2013

25. maí 2013

Vantrúarhittingur hjá Freyju, ekkert sérstaklega fjölmennt, en það vantaði ekkert upp á skemmtilega gesti.

14.-19. maí 2013

Ferð til Amsterdam á úrslitaleik Evrópudeildarinnar, Benfica – Chelsea.. og meira.

Hálf þreyttur fyrsta daginn eftir tvær svefnlitlar nætur, var búinn að sigta út spennandi veitingastað, en komst ekki lengra en á pizzustaðinn á hótelinu eftir að hafa sofið seinni partinn. Alli mætti svo um kvöldið, horfðum á „Arsenal – Wigan“ og rétt náðum tveimur, þremur börum fyrir svefninn. Stuðningsmenn liðanna stóðu sitt hvoru megin við eitt síkið um hálf tvö um nóttina og sungust á. Seinni barinn, San Francisco, var reyndar næturklúbbur og eitthvað var dyravörðuinn tregur til að hleypa okkur inn, fannst við eitthvað fótboltabullulegir. Ég spurði reyndar á leiðinni út hvort hann hefði virkilega haft áhyggjur af okkur. Hann benti á Alla.

Leikdagur á miðvikudag, Maggi mættur og skemmtileg stemming í borginni. Stuðningsmenn stóðu lengst af degi á Dam torgi og skiptust á söngvum. Fórum tiltölulega snemma á Gaucho í nautasteik og gripum nokkra bjóra fyrir leik. Ágætisleikur, amk. seinni hlutinn, en fann til með stuðningsmönnum Benfica að tapa á síðustu mínútu. Fann líka til í vinstri hljóðhimnunni eftir hátíðni öskrin frá konunni í næsta sæti. En kvöldið fór að mestu í þetta, smá pizza og einn bjór í bænum fyrir svefninn.

Fimmtudagurinn fór svo í rölt á milli bara, bjórsmökkun, smá Pool, póker á Holland Casino, frábæran mat á ítalska Savini, rölt um bæinn, síðdegisblund, vindlabúð og meira barrölt. Einhverra hluta vegna lokar allt (flest) klukkan eitt.

Dísa kom svo á föstudag og fórum á Kantilj & de Tjigr, indónesískan stað, mjög skemmtilegt „hrísgrjónaborð“. Enduðum á Leidseplein á nokkrum bjórum en entumst ekki lengi, við Alli gripum reyndar einn aukabjór í bænum.

Laugardagurinn fór í ráp um bæinn og mat á Van de Kaart um kvöldið, sem aldrei þessu vant stóð ekki alveg undir væntingum – eða réttara sagt forréttirnir fyrsta flokks og eftirrétturinn frábær, en nautapiparsteikin frekar óspennandi. Nokkrir bjórar í bænum og svo æstum við okkur Alli aftur í póker á Holland Casino. Held að ég sé hættur þessu, frekar leiðinleg spilamennska orðin að vana, allir leggja alltaf allt undir og vonast til að detta í lukkupottinn. Þetta lið getur alveg eins spilað rúllettu. Eins og gengur þá töpuðum við Maggi en Alli vann talsvert.

Ákváðum að prófa að fara í siglingu á síkjunum. Eins og flestir aðrir Hollendingar og ferðamenn í bænum, mjög langar biðraðir. Það var svo sem gaman að fá þessa sýn á borgina en kannski ekkert sérstaklega spennandi. Fylgdumst með síðustu umferð í ensku deildinni á íþróttabar við Leidseplein, Magga varð ekki að ósk sinni að Tottenham kæmist í meistaradeildina.

10. maí 2013

Gráðun í karate, rautt belti komið. Grillveisla á eftir, en entumst ekki til að fara á pöbbarölt.

9. maí 2013

Síðbúin afmælis og starfslokaveisla hjá okkur. Alltaf gaman að hitta fjölskylduna og ekki spillir eldamennskan á bænum.

8. maí 2013

Við Fræbbblar spiluðum á Gamla gauknum á afsmælishátíð Mosa frænda. Auk þeirra spiluðu Skelkur í bringu, Saktmóðigur og Hellvar. Mjög svo skemmtilegt kvöld með fullt af ólíkum hljómsveitum. Gamli gaukurinn er að verða einn af mínum uppáhalds hljómleikastöðum, sennilega einfaldlega sá besti.

