Afmæli og fyrir-verslunarmanna-helgi-partý

Afmæli hjá Magnúsi í Austurbrún… frábært veður (eins og nánast á hverju ári) og kíktum með Önnu & Palla og Friðjóni & Sæunni í fordrykk og veitingar.

Magnús - afmæli
Þaðan á Laugaás að borða.. allt-í-lagi matur en ekkert meira.

Aftur inn í Austurbrún í fleiri drykki.

Þaðan til Hrafns í enn eitt fyrir-verslunarmannahelgi partýi. Mjög skemmtilegt að koma og alltaf skemmtileg blanda af fólki sem við hittum sjaldan.
Laugarnes 2 - lítil

Afmælisgrill

Kiddi og Maggi héldu nokkurs konar afmælisveislu og grill í Fögrubrekkunni.. Fyrir utan stórfjöldskylduna kíktu Agga frænka og Sævar frændi. En alltaf vel heppnaðar veislur hjá þeim mágum – og fjölskyldum. Við sátum kannski full lengi fram eftir, en svo sem engin ástæða til að fara heim á meðan einhver stendur vakandi!
Fagrabrekka - Agga Iðunn - lítil

Einifellsferð

Fórum í frekar undarlega Einifells ferð frá miðvikudegi til mánudags – „undarlega“ vegna þess að Auður & Steini voru hvergi nærri. Jú, reyndar voru þau hluta tímans á Laxfossi og kíktu við.. en í þetta sinn vorum við án þeirra á Einifelli.

Við Iðunn fórum með Alla & Hrafnkeli Mána og Brynju & Öglu Margréti og Kristínu. Viktor og Hekla komu tvo fyrstu dagana, Rakel gisti eina nótt og Arnar, Unnur & Unnsteinn Magni mættu um helgina.

Að venju snerist ferðin um matargerð og ekki síður að borða árangurinn.. Petanque var spilað flesta dagana, krakkarnir nýttu sér trampólínið, úti-„eldhúsið“ eða fóru í ratleiki sem Alli setti saman. Timeline var eitthvað var spilað en flest kvöld (eða í rauninni nætur) fóru í póker. Já… og heita pottinn.

Brynja mætti með kjúklingabringur fyrsta kvöldið sem við Alli grilluðum. Annað kvöldið var hvítlauksgrillaður Hornafjarðarhumar í forrétt og grilluð hrossalund í aðalrétt með rauðrófum, ég grillaði hvort tveggja á kolagrilli á hæsta hita, notaði einhvers konar sívalning til að ná hámarkshita . Þá kom afrískur pottréttur sem Alli sá að mestu um og á laugardaginn fengum við okkur samsuðu… Brynja gerði sítrónu-chili-spaghetti, Iðunn og Unnur karamelluðu lauk og döðlur og apríkósur og ég smjörsteikti saltfisk í vorlauk og hvítlauk og setti yfir ristaðar möndlur – frábær samsetning. Og ekki sviku lambakótiletturnar á sunnudagskvöldið.

Kristín átti afmæli á fimmtudeginum sem varð tilefni til pönnukökuveislu.

Og svo úrslitum sé haldið til haga þá vann Arnar einstaklings Petanque mótið, rúllaði mér upp í úrslitaleiknum.. ég vann þrjú pókermót, Alli og Unnur eitt, Iðunn eitt og hálft og Brynja hálft!

Einifell - júlí - Petanque - 4 - lítil

Einifell - júlí 6 - lítil

Einifell - júlí - póker 2 - lítil

Kaldaselsmatur

Fengum Helga & Þóru og Bjössa & Siggu og Berlindi & Gumma í mat… Krissi og Rúna kíktu þegar leið á kvöldið.

Eiginlega þokkalega vel heppnaður matur þó ég segi sjálfur frá, graskerssúpa, hnetusteik og svínalund.. melónusalat og ég man ekki hvað.

Var reyndar aðeins farinn að finna fyrir of mörgum bjórum, rauðvínsglösum þegar leið á kvöldið.

Undanúrslit HM

Jonni, Bragi, Máni (?) og kærastan hans kíktu með pizzur að horfa á einhvern ótrúlegasta fótboltaleik sögunnar.

Hef eiginlega enn ekki óljósan grun um hvað gerðist í þessum leik. Brasilía að tapa 1-7 á heimavelli í undanúrslitum HM.