Karate

Og þá erum við byrjuð aftur á Karate æfingum hjá Breiðabliki, að sjálfsögðu. Ekki laust við að við kviðum fyrsta tima eftir fullkomið letilíf yfir sumarið… og þetta var svo sem nógu erfitt. Ótrúlegt hvað einfaldir hlutir verða erfiðir þegar maður eru orðinn þreyttur… einhvern veginn eins og heilinn fari í að útiloka einföldustu skilaboð. En þetta hlýtur að skána.

Og, ég dáist að hörkunni í Iðunni að mæta svo í badminton seinna um kvöldið.

Postulafótboltinn

Nýtt tímabil byrjaði í kvöld og gekk ekkert sérstaklega vel. Að vísu gaman að spila framan af þegar við náðu að spila stórskemmtilegan fótbolta hvað eftir annað, en svo datt botninn úr þessu. Hef svo sem aldrei haft sérstakt úthald en eftir hreint letilíf í sumar þá var ég sprunginn um miðjan tíma án þess að hafa hreyfti mig að ráði..

En þetta eru einhvers skemmtilegustu kvöld ársins og góð ástæða til að hlakka til mánudaganna, skemmtilegur fótbolti í góðum hóp og svo bjór á eftir.

Afmæli á Álfaheiði og leikur

Mættum í afmæli til Rakelar og Andra – níu ára og sjö ára… og það var ekki að spyrja að veitingunum hjá Góu & Helga og væntanlega eitthvað frá Öggu.

Við Jonni kíktum svo á leik Blika við Fylki og ekki nóg með að Blikar spiluðu einhvern sinn versta leik í langan tíma heldur misstum við af þremur fyrstu mörkunum og Jonni af því fjórða þegar hann var að sækja sér hamborgara í síðbúinn morgunmat og síðan að mestu af því af því fimmta þegar áhorfendur á leiðinni út stóðu fyrir ykkur.  Það var ansi rýr uppskera fyrir Jonna að kaupa sig inn á fimm marka leik og missa af þeim öllum. Annars er erfitt að átta sig á hvað var í gangi hjá Blikum, ónákvæmar sendingar, óþarfa áhætta tekin, jafnvel hálfgert rænuleysi, misskilningur milli manna eins og þeir væru að spila saman í fyrsta skipti…