6. maí 2013

Þrjátíu ára brúðkaupsafmæli okkar Iðunnar. Förum reyndar í siglingu í sumar í tilefni dagsins en höfum alltaf gert eitthvað á sjálfu afmælinu. Fórum á Steikhúsið, fengum alveg ágætis mat og mjög góða þjónustu. Brynja og Kristín kíktu svo í kaffi.

3.-5. maí 2013

Postulahelgi að Minniborgum, mjög skemmtilegur staður… Föstudagskvöldið tiltölulega rólegt með borðtennis og póker. Pílukast, borðtennis, „hringur“, reglur, heitur pottur, póker. Að ógleymdum frábærum mat og einhverri bjór og víndrykkju.

4. apríl 2013

Útför Ingólfs Júlíussonar… tók hlé frá Postula helginni og mætti í Silfurberg Hörpu. Ógleymanleg minningarathöfn um ógleymanlegan dreng.

29. apríl 2013

Síðasti tími í postulafótboltanum í vor, Sævar vann, Þórhallur í öðru sæti.

28. apríl 2013

Guðjón 28 ára… þar með endanlega kominn yfir 27 ára poppstjörnuviðmiðunina! Vel heppnaður kvöldmatur í tilefni dagsins. Brynja kíkti svo í kaffi þegar leið á kvöldið.

27. apríl 2013

Höskuldur & og Sirrý kíktu í mat til okkar og Krissa & Rúnu. Einstaklega skemmtilegt kvöld, frábær matur, að rauðrófu tilrauninni okkar Iðunnar kannski undanskilinni, eðalvín að maður tali nú ekki um félagsskapinn.

24. apríl 2013

Krissi & Rúna kíktu í „kaffi“ (ok, hvítvín og bjór“). Spilakvöld Postula datt upp fyrir eins og svo oft áður.

18. apríl 2013

Við Fræbbblar spiluðum á opnunarhátíð Rokkbarsins í Hafnarfirði. Eiginlega mjög skemmtilegt kvöld og frábærar hljómsveitir.

13. apríl 2013

Árshátíð Staka í Laugardalshöllinni, reyndar með öðrum fyrirtækjum úr Skipta samstæðunni. Skemmtilegt kvöld, með skemmtilegu fólki… góður matur, ég dáist alltaf að því þegar hægt er að elda ofan í svona marga og það svona vel. Skemmtiatriði voru kannski ekki fyrir minn smekk.

12. apríl 2013

Við Alli kíktum á Poolstofuna Lágmúla, spiluðum nokkra leiki og drukkum eitthvað af bjór.

11. apríl 2013

Reynir, pabbi Kristínar, jarðaður í dag. Falleg athöfn fyrir góðar minningar.

6. apríl 2013

Langur Fræbbbladagur. Við Assi og Steini kíktum til Gumma upp í æfingahúsnæði til að leika okkur að spila efni sem er ekki alltaf á dagskrá. Síðan heim í Kaldasel þar sem eiginkonur, Helgi & Þóra bættust í hópinn, nema Anna & Gummi og Rikki komust ekki. En frábært kvöld og ég efast um að nokkur hljómsveit slái okkur við í eldamennsku, þvílík veisla!

5. apríl 2013

Kíkti til Alla í bjór, Whisky og spjall. Þaðan í afmæli til Kötu, vinnufélaga Iðunnar, sem lauk frekar fljótt eftir kvartanir nágranna. Berglind, Gulla og Sigga komu með okkur Iðunni heim í framhaldspartý. Það vantar ekkert upp á hvað Iðunn á skemmtilegar vinkonur, hvort sem er í vinnunni eða annars staðar, en ég neita því ekki að tónlistarsmekkur gestanna í þetta skipti var ansi langt frá mínum..

31. mars 2013

Kláruðum að syngja nýju Fræbbblalögin „Brains“ og „My Perfect Seven“, minni háttar frágangur eftir.

30. mars 2013

Byrjuðum að ganga frá tveimur nýjum Fræbbblalögum,“Brains“ og „My Perfect Seaven“, ættu að geta gengið óbreytt.

29. mars 2013

Sambindishittingur í Sléttuhlíð í boði Hákonar. Sótti Iðunni í Bláfjöll og svo í afmæli hjá Hildi.. Alltaf flottar veitingar hjá Góu & Helga…

27. mars 2013

Iðunn fór á skíði með Brynju.. ekki tókst að ljúka framkvæmdum hér heima fyrir páska, en komið langleiðina. Spiluðum aðeins um kvöldið..

