Sambindis jóla morgunmatur

Sambindið mætti í Kaldselið í jólamat að dönskum hætti. Við gerðum þetta nokkrum sinnum fyrir nokkuð mörgum árum, en urðum svo leið á danska matnum og tókum upp á að fylgja alls kyns annars konar matarlínum. En nú var röðin komin aftur að danska matnum, svínabógur, pörusteik, hnetusteik, rauðspretta, síld, lifrarkæfa, makríll, bollur og ég man ekki hvað.. Við Höskuldur fórum reyndar í gufu í hádeginu og ég mætti í stutt nudd hjá Öggu frænku á eftir.

En skemmtilegt kvöld að hætti Sambindisins, gaman að hitta Eddu, og við sátum aðeins frameftir að éta, drekka og éta meira og drekka enn meira.

Sambindisjólamatarborð - litil

Jólaglögg hjá Símanum

Það var boðið upp á jólaglögg í lok vinnu hjá Símanum.. Hér áður fyrr, fyrir mjög löngu… var jólaglögg fastur liður fyrir jólin, jafnvel oftar en einu sinni fyrir hver jól. Svo fengu allir leið á þessu.. síðustu nokkur árin hef ég alltaf hugsað með mér að ná að minnsta kosti einu sinni að smakka jólaglögg. Þannig að ég hlakkaði til að mæta…

En þá var þetta kallað jólaglögg, án þess að nokkur jólaglögg væri í boði. Ég ætla svo sem ekki að vera vanþakklátur, það voru ágætir drykkir í boði og eitthvað hitti ég af skemmtilegu fólki… þó skemmtiatriðin hefðu mátt vera annars staðar mín vegna.

Fræbbbla afmæli

Við Fræbbblar héldum upp á þrjátíu og fimm ára afmælið okkar á Gamla Gauknum.

Þetta var nú með skemmtilegri kvöldum ársins. Fyrir það fyrsta þá er þetta frábær hljómleikastaður, öll aðstaða til fyrirmyndar og Hrói hljóðmaður veit nákvæmlega hvað hann er að gera – og auðvitað Óli á ljósnum, að ég gleymi nú ekki að minnast á og þakka öðru starfsfólki fyrir. Það er eitthvað við þennan stað sem gerir það að verkum að það er gaman að spila, nægilega lítill og áhorfendur nálægt sviðinu, en sviðið vel afmarkað og gott „sánd“ þar.

En gaman að fá þetta marga, við vissu eiginlega ekki hverju við máttum eiga von á.. Sennilega erum við að byrja full seint og við hefðum kannski mátt taka færri pásur. Við tókum stutta pásu þegar við skiptum um bassa leikara og eina þar fyrir utan.. og það fækkaði alltaf talsvert í hvert skipti. En við héldum út til hálfþrjú, fimmtíu og eitt lag frá rúmlega ellefu.

Löng Fræbbblaæfing

Við mættum upp í Mosfellsdal til Gumma, með nesti, á langa Fræbbblaæfingu. Það gekk eiginlega bara nokkuð vel þrátt fyrir mikið efni sem þurfti að fara yfir. Helgi er orðinn nægilega góður í öxlinni til að taka nokkur lög á afmælishljómleikunum, en hitinn og þunginn af bassaleiknum lendir á Steina.

Seinni landsleikurinn…

Fór heim hálf slappur og missti af karate.. Brynja & Gauti og Unnur & Arnar & Unnsteinn komu svo að horfa á landsleikinn með okkur. Og mættu öll með hlaðið veisluborð. Leikurinn auðvitað vonbrigði, nema kannski rétt vonarglætan í lok fyrri hálfleiks. En liðið var ekki sjálfu sér líkt og ég get ekki varist að velta fyrir mér hvernig hefði farið ef þeir hefðu náð eðlilegum leik.

Ég hef aðeins verið að grínast með að nærvera forsetans hafi haft slæm áhrif, menn hafi verið dofnir eftir að hlusta á vaðalinn í honum.. og jafnvel hvarflaði sú skýring að mér að hann hafi lofað (hótað) að mæta til Brasilíu ef liðið færi áfram… En svona gamni fylgir auðvitað sú alvara að allt brot á venjum fyrir leik getur haft sín áhrif, hversu vel meint sem það er. Það má ekki mikið út af bregða þegar komið er á þetta stig, spennustigið þarf að vera nákvæmlega rétt. En Ólafur sleppir auðvitað ekki svona tækifæri til að komast í fjölmiðla og klappa sjálfum sér á bakið. Er ekki rétt munað hjá mér að þetta sé í annað eða þriðja skipti sem hann bankar upp á hjá landsliði fyrir mikilvæga leiki? Og að þeir leikir hafi tapast illa og liðin spilað langt undir getu?

