Námskeið og fótbolti

Vaknaði snemma, annan daginn í röð, til að klára námskeið í beinu sambandi.

Hafði svo annað auga á leikjum i enska boltanum áður en ég fór með Jonna á Breiðablik-Fylki. Hefði viljað sjá Arsenal vinna, en erfiður útileikur.

En grátlegt að sjá Breiðablik missa leikinn niður í jafntefli. Fyrir minn smekk var Blikaliðið talsvert betra, meira með boltann, miklu fleiri færi og spiluðu betri fótbolta. Jöfnunarmark Fylkis var sérstaklega svekkjandi, ég held að Blikar hafi enn verið að fagna.

En – fyrir minn smekk, (en ekki hvers?) – var Blikaliðið að spila mun betur en á móti Fram, þrátt fyrir að sá leikur hafi unnist 3-0. Það gekk hins vegar illa að klára færin og bæði mörkin komu eftir nokkuð margar tilraunir.

Leikhús og Morgan Kane og Íslenski barinn

Kíktum á Íslenska barinn í bjór og smárétti – eða kannski ekki smárétti – en mjög góður matur. Og gaman að sjá hversu vel Guðjóni finnur sig í starfinu.

En þaðan á sýningu Heklu og félaga í Listaháskólanum á „Verk í vinnslu“.. skemmtileg sýning, eins og þær gerast bestar á þessu sviði.

Rigning

Næst á Bar 11 með Alla, Brynju, Kristínu og Svanhildi. Þar voru Morgan Kane var að halda sína (áttundu??) kveðjutónleika, reyndar með fleirum.

Vonandi er þetta ekki endanleg kveðja hjá þeim, því þetta er með skemmtilegri hljómsveitum landsins og platan þeirra dettur oft í spilun hjá mér.

Morgan Kane - Bar 11
Morgan Kane – Bar 11

En ég þurfti að vakna fjögur í morgun og við létum þetta gott heita.. heyrðum reyndar 1-2 lög með Saktmóðigur á leiðinni og virkuðu þeir með hressara móti. En hafði sem sagt rænu á að fara heim upp úr miðnætti..

 

Ísfötur og ísföt

Þá er Iðunn búin að taka svokallaðri ísfötu-áskorun frá frænku sinni.

Ég veit að það dettur engum sem þekkir mig í hug að skora á mig, gamlan fúllyndan manninn sem aldrei vill taka þátt í neinu, tekur aldrei þátt í samsöng og er yfirleitt ekki mikið fyrir svona „hópefli“ (eða hvernig á að flokka þetta).

En svo ég skýri nú aðeins betur fyrirfram, ef einhver sem þekkir mig ekki vel skyldi láta sér detta í hug að senda mér áskorun, þá er ég ekki að hafna vegna þess að mér þyki lítið til viðkomandi koma heldur…

Ég gæti örugglega styrkt góðgerðastarsemi meira og betur, við styrkjum eitt og annað, meira þegar við höfum eitthvað aflögu, annars minna.

Ég auglýsi helst ekki hvað ég er að styrkja. Bæði er ég svo gamaldags að mér finnst það ekki við hæfi.. og svo fylgir því gjarnan mikil ásókn annarra sem eru að leita eftir styrkjum.

Ég efast um að ég myndi styrkja sérstaklega þetta málefni, það eru að minnsta kosti nokkur málefni sem ég set ofar á lista.

„þetta málefni“ já.. einmitt, ég hef ekki hugmynd um hvaða málefni þetta er, vegna þess að það gleymist í öllum látunum. Hvernig get ég þá sagt að ég vilji frekar styrkja önnur? Kannski vegna þess að ég held að ég hefði tekið eftir ef þetta væri þess eðlis að það færi ofarlega á lista hjá mér. Og þá þyrfti engar fötur. [PS. jú, nú veit ég að þetta er MND, sem ég skal glaður styrkja]

Og þori ég að segja? Þessi aðferð, sem byrjar þannig að fína og fræga fólkið er að leika sér að söfnun, með athygli á sjálfum sér og einhverju sem er kannski frásagnarvert fyrir þá sem hafa áhuga á viðkomandi, en tengist málefninu nákvæmlega ekki neitt… já, hún er ekki fyrir mig.

Karfa og Halli Reynis

Fengum ekki miða á körfuboltalandsleikinn en horfðum á brothætta útsendinguna í sjónvarpinu. Hefði verið gaman ef þeir hefðu náð að vinna, en aðalatriðið að tryggja EM sætið.

Ég var reyndar með annað augað á Arsenal – Besiktas, sem var óþarflega spennandi og taugatrekkjandi.. en frábært að fá Arsenal enn eitt árið í Meistaradeildinni.

Kíkti svo á Halla Reynis á Rosenberg með Brynju og Stínu.. alltaf gaman að hlusta á Halla og nýja efnið forvitnilegt – missti reyndar af UniJon.

Halli Reynis - Rosenberg - lítil

En bestu fréttir dagsins komu auðvitað frá Öggu.

Menningarnótt

Við Fræbbblar vorum aldrei þessu vant ekki að spila á Menningarnótt.. Við Tjörnina er fluttur og er nú við tjörnina og ekkert port til að spila þar.. Hljómleikarnir þar voru reyndar ógleymanlegir, spiluðum oftast með MegaSukk og Palindrome.. en Ojba Rasta og Halli Reynis komu líka við sögu. En þetta tók líka alltaf allan daginn og lítill tími aflögu fyrir aðra viðburði. Ekki hjálpaði fíllinn í postulínsbúiðinni, þeas. stórtónleikar Rásar 2, sem tóku sífellt meira til sín.

