Elvis Costello, Nick Lowe

Kíktum með Bryndísi & Michael og Krissa & Rúnu – og hittum auðvitað fullt af gömlum félögum, vinum og kunningjum á hljómleikunum.

Við sáum Elvis Costello með hljómsveit á ströndinni á Malaga fyrir 15-20 árum, með hljómsveit og Allen Toussaint – frábærir hljómleikar og hann spilaði flest af okkar uppáhaldslögum.

Við sáum hann líka í Hörpu fyrir tæpum 10 árum, mjög flottir hljómleikar þó hann væri einn á sviðinu.

Nick Lowe byrjaði í gær, var í talsverðum ‘country’ gír og spilaði ekki lengi. Hann gerði sitt vel en tók svo sem ekki mörg af þeim lögunum sem ég kann best að meta. En hef fylgst með honum lengi og oft kunnað vel að meta, en svo hafa komið plötur sem hafa verið lítið spennandi.

Costello mætti með Steve Nieve sem spilaði á píanó, „Accidents will happen“ var fyrsta lag en svo komu ansi langt sett af lögum sem ég þekkti nú flest, en ekki á listanum yfir mín uppáhaldslög.

En píanóið var full fyrirferðamikið og alls kyns radd-æfingar.. svo sem allt í lagi í einhvern tíma, en þetta varð allt í einu allt of langt og allt of mikið – jafnvel þó það hafi nú verið búið að nefna að þetta yrðu að einhverju leyti óvenjulegir tónleikar. Einhverjir í hópnum voru nánast að sofna..

Hann náði að „bjarga andliti“ svona að mestu undir lokin, betri lög og sum í ágætis útsendingum. Hann tók tvö fín lög með Nick Lowe og þetta var eitthvað hálf dapurt, svona eins og þeir væru að raula saman í stofunni á fjórða glasi. Og þessi meðferð á Watching The Detectives var heldur betur ekki fyrir mig, Iðunn kunni samt vel að meta.

Kannski truflar mig líka að mæta með ‘skemmtara’ á svona hljómleika, trommuheila og bassa af einhverri barnagræju. Ég geri mér grein fyrir að ég er gamaldags að þessu leyti og auðvitað má leyfa sér svona á minni stöðum á einföldum hljómleikum… en þegar þú ert að selja miðann á 10-15 þúsund í sal eins og Hörpu þá er þetta ekki boðlegt.

Brúðkaupsafmælisferð

Til Orlando, laugardagur 29. apríl

Jónatan gisti hjá okkur og vaknaði snemma, eftir morgunmat og smá leiki fór hann með Alexöndru að kaupa gjöf fyrir Jökul. Þau skutluðu okkur svo til Keflavíkur áður en þau fóru í afmælið.
Fínt flug fyrir utan smá misskilning, bilað WiFi og vonda kjúklingasúpu – eiginlega afrek út af fyrir sig að hafa skraufþurran kjúkling í súpu!

Biðum ansi lengi eftir hótel skutlunni og tókum svo skutlu á vitalust Marriott hótel, en bílstjórinn bjargaði okkur nú samt.

Þar var ekki mikið í boði af mat, eiginlega ekki neitt eftir 11:00, annað en einn sjálfsali, sem var bilaður. En barinn var opinn og barþjónninn þar bjargaði smá snakki sem nægði til að halda okkur á floti.


Sigling, sunnudagur 30. apríl

Fínn morgunmatur og fínt kaffi á kaffihúsi hótelsins. Tókum svo Uber niður á höfn sem var eilítið sérstakt, leigubílstjórinn rakti raunir sínar á sem voru ansi skrautlegar. En við komum tímanlega og frábært að vera komin af stað, maturinn ekkert merkilegur en drykkjarpakkinn kom skemmtilega á óvart.


Nassau, mánudagur 1. maí

Fyrsta stopp siglingarinnar var í Nassau á Bahamaeyjum, ég náði aðeins að hreyfa mig áður en við fórum niður í bæ.
En í bænum var erfitt að taka út pening, ég var ekki með kort, Iðunn mundi ekki PIN á sínu og það tók tíma að komast í netsamband til að fletta upp.

En það hafðist í bjór á írskum bar, svo tók smá búðarráp við og þaðan á Pírata safnið.