23. mars 2013

Matur hjá Helga & Þóru, ekki að spyrja að eldamennskunni á þeim bæ frekar en fyrri daginn. Tvíreykt hangikjöt með eplasalati í forrétt, kalkúnn í aðalrétt og baka með ís í eftirrétt. Ægir Máni heima og Brynja mætti líka. Svo var jú eitthvað drukkið af víni, bjór og jafnvel Absinthe.. hvað vill maður hafa það betra í góðum félagsskap?

Kristín kom svo þegar leið á kvöldið, Reynir, pabbi hennar dó nóttina áður. Samhryggjumst fjölskyldunni, mikill öðlingur þar á ferð.

20. mars 2013

Næsti áfangi í baðherbergisframkvæmdum, það sem eftir var rifið niður.

16. mars 2013

Kíkti á fund Stjórnarskrárfélagsins á Ingólfstorgi og yfir á Austurvöll.

15. mars 2013

Við Fræbbblar spiluðum á styrktarhljómleikum fyrir Blátt áfram á Gamla Gauknum… skemmtileg samsetning og góðar hljómsveitir sem ég sá, missti aldrei þessu vant af nokkrum þeirra.

9. mars 2013

Kíkti á fund Stjórnarskrárfélagsins á Ingólfstorgi.

En svo var Goutons Voir hittingur. Sleppti gönguferðinni, enda rifbeins-brotinn, en mætti í Spa á Loftleiðum. Þaðan til Assa & Stínu í enn eitt ofur matarkvöldið. Sniglar fyrst, þá Dim Sum með spínati og svínahakki annars vegar og rækjum hins vegar, svo lambafillet og kvöldinu lauk með Crème brûlée. Svo var drukkið talsvert af rauðu og hvítu víni. Og eitthvað aðeins af bjór.

8. mars 2013

Pub-Quiz í Staka eftir vinnu, hugmyndin að velja lið fyrir spurningakeppni Skipta. Þessu fylgdi auðvitað bjórsmökkun og „pool“. En náði flestum stigum í spurningakeppninni og þarf væntanlega að vera í liði Staka, þrátt fyrir önnur áform.

Við Kalli kíktum svo á Obladí þar sem „Homo and the Sapiens“ voru að spila, flottir hljómleikar.

7. mars 2013

Rifbeinsbrotnaði/brákaðist í upphitun fyrir Karate, datt svona klaufalega á hælinn á „andstæðingnum“.

3. mars 2013

Meiri flísalosun á baðinu, kíkti svo til Þórhalls ásamt postulum og fleiri að horfa á Tottenham – Arsenal.

Fórum svo með Helga & Þóru á Food and Fun á Vox. Virkilega frábær matur þó hann væri ekki gefinn, en ostruhlaup, humar á greni og þeim tókst meira að segja að koma á óvart með lambakjöti. Og ekki má gleyma góðum félagsskaps, þannig að þetta var allt sem til þurfti.

2. mars 2013

Framkvæmdir hafnar við breytingar á baðinu uppi, annars rólegt kvöld, enda Iðunn í sumarbústað.

1. mars 2013

Nokkrir postular kíktu í tvær umferðir í postuladeildinni í póker, Maggi vann þá fyrri og ég þá seinni.

28. febrúar 2013

Styrktarhljómleikar fyrir Ingólf Júlíusson í Norðurljósum Hörpu. Ógleymanlegt kvöld, sérstaklega vel heppnuð blanda af atriðum sem voru hver öðru betri – og á móti hrikalegt tilefnið.

22-24. febrúar 2013

Sambindisferð í Ensku húsin, verulega vel heppnuð helgi. Hákon þurfti reyndar að fara á laugardeginum og Helga & Tommi og Höskuldur & og Sirrý komust ekki fyrr en á laugardag. En frábær matur, drykkir og félagsskapur.. og skemmtilegur staður.

16. febrúar 2013

Fertugsafmæli hjá Bryndísi, fyrrum ÞB samstarfskonu Iðunnar.. mjög flott veisla og gaman að hitta „Madridar-hópinn“ aftur, já og reyndar aðra.

15. febrúar 2013

Matarboð hjá Bryndísi með Gulla & og Kristínu. Alltaf jafn gaman að hitta þau, sem gerist reyndar allt of sjaldan, og ekki bregst maturinn, Marbella kjúklingur í aðalrétt – og svo hinir og þessir smáréttir.

