Taroudant, annað teppi

Fínn dagur í garðinum og uppi á svölum. Við Iðunn fengum okkur hádegismat á hótelinu, salat sem þjónninn setti saman, hvítvín og svo blóðappelsínur með einhverri frábærri kryddblöndu í eftirrétt.

Seinni partinn röltum við öll niður á markað, í þetta sinn fylgdi einn úr hótel afgreiðslunni okkur, við Iðunn keyptum eitt teppi, eitthvert smádót og svo fórum við öll aftur upp á hótel. Á leiðinni sáum við nýjust tísku..

Taroudant - 3

Við fengum kvöldmat á hótelinu og í þetta sinn eiginlega besti matur ferðarinnar, ekki flókið en ofsalega vel gert – fínt hráefni og fyrirtaks eldamennska.

Svo aftur upp að pakka.

Staðurinn tók reyndar ekki kreditkort og Skúli þurfti að taka út pening.. ég ákvað að rölta með og starfsmaðurinn í afgreiðslunni vildi endilega sýna okkur hvar við gætum fundið öruggan hraðbanka. En þetta gekk ekki vandræðalaust, það var hámarksúttek í einu og hámarksúttekt á korti yfir daginn og þeir tóku ekki MasterCard. En þetta hafðist.

En sem betur fer fórum við af stað því Skúli kom auga á að bílarnir okkar voru króaðir af inni á bílastæðinu og við vorum að fara eldsnemma morguninn eftir.

Afgreiðslumaðurinn lofaði að finna út úr þessu, en ég væri að skrökva ef ég segðist hafa verið alveg rólegur.

Til Taroudant

Iðunn vaknaði hálf lasin, með brjóstsviða og slöpp.. keypti magatöflur og kastaði upp. Hún hresstist nú aðeins fljótlega og við lögðum af stað til Taroudant upp úr hádegi. Ekki tókst að bæta aukatösku við í heimferðina og ekki fundum við handverksmarkaðinn. En við fundum Marjane verslunarmiðstöðina og keyptum auka ferðatösku. Og eitthvert snarl til að hafa með okkur.

Svo til Taroudant og sennilega fórum við of marga sveitavegi eftir að hafa ákveðið að treysta frekar á skiltin en Google Maps, sem var bara með „Preview“.. en líkast til völdum við að fara í héraðið Taroudant og þurftum að þræða fáfarnari vegi inn í borgina sjálfa.

Við komum um þrjú leytið og fundum hótelið, Riad Maryam fljótt.. svolítið sérstakt en mjög skemmtilegt.

Riad Maryam - 1

Við komumst svo að því að Anna-Lind og Skúli höfðu pantað á öðru hóteli, Palais Oumensour. Við náðum að panta þar líka, gerðum Riad Maryam upp (enda mjög ódýrt) og fórum til þeirra.. starfsmenn RM hjálpuðu okkur að fara með töskurnar og finna hótelið.

Palais Oumensour hótelið var svo frábært, einstaklega vel hannað og þægilegt og þjónarnir allir á tánum. Við athuguðum ekki að panta mat tímanlega og þurftum að fara að leita að veitingastað. Fyrir utan hótelið hengdi sjálfskipaður gæslumaður sig á okkur.. hafði kynnt sig fyrir okkur þegar við mættum á hótelið, virist þekkja til þeirra sem reka Riad Maryam. Hann tók skýrt fram að hann vildi ekkert fá fyrir þjónustuna, marg bauðst til að sýna okkur svæðið og markaðina á morgun og marg spurði hvort við vildum ekki taka hestaferð á veitingastað út fyrir bæinn. Að lokum tók hann að sér að finna veitingahús á aðaltorginu, enda hafði ég gleymt miðanum með nafninu á veitingastað sem hótelið mælti með. Eftir nokkurt labb í gegnum markaðnum – og einhvern veginn hálf nöturlegar aðstæður – komum við á torgið. Ekki leist okkur alveg á fyrsta staðinn sem hann benti á.. og heldur ekki á þann næsta. Þeir virkuðu einfaldlega ekki mjög hreinlegir… og enginn með TripAdvisor miða – sem er auðvitað ekkert skilyrði, en gefur ákveðið öryggi.

Við fórum því aftur niður á hótel, leiðsögumaðurinn okkar súr yfir að fá ekki greitt fyrir að eyða tíma sínum í okkur, þrátt fyrir yfirlýsingar um að hann vildi ekki neitt. Skúli rétti honum eitthvert klink og ég reyndi að segja honum að við hefðum ekki neitt smátt en myndum hafa samband á morgun (hann hafði gefið mér upp símanúmerið þegar við mættum) og þá myndi ég borga honum eitthvað. Hann var frekar móðgaður sagðist hafa annað að gera á morgun og afþakkaði 8 dirhamana sem Skúli bauð. Við spurðumst aðeins fyrir á hótelinu og þeir sögðu að 20 dirhamar væri fínt fyrir svona. Við vorum svo sem ekkert kát, hann hafði dröslað okkur um hálfan bæinn með þreytt börn og gat ekki fundið boðlegan veitingastað.

Í öllu falli, við fórum á Chez Nada og fengum að lokum fínan mat. Við þurftum reyndar að færa okkur upp á opna efstu hæð (eða nokkurs konar svalir) til að fá sæmilegt loft því loftkælingin var biluð.

Það var einn þjónn á vaktinni, sá var allur af vilja gerður og hljóp hverja ferðina á fætur annarri upp nokkrar hæðir. Okkur grunaði reyndar að hluti af töfunum stafaði af því að kokkarnir væru að horfa á Real Madrid – Bayern Munchen. En maturinn fínn, þó við Bergur neituðum kettinum um að klára kjúklinginn hennar Iðunnnar.