Fengum okkur „ekta“ (að við höldum) mat á veitingastaðnum Bahamian Cooking, ma. eitthvað sem heitir Conch.
Kíktu svo á strá markaðinn og keyptum skyrtu á Jónatan, annars frekar rólegt og allt í lagi kvöldmatur á skipinu. Nema kannski að kom í ljós að við höfðum frekar takmarkaða valkosti á rauðvíni vegna drykkjarpakkans og ekki í boði að kaupa heila flösku þó við vildum.


Cay, þriðjudagur 2. maí

Næsta stopp var á Cay, sem er eyja í eigu skipafélagsins og settumst svo á bekki á ströndinni i þokkalegu veðri, Iðunn sólbrann aðeins og vorum svo sem ekki lengi.

Horfðum svo á Arsenal – Chelsea á barnum á skipinu og fórum í afar vonda og ómerkilega gin smökkun fyrir kvöldmatinn. Var frekar spenntur fyrir smökkuninni, en í boði var Beefeeter, Bombai og Tanqueri, allt ‘dry’ – einn skoskur sem var fínn og svo Hendricks. En borðuðum kvöldmat um borð.

Iðunn dró mig á Karaoke, svo sem betri þátttakendur en oftast, en samt ekki fyrir mig samt fínasta kvöld.


Á sjó, miðvikudagur 3. maí

Iðunn fór í naglalökkun og svo í klippingu, ég hljóp aðeins og en ráfuðum um skipið og skoðum megnið af deginum, prófuðum inni sundlaugina.

Þetta kvöld var Gala kvöld sem við tókum mátulega hátíðlega, samt aðeins, Iðunn í flottum kjól.

Við fengum okkur kvöldmat á Ocean Cay veitingastaðnum á skipinu. Mjög fínn matur fyrir utan pastað sem Iðunn fékk, alt of salt.

Seinna um kvöldið duttum við inn í póker, ekkert sérstaklega spennandi leikur, hver spilar á móti gjafara, hvert spil $20 og gekk svo sem mis vel, ég keypti fyrir $200 og kom út með $150, Iðunn keypti sig inn á $100 en kláraði.

Costa Maya, fimmtudagur 4. maí

Frekar óspennandi heimsókn í þorp við ströndina Costa Maya, framlenging á fríhöfn, nánast hvergi hægt að nota kreditkort og engir hraðbankar.

Þannig að við stoppuðum ekki lengi og fórum fljótlega upp í skipið aftur. Þar horfðum við á Breiðablik vinna Stjörnuna en tókum því að mestu rólega, kíktum aðeins upp á sólbaðsaðstöðuna á sextándu hæð.

Cozumel, föstudagur 5. maí

Aðeins stærri strandbær en Costa Maya og tókum leigubíl niður í bæ. Ekkert sérstaklega spennandi, oft erfitt að nota kort til að borga, reyndar voru nokkrir hraðbankar, en í fyrsta bankanum voru allir fjórir hraðbankarnir bilaðir og í þeim næsta aðeins hægt að taka út mexíkóska Pesóa.

Við náðum samt aðeins að versla og fengum fínan mat á veitingastaðnum Palmeras. En nokkuð heitt og vorum ekki lengi. Leigubíll upp á höfn og kvöldmatur á skipinu.

Hvítt þema á skipinu og partý uppi á 16. hæð um kvöldið, Iðunn búinn að fá sér kjól sem hæfði tilefninu.

Brúðkaupsafmæli, laugardagur 6. maí

Fínasti dagur, sváfum aðeins út, nudd eftir hádegi, ég fór í rakstur, svo smá slökun áður en við fórum í frábæran mat á Teppanyaki staðnum á skipinu.

Sennilega meira lagt upp úr skemmtiatriðum hjá kokkunum en á þeim Teppanyaki stöðum sem við höfum heimsótt.

Um kvöldið meira freyðivín og Iðunn spilaði rúllettu, keypti tvisvar fyrir $30 og átti $15 þegar yfir lauk. Smá rölt, en orðið ansi hvasst, fengum vondan Mojito og tókum svo bjór á náttfötunum út á svölum.

Heim, sunnudagur, 7. maí

Morgunmatur á skipinu, svo Uber upp á flugvöll, horfðum á Newcastle – Arsenal á barnum og fengum okkur bjór og svo hamborgara / mac’n’cheese hittum Heiðar Guðna en þokkalegt flug heim, þýski sessunauturinn sérstakur ferðafélagi. Lásum og horfðum á bíómyndir en náðum ekkert að sofa.

Fleiri myndir hér https://flic.kr/s/aHBqjADq8y