Gamlárskvöld

Við fjölskyldan mættum í mat hjá tengdaforeldrunum að venju… við höfum verið með þeim á hverju gamlárskvöldi sem er orðin ómissandi og skemmtileg hefð og með einni undantekningu höfum við verið hjá þeim í Austurbrúninni.

Eftir stuttan fordrykk buðum við upp á einstaklega vel heppnaðan humar og síðan fengum við heldur betur frábæra nautasteik með El Vinculo rauðvíni. Ís og áramótaskaup og skálað meira… svo upp á hólinn að skjóta upp því litla sem ég hafði keypt til að styrkja björgunarsveitirnar. Og horfa á allt það sem hinir voru að skjóta upp.. Þaðan í freyðivín, Perelada Brut og smá Whisky áður en við fórum, til þess að gera, snemma heim. Aldrei þessu vant voru einfaldlega engin partý-boð, sem hentaði okkur ágætlega því Iðunn stefndi á að fara á skíði á nýársdag.

Gamlárskvöld 2013
Gamlárskvöld 2013
Gamlárskvöld 2013
Gamlárskvöld 2013

Gamlárskvöld 2013
Gamlárskvöld 2013

 

Áramót Iðunnar

Við héldum árlegt bridgemót milli jóla og nýárs, svokallað „Áramót Iðunnar“.. það gekk reyndar ekki nægilega vel að finna tíma sem öllum hentaði.

Þetta er alltaf stórskemmtilegt kvöld, oftast þetta tólf, sextán, tuttugu þátttakendur, aðal atriðið er að hafa gaman af að spila og kannski narta í veitingar, þess vegna það sem ekki hefur náðst að borða yfir jólin.

Okkur Iðunni tókst að vinna mótið, enda sjáum við sjálf um útreikninga, en einhver saga hér

Jólaskákmót

Við tókum upp á þeim skemmtilega sið að halda skákmót um jólin árið 1993 þegar sonurinn Guðjón Heiðar (Jonni) var að hefja skákferilinn. Mótið var kallað „Jólamót Jonna“. Við höfum haldið þessu nánast óslitið síðan þá, vinir, kunningjar, fjölskylda, gamlir skákfélagar hafa mætt – oftast eitthvað í kringum tíu manns. Alls hafa 34 tekið þátt í mótinu en, við Guðjón höfum alltaf verið með – Kiddi bróðir minn missti af einu móti vegna veikinda. Tvisvar hefur mótið reyndar dottið niður, upphaflega ákveðið að fresta fram yfir áramót, en það reyndist ekki gott ráð… og við náðum aldrei að halda mótið þessi ár.

Guðjón vann mótið að þessu sinni – eins og svo oft áður, eða í tíunda skipti af nítján.

En fyrir áhugasama þá eru hér nánari upplýsingar.

Annar í jólum

Og að venju jólaboð hjá Iðunnarfjölskyldu í Austurbrún. Við höfðum ætlað að byrja daginn (þannig séð) á íþróttabar og horfa á Arsenal en einhver þörf fyrir að taka aftur upp þráðinn við að deila um Alias spil jóladags skaut þá stemmingu hratt og örugglega niður.

En matarboðið skemmtilegt hjá Magnúsi og Sylvíu, pörusteik að hætti þeirra klikkar ekki – gaman að hitta nýja tengda-fjölskyldumeðlimi, þau Emil, Sylvíukærasta og Guðbjörgu, Hólmbertskærustu.

Annar í jólum - Viktor Kári Sylvía - 1 - lítil

Jóladagur

Fjölskylduboð hjá okkur í Kaldaseli hjá „mínum“ hluta ættarinnar. Fjórar tegundir af hangikjöti, Einifells-kjötið best fyrir minn smekk en allt mjög gott. Eplakaka sem við Viktor gerðum eftir minni og tókst þokkalega til, ís og einhvers konar jólakaka. Reyndum að spila Alias en spilið varð endasleppt þegar keppnisskapið bar einn keppanda ofurliði… við fjölskyldan duttum svo inn í Anchorman þegar leið á nóttina.

Aðfangadagur…

Ég held að ég hafi í fyrsta skipti sleppt því að fara á flakk að bjarga einhverju þennan aðfangadag. Enda allt löngu tilbúið. Guðjón var að vinna til átta þannig að við biðum með matinn… aðallega reyktur lax, smá graflax í forrétt. Síðan dágóð bið eftir kalkúninum eftir að ofninn hafði hætt við að fara af stað í fyrstu tilraun. En við nýttum tímann til jólagjafapakkaopnana og biðum róleg. Kalkúnninn fyrsta flokks þegar honum þóknaðist að láta snæða sig, hefði kannski mátt þola einni til tveimur gráðum styttri eldun, en það er alltaf sérstaklega gott kjötið af ófrosnum kalkúna (held að þetta sé ekki ímyndun). Svo Panna Cotta í eftirrétt með einhvers konar heimatilbúinni berja- rauðvínssósu, miklu betri en íssterturnar sem við höfum verið að fá okkur í eftirrétt.

Skata

Hefðbundin skötuveisla hjá Öggu á Þorláksmessu.. ekki svo margir í skötunni, en saltfiskurinn fínn og brauðið…

En aðallega stemmingin og snafsarnir og smá rölt niður laugaveginn sem endaði á Ölstofunni.

Fjölskyldumatur

Einhverra hluta vegna höfum við fjölskyldan farið út að borða fyrir jólin síðustu árin, svona ef færi hefur gefist..

Við fórum á Forréttabarinn í kvöld og það var ekki að „sökum“ að spyrja.. maturinn alltaf skemmtilega samansettur og eldamennskun óaðfinnanleg… ekki spillti fyrsta flokks þjónusta.

Forréttabarinn - 2 - lítil