Tvisvar höfum við spilað á Dillon en annað hvort var ekkert að gerast þar í ár eða að minnsta kosti ekkert fyrir okkur.

En við vorum með frekar lítið á dagskrár, ætluðum að kíkja á Pétur Gaut og Íslandsmynd Sævars og félaga í Hörpu. En hvort tveggja klikkaði.

Við Iðunn röltum í bæinn, hittum Brynju og Svanhildi í Naustinni við Gaukinn / Dubliner / Jan Frederiksen. Kristín kom og Rikki datt inn.. Fór og horfði á seinni hálfleik Everton-Arsenal með Viktori. Aftur á Jan Frederiksen og svo upp á Bar 11 þar sem Agent Fresco var í óvenju lítilli stemmingu, stoppaði stutt og fór á Celtic Cross.. Iðunn, Brynja, Kirstín og Viktor dönsuðu sem enginn væri morgundagurinn við saxófón og geislaspilara.

Þá í Þjóðleikhúskjallarann að horfa á spuna, sem var svo sem allt í lagi, en kannski ekki alveg eins sprenghlægileg og sessunautum mínum fannst. En þaðan á Íslenska barinn þar sem Guðjón var á vakt. Fórum út með bjórinn í plastglösum til að horfa á flugeldasýninguna og eitthvað hafði dyravörðurinn á barnum farið öfugu megin fram úr því við máttum ekki fara aftur inn með bjórinn sem ég hafði keypt hjá þeim.

Menningarnótt 1 - lítilÍslenski barinn

Þannig að Kaldi var næstur á dagskrá og nokkrir bjórar innbyrtir þar áður en við héldum á Ölstofuna.

Það var reyndar nokkuð langt stopp fyrir utan Kalda, því fullt af fólki mætti með trommur og gatan lifnaði við. Við Iðunn trommuðum með og Iðunn dansaði af enn meiri innllifun enn fyrr. Svona á Menningarnótt að vera, ekki stórtónleikar.. sbr. vídeó af símanum Menningarnótt 2014

En náðum loks á Ölstofuna og gripum einn bjór fyrir svefninn, enda búin að drekka allt of lítið af bjór yfir daginn. Assi & Stína og Brynja og Kristín voru reyndar farin.

Iðunn fjörutíu og átta ára… það vantar nú eiginlega annað talnakerfi.. það er ekki mögulegt að þessi unglingur sé að nálgast fimmtugt.

En fórum á Grillmarkaðinn og fengum okkar “smakkmatseðilinn”, mjög skemmtileg blanda af ólíkum réttum, allt frá “allt-í-lagi” upp í “frábærir” – en allir áhugaverðir og skemmtilegar blöndur…

Svo á Íslenska barinn í tvo bjóra og nokkra vindla.. áður en Addi sótti okkur.

Vinnuáfangi

Kíkti með Guðjóni Hrafni, Jóni Eyfjörð og Stefáni Kjærnested í bjór á Vox til að líta yfir farinn veg eftir gangsetningu á verkefni Fjársýslunnar.. Við Jón entumst þokkalega lengi, fengur okkur frábæran mat á Vox, og skelfilega vont Grappa.. Jóhanna sótti okkur og við kláruðum einstaklega flott kvöld í Kaldaselinu…

Fræbbblaæfing

Fyrsta Fræbbblaæfing í þrjá mánuði,, Renndum yfir (næstum því) öll lögin sem verða á nýrri plötu. Rikki komst reyndar ekki og Steini ætlar að halda sig í bakgrunni við nýju plötuna.

En gaman að vera komnir aftur í gang, gekk eiginlega mjög vel, einstaka minnisglöp en flest lögin í fínum “gír”.

Breiðablik 3 – Fram 0

Þó skömm sé frá að segja mætti ég í fyrsta skipti í sumar á leik hjá Blikum… utanlandsferð, sveitaferð, HM, lítil stemming, mikið að gera hér heima hefur allt talið – og ekki vildi ég fara að mæta á útileiki.

En skrýtinn leikur, Blikar voru miklu betri, miklu meira með boltann og reyndu þó að spila fótbolta. Þau færi sem sköpuðust duttu ekki inn. Framarar vörðust mjög vel, kýldu fram og vonuðu það besta.. tvisvar, þrisvar hefði það getað gengið upp og ég var ekki hvað ég hef séð marga leiki þar sem varnarliðið stelur sigrinum í lokin.

En Framarar gáfu svo Blikum mark undir lokin, ég einfaldlega sá ekki nákvæmlega hvað gerði, var upptekinn að fárast yfir því að dómarinn skyldi dæma á Blika.. en allt í einu var Árni kominn með boltann og skoraði örugglega. Eftirleikurinn var auðveldur og í sjálfu sér ekki ósanngjarn sigur.

Blikaliðið heldur sér væntanlega uppi, en ég verð að játa að mér finnst ansi mikið vanta.. allt of mikið um erfiðar sendingar, hægt óþarflega á leiknum og hreyfing á manni án bolta ekki nógu mikil. En margt jákvætt og kannski þarf liðið að komast úr þessu „ströggli“ og finna sjálfstraust.

Ég vona reyndar að Framarar nái að halda sér uppi, þeir virðast ætla að byggja á ungum og efnilegum leikmönnum.. en mikið skelfilega spila þeir leiðinlegan fótbolta – amk. fyrir minn smekk.

Breiðablik-Fram