Kiddi sjötugur

Kiddi, bróðir varð sjötugur fyrr í mánuðinum. Hann hélt upp á afmælið með hefðbundinni grillveislu í garðinum þar sem stór-fjölskyldan mætti.. Nonni grillaði hamborgara, María gerði ostaköku, Kiddi & Gunna sáu held ég um veitingar að öðru leyti, Kata hafði samið heilan vísnabálk, Iðunn sagði eina eða tvær sögur, eitthvað fékk Kiddi af gjöfum og svo var einum eða tveimur bjórum komið fyrir kattarnef.

Þegar ég varð fimmtugur færðu þau Agga mér vísu sem endaði á:

Á sunnudegi vakna hér
með staðreynd heldur kaldri
að hann litli bróðir minn er orðinn
kall á sextugsaldri.

Þannig að ég þurfti auðvitað að láta eina fylgja:

Átjánda júlí ég áttaði mig
á undarlegum galdri
að bróðir minn, þó sjötugur sé,
er samt á besta aldri.

Kiddi sjötugur

Við vorum svo rétt komin heim þegar Helga Jóna og Óskar tékkuðu á okkur og ákváðu að kíkja í smá heimsókn, skák, bjór, Whisky og ukulele.

Helga Jóna - Ukulele.jpg

Fjölskyldugrill

Sæunn & Friðjón buðu í stórfjölskyldugrill, skipulagt með góðum fyrirvara þannig að sem flestir gætu mætt. Sylvía Dagmar & Emil, Viktor og Kári & Brad voru ekki á landinu og Guðjón náði ekki að mæta, en annars var full mæting.

Það byrjaði reyndar ekkert rosalega skemmtilega, því við horfðum á Ísland tapa fyrir Sviss á EM kvenna. En eftir það fór stemmingin upp á við og við áttum hið skemmtilegasta kvöld, grillaður geitaostur í for forrétt, grillað lambalæri, frábært salat, allt of margar sósur, kókos eftirréttir og ný Ópal skot sem við fengum að prófa.

Við Iðunn og Alexandra röltum svo heim fyrir miðnætti, fínt að rölta í þægilegu veðri.

Fjölskyldugrill - 9

Tina og Duna

Tina og dóttir hennar Duna, sem líka er dóttir Barða, voru á landinu og við náðum að hitta þær í kaffi á Bækur og kaffi Hafnarfirði, þrátt fyrir stífa dagskrá og þrátt fyrir að okkur gengi illa að fá dagskrá vikunnar á hreint.

En gaman að hitta þær – og grípa Helgu, systur Barða, eitt augnablik…

Tina Duna Idunn - 1-1

Sunnudagskvöld

Brynja & Óskar kíktu í létt grillað lambalæri með alls kyns meðlæti í víðasta skilningi. Horfðum á frekar ógeðfelld slagsmál í sjónvarpinu og svo restina af leik í efstu deild í fótbolta.

Maturinn var frábær, sem er það sem skipti máli

Whisky

Við Stefán Freyr höfum haft þann sið að veðja einni (eða fleiri) Whisky flöskum um gengi Arsenal á hverju tímabili. Fyrstu árin tapaði ég reglulega en bikarsigrar síðustu ára hafa aðeins jafnað leikinn.

Við áttum eftir að greiða veðmál síðustu tveggja ára og upphaflega var hugmyndin að setja upp Whisky smökkun í leiðinni.. en án þess að ég fari út í smáatriði þá datt það að mestu upp fyrir.

En Eygló & Stefán kíktu og við skiptumst á „greiðslum“ og Rúna & Krissi mættu til að votta að rétt hafi verið staðið að skilum.

Það var svo ekki hægt að drekka eingöngu bjór, þannig að við Iðunn drógum fram nokkrar flöskur af hinum ýmsu tegundum, alls um fjórtán, mikið til smáflöskur.. og létum aðeins ganga. En reyndar var nú að mestu drukkinn bjór, svo mikið reyndar, að mig grunar að það hafi gengið all hressilega á 30 lítra kútinn sem ég keypti í gær.

Þegar leið á krafðist Guðjón þess að við tækjum eitt skákmót sem hann vann í bráðabana eftir að ég hafði verið matarlítið fallbyssufóður fyrir hann og Stefán.

En einstaklega vel heppnað kvöld, eða amk. þar til Guðjón og Iðunn bitu í sig að þau þyrftu að fara niður í bæ um þrjú leytið til að leysa eitthvert vandamál í vinnunni hans Guðjóns 🙂

Sumarbústaðaferð

Tókum langa helgi í sumarbústaðnum hjá Brynju & Óskari… fórum reyndar aðeins seinna af stað en til stóð, en áttum alveg frábæra helgi í afslöppun, gluggasækingum, endalaust gerandi hverjum eðalréttinum af öðrum skil, hóflegri (en vandaðri) drykkju, póker, einhverjum spjaldaleik, snæðandi smárétti, gróðursetningu, smá röfli (en samt mjög uppbyggilegu) að ógleymdri vettvangsrannsókn og úttekt á framkvæmdum.

Ekki spillti skemmtilegt rölt til Gyrðis og Kristínar í bústaðinn þeirra sem er rétt hjá, mjög skemmtilegur bústaður og garður..Sumarbústaðaferð - gróðursetning - 2-1

Matarboð

Dagbjörg og Davíð buðu okkur í mat ásamt Gunnari Helga og Maríu.. frábær matur, fínustu vín og skemmtilegur félagsskapur.

Vorum ansi dugleg Whisky drykkjunni og orðin ansi langt frá því að vera edrú þegar yfir lauk.

Matur júní 2017 - 2