Til Taroudant

Iðunn vaknaði hálf lasin, með brjóstsviða og slöpp.. keypti magatöflur og kastaði upp. Hún hresstist nú aðeins fljótlega og við lögðum af stað til Taroudant upp úr hádegi. Ekki tókst að bæta aukatösku við í heimferðina og ekki fundum við handverksmarkaðinn. En við fundum Marjane verslunarmiðstöðina og keyptum auka ferðatösku. Og eitthvert snarl til að hafa með okkur.

Svo til Taroudant og sennilega fórum við of marga sveitavegi eftir að hafa ákveðið að treysta frekar á skiltin en Google Maps, sem var bara með „Preview“.. en líkast til völdum við að fara í héraðið Taroudant og þurftum að þræða fáfarnari vegi inn í borgina sjálfa.

Við komum um þrjú leytið og fundum hótelið, Riad Maryam fljótt.. svolítið sérstakt en mjög skemmtilegt.

Riad Maryam - 1

Við komumst svo að því að Anna-Lind og Skúli höfðu pantað á öðru hóteli, Palais Oumensour. Við náðum að panta þar líka, gerðum Riad Maryam upp (enda mjög ódýrt) og fórum til þeirra.. starfsmenn RM hjálpuðu okkur að fara með töskurnar og finna hótelið.

Palais Oumensour hótelið var svo frábært, einstaklega vel hannað og þægilegt og þjónarnir allir á tánum. Við athuguðum ekki að panta mat tímanlega og þurftum að fara að leita að veitingastað. Fyrir utan hótelið hengdi sjálfskipaður gæslumaður sig á okkur.. hafði kynnt sig fyrir okkur þegar við mættum á hótelið, virist þekkja til þeirra sem reka Riad Maryam. Hann tók skýrt fram að hann vildi ekkert fá fyrir þjónustuna, marg bauðst til að sýna okkur svæðið og markaðina á morgun og marg spurði hvort við vildum ekki taka hestaferð á veitingastað út fyrir bæinn. Að lokum tók hann að sér að finna veitingahús á aðaltorginu, enda hafði ég gleymt miðanum með nafninu á veitingastað sem hótelið mælti með. Eftir nokkurt labb í gegnum markaðnum – og einhvern veginn hálf nöturlegar aðstæður – komum við á torgið. Ekki leist okkur alveg á fyrsta staðinn sem hann benti á.. og heldur ekki á þann næsta. Þeir virkuðu einfaldlega ekki mjög hreinlegir… og enginn með TripAdvisor miða – sem er auðvitað ekkert skilyrði, en gefur ákveðið öryggi.

Við fórum því aftur niður á hótel, leiðsögumaðurinn okkar súr yfir að fá ekki greitt fyrir að eyða tíma sínum í okkur, þrátt fyrir yfirlýsingar um að hann vildi ekki neitt. Skúli rétti honum eitthvert klink og ég reyndi að segja honum að við hefðum ekki neitt smátt en myndum hafa samband á morgun (hann hafði gefið mér upp símanúmerið þegar við mættum) og þá myndi ég borga honum eitthvað. Hann var frekar móðgaður sagðist hafa annað að gera á morgun og afþakkaði 8 dirhamana sem Skúli bauð. Við spurðumst aðeins fyrir á hótelinu og þeir sögðu að 20 dirhamar væri fínt fyrir svona. Við vorum svo sem ekkert kát, hann hafði dröslað okkur um hálfan bæinn með þreytt börn og gat ekki fundið boðlegan veitingastað.

Í öllu falli, við fórum á Chez Nada og fengum að lokum fínan mat. Við þurftum reyndar að færa okkur upp á opna efstu hæð (eða nokkurs konar svalir) til að fá sæmilegt loft því loftkælingin var biluð.

Það var einn þjónn á vaktinni, sá var allur af vilja gerður og hljóp hverja ferðina á fætur annarri upp nokkrar hæðir. Okkur grunaði reyndar að hluti af töfunum stafaði af því að kokkarnir væru að horfa á Real Madrid – Bayern Munchen. En maturinn fínn, þó við Bergur neituðum kettinum um að klára kjúklinginn hennar Iðunnnar.