10. febrúar 2013

Frekar rólegur dagur fyrir utan að Iðunni tókst að skera sig illa á hendi á glerskera. Krissi & Rúna kíktu svo í heimsókn um kvöldið.

9. febrúar 2013

Mini Þorrablót í Kaldaseli með systkinum og frænkunum Öggu og Elínu. Eiginlega bara nokkuð vel heppnað, en ösnuðumst til að fara á Spot þegar leið á kvöldið – ekki vel heppnað.

8. febrúar 2013

Fimmtíu og fjögurra ára. Gerðum svo sem ekki mikið í tilefni dagsins. Bjórsmökkun með pizzu, pool og póker í Staka.

1-3. febrúar 2013

Örstutt ferð til London, sem er alltaf jafn skemmtileg. Gistum á nýlegu hóteli nálægt Covent Garden. Byrjuðum á Belgo í síðbúnum hádegismat, forréttur og bjórar fínir, aðalrétturinn minna spennandi. Svo á steikarstað um kvöldið, sem var mjög fínn en ekkert rosalegur. Smá kvöld rölt á einn bar, en vorum frekar þreytt og gáfumst upp um hálf tvö.

Arsenal – Stoke á Emirates, Óli fékk miða á „Club Level“ fyrir okkur, sem var nokkuð skemmtileg stemming, en maturinn var svo sem ekki gefinn þar. Leikurinn var yfir meðallagi og fór 1-0, svo í gufu á Millenium og smá lagningu.

Fórum á japanska Roka um kvöldið eftir stuttan fordrykk á Charlotte Street Hotel. Roka er verulega skemmtilegur staður og frábærir réttir, eggaldin og eftirrétta klakinn höfðu sennilega vinninginn.

Kíktum svo á barinn á Hilton Park Lane, en entumst ekkert rosalega lengi, sennilega ellin.

Létt búðarrölt og matur á ítalska Strada, rétt við Regent Street, ekkert slæmur en förum varla að sækja sérstaklega í hann.

27. janúar 2013

Iðunn bauð mér á Tapas barinn í tilefni bóndadags, eiginlega alveg ágætur matur, réttirnir auðvitað mismikið spennandi eins og gengur, en margir mjög góðir og samsetningin vel heppnuð. Þjónustan til fyrirmyndar, það var helst að rauðvín hússins hefði mátt vera skárra.

26. janúar 2013

Gunnar & og Ragnheiður og Helgi & og Þóra kíktu í mat. Góður og skemmtilegur félagsskapur, kjúklinga cannelone heppnaðist ágætlega og sítrónukálfasteikin með saffran risotto var sennilega í lagi þó saltið hefði mátt vera minna. En ekki spillti hvert betra rauðvínið af öðru, eðalbjór, pylsur og ostar á meðan við elduðum.

25. janúar 2013

Berglind og Sigga kíktu í naglaheimsókn og bjórsmökkun til Iðunnar.

18. janúar 2013

Matur og sumarfrísmyndaskoðun hjá Halla & Steinunni, pylsu- og ostasnarlið fyrir mat í stakt við sumarfríið – og ekki var maturinn síðri.

13. janúar 2013

Lilja Karen eins árs, flott afmælisveisla að hætti fjölskyldunnar.

12. janúar 2013

Uppskeruhátíð Postulanna, þrælskemmtilegur dagur skipulagður af Arnari. Byrjuðum í bogfimi, sem kom á óvart, svo í gufu og heitan pott og þaðan á Úrillu górilluna að horfa á Ísland – Rússland. Kvöldinu lauk svo heima hjá Þórhalli á hefðbundnum uppskeruhátíðarstörfum, „hringur“, reglugerðarbreytingar og eitthvað af bjór.

11. janúar 2013

Postular og gestir kíktu í póker, Maggi vann fyrra mótið og Jonni það seinna.

9. janúar 2013

Fyrsti Fræbbblaæfing ársins. Þá er árið komið í gang.

8. janúar 2013

Fyrsti karatetími ársins.

7. janúar 2013

Fyrsti fótboltatími ársins með postulunum.

1. janúar 2013

Nýtt Fræbbblalag, „Judge a Pope just by the Cover“ kom út strax eftir miðnætti. Vonandi leggur þetta línurnar fyrir tónlistina 2013! Lagið má finna á heimasíðunni okkar,
„Judge a Pope just by the Cover“ og svo í fullri útgáfu á GogoYoko fyrir 25 krónur, sem renna til góðgerðarmála.