrum af Íslendingunum undir svefninn á „staðnum hans Varða“.

Sunnudagur

Eiginlega bara heimferðardagur, smá búðarráp, fótboltagláp og frábær matur á Savini.

Samt hálf slappur og feginn að komast heim.. flugið heim talsvert miklu betra en flugið út – það er óneitanlega talsvert annað að fljúga með IcelandAir en Wow.

Breytingar í vinnu

Þá er komið að breytingum í vinnunni hjá mér…

Ég hætti rekstri Kuggs 2006 þegar ég fór með hóp frá Skýrr yfir til Símans. Í kjölfarið datt ég inn til Anza, svo aftur til Símans og þaðan til Staka 2008 – en Staki var fyrirtæki sem Síminn stofnaði til að annast hugbúnaðarvinnu fyrir ytri aðila. Síðasta haust keypti Deloitte svo Staka (og Talenta) og eru fyrirtækin nú hluti af þeirri samstæðu.

Ég á svo sem ekki von á miklum breytingum vegna þeirra verkefna sem ég hef verið að vinna við, amk. ekki á næstunni. Við fundum leið til að ég get áfram unnið að þeim áfram í samstarfi við Staka áfram án truflunar.

Þetta er búinn að vera fínn tími með einstaklega góðu fólki, en einhvern veginn voru síðustu breytingar ekki að virka – og þá er um að gera að halda áfram í sátt við alla.

Einifell

Enn ein Einifells helgin… allt of langt síðan við fórum síðast, og alltaf jafn gaman að koma.

Upphaflega átti þetta að vera Goutons Voir helgi en Stína veiktist og þau Assi komust ekki. En við hin gerðum okkar besta.

Heitur pottur við komuna á föstudeginum, geitaostur í forrétt í boði Krissa & Rúnu, lax í boði Auðar & Steina, við Iðunn settum saman Irish Coffee eftir matinn, en úthaldið var lítið og við fórum frekar snemma að sofa, smá spjall og vindill úti fyrir svefninn.

Sveppatínsla á laugardeginum eftir úrvals morgunmat, sem við Steini slepptum. Aspas frá Auði & Steina í hádegismat, svo Petanque mót fram eftir degi, Iðunn vann hnífjafnt mót á „markatölu“.

Rúna & Krissi buðu upp á rækjur í beikon í forrétt og svo tókum við góða pásu áður en við Iðunn buðum upp á heimilis grísasnitsel í sítrónusósu. Við höfðum gleymt raspi, Auður átti eitthvað, en ég bjó til það sem á vantaði. Flestir fóru snemma að sofa en ég sat aðeins með Whisky og tónlist eftir smá frágang.

Pylsur, beikon og egg í morgunmat… svo gufa áður en við fórum af stað í bæinn.
Einifell - september 2017 - 11-1.jpg

Vetrarstarfið

jæja, komið haust og „vetrarstarfið“ að hefjast.

Vonandi verða æfingar Fræbbblanna reglulegri og vonandi klárum við efni á nýja plötu. Það er einhverra hluta vegna, alltaf snúið að ná mörgum æfingum yfir sumarið. Það er einhver spilamennska framundan, að minnsta kosti Iceland Airwaves í byrjun nóvember, og vonandi nokkur skipti, þar fyrir utan.

Svo er fótbolti með stórskemmtilegum Postulahóp á hverju mánudagskvöldi, alltaf hörkukeppni og ekki verra að hafa titil að verja í þetta sinn.

Þá er karate hjá Breiðabliki tvisvar til þrisvar í viku, í þetta skipti stefnt á fyrsta „alvöru“ beltið, þeas. það brúna… verður væntanlega erfitt, en ég ætti að geta mætt reglulega – sem er, auk góðra þjálfara, lykillinn að því að ná framförum.

Við gerum ráð fyrir að spila póker einu sinni í mánuði, spilakvöld sem snúast ekki síður um bjórsmökkun en póker, en hafa heppnast sérstaklega vel.

Og þá treysti ég á reglulega matarklúbbshittinga, bæði hjá Goutons Voir og Rúv-Tops… (sem hefur ekkert lengur með Rúv að gera).

Þarf fyrir utan grunar mig að við eigum eftir að bjóða góðu fólki í mat og jafnvel að okkur verði boðið í mat þegar svo ber undir… og ef ekki, þá fer ekkert illa um okkur hér í Kaldaselinu.

Ein löng helgarferð er komin á dagskrá, Prag í lok september, með Brynju & Óskari. Prag er næst síðasti staðurinn sem við eigum eftir að heimsækja af löngum lista sem við settum upp fyrir 15-20 árum – sá síðasti Whisky ferð til Skotlands.

Í þetta skiptið verða breytingar í vinnunni hjá mér, ég verð ekki lengur launþegi heldur dottinn aftur í að vera með eigin rekstur.