Kjartan Árnason, til minningar

Við Kjartan kynntumst í 7 ára bekk. Okkur þótti báðum óstjórnlega fyndið að bekkurinn var látinn standa upp og syngja lag í upphafi skóladags – ég gjóaði augunum aftur á næsta sæti og við sprungum úr hlátri. Traustur grunnur að ævilangri vináttu.

Við veinuðum af hlátri yfir dægurlögunum í óskalagaþáttum gufunnar, ef ekki óbreyttum, þá okkar eigin útgáfum. Við gerðum okkar eigin „útvarpsþætti“ 9 ára, rugluðum nöfnunum okkar saman og máluðum klessumálverk undir listamannanöfnunum KjarVal og Tan[n]Garður 10 ára, við stofnuðum hljómsveit 11 ára, spiluðum fótbolta í strákafélagi, að ógleymdum leynifélögum og öðrum hefðbundnum uppátækjum þessara tíma.

Eftir stutt hlé lágu leiðir okkar aftur saman í Menntaskólanum í Kópavogi. Nú var drifkrafturinn, greindin og húmorinn farinn að beinast í markvissari farveg. Kjartan var formaður nemendafélagsins, ritstjóri skólablaðins og sat í skólastjórn. Ein minning situr öðrum ofar, seint um nótt, þegar verið var að klára skólablaðið eftir margra sólarhringa vinnu, Kjartan búinn að sitja lengi að, en var samt manna líflegastur að leiðbeina öðrum og bæta sjálfur við efni á síðustu metrunum.

Eftir MK skildu leiðir um stund, Kjartan bjó erlendis, en var samt aldrei fjarri. Í heimsókn til þeirra Eddu í Osló, rétt undir dögun á mánudagsmorgni, eftir góða helgi, ákváðum við að norskur félagi hans mætti gjarnan við því að halda að hann væri að vakna með kvenmann hjá sér eftir stífa bjórdrykkju. Okkur kom saman um að Kjartan þyrfti að leika „hlutverkið“ en það flækti málið aðeins að Kjartan var þá fúlskeggjaður. Hann tímdi ekki skegginu en eftir miklar vangaveltur sættumst við á þá, að okkur fannst, frábæru málamiðlun að raka skeggið af öðru megin og snúa þeirri hlið að norðmanninum. Einhverra hluta vegna féllu viðbrögð félagans þegar við vöktum hann í skuggann af viðbrögðum Eddu þegar hún mætti Kjartani með hálft skegg um morguninn.

Það ræður enginn sínum örlögum en við ráðum hvernig við bregðumst við þeim. Kjartan var ótrúlegur að þessu leyti, hvernig hann brást við erfiðum aðstæðum með jafnaðargeði, æðruleysi og húmor. Hann neitaði að gefast upp og var alltaf tilbúinn að sjá hina hliðina á öllum málum. Nafnið á útgáfufyrirtæki hans, Örlagið, var gott dæmi um húmorinn, hann hafði þó stjórn á einu „örlagi“.

Núna er sorgin og söknuðurinn yfirþyrmandi. En þegar frá líður lifir minningin, þakklæti fyrir að kynnast Kjartani og hafa þó fengið að hafa hann þetta lengi hjá okkur.

Sjúkdómurinn hafði betur að lokum í baráttunni við líkamann, en enginn tekur frá okkur minninguna um Kjartan og enginn sjúkdómur getur sigrað þau verk sem hann sendi frá sér. Og ef við lifum áfram gegnum börnin okkar þá lifir Kjartan góðu lífi.