Ljótasta orðið og pylsugerðarpartý

Mættum á kynningu úrslitanna í samkeppninni um ljótasta orðið. Ég er reyndar enn á því að „hrogn“ sé það ljótasta samanber yfirburða rökfærslu í annarri færslu.

En hvað um það. Viktor hringdi og bað okkur að hafa gjallarhorni (ið hans Jonna) meðferðis. Við vorum frekar sein fyrir og komum fimm mínútum of seint. Rétt þegar við vorum að renna í „hlað“ hringdi síminn, það var auðvitað Viktor og ég byrjaði óðamála að útskýra að við værum að keyra inn á bílastæðið og gjallarhornið væri því ókomið. Hann greip framm í og sagðist sjálfur ekki vera mættur, hafði tafist við að sækja ramma og var að ganga einhvers staðar nálægt tjörninni.. og bað okkur að sækja sig. Iðunn tók símann og eitthvað gekk þeim illa að leiðbeina mér við aksturinn þannig að við fórum óþarfa krókaleið.. fundum hann á endanum, hann hentist út úr bílnum á Suðurgötunni nánast á ferð, við lögðum við hótel Sögu og brutum okkur leið milli trjánna inn á víðavanginn þar sem athöfnin var haldin, í holu íslenskra fræða. „Pabbi, hvar er gjallarhornið?“ Hann hafði ekki tekið það með og ég ekki haft rænu á að kíkja. Þannig að aftur hljóp ég af stað út í bíl, náði í gjallarhornið og aftur til baka. Kórinn og upptökumaður Rúv orðnir ansi kaldir en þetta hafðist… enda kalt og hvasst og athöfnin á opnu svæði. Kvennakórinn Katla söng, Gunnbjörn spilaði lagstúf á munnhörpu og „geirvarta“ var útnefnt ljótast orðið. Ég náði reyndar ekki nafninu á verðlaunahafanum en verðlaunaskjalið var ansi skemmtileg útfærsla á orðinu „geirvarta“ sem myndaði geirvörtu.

Ljótasta orðið litil

Þegar við vorum aðeins farin að þiðna í bílnum var okkur bent á að það væri árleg hátíð pylsugerðarklúbbs á Ljósvallagötunni og þar væru eðal pylsu seldar til styrktar geðdeild Landsspítalans. Þannig að við mættum þangað fengum frábærar pylsur fyrir lítinn pening og styrtkum gott málefni.

Pylsugerðarstyrktarsala - lítil

Þaðan í heitan pott og gufu í Árbæjarlaug eftir að hafa gripið í tómt í Breiðholtslauginni, reyndar með örstuttri viðkomu í vínbúðinni þar sem bjórbirgðir heimilisins voru komnar að hættumörkum, bara slatti til.

En Iðunn var búin að panta eitt frítt helgardagskvöld fram að jólum, og þetta var ekki verra kvöld en hvert annað.

Ísland – Króatía

Horfðum á leikinn heima í góðum félagsskap. Ekkert varð af fyrirhugaðri vínsmökkun um kvöldið, en Brynja & Gauti mættu með Öglu og Sunnu, Arnar & Unnur mættu með Unnsteinn og Bragi mætti og við Iðunn vorum á staðnum ásamt Guðjóni.. auk þess sem Andrés hafði annað augað á leiknum.

Pizzur frá Castello og Iðunn loksins búinn að finna pizzu sem hún getur borðað – hún bætir truffluoflíu á grænmetispizzu með rjómaosti.

En fín stemming, þó stuðningssöngvarnir færu aðeins of mikið út um víðan völl fyrir minn smekk á köflum.

Leikurinn. Já, fór eins og ég spáði, 0-0, þrátt fyrir að vera spurður fyrr um daginn hvort ég hefði gleymt að taka bleiku pillurnar mínar um morguninn þegar ég hafði orð á þessari spá. Henni fylgdi reyndar eins marks sigur Íslands úti, að liðið tæki „blika“ á þetta, sbr. þegar Blikarnir slógu Sturm Graz út í sumar. Þá er bara að sjá hvort það gengur eftir líka.

Ferðavalskvöld

Karate í hádeginu, seinni hálfleikur hjá „Manchester United – Arsenal“ á Moe’s.. en..

Aðalverkefni dagsins var að hitta GoutonsVoir og ræða ferðaplön fyrir næsta ár. Iðunn eldaði, með örlítilli aðstoð, eðal spaghetti sósu.. Krissi & Rúna mættu með „snarl“ fyrir matinn, Auður & Steini komu með nýtilbúið Einifells-bacon og Assi & Stína með eftirréttinn.

Eftir ansi áhugaverðar kynningar á Madrid með norður Spáni, skútusiglingu um grísku eyjarnar og úfaldaferð í Marokkó.. hvert öðru meira freistandi.. þá var þessu nú eiginlega slegið á frest til 2015.