Sálfræðingapartý

Mætti sem viðhengi með Iðunni í sálfræðingapartý í Bjórgarðinum, reyndar smá upphitun á sálfræðistofunni við Klapparstíg.

En gaman að hitta hópinn þó einhverja hafi vantað í þetta sinn. Bjórgarðurinn er virkilega skemmtilegur staður og mikið úrval af bjór í boði.

Þessi hefðbundna dans nostalgíu tónlist er engan veginn fyrir mig, það var svo sem fínasta stemming, en ég skal játa að ég var alveg að bilast undir það síðasta. Man ekki hver var með uppistand en mig minnir að það hafi aðallega gengið út á að fárast yfir hvað fólk væri lítið að hlægja.. sem aftur var enn minna fyndið.

Þrátt fyrir fyrirfram sjálfgefin loforð um að fara heim þá duttum við inn á Ölstofuna með Hrund í einn bjór að lokum.

Vínkynning

Þá var loksins kominn tími á vínkynningu í Staka Deloitte..

Hafliði (að sjálfsögðu) mætti með nokkur spennandi vín..

Svo er ekki bara gaman að smakka ólík rauðvín heldur er alltaf jafn gaman að hlusta á Hafliða..

En vínin sem við smökkuðum voru:

  • Anakena Tama Pinot Noir, ekkert spes
  • Truchard Pinot Noir 2013, betra, en stendur ekki undir verðmiða á fimmta þúsund
  • Hecula Monastrell 2012, kryddað, samt ekkert spes
  • Castano 07, fínt, en ekkert meira, líka oft smakkað áður
  • Castano Santa, mjög gott
  • Achaval Ferrer Cabernet Sauvignon 2013, besta hingað til
  • Heitz Trailside Cabernet Sauvignon, virkilegt gott, spennandi vín, en svo kom auðvitað í ljós að það er ekki beinlínis gefið
  • Ridge 2012 Geyserville, mjög fínt, kannski næst besta vínið, fellur samt verulega í skuggann af Heitz

Vínkynning.jpg

Víghólahittingur

Það var boðað til upprifjunar á gagnfræðaskólaárunum í Víghól í kvöld á Catalina.

Eflaust hefði mátt reyna betur að finna alla sem mættu í Víghól úr 1959 árganginum. Ég reyndi svo sem að ná í sem flesta og vera „hugmyndaríkur“ við að finna fólk, en þetta var fyrst og fremst boðað á Facebook  – og okkar kynslóð er mis dugleg að fylgjast með þar. En, það var mjög gaman að hitta þá sem mættu.

Ég var samferða Helgu og Auði á staðinn og Helgu á leiðnni heim og þarna mættu auðvitað Jón Orri, Tommi og Jón Stefáns – en allt eru þetta vinir sem við hittum reglulega.

Nú er ég að gleyma einhverjum, enda nokkuð margir bjórar „í húsi“, en svona á meðan ég man, Guðmundur Oddson mætti „fyrir hönd“ kennara og þar fyrir utan var mjög gaman að hitta Ásdísi Ólafs, Hólmfríðurnar Einars og Gísla, Siggu H., Ollu, Siggu, Björn Örvar, Hilmar Hreins, Gunna Sig., Berglindi, Karl Gauta, Sólrúnu, Guðbjörgu, Ragga & Sigga Sverris, Guðrúnu, Óla, Kristínu, Vilmar, Önnu Birgittu og [úff, það voru fleiri].

 

Spilakvöld

Enn eitt spilakvöldið hjá okkur í Kaldaselinu.. nokkuð skemmtileg og vel heppnuð kvöld, en kannski er ekki góð hugmynd að vera að spila of lengi fram eftir.

Í þetta sinn vann Brynja tvö mót, Alli F. eitt og ég eitt.. eitthvað náði ég að saxa á forskot Iðunnar, og nóg eftir.

Póker - mars - 3

Sambindishelgi

Sambindið hittist reglulega og einn skemmtilegur siður hefur verið að fara helgarferð í byrjun ársins, bæði meðlimir og eiginkonur. Síðustu árin hefur mætingin reyndar ekki verið góð, en engu að síður stórskemmtilegar ferðir og ómissandi félagsskapur.

Í þetta sinn varð fyrir valinu eftir nokkrar hrókeringar að gista á Eldhestum við Hveragerði. Fínasta hótel, afbragðsmatur, góð þjónusta og ágæt herbergi – en nokkur smáatriði, sem væri auðvelt að hafa í lagi… kaffið var svona alveg á mörkunum, enginn bjór af krana, lítið úrval af víni, morgunmatur aðeins til 10:00 (um helgi) og auglýstur „happy-hour“ bara á örfáum drykkjum… sem sagt ekkert alvarlegt að og flest í mjög góðu lagi.

Við tókum föstudagskvöldið rólega en náðum ansi góðri dagskrá á laugardeginum.

Eftir morgunmat á laugardagsmorgni mættum við í gönguferð um Hveragerði þar sem Björn Pálsson, héraðskjalavörður, var leiðsögumaður.. Þrátt fyrir kuldann var þetta mjög skemmtileg ferð, Björn mjög fróður, sagði skemmtilega frá og fór með nokkrar viðeigandi vísur.

Það var svo nauðsynlegt að af-frysta okkur í heitum pottum og gufubaði í ágætri sundlaug bæjarins. Þaðan í létta máltíð hjá Almari bakara við Sunnumörk, flott bakarí og fínn matur. En við fengum sorglegar fréttir þarna sem settu óneitanlega svip á það sem eftir var helgar.

En þaðan lá svo leiðin í heimsókn til Guðmundar á Núpi. Guðmundur tók heldur betur vel á móti okkur og gaman sjá hvað hann er búinn að rækta mikið og byggja upp á staðnum. Ein uglan tók reyndar líka á móti okkur. Og ekki spillti að enda í smá „snarli“ og kaffi.
sambindi-mars-2
En þaðan að heimsækja Rafn (föðurbróður Höskuldar) og Sibbu.. höfðinglegar móttökur eins og alltaf þegar við kíkjum til þeirra.

Næsta mál var að reyna að sjá leik Liverpool og Arsenal, en það var enginn bar með enska boltann opinn í Hveragerði. Við enduðum uppi á hóteli með brothætt sjónvarpsforrit á iPad.

En mjög góður kvöldmatur, við sátum aðeins fram eftir en entumst svo sem ekki lengi.. við Iðunn gripum þó smá bjór og Whisky á koju fylliríi eftir að aðrir gengu til náða.

sambindi-mars-12

Punk á Dillon

Við Fræbbblar spiluðum á „punk hátíð“ á Dillon.. alltaf gaman að spila.

Mér fannst þau bjartsýn að byrja klukkan átta, en það var slatti af fólki mættur og ágætur fjöldi allt kvöldið, ef eitthvað er þá er staðurinn full lítill.

En Dýrðin byrjaði, mjög skemmtilegt popp-pönk, nokkuð síðan ég hef séð þau, og ekki frá því að þau séu miklu betri í dag.. einhverra hluta vegna varð mér hugsað til Blondie, en dýrðin er í rauninni miklu betri.

dillon-mars-dyrdin-1

Tuð voru næstir, kraftmiklir og skemmtilegir, einhver gítar / gítarmagnara / snúru vandamál voru að trufla.

Við spiluðum svo blöndu af „Í hnotskurn“ og eldra efni, gekk bara að ég held nokkuð vel og það virtist rétt metið af viðbrögðum að dæma, bæði fyrir og eftir. Reyndar erfitt fyrir okkur að heyra hvað var í gangi, en mér skildist að þetta hljómaði ágætlega út í sal, þannig að við fórum einfaldlega í þann gír að klára efnið og gekk sum sé nokkuð vel.

Finnarnir í Turpakäräjät voru næstir og þvílík orka og kraftur – og ekki spilltu alveg ágætlega skemmtileg lög, sem virkuðu fínt á finnsku.

Q4U voru svo síðust á svið… alltaf flott og gaman að sjá þau, en kannski liðu þau eitthvað fyrir að koma á eftir Turpakäräjät – og satt að segja eru það enn gömlu lögin sem virka best á mig, sennilega er þetta ellin. Við fórum reyndar út aðeins of snemma fyrir smá misskilning / stífa dagskrá og gripum hálft lag út um gluggann.

En takk, Dillon, og sérstaklega Beggi Smári, ótrúlega gaman að fylgjast með gróskunni í lifandi tónlist þarna.

dillon-mars-q4u-1