Síðasti dagur á Kenzi

Síðasti dagurinn á Kenzi og nú var aðeins farið að hitna, hitinn kominn í 38 gráður. Við Iðunn fórum á „O Playa“ í hádeginu og fengum fínan mat, en engan vegin eins góðan og í fyrrakvöld. Þaðan á ströndina, Iðunn fékk sér bráðabirgða „tattoo“ og eftir að hafa soðið aðeins í hitanum fór ég í nudd á Kenzi.

Iðunn - tattoo

Við Iðunn gleyptum matinn í okkur og fórum á „English Pub“ að horfa á Middlesbrough – Arsenal, sem lauk sem betur fer með sigri Arsenal.

Kvöldið fór að mestu í að pakka og reyna að skipuleggja hvað fór í hvaða tösku. En svona alveg að lokum röltum við með Önnu-Lind og Skúla niður að strönd og mynduðum okkur með fjallið í bakgrunni.

Agadir - Fjall

Páskadagur

Páskadagur. Jóna litla var ekki alveg að skilja tilganginn með því að fela páskaeggin, enda bara þriggja.

„Ég vil fá að fela mitt páskaegg sjálf!“..

Svo fór hún og faldi eggið hans Glóa.. fór beint og sótti hann og dró hann að egginu og sýndi honum hvar hún hafði falið það!

Glói „faldi“ hennar páskaegg, eða réttara sagt, setti það á augljósan stað.. hún hljóp nokkrum sinnum fram hjá því fram og til baka áður en hún áttaði sig.

En það var komið að því að við fengjum okkar bílaleigubíl, Skúli skutlaði mér upp á flugvöll og sem betur fer var ég með útprentun því mér var ekki hleypt inn á flugvöllinn.. en vörðurinn hringdi á bílaleiguna og þetta hafðist á endanum.

Svo fórum við í þjóðgarðinn, Souss Massa, aðallega til að reyna að sjá pelíkana, en þeir voru ekki á staðnum þegar við komum. Okkur bauðst reyndar að skoða annan sjaldgæfan fugl (sem ég man ekki hvað heitir) en okkur þótti þetta full mikið mál, klukku tíma akstur í bíl. En te og appelsínusafi í Auberge veitingahúsinu og svo niður á strönd í rennibrautabyggingu í sandinum og smá rölt um nokkuð skemmtilegt svæði.

Þjóðgarður - strönd - 2

En það vildi enginn fá að prófa að sitja á kameldýri, enda Bergur búinn að fullyrða að þetta væri ákveðin misnotkun á dýrum.
Þjóðgarður - 8
Fínn dagur en kannski vorum við svolítið að sækja vatnið yfir lækinn, svona eftir á að hyggja.

Afmæli

Skúli átti afmæli og Anna-Lind bauð honum og Bergi í einhvers konar fjórhjóla- og „buggy“ ferð í nærliggjandi sveit, að okkur skildist var þetta mjög vel heppnað.. Við buðum svo upp á freyðivín fyrir matinn og svo héldum við öll út að borða. Það var reyndar ekki hlaupið að því að finna veitingastað sem bauð upp á grænmetisrétti, en við fundum „O Playa“ sem var með borð fyrir 7 með litlum fyrirvara, „vegetarian friendly“, sá sem svaraði talaði ensku, staðurinn var ekki langt í burtu og fékk fína einkunn á TripAdvisor, nr. 4 í Agadir.

Við pöntuðum öll pizzur nema Iðunn, sem fékk þennan frábæra smokkfisk, ekki djúpsteiktan en svakalega vel heppnaðan. Ég sá strax eftir pizzu pöntuninni, enda ekkert sérstök og aðrir réttir mjög girnilegir. Reyndar þurftum við að bíða talsvert eftir eftirréttunum og börnin voru farin að ókyrrast, en þeir höfðu gleymt að láta vita að það þurfti að útbúa vatnsdeigsbollurnar með ís (sem Iðunn pantaði) og aðra rétti sérstaklega – það var ekkert verið að bera fram tilbúna frosna rétti. En alvöru veitingastaður og við Iðunn settum á bak við eyrað að kíkja aftur.

Mottukaup

Anna-Lind, Skúli og börn fóru í Paradísargarðinn en við Iðunn röltum upp í UniPrix.. Eiginlega var allt verð þarna út í hött, við misstum okkur aðeins, enda vörurnar seldar á brot af því sem þær kosta jafnvel á útsölum heima. Gott og vel, ekki alvöru merki, en reynslan er nú að þessi „alvöru“ merki endast ekkert endilega lengi. En þegar Iðunn var komin með 7 mottur og einn „setupúða“, þá ákváðum við að fara aftur upp á hótel og núllstilla okkur aðeins.

Strönd

Þá var kominn tími til að kíkja á ströndina, sem var ekki langt frá, tekur kannski 5-10 mínútur að rölta. Við Iðunn fórum á undan hinum, fengum okkur bjór og tylltum okkur svo á svæði hótelsins, sem auðvitað var með sér hólf á ströndinni, okkur að kostnaðarlausu. Við gripum svo allt-í-lagi hádegismat á Del Mar og hringdum í Öggu og óskuðum henni til hamingju með daginn. Anna-Lind og Skúli mættu svo með fjölskylduna. Ég var eitthvað uppgefinn á hitanum og fór fljótlega upp á hótel. Um kvöldið röltum við Iðunn niður göngugötuna að ströndinni og létum pranga einhverju dóti inn á okkur áður en við settumst niður á spænska veitingastaðinn „Tio Pepe“ og skiptum lítilli hvítvín